Hoppa yfir valmynd
13. september 2024 Brussel-vaktin

Skýrsla Draghi - Draghi endurómar gagnrýni Íslands á nýlegar breytingar á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir fyrir flug

Að þessu sinni er fjallað um:

  • stöðu mála varðandi skipun nýrrar framkvæmdastjórnar ESB
  • skýrslu Mario Draghi um samkeppnishæfni ESB til framtíðar

 

Skipan nýrrar framkvæmdastjórnar – staða mála

Skipan nýrrar framkvæmdastjórnar ESB, að afloknum kosningum til Evrópuþingsins, á sér stað með tveggja þrepa málsmeðferð, þ.e.:

  1. Með kjöri Evrópuþingsins á forseta framkvæmdastjórnarinnar samkvæmt tillögu leiðtogaráðs ESB.
  2. Með skipun framkvæmdastjórnarinnar í heild sinni samkvæmt tillögu kjörins forseta, sem er staðfest af ráðherraráði ESB, af hálfu leiðtogaráðs ESB að fengnu samþykki Evrópuþingsins.

Eins og greint var frá í Vaktinni 26. júlí sl. þá lauk fyrri hluta málsmeðferðarinnar með endurkjöri Ursulu von der Leyen (VdL) í embættið til næstu fimm ára.

VdL, sem kjörinn forseti (e. president-elect), hefur síðan unnið að undirbúningi skipunar nýrrar framkvæmdastjórnar í heild sinni. Fyrsta skref í þá veru var að senda ríkisstjórnum aðildarríkja ESB bréf þar sem hún óskaði formlega eftir því að ríkin tilnefndu einstaklinga til setu í nýrri framkvæmdastjórn. Fyrir liggur að í bréfinu óskaði VdL eftir því að ríkin tilnefndu bæði karl og konu með þeirri undantekningu að slíkt væri ekki nauðsynlegt í þeim tilvikum þar sem ríkin hygðust endurtilnefna einstakling sem þegar ætti sæti í núverandi framkvæmdastjórn til áframhaldandi setu. Ósk VdL er vitaskuld sett fram með það að markmiði að henni sé unnt að tryggja sem jöfnust kynjahlutföll í nýrri framkvæmdastjórn en það liggur þó einnig fyrir að með beiðninni leitast hún við að auka svigrúm sitt og val við mönnun nýrrar framkvæmdastjórnar.

Legið hefur fyrir frá upphafi að framangreind beiðni VdL á sér ekki stoð í sáttmálum ESB sem þýðir með öðrum orðum að ríkisstjórnum aðildarríkjanna er ekki skylt að verða við henni. Tilnefningar hafa nú borist frá öllum aðildarríkjunum og er ljóst að þau hafa, af einni ástæðu eða annarri, kosið að líta framhjá framangreindri ósk VdL. Þetta á við um öll aðildarríkin nema Búlgaríu sem er eina ríkið sem hefur tilnefnt bæði konu og karl. Athyglisvert er ennfremur að einungis 9 ríki hafa tilnefnt konu sem í raun útilokar, að óbreyttu, að VdL geti náð að hafa sem jafnasta kynjaskiptingu innan framkvæmdastjórarnarinnar. Þótt formlegar tilnefningar frá öllum aðildarríkum samkvæmt framangreindu hafi legið fyrir frá því snemma í þessum mánuði er kunnugt um að VdL hefur biðlað til tiltekinna aðildarríkja um að endurskoða tilnefningu sína í því skyni að fjölga konum í hópi tilnefndra.

Í lok síðustu viku benti fátt til að framangreindar málaleitanir bæru árangur allt þar til tilnefndur fulltrúi Slóveníu dró sig tilbaka og fregnir bárust af því að kona yrði tilnefnd í hans stað. Ný tilnefning Slóveníu telst þó ekki formlega gild, samkvæmt reglum þar í landi, fyrr en tiltekin fastanefnd þjóðþings Slóveníu hefur staðfest hana og er þess nú beðið en ekki virðist ljóst á þessu stigi hvenær sú staðfesting muni liggja fyrir, sbr. fréttir af því að formaður nefndarinnar sem jafnframt er leiðtogi stjórnarandstöðunnar þar í landi og fyrrum forsætisráðherra, Janez Janša, krefjist frekari skýringa á því hvaða raunverulegu ástæður liggi að baki því að fyrri kandídat landsins dró sitt til baka. Standa vonir þó til þess að það geti orðið í næstu viku. Með breyttri tilnefningu af hálfu Slóveníu fjölgar tilnefndum konum í 10 og ef VdL er sjálf talin með gætu konur í nýrri framkvæmdastjórn orðið 11 á móti 16 karlmönnum.

Þessar tafir ollu því að áformum um að kynna tillögu að nýrri framkvæmdastjórn og verkaskiptingu innan hennar fyrir forsætisnefnd í þinginu í þessari viku var frestað fram í næstu viku. Dragist tilnefning af hálfu Slóveníu gætu þau áform dregist enn frekar. Það er þegar talið munu hafa þau áhrif að ný framkvæmdastjórn geti ekki tekið við 1. nóvember eins og áformað var og þykir 1. desember líklegri dagsetning, en sá möguleiki er einnig til staðar að skipan hennar dragist enn lengur.

Þá á jafnframt eftir að koma í ljós hversu tímafrek málsmeðferð Evrópuþingsins á eftir að verða, þ.e. hvernig þingið bregst við einstökum tilnefningum og jafnframt hvernig það bregst við því kynjaójafnvægi sem enn er í kortunum þrátt fyrir breytta tilnefningu af hálfu Slóveníu. Hafni þingið einstökum framkvæmastjóraefnum þurfa viðkomandi ríki að tilnefna á ný með þeim töfum sem því fylgir.

Nánar verður fjallað um tillögu VdL um skipan nýrrar framkvæmdastjórnar í Vaktinni þegar hún liggur fyrir og um ferlið sem er framundan í Evrópuþinginu og vettvangi leiðtogaráðs ESB.

Eftirtaldir hafa hlotið tilnefningu frá aðildaríkjunum til setu í nýrri framkvæmdastjórn ESB:

 

Aðildarríki

Tilnefndur

Núverandi staða

Austurríki

Magnus Brunner

Fjármálaráðherra

Belgía

Hadja Lahbib

Utanríkisráðherra

Búlgaría

Ekaterina Zaharieva

& Julian Popov

Þingmaður

Starfar hjá Evrópsku loftlagssamtökunum (e. European Climate Foundation)

Danmörk

Dan Jørgensen

Þróunar- og loftlagsráðherra

Eistland

Kaja Kallas

Fv. forsætisráðherra Eistlands

Finnland

Henna Virkkunen

Þingmaður á Evrópuþinginu

Frakkland

Thierry Breton

Framkvæmdastjóri innri markaðsmála í framkvæmdastjórn ESB

Grikkland

Apostolos Tzitzikostas

Ríkisstjóri Mið-Makedóníu

Holland

Wopke Hoekstra

Framkvæmdastjóri loftlagsmála í framkvæmdastjórn ESB

Írland

Michael McGrath

Fjármálaráðherra

Ítalía

Raffaele Fitto

Evrópumálaráðherra

Króatía

Dubravka Šuica

Framkvæmdastjóri lýðræðismála í framkvæmdastjórn ESB

Kýpur

Costas Kadis

Deildarforseti við Frederick háskólann

Lettland

Valdis Dombrovskis

Framkvæmdastjóri efnahagsmála í framkvæmdastjórn ESB

Litáen

Andrius Kubilius

Þingmaður á Evrópuþinginu

Lúxemborg

Christophe Hansen

Þingmaður á Evrópuþinginu

Malta

Glenn Micallef

Ráðgjafi forsætisráðherra í ESB málum

Pólland

Piotr Serafin

Sendiherra Póllands gagnvart ESB

Portúgal

Maria Luís Albuquerque

Ráðmaður í eftirlitsráði Morgan Stanley Europe

Rúmenía

Roxana Minzatu

Þingmaður á Evrópuþinginu

Slóvakía

Maroš Šefčovič

Varaforseti framkvæmdastjórnar ESB

Slóvenía

Marta Kos

Fv. sendiherra gagnvart Þýskalandi og Sviss

Spánn

Teresa Ribera

Varaforsætisráðherra

Svíþjóð

Jessika Roswall

Evrópumálaráðherra

Tékkland

Jozef Síkela

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ungverjaland

Olivér Várhelyi

Framkvæmdastjóri stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB

 

 

 

Þýskaland

Ursula von der Leyen

Forseti framkvæmdastjórnar ESB

 

Skýrsla Mario Draghi um samkeppnishæfni ESB til framtíðar

Efnisyfirlit umfjöllunnar:

  1. Inngangur
  2. Aðgerðir til að efla nýsköpun og vaxtarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja
    1. Helstu hindranir
    2. Leiðir til úrbóta
  3. Samþætting áætlana um kolefnishlutleysi og aukna samkeppnishæfni
  4. Öryggis- og varnarmál, hagvarnir og strategískt sjálfræði ESB
  5. Fjármögnun framkvæmda – uppbygging sameiginlegs fjármála- og fjármagnsmarkaðar
  6. Umbætur í stjórnsýslu og einföldun regluverks

 

1. Inngangur

Þann 9. september sl. afhenti Mario Draghi, fv. forsætisráðherra Ítalíu og fv. seðlabankastjóri Seðlabanka Evrópu, forseta framkvæmdastjórnar ESB, Ursulu von der Leyen (VdL) skýrslu sína um samkeppnishæfni ESB til framtíðar. Skýrslunnar hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu, en upphaflega var gert ráð fyrir að hún yrði birt fyrir kosningar til Evrópuþingsins og gæti þannig orðið innlegg í málefnalega umræðu fyrir kosningarnar sem og við mótun nýrrar stefnuáætlunar leiðtogaráðs ESB (e. strategic agenda), sem samþykkt var á fundi ráðsins 17. júní sl., og jafnframt við mótun á stefnuáherslum tilnefnds forseta nýrrar framkvæmdastjórnar (e. Political Guidelines), en fjallað var um bæði þessi stefnuskjöl í Vaktinni 26. júlí sl. Þetta gekk þó ekki eftir og kom skýrslan ekki út fyrr en byrjun þessarar viku eins og áður segir. Það breytir því þó ekki að ætla má að skýrslan og sú stefnumörkun og tillögur sem þar eru lagðar til muni hafa áhrif á stefnu nýrrar framkvæmdastjórnar sem nú er í mótun undir forustu VdL, sbr. umfjöllun að framan um stöðu mála varðandi skipun nýrrar framkvæmdastjórnar. Í því samhengi ber að hafa í huga að hópur sérfræðinga innan úr framkvæmdastjórn ESB var Draghi til halds og trausts við skýrslugerðina. Þá ber að hafa í huga að tillögur skýrslunnar eru í fæstum tilvikum nýjar í grunninn, enda fátt nýtt undir sólinni ef út í það er farið. Þannig má einnig greina ágætan samhljóm í skýrslu Draghi við skýrslu Enrico Letta um framtíð innri markaðarins, um ýmis atriði, svo sem um uppbyggingu hins sameiginlega fjármagnsmarkaðar ESB og breytingar á samkeppnisreglum á sviði fjarskipta, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 19. apríl sl. um skýrslu Letta.

Heilt yfir þá verður því vart neitað að í skýrslunni er dregin upp allsvört sviðsmynd af núverandi samkeppnishæfni ESB samanborið við BNA og Kína og einnig hvernig hún mun þróast með neikvæðum hætti ef ekki verður gripið til ráðstafana af því tagi sem lagðar eru til í skýrslunni.

Skýrslan er yfirgripsmikil, samtals um fjögur hundruð blaðsíður, og er henni skipt í A- og B-hluta. Það einkennir skýrsluna og eykur vægi einstakra ályktana sem dregnar eru að þær eru almennt vel undirbyggðar með sæmilega skýrum tölulegum upplýsingum og gögnum.

Í A-hluta er lögð til almenn strategísk áætlun um hvernig endurvekja megi sjálfbæran hagvöxt og efla samkeppnishæfni ESB þar sem megin áherslur eru þríþættar. Í fyrsta lagi að gripið verði til aðgerða til að efla nýsköpunarþrótt og vaxtarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja innan ESB þannig að hann jafnist á við það sem nú á sér stað í Bandaríkjum Norður Ameríku (BNA) og Kína. Í öðru lagi að mótuð verði samþætt áætlun um kolefnishlutleysi annars vegar og aukna samkeppnishæfni hins vegar og í þriðja lagi að hert verði á hagvörnum og gætt betur að strategísku sjálfræði ESB. Framangreint er fellt undir heildstæða tillögu um það sem kallað er ný iðnaðaráætlun fyrir ESB (e. New industrial strategy for Europe).

Þá er í A-hlutanum fjallað um fjármögnun framkvæmda til eflingar á samkeppnishæfni m.a. með uppbyggingu hins sameiginlegs fjármagnsmarkaðar og bætta stjórnsýslu innan ESB og einföldun regluverks.

Í B-hluta er staða mála á einstökum sviðum greind nánar auk þess sem úrbótatillögur eru sundurgreindar nánar og útlistaðar. Þannig eru úrbótatillögur greindar niður á einstök málefnasvið sem mestu eru talin skipta fyrir samkeppnishæfni ESB til framtíðar, þ.e. orkumál, öflun mikilvægra hráefna, stafræn umskipti, þróun og innleiðing gervigreindar til hagnýtingar í hagkerfinu, þróun og framleiðsla á hálfleiðurum, málefni orkufreks iðnaðar, málefni græns tækniiðnaðar, varnarmál, geimmál, lyfjamál og samgöngumál o.fl. Þá eru einnig settar fram nánari tillögur um úrbætur á tilteknum þverfaglegum málefnasviðum. Eru tillögur á hverju sviði teknar saman í lok umfjöllunar í hverjum kafla í B-hluta skýrslunnar og er hér látið nægja að vísa til þess sem þar segir.

Athygli vekur að í skýrslunni er sett fram efnislega samhljóða gagnrýni á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir fyrir flug og Ísland hefur haldið einarðlega á lofti á umliðnum misserum í tengslum við nýlegar breytingar á kerfinu. Bendir Draghi á að kerfið í núverandi mynd skekki samkeppnisstöðu tengiflugvalla innan Evrópska efnahagssvæðisins og geti leitt til kolefnisleka sem er samhljóða þeirri gagnrýni sem Ísland hefur haldið á lofti og fjallað hefur verið ítarlega um í Vaktinni, sbr. m.a. í umfjöllun Vaktarinnar dags. 26. maí 2023 þar sem fjallað var um samkomulag við ESB um aðlögun fyrir Ísland í stóra flugmálinu, svonefnda.

Hér á eftir er í stuttu máli fjallað um nokkur helstu efnisatriði í A-hluta skýrslunnar, sbr. framangreint efnisyfirlit umfjöllunarinnar.

2. Aðgerðir til að efla nýsköpun og vaxtarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja

Aðgerðir til að efla nýsköpun og vaxtarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja innan ESB, þannig að nýsköpunargeirinn jafnist á við það sem nú á sér stað í Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA) og Kína er ein af þremur meginforsendum þess að það takist að efla sjálfbæran hagvöxt í ESB að mati Draghi. Framleiðni í ESB hefur farið minnkandi og til að snúa þeirri þróun við þarf, að mati Draghi, að stórefla nýsköpun, sérstaklega í tæknigreinum, og ryðja brautina frá nýsköpun til markaðssetningar. Þá þarf að tryggja vaxtarumhverfi, þ.m.t. fjármögnunarmöguleika, nýsköpunarfyrirtækja og ráðast í samstillt átak til að tryggja að til staðar sé fært vinnuafl.

Megin ástæðan fyrir sífellt auknum framleiðnimun á milli ESB og BNA liggur fyrst og fremst á sviði þróunar í stafrænni tækni þar sem BNA ber höfuð og herðar yfir ESB og er útlit fyrir að munurinn þar muni einungis aukast að óbreyttu. Talið er að þróun og nýsköpun í stafrænni tækni verði megin drifkraftur vaxtar í framtíðinni rétt eins og verið hefur undanfarin ár. Er talið að næsta stóra byltingin verði á sviði skammtatölva en af 10 helstu tæknifyrirtækjum sem vinna að þróun á því sviði eru 6 þeirra staðsett í BNA og 4 í Kína, en ekkert í ESB. Staðan er svipuð er kemur að þróun gervigreindar og skýjaþjónstu svo dæmi séu tekin. Rík áhersla er lögð á mikilvægi þess að ESB hasli sér nýjan völl á þessu sviði til að tryggja framleiðni til framtíðar, sem meðal annars er forsenda þess að unnt verði að viðhalda félagslegum kerfum í Evrópu. Er þetta enn mikilvægara ef litið er til þeirra lýðfræðilegu breytinga sem eru að eiga sér stað í álfunni og munu draga verulega úr framleiðni nema annað komi til mótvægis.

Undirrót veikrar stöðu ESB á sviði stafrænnar tækni er talin liggja í stöðnuðu iðnaðarumhverfi og vítahring lítilla fjárfestinga og lítillar nýsköpunar á meðan þungi rannsókna og nýsköpunar í BNA hefur færst frá bíla- og lyfjaiðnaði til hugbúnaðar- og tölvuþróunar sem hefur drifið áfram framleiðni og búið til nýjar undirstöður í bandarísku hagkerfi.

2.a. Helstu hindranir:

  • Rjúfa þarf stöðnun í iðnaðarumhverfi innan ESB og vítahring lítilla fjárfestinga og lítillar nýsköpunar sem er undirrót veikrar stöðu ESB á sviði stafrænnar tækni, eins og áður segir.
  • Efla þarf háskólakerfið og tengja rannsóknir í háskólum betur saman við nýsköpunar- og frumkvöðlasetur.
  • Auka þarf opinber útgjöld ESB til rannsókna og nýsköpunar og skerpa áherslur. Þannig er bent á að málefnasvið sem falla undir helstu rannsóknar- og nýsköpunaráætlun ESB, Horizon Europe, sem hefur hátt í 100 milljarða evra til ráðstöfunar, séu of mörg auk þess sem bent er á að ferlið við að sækja um styrki úr sjóðnum sé flókið og þungt í vöfum.
  • Uppbrot á innri markaði ESB hindrar nýsköpunarfyrirtæki í því að stækka þvert á markaðinn, sem aftur dregur úr eftirspurn eftir fjármögnun.
  • Hindranir í regluverki og mismunandi regluverk á milli aðildarríkja eru taldar sérstaklega íþyngjandi í tæknigeiranum auk þess sem fjöldi landsbundinna stjórnvalda er íþyngjandi. Þá getur svonefnd „gullhúðun“ af hendi yfirvalda í einstökum aðildarríkjum einnig falið í sér hindranir fyrir fyrirtæki.
  • Mismunandi regluverk, skattkerfi og ófullkominn innri markaður skapar margvíslegar hindranir fyrir fyrirtæki til að vaxa sem aftur hefur áhrif á burði þeirra til að innleiða nýja tækni í starfsemi sinni eins og nýtingu gervigreindar.
  • Skortur á tölvugetu (e. computing power) og ófullnægjandi uppbygging áhraðaneta getur brátt birst sem flöskuháls í vexti tæknifyrirtækja.
  • Nýsköpun í öðrum greinum eins og lyfjaiðnaði á einnig undir högg að sækja vegna skorts á fjárfestingum í rannsóknum og þróun og of mikillar reglubyrði.

2.b. Leiðir til úrbóta:

  • Endurskoða þarf stuðningskerfi ESB vegna rannsókna og nýsköpunar, sbr. framangreinda umfjöllun um samstarfsáætlunina Horizon Europe.
  • Samræma þarf opinberar rannsókna- og þróunarstefnur þvert á aðildarríkin og er lagt til að mótuð verði aðgerðaráætlun í því skyni (e. European Research and Innovation Action Plan).
  • Styrkja þarf háskóla- og fræðastofnanir m.a. í gegnum Evrópska rannsóknarráðið (e. The European Research Council (ERC)) og með auknum fjárveitingum.
  • Styðja þarf við uppfinningamenn og sprotafyrirtæki til að taka skrefið frá hugmynd til fjárfestinga og framkvæmda.
  • Bæta þarf fjármögnunarmöguleika nýsköpunar- og sprotafyrirtækja, sbr. umfjöllun að neðan um fjármögnun framkvæmda og uppbyggingu hins sameiginlega fjármála- og fjármagnsmarkaðar í ESB.
  • Talið er að ESB hafi mikla möguleika til þess að lækka kostnað við uppsetningu og nýtingu gervigreindar af hálfu fyrirtækja með því auka tölvugetu og gera samtengd tölvunet aðgengileg.
  • Mælt er með því að unnið verði að aukinni samvinnu og miðlun gagna milli iðngreina til að flýta fyrir innleiðingu og notkun gervigreindar í evrópskum iðnaði.
  • Lagt er til að greitt verði fyrir ,möguleikum fyrir stækkun fyrirtækja á fjarskiptamarkaði þvert á aðildarríki ESB m.a. til að auka fjárfestingar í fjarskiptatengingum með því að endurskilgreina fjarskiptamarkaði þvert á ESB í stað þess að afmarka markaðssvæði við hvert aðildarríki.

3. Samþætt áætlun um kolefnishlutleysi og samkeppnishæfni.

Í skýrslunni er bent á að hár orkukostnaður standi vexti fyrir þrifum. Flutningsgeta orkuinnviða sé ekki nægileg til að standa undir stafrænni þróun og rafvæðingu samgangna. Áform ESB um afkolun og kolefnishlutleysi (e. decarbonisation) eru um margt metnaðarfyllri en keppinautanna sem stuðlar að skammtímakostnaði fyrir evrópskan iðnað. 

Með afkolun geti ESB hins vegar lækkað orkuverð til framtíðar, tryggt aukið orkuöryggi og tekið forystuhlutverk í hreinorkutækni.

ESB verður að forgangsraða til þess að ná markmiðum um afkolun en um leið að vernda samkeppnishæfni evrópsk iðnaðar í alþjóðlegu samhengi. Áætlanir ESB á mörgum ólíkum sviðum verða að taka mið af þessu.

Orkugeirinn eigi við strúktúrvandamál að stríða sem leiðir til hás orkuverðs. Evrópa hefur takmarkaðar orkuauðlindir og reiðir sig að stórum hluta á innflutt gas. Innviðafjárfestingar eru hægar og óskilvirkar m.a. vegna flókinna leyfisveitinga, og markaðsreglur koma í veg fyrir lækkun smásöluverðs og afleiðuviðskipti í orkugeiranum leiða til óþarflega mikilla sveiflna í orkuverði. Einnig er nefnt að orkuskattar séu hærri í ESB en annars staðar sem stuðli að hærra orkuverði. Þá sé samningsstaða ESB sem stórinnflytjanda á gasi ekki nýtt nægilega vel til að tryggja verðstöðugleika.

Í skýrslunni er nefnt að ESB sé leiðandi í hreinorkutækni en eigi á hættu að glutra niður tækifærum í þeim geira vegna veikleika í nýsköpunarumhverfi ESB. Nýsköpunarmöguleikar séu miklir en hætta sé á að það að skili sér ekki í framleiðslu á hreinorkutækni þrátt fyrir stærð markaðarins. Vinna verði á grundvelli sameiginlegrar iðnstefnu á þessu sviði af sama metnaði og helstu keppinautar gera. Uppgangur evrópska rafhlöðuiðngeirans sé gott dæmi um að samhent stefnumótunarátak geti skilað sér.

Í ofanálag þá sé stuðningur almennings við markmið í loftlagsmálum og fjárfestingu í sjálfbærum orkugjöfum ekki nægilegur. Samgöngur spili lykilhlutverk er kemur að afkolun evrópska hagkerfisins en slíkt verði að skipuleggja með fullnægjandi hætti. Bílaiðnaðurinn sé gott dæmi um iðnað þar sem ESB hefur ráðist í stefnumótun á sviði loftslagsmála án þess að því hafi verið fylgt eftir með kröftugri iðnaðarstefnu. Breytingar á viðskiptakerfi með loftlagsheimildir fyrir flug er annað dæmi, sbr. umfjöllun að framan í inngangi, er annað dæmi þar sem stefnumótun á sviði loftlagsmála hefur verið hrint í framkvæmd án þess að nægjanlega hafi verið gætt að samkeppnishæfni.

Lagt er til að áætlanir um kolefnishlutleysi og samkeppnishæfni verði samþættar til þess að ná niður orkuverði, aftengja gasverð og verð á hreinorku og hraða afkolun á skilvirkan og tæknihlutlausan hátt. Lykilþáttur í þessu er að hraða uppbyggingu sameiginlegra orkuinnviða með því að flýta ákvarðanatöku og leyfisveitingum og samræma eftirlits- og stjórnunarkerfi orkugeirans. Brýnt sé að forgangsraða upp á nýtt í þágu tækni sem er þegar framarlega í samkeppni eða þar sem vaxtarrými er til staðar innanlands.

Lagt er til að viðskiptastefna ESB verð nýtt til að samþætta afkolun og samkeppnishæfni með því að tryggja aðfangakeðjur, markaði í vexti og vega upp á móti ríkisstyrktri framleiðslu frá keppinautum. Þróa verði iðnstefnu fyrir bílaiðnaðinn sem tengd er markmiðum um afkolun og kolefnishlutleysi. 

4. Öryggis- og varnarmál, hagvarnir og strategískt sjálfræði ESB

Fram kemur að ESB sé umtalsvert háð þriðju ríkjum á ýmsum sviðum, allt frá öflun ýmissa mikilvægra hráefna til þróaðrar tækni. Ósjálfstæði að þessu leyti geti falið í sér alvarlega veikleika ef aðfangakeðjur bresta svo sem vegna pólitísks óstöðugleika og efnahagslegra þvingunarráðstafanna en um 40% af innflutningi ESB kemur frá þröngum hópi birgja sem erfitt er að skipta um og helmingur þess innflutnings kemur frá löndum sem teljast ekki til samherja í pólitísku eða hernaðarlegu tilliti. Á hinn bóginn eru, enn komið er, fáar vísbendingar um að alþjóðaviðskipti séu að dragast saman, eða að skyndileg lokun aðfangaleiða sé líkleg. Þannig hefur hvorki Kína né ESB hagsmuni af því að ýta undir slíka þróun. Á hinn bóginn er meiri hætta á að ósjálfstæði með aðföng geti verið notað af þriðju ríkjum í þvingunarskyni til að ná fram einstökum markmiðum eða til grafa undan samstöðu meðal ríkja í ESB. Þá getur óvissa um aðföng dregið úr vilja fyrirtækja til fjárfestinga.

Aukin spenna í alþjóðasamskiptum skapar þörf fyrir aukin framlög til varnarmála og í því samhengi sé brýnt að auka þróunar- og framleiðslugetu hergagnaiðnaðarins í ESB en þannig verði öryggi ESB best tryggt um leið og það styður við tækniiðnað í ESB. Að mati framkvæmdastjórnarinnar er talið að auka þurfi framlög til varnarmála um 100 milljarða evra á næsta áratug.

Þá sé það hluti af sjálfstæði og óhæði ESB til framtíðar að það tryggi sér áfram sjálfstæðan aðgang að geimnum.

Vakin er athygli á því kostnaður mun fylgja ráðstöfunum aðildarríkja ESB til að draga úr ósjálfstæði á framangreindum sviðum. Á hinn bóginn geta aðildarríkin dreift þeim kostnaði m.a. með því að beina viðskiptum inn á við þar sem það er hægt og byggja upp framleiðslu og nýsköpun á hátæknivörum með samræmdum aðgerðum og með gerð viðskiptasamninga við vinveitt þriðju ríki.

Eins og áður segir þá eru viðkvæmar aðfangakeðjur að mikilvægri hrávöru einn helsti veikleikinn er kemur að efnahagslegu öryggi ESB. Á meðan önnur helstu efnahagsveldin, svo sem Kína, BNA og Japan, hafa unnið markvisst að því um árabil að tryggja stöðu sína á þessu sviði og draga úr veikleikum hefur minna verið gert á vettvangi ESB enda þótt breyting hafi orðið þar á á síðustu tveimur árum eða svo, sbr. nýja löggjöf um mikilvæg hráefni (e. Critical Raw Materials Act). Er áhersla lögð á mikilvægi þess að sú löggjöf verði innleidd hratt og að fullu. Sömuleiðis er lögð áhersla á að möguleikar til námuvinnslu innan ESB verði nýttir en þar eru margir möguleikar taldir ónýttir, svo sem möguleg litíum námuvinnsla í Portúgal, og er í því samhengi lögð áhersla á að aðildarríkin innleiði með hraði þær breytingar á útgáfu námuvinnsluleyfa sem mælt er fyrir um í nýjum lögum um mikilvæg hráefni. Þá þarf að efla endurvinnslu mikilvægra hráefna og þróun nýrra efna er geti mögulega í einhverjum tilvikum komið í stað náttúrulegra hráefna.

5. Fjármögnun fjárfestinga til eflingar á samkeppnishæfni ESB

Samkvæmt skýrslunni er fjárfestingaþörfin gríðarleg ætli ESB sér að ná markmiðum um aukna samkeppnishæfni sem sett eru fram í skýrslunni. Samkvæmt mati Draghi þarf að ráðast í viðbótar fjárfestingar upp á 750 – 800 milljarða evra á hverju ári til að ná markmiðunum. Á hinn bóginn er sú jákvæða ályktun dregin upp að hagkerfi ESB er talið geta mætt þessum fjárfestingarþörfum án þess að gengið sé of nærri efnahagslegu þanþoli.

Hin gríðarlega mikla aukna fjárfestingarþörf skýrist m.a. af því, að sem stendur sé arðbær fjárfesting hlutfallslega lág þrátt fyrir hátt hlutfall einkasparnaðar í ESB sem sé vísbending um að fjármagnið sem er til staðar sé ekki að skila sér með skilvirkum hætti út í efnahagskerfi ESB. Talið er að megin ástæðan fyrir þessu liggi í sundurleitni fjármagnsmarkaða innan ESB. Enda þó ýmislegt hafi verið gert til að byggja upp sameiginlegan fjármagnsmarkað (e. Capital Markets Union) þá skorti enn veigamikla þætti til að markmiðið um virkan sameiginlegan fjármagnsmarkað náist, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 15. mars sl. um uppbyggingu hins sameiginlega fjármagnsmarkaðar. Að mati Draghi þarf ESB í fyrsta lagi að koma sér saman upp eitt eftirlitsstjórnvald á verðbréfamarkaði og tryggja að unnið sé eftir sameiginlegri reglubók um alla þætti verðbréfaviðskipta. Í öðru lagi þarf að samræma og bæta regluverkið sem gildir í framhaldi af viðskiptum, þ.e. um stöðustofnun (e. clearing) og uppgjör en í þeim þætti verðbréfaviðskipta þykir ESB standa BNA langt að baki. Í þriðja lagi þarf að samræma enn frekar aðferðir við staðgreiðslu skatta og meðferð þrotabúa. Þá þykir skorta langtímafjármagn á fjármagnsmarkaði ESB sem skýrist m.a. af því að lífeyrissjóðir flestra aðildarríkja ESB eru litlir sem skýrist aftur af því að lífeyriskerfi flestra ríkjanna eru byggð á gegnumstreymissjóðum. Digrir lífeyrissjóðir skapi því ekki þann grunn á fjármagnsmarkaðinum eins og víða á við í þróuðum hagkerfum. Úr þessu þurfi að bæta. Vanvirkur fjármagnsmarkaður hafi leitt til þess að óhóflega stór hluti af fjármögnun framkvæmda innan ESB er með bankalánum, en slík fjármögnun hentar nýsköpunarverkefnum almennt ekki þar sem áhætta er oft á tíðum mikil og meiri en lánareglur banka leyfa. Við framangreint bætist að geta ESB til að styðja miðlægt við fjárfestingar er lítil, enda fjárlög ESB einungis 1% af landframleiðslu ESB. Þá skorti skarpari forgagnsröðun við úthlutun fjármuna og umsóknarferli eru flókin í samkeppnissjóðum auk þess sem áhættufælni er talin of mikil. Áréttað er að það sé óumdeilt að sameiginleg skuldabréfaútgáfa myndi styrkja og dýpka hinn sameiginlega fjármagnsmarkað mjög. Þá sé aukin sameiginleg fjármögnun fjárfestinga á vettvangi ESB nauðsynleg til að hámarka framleiðniaukningu, þetta á við t.d. um mikilvæga rannsóknarstarfsemi, innviði fyrir nýtingu gervigreindar, innviði vegna raforku- og nettenginga og sameiginlegra innkaupa m.a. á hergögnum en sameiginlegar fjárfestingar væri einmitt hægt fjármagna með útgáfu sameiginlegra skuldabréfa.

6. Umbætur í stjórnsýslu og einföldun regluverks

Til að ná markmiðum sem felast í þeirri iðnaðarstefnu sem kynnt er í skýrslunni er talið nauðsynlegt að gera breytingar á stofnanaskipulagi og starfsemi ESB. Farsæl sameiginleg iðnaðarstefna þarf að ná yfir fjárfestingaráætlanir, skattaumhverfi, menntunarstefnu, fjármagnsmarkaði og viðskipta- og utanríkisstefnu. Helstu samkeppnisaðilar ESB, þ.e. BNA og Kína, hafa sem einstök ríki, öll þessi spil á hendi og nýta þau með skilvirkum hætti, sbr. meðal annars umfjöllun Vaktarinnar 27. janúar 2023 um stuðningsaðgerðir við grænan iðnað í BNA. Ákvörðunartökuferli innan ESB skýrist vitaskuld af því að ESB er samband margra fullvalda ríkja en eftir sem áður sé ákvörðunarferlið of hægt og torsótt á köflum að mati Draghi og ferlið hefur ekki þróast sem skyldi í samræmi við fjölgun aðildarríkja. Endurskoða þurfi sáttmála ESB í þessu skyni, en margt sé þó hægt að gera þar til samstaða næst um sáttmálabreytingar. Lagt er til að komið verði á fót nýjum samræmingarvettvangi á sviði samkeppnishæfni (e. Competitiveness Coordination Framework) sem haldi utan um samræmingu á milli aðildarríkjanna á forgangssviðum, í samræmi við forgangsröðun ESB um samkeppnishæfni (e. EU Competitiveness Priorities) sem verði mótuð og samþykkt af leiðtogaráði ESB í upphafi hvers fimm ára stefnumótunartímabils. Náist ekki samstaða um aukna samvinnu á einstaka sviðum eða ef mikilvægar ákvarðanir eru hindraðar með beitingu neitunarvalds af hálfu einstakra aðildarríkja beri að skoða nýtingu heimilda í sáttmálum ESB til að breyta ákvörðunartökureglum á einstökum sviðum eða eftir atvikum að nýta heimildir í sáttmálum ESB til að efna til aukinnar samvinnu milli þess hluta aðildarríkja sambandsins sem eru viljug til þess. Til þrautavara kemur til greina að mati Draghi að einstök ríki efni til aukins samstarfs með milliríkjasamningum sem væru þá framkvæmdir utan stofnanakerfis ESB. Þá sé brýnt að ráðast í átak til að minnka reglubyrði og einfalda regluverk.

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta