Hoppa yfir valmynd
06. desember 2024 Brussel-vaktin

Valdaskipti í leiðtogaráði ESB og í framkvæmdastjórn ESB

Að þessu sinni er fjallað um:

  • forsetaskipti í leiðtogaráði ESB
  • nýja framkvæmdastjórn ESB
  • Búdapest-yfirlýsingu leiðtogaráðs ESB
  • skýrslu Niinistö um eflingu viðbúnaður á sviði almannavarna og hermála
  • haustspá ESB um stöðu efnahagsmála
  • tillögur í skýrslum Letta, Draghi og Noyer um uppbyggingu hins sameiginleg fjármagnsmarkaðar
  • COP29 og afstöðu ESB
  • samræmda stafræna flutningstilkynningu vegna útsendra starfsmanna
  • ný tilmæli um reyklaus svæði
  • fund EES-ráðsins

António Costa tekur við embætti forseta leiðtogaráðs ESB

Táknræn forsetaskipti í leiðtogaráði ESB fóru fram við hátíðlega athöfn í Brussel 29. nóvember sl. þar sem António Costa tók við fundarstjórnarbjöllunni úr höndum Charles Michel sem gegnt hefur embættinu síðastliðin fimm ár.

António Costa er fyrrverandi forsætisráðherra Portúgals og var hann kosinn í embættið á fundi leiðtogaráðsins 27. júní sl. til tveggja og hálfs árs, frá 1. desember sl. að telja, sbr. nánari umfjöllun í Vaktarinni 28. júní sl. Enda þótt kjörtímabilið sé einungis tvö og hálft ár gerir pólitískt samkomulag innan leiðtogaráðsins þó fyrirfram ráð fyrir því að Costa sitji í tvö tímabil, sem er hámark, eða í fimm ár.

Í ræðu sem Costa flutti við athöfnina fjallaði hann um gildi ESB og mikilvægustu verkefnin framundan, stækkunarmál o.fl. þar á meðal mikilvægi þess að efla samkeppnishæfni innri markaðarins og vék hann þar meðal annars að skýrslum Letta og Draghi sem fjallað hefur verið um í ýmsu samhengi hér í Vaktinni að undanförnu, sbr. m.a. umfjöllun hér að neðan um uppbyggingu hins sameiginlega fjármagnsmarkaðar. Í því samhengi vísaði Costa jafnframt til Búdapestyfirlýsingarinnar sem samþykkt var á síðasta fundi leiðtogaráðs ESB sem leiðarljós vinnunnar framundan, sbr. sérstaka umfjöllun hér að neðan um þá yfirlýsingu.

Þá áréttaði Costa óskoraðan stuðning ESB við Úkraínu vegna árásarstríðs Rússlands gagnvart ríkinu og undirstrikaði Costa þann stuðning með því að gera það að sínu fyrsta embættisverki þann 1. desember að ferðast til Kænugarðs til fundar við forseta Úkraínu, Volodymyr Zelenskyy.

Þá áréttaði Costa mikilvægi þess að stofnanir ESB ásamt aðildarríkjunum ynnu náið saman að verkefnunum framundan.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, var viðstödd athöfnina og átti Costa síðan fund með henni og Robertu Metsola, forseta Evrópuþingsins, þann 2. desember sl. og var neðangreind mynd tekin við það tilefni.

F.v. António Costa, Ursula von der Leyen, Roberta Metsola. Í prótókollskipulagi stofnana ESB raðast forseti leiðtogaráðs ESB fremstur. Er kemur að raunverulegum völdum hins vegar þá er forseti framkvæmdastjórnar ESB ótvírætt fremst í flokki en hér á eftir verður fjallað nýja framkvæmdastjórn ESB undir forystu Ursulu von der Leyen sem einnig tók til starfa 1. desember sl. 

Ný framkvæmdastjórn ESB

Þann 27. nóvember sl. samþykkti Evrópuþingið tillögu Ursulu von der Leyen (VdL) að nýrri framkvæmdastjórn og var ný stjórn í framhaldi af því skipuð af hálfu leiðtogaráðs ESB, að undangenginni skriflegri málsmeðferð, þann 28. nóvember sl., og tók stjórnin til starfa 1. desember sl. með skipunartíma til 31. október 2029.

Þar með lauk löngu og ströngu ferli sem hófst í aðdraganda Evrópuþingskosninganna sem fram fóru 6. – 9. júní sl. þar sem oddvitar stjórnmálasamtaka Evrópu tókust m.a. á um það í kosningabaráttunni hver skyldi helst koma til greina sem forseti framkvæmdastjórnarinnar á nýju skipunartímabili. Því ferli lauk svo með tilnefningu VdL í embættið af hálfu leiðtogaráðs ESB, sem áður hafi verið útnefnd sem oddviti EPP (e. European People‘s Party) fyrir kosningar. Með kjöri hennar í embættið á Evrópuþinginu 18. júlí sl. var tillaga VdL að skipan nýrrar framkvæmdastjórnar, að fengnum tilnefningum frá aðildarríkjunum, síðan samþykkt óbreytt að meginstefnu í Evrópuþinginu, eftir ítarlega þinglega meðferð, þann 27. nóvember sl. eins og áður segir.

Fjallað hefur verið ítarlega um Evrópuþingskosningarnar, endurkjör VdL, tillögu hennar að nýrri framkvæmdastjórn og þá þinglegu meðferð sem hún hlaut á Evrópuþinginu í Brussel-vaktinni að undanförnu.

Áður en til atkvæðagreiðslu kom um nýja framkvæmdstjórn í þinginu fór fram umræða um tillöguna þar sem VdL kynnti nýja framkvæmdastjórn, verkefni hennar og helstu áherslur, sjá ræðu hennar hér.

Eins og rakið var í umfjöllun Vaktarinnar 27. september sl. er hugsunin að baki skipulagi nýrrar framkvæmdastjórnar og verkaskiptingu innan hennar byggð á þremur megin þáttum sem skipulaginu er ætlað að hlúa að sérstaklega, þ.e. hagsæld, öryggi og lýðræði innan ESB þar sem meginmarkmiðið um aukna samkeppnishæfni samhliða grænum og stafrænum umskiptum liggur eins og rauður þráður um skipulagið í heild sinni. Framangreindar megináherslur rýma vel, eins og til er ætlast, við meginstefin í stefnuáætlun leiðtogaráðs ESB (e. strategic agenda) sem samþykkt var í júlí sl., sbr. umfjöllun um þá áætlun í Vaktinni 26. júlí sl., þar sem meginmarkmiðin eru sett fram undir merkjum:

  • frelsis og lýðræðis (e. A free and democratic Europe)
  • styrks og öryggis (e. A strong and secure Europe)
  • hagsældar og samkeppnishæfni (e. A prosperous and competitive Europe)

Þá endurspeglar skipulagið í heild sinni, sbr. og erindisbréf einstakra framkvæmdastjóra, vitaskuld einnig vandlega stefnuáherslur VdL sem birtar voru í aðdraganda þess að hún hlaut kosningu í embætti forseta á Evrópuþinginu, sbr. sérstaka umfjöllun um þær áherslur í Vaktinni 26. júlí sl.

Skipulag nýrrar framkvæmdastjórnar er frábrugðið fyrra skipulagi að því leyti að flokkun varaforseta í annars vegar Executive Vice-Presidents og hins vegar Vice-Presidents er aflögð. Þess í stað er lagt til að allir sex varaforsetarnir í nýrri stjórn muni, auk þess að gegna hlutverki varaforseta á tilteknum málefnasviðum, jafnframt gegna stöðu framkvæmdastjóra á tilteknum málefnasviðum og fara með yfirstjórn viðeigandi stjórnardeilda (e. Directorate-General) innan framkvæmdastjórnarinnar, að hluta eða öllu leyti, og bera embættisheitið Executive Vice-President, sbr. nánari umfjöllun um stöðu hvers og eins varaforseta í skipuriti nýrrar framkvæmdastjórnar hér að neðan. Er breytingin hugsuð til að jafna stöðu varaforsetanna innbyrðis og jafnframt til að auka samstarf og samhæfingu á milli þeirra og framkvæmdastjórnarinnar í heild sinni og þar með á milli ólíkra stjórnardeilda innan hennar og brjóta þannig niður múra á milli stjórnardeilda innan framkvæmdastjórnarinnar sem nokkuð hefur þótt bera á í núverandi skipulagi. Við skoðun á skipulaginu er ljóst að skörun á málefnasviðum og stjórnarmálefnum á milli framkvæmdastjóra er allnokkur á köflum.

Í eftirfarandi töflu er að finna yfirlit yfir nýja framkvæmdastjórn og verkaskiptingu á milli þeirra, sbr. nánar hér á vefsíðu framkvæmdastjórnarinnar: 

Skipan nýrrar framkvæmdastjórnar

Staða og ábyrgðarsvið

Fyrrverandi staða*

Ursula von der Leyen

(Þýskaland)

Forseti

 

Forseti framkvæmdastjórnar ESB

Teresa Ribera

(Spánn)

Varaforseti á sviði grænna, réttlátra og samkeppnishæfari umskipta. Einnig framkvæmdastjóri samkeppnismála.

Varaforsætisráðherra

Henna Virkkunen

(Finnland)

Varaforseti á sviði tæknimála og sjálfstæðis ESB á því sviði, öryggismála og lýðræðismála. Einnig framkvæmdastjóri stafrænna málefna og þróunar á sviði hátækni.

Þingmaður á Evrópuþinginu

Stéphane Séjourné

(Frakkland)

Varaforseti á sviði hagsældar og stefnumótunar á sviði iðnaðar. Einnig framkvæmdastjóri í málefnum iðnaðarins og lítilla og meðalstórra fyrirtækja og innri markaðsmála almennt.

Utanríkisráðherra

Kaja Kallas

(Eistland)

Varaforseti og utanríkismálastjóri

Fv. forsætisráðherra

Roxana Minzatu

(Rúmenía)

Varaforseti á sviði félagslegra réttinda, færni vinnuafls og viðbúnaðar og viðbragðsstjórnunar. Einnig framkvæmdastjóri á sviði færni og menntunar, vinnumarkaðsmála og félagsmála.

Þingmaður á Evrópuþinginu

Raffaele Fitto

(Ítalía)

Varaforseti á sviði samheldnismála og umbóta. Einnig framkvæmdastjóri samheldnismála og byggðaþróunar.

Evrópumálaráðherra

Maroš Šefčovič

(Slóvakía)

Framkvæmdastjóri viðskipta- og efnahagsöryggismála, þ.m.t. tollamála. Einnig framkvæmdastjóri samhæfingar- og samskipta á milli stofnana ESB.

Varaforseti framkvæmdastjórnar ESB

Valdis Dombrovskis

(Lettland)

Framkvæmdastjóri efnahagsmála. Einnig framkvæmdastjóri innleiðingar og einföldunar regluverks.

Framkvæmdastjóri efnahagsmála í framkvæmdastjórn ESB

Dubravka Šuica

(Króatía)

Framkvæmdastjóri samstarfs og samskipta við nágrannaríki ESB sem liggja að Miðjarðarhafinu.

Framkvæmdastjóri lýðræðismála í framkvæmdastjórn ESB

Olivér Várhelyi

(Ungverjaland)

Framkvæmdastjóri heilbrigðismála og dýravelferðarmála.

Framkvæmdastjóri stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB

Wopke Hoekstra

(Hollland)

Framkvæmdastjóri loftslagsmála, kolefnishlutleysis og sjálfbærs hagvaxtar.

Framkvæmdastjóri loftslagsmála í framkvæmdastjórn ESB

Andrius Kubilius

(Litáen)

 

Framkvæmdastjóri varnarmála og geimmála.

Þingmaður á Evrópuþinginu

Marta Kos

(Slóvenía)

Framkvæmdastjóri stækkunarmála.

Fv. sendiherra gagnvart Þýskalandi og Sviss

Jozef Síkela

(Tékkland)

Framkvæmdastjóri samstarfsverkefna við þriðju ríki.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Costas Kadis

(Kýpur)

Framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála og málefna hafsins.

 

Deildarforseti við Frederick háskólann

Maria Luís Albuquerque

(Portúgal)

Framkvæmdastjóri fjármálaþjónustu og uppbyggingu sameiginlegs fjármagnsmarkaðar.

Ráðsmaður í eftirlitsráði Morgan Stanley Europe

Hadja Lahbib

(Belgía)

Framkvæmdastjóri viðbúnaðar, viðbragðsstjórnunar og almannavarna. Einnig framkvæmdastjóri jafnréttismála.

Utanríkisráðherra

Magnus Brunner

(Austurríki)

Framkvæmdastjóri innri öryggismála, öryggis landamæra og málefna flótta- og farandsfólks.

Fjármálaráðherra

Jessika Roswall

(Svíþjóð)

Framkvæmdastjóri umhverfismála, vatnsverndarmála og hringrásarhagkerfisins.

Evrópumálaráðherra

Piotr Serafin

(Pólland)

 

Framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrar.

Sendiherra Póllands gagnvart ESB

Dan Jørgensen

(Danmörk)

 

Framkvæmdastjóri orkumála og húsnæðismála.

Þróunar- og loftslagsráðherra

Ekaterina Zaharieva

(Búlgaría)

 

Framkvæmdastjóri rannsókna og nýsköpunar.

Þingmaður

 

Michael McGrath

Framkvæmdastjóri lýðræðismála, dóms- og réttarríkismála og neytendaverndar.

Fjármálaráðherra

Apostolos Tzitzikostas

(Grikkland)

 

Framkvæmdastjóri samgöngu- og ferðamála.

Ríkisstjóri Mið-Makedóníu

Christophe Hansen

(Lúxemborg)

Framkvæmdastjóri landbúnaðar- og matvælamála.

Þingmaður á Evrópuþinginu

Glenn Micallef

(Malta)

Framkvæmdastjóri kynslóðajafnréttis, menningarmála og æskulýðs- og íþróttamála.

Ráðgjafi forsætisráðherra í ESB málum

*Vísað er til fyrrverandi stöðu í heimaríkinu, nema annað sé tekið fram. 

Verkefnum framkvæmdastjóranna er nánar lýst í sérstökum erindisbréfum sem VdL hefur gefið út fyrir hvern og einn meðlim framkvæmdastjórnarinnar. Í inngangsköflum erindisbréfanna, sem eru efnislega samhljóða í öllum bréfunum, er farið almennum orðum um markmið og stefnu nýrrar framkvæmdastjórnar þar sem áhersla er lögð á áðurnefnda þrjá þætti, þ.e. hagsæld, öryggi og lýðræði, þar sem meginmarkið um aukna samkeppnishæfni samhliða grænum og stafrænum umskiptum er undirstrikað. Þar er einnig lögð rík áhersla á samhæfingu, samstarf og jafnræði á milli allra framkvæmdastjóra, auk þess sem fjallað er um almennar starfsskyldur og siðareglur. Sömuleiðis er lagt fyrir framkvæmdastjórana að styrkja tengsl sín við aðrar helstu stofnanir ESB og þá einkum við Evrópuþingið og hlutaðeigandi þingnefndir. Þá er boðað átak í samráði við almenning og hagaðila og sér í lagi við ungt fólk.

Framkvæmdastjórum er uppálagt, hverjum á sínu málefnasviði, að sýna frumkvæði í stuðningi við ríki sem sótt hafa um aðild að sambandinu og jafnframt að leggja sitt af mörkum er kemur að innra umbótastarfi sem talið er nauðsynlegt að ráðast í áður en til stækkunar kemur (e. pre-enlargement reforms and policy reviews).

Þá er lagt fyrir framkvæmdastjórana að horfa sérstaklega til fjögurra nýlegra skýrslna í störfum sínum. Í fyrsta lagi til skýrslu Mario Draghi um samkeppnishæfni ESB til framtíðar, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 13. september sl., um þá skýrslu. Í öðru lagi til skýrslu Sauli Niinistö um hvernig styrkja megi viðbúnað og getu ESB í varnar- og almannaöryggismálum, sbr. sérstaka umfjöllun um þá skýrslu hér að neðan í Vaktinni. Í þriðja lagi til nýrrar skýrslu um framtíð landbúnaðar í ESB, sbr. umfjöllum um þá skýrslu í Vaktinni 11. október sl., og í fjórða og síðasta lagi til skýrslu Enrico Letta um framtíð innri markaðarins, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 19. apríl sl. um þá skýrslu.

Nánar um stöðu og verkefni einstakra framkvæmdastjóra:

Teresa Ribera, varaforseti á sviði grænna, réttlátra og samkeppnishæfari umskipta. Einnig framkvæmdastjóri samkeppnismála.

Málefnasvið Ribera sem varaforseta er víðtækt að efni og snertir að auki kjarnaþætti í þeim megin stefnuáherslum sem teiknast hafa upp fyrir nýja framkvæmdastjórn, sbr. umfjöllun hér að framan. Fjórir aðrir framkvæmdastjórar heyra undir hana með beinum hætti í nýju skipuriti þ.e. Wopke Hoekstra, Jessika Roswall, Dan Jørgensen og Olivér Várhelyi. Málefnasvið hennar sem varaforseta krefst þó mun víðara samráðs og samhæfingar þvert á skipuritið eins og raunar á við um alla varaforsetana en í mismiklum mæli þó. Almennt hefur verið litið svo á að Ribera sé fremst meðal jafningja í nýju skipulagi er kemur að valdahlutföllum og áhrifamætti.

Auk varaforsetahlutverksins gegnir Ribera hlutverki framkvæmdastjóra samkeppnismála og sem slík fer hún með yfirstjórn stjórnardeildar samkeppnismála í framkvæmdastjórninni (e. Directorate-General (DG) for Competition).

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Ribera er falið að vinna eftir.

Henna Virkkunen varaforseti á sviði tæknimála og sjálfstæðis ESB á því sviði, öryggismála og lýðræðismála. Einnig framkvæmdastjóri stafrænna málefna og þróunar á sviði hátækni.

Málefnasvið Virkkunen sem varaforseta er víðtækt að efni og snertir að auki, líkt og hjá Ribera, kjarnaþætti í megin stefnuáherslum nýrrar framkvæmdastjórnar og þá einkum á sviði öryggismála, nýsköpunar og stafrænna umskipa. Fjórir aðrir framkvæmdastjórar starfa undir henni með beinum hætti í nýju skipuriti þ.e. Andrius Kubilius, Ekaterina Zaharieva, Magnus Brunner og Michael McGrath en málefnasvið hennar sem varaforseta krefst þó víðtækara samráðs og samhæfingar þvert á skipurit nýrrar framkvæmdastjórnar.

Auk varaforsetahlutverksins gegnir Virkkunen hlutverki framkvæmdastjóra á sviði stafrænna málefna og hátæknimála og sem slík fer hún með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeilda í framkvæmdastjórninni þ.e. DG for Communications Networks, Content and Technology og DG for Digital Services.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Virkkunen er falið að vinna eftir.

Stéphane Séjourné varaforseti á sviði hagsældar og stefnumótunar á sviði iðnaðar. Einnig framkvæmdastjóri í málefnum iðnaðarins og lítilla og meðalstórra fyrirtækja og innri markaðsmála almennt.

Málefnasvið Séjourné sem varaforseta er víðtækt að efni og nær yfir kjarnaþættina í efnahagsmálum ESB og ekki síst í efnahagsöryggismálum ESB og hagvörnum en þau málefni eru á meðal þeirra stærstu sem ESB glímir við um þessar mundir. Undir málefnasvið Séjourné sem varaforseta falla einnig málefni fjármálamarkaða og uppbygging hins sameiginlega fjármagnsmarkaðar sem að mörgum er talin meginforsendan þess að ESB nái að halda í við önnur helstu efnahagsveldi er kemur að samkeppnishæfni til framtíðar, sbr. umfjöllun hér að neðan í Vaktinni um framkomnar tillögur í þeim efnum. Auk þessa er honum ætlað að leiða vinnu við heildarstefnumörkun á sviði iðnaðarstarfsemi sem jafnframt mun skipta sköpum er kemur að samkeppnishæfni ESB til framtíðar. Fjórir aðrir framkvæmdastjórar starfa undir honum með beinum hætti í nýju skipuriti þ.e. Maroš Šefčovič, Valdis Dombrovskis, Maria Luís Albuquerque og Ekaterina Zaharieva, að hluta, en málefnasvið hans sem varaforseta krefst þó víðara samráðs og samhæfingar þvert á skipurit nýrrar framkvæmdastjórnar.

Auk varaforsetahlutverksins gegnir Séjourné hlutverki framkvæmdastjóra á sviði iðnaðar og lítilla og meðalstórra fyrirtækja og á sviði innri markaðsmála almennt og sem slíkur fer hann með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni þ.e. DG for Internal Market, Industry, Entrepreneurship and SMEs.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Séjourné er falið að vinna eftir.

Kaja Kallas varaforseti og utanríkismálastjóri.

Kallas nýtur tiltekinnar sérstöðu sem varaforseti og utanríkismálastjóri ESB (e. High Representative) sem endurspeglast í því að leiðtogaráð ESB útnefndi hana sérstaklega í stöðuna en Kallas var útnefnd af ráðinu á sama tíma og VdL var tilnefnd til embættis forseta, sbr. umfjöllun í Vaktinni 28. júní sl. Það breytir því þó ekki að hún þurfi samþykki þingsins til að taka við embættinu rétt eins og aðrir meðlimir stjórnarinnar. Fjórir aðrir framkvæmdastjórar munu starfa undir henni með beinum hætti í nýju skipuriti að hluta eða öllu leyti, þ.e. Jozef Síkela, Marta Kos, Hadja Lahbib og Dubravka Šuica, en málefnasvið hennar sem varaforseta krefst þó víðtækara samráðs og samhæfingar þvert á skipurit nýrrar framkvæmdastjórnar.

Kallas fer sem utanríkismálastjóri með yfirstjórn utanríkisþjónustu ESB (e. European External Action Service – EEAS).

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Kallas er falið að vinna eftir.

Roxana Minzatu varaforseti á sviði félagslegra réttinda, færni vinnuafls og viðbúnaðar og viðbragðsstjórnunar. Einnig framkvæmdastjóri á sviði færni og menntunar, vinnumarkaðsmála og félagsmála.

Málefnasvið Minzatu sem varaforseta er víðtækt að efni eins og annarra varaforseta og tekur yfir alla meginþætti félags-, vinnumarkaðs-, heilbrigðis-, mennta- og menningarmála og lýðfræðilegra mála á vettvangi ESB. Fjórir aðrir framkvæmdastjórar munu starfa undir henni með beinum hætti í nýju skipuriti þ.e. Hadja Lahbib, Glenn Micallef, Dubravka Šuica og Olivér Várhelyi, að hluta, en málefnasvið hennar sem varaforseta krefst þó víðtækara samráðs og samhæfingar þvert á skipurit nýrrar framkvæmdastjórnar.

Auk varaforsetahlutverksins mun Minzatu gegna hlutverki framkvæmdastjóra á sviði færni og menntunar, vinnumarkaðsmála og félagmála og sem slík fer hún með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeilda í framkvæmdastjórninni þ.e. DG for Education, Youth, Sport, and Culture (að hluta) og DG for Employment, Social Affairs, and Inclusion.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Minzatu er falið að vinna eftir.

Raffaele Fitto varaforseti á sviði samheldnismála og umbóta. Einnig framkvæmdastjóri samheldnisstefnu ESB og byggðaþróunar.

Málefnasvið Fitto sem varaforseta tekur til samheldnisverkefna ESB (e. cohesion) en þar undir falla m.a. sameiginleg landbúnaðar- og sjávarútvegsstefna ESB og byggðaþróunarverkefni auk þess sem samgöngumál og ferðaþjónusta eru felld undir málefnasvið hans sem varaforseta. Þrír aðrir framkvæmdastjórar starfa undir honum með beinum hætti í nýju skipuriti, þ.e. Costas Kadis, Apostolos Tzitzikostas og Christophe Hansen en málefnasvið hans sem varaforseta krefst þó víðtækara samráðs og samhæfingar þvert á skipurit nýrrar framkvæmdastjórnar.

Auk varaforsetahlutverksins mun Fitto gegna hlutverki framkvæmdastjóra samheldnisstefnu og byggðaþróunar og sem slíkur fer hann með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni þ.e. DG Regional and Urban Policy

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Fitto er falið að vinna eftir.

Maroš Šefčovič framkvæmdastjóri utanríkisviðskipta- og efnahagsöryggismála, þ.m.t. tollamála. Einnig framkvæmdastjóri samhæfingar og samskipta á milli stofnana ESB.

Šefčovič, sem einnig átti sæti í fráfarandi framkvæmdastjórn, hefur tvíþætt hlutverki í nýrri stjórn.

Annars vegar gegnir hann stöðu framkvæmdastjóra utanríkisviðskipta- og efnahagsöryggismála, þ.m.t. tollamála, og fer hann sem slíkur með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeilda í framkvæmdastjórninni þ.e. DG Trade and Economic Security og DG Taxation and Customs Union (deilt með Hoekstra). Við framkvæmd þessara starfa heyrir hann undir Séjourné varaforseta.

Hins vegar gegnir hann stöðu framkvæmdastjóra samhæfingar- og samskipta á milli stofnana ESB og heyrir hann í þeim störfum beint undir VdL.

Í fráfarandi framkvæmdastjórn bar Šefčovič ábyrgð á rekstri EES-samningsins og samskiptum við EES/EFTA-ríkin og liggur fyrir að svo verði áfram. 

Þá heyrir útgáfuskrifstofa ESB (e. EU Publications Office) undir ábyrgðarsvið hans.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Šefčovič er falið að vinna eftir.

Valdis Dombrovskis framkvæmdastjóri efnahagsmála. Einnig framkvæmdastjóri innleiðingar og einföldunar á regluverki.

Dombrovskis, líkt og Šefčovič, átti sæti í fráfarandi framkvæmdastjórn og gegnir hann, líkt og Šefčovič, tvíþættu hlutverki í nýrri stjórn.

Annars vegar gegnir hann stöðu framkvæmdastjóra efnahagsmála og fer sem slíkur með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Economic and Financial Affairs auk þess sem hann ber ábyrgð á starfsemi Hagstofu ESB (e. Eurostat). Við framkvæmd þeirra starfa heyrir hann undir Séjourné varaforseta.

Hins vegar gegnir hann stöðu framkvæmdastjóra innleiðingar og einföldunar á regluverki og heyrir hann í þeim störfum beint undir VdL.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Dombrovskis er falið að vinna eftir.

Dubravka Šuica framkvæmdastjóri samstarfs og samskipta við nágrannaríki ESB sem liggja að Miðjarðarhafinu.

Staða framkvæmdastjóra í málefnum Miðjarðarhafsins hefur ekki áður verið til á vettvangi framkvæmdastjórnarinnar og mun ný stjórnardeild innan stjórnarinnar sem vinna á að þessum málum heyra undir hana, þ.e. DG of the Mediterranean. Við framkvæmd starfa sinna heyrir hún undir Kallas utanríkismálastjóra. 

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Šuica er falið að vinna eftir.

Olivér Várhelyi framkvæmdastjóri heilbrigðismála og dýravelferðarmála.

Várhelyi, sem einnig átti sæti í fráfarandi framkvæmdastjórn, gegnir stöðu framkvæmdastjóra heilbrigðismála og dýravelferðarmála. Sem slíkur fer hann með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Health and Food Safety. Við framkvæmd starfa sinna heyrir hann undir Ribera varaforseta sem og undir Minzatu varaforseta er kemur að viðbragðsstjórnun vegna heilsuvár. 

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Várhelyi er falið að vinna eftir.

Wopke Hoekstra framkvæmdastjóri loftslagsmála, kolefnishlutleysis og sjálfbærs hagvaxtar.

Hoekstra, sem einnig átti sæti í fráfarandi framkvæmdastjórn, gegnir stöðu framkvæmdastjóra loftslagsmála, kolefnishlutleysis og sjálfbærs hagvaxtar. Sem slíkur fer hann með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeilda í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Climate Action og DG for Taxation and Customs Union ( deilt með Šefčovič). Við framkvæmd starfa sinna heyrir hann undir Ribera varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Hoekstra er falið að vinna eftir.

Andrius Kubilius framkvæmdastjóri varnarmála og geimmála.

Kubilius, sem einnig átti sæti í fráfarandi framkvæmdastjórn, gegnir stöðu framkvæmdastjóra varnarmála og geimmála sem er ný staða í framkvæmdastjórninni. Sem slíkur fer hann fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Defence Industry and Space. Við framkvæmd starfa sinna heyrir hann undir Virkkunen varaforseta, auk þess sem tekið er fram að hann skuli vinna náið með Kallas utanríkismálastjóra.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Kubilius er falið að vinna eftir.

Marta Kos framkvæmdastjóri stækkunarmála.

Kos gegnir stöðu framkvæmdastjóra stækkunarmála. Sem slík fer hún með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Enlargement and Eastern Neighbourhood. Við framkvæmd starfa sinna heyrir hún undir Kallas utanríkismálastjóra annars vegar og hins vegar undir Fitto varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Kos er falið að vinna eftir.

Jozef Síkela framkvæmdastjóri samstarfsverkefna við þriðju ríki.

Síkela gegnir stöðu framkvæmdastjóra samstarfsverkefna við þriðju ríki. Sem slíkur fer hann með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for International Partnerships. Við framkvæmd starfa sinna mun hann heyra undir Kallas utanríkismálastjóra.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Síkela er falið að vinna eftir.

Costas Kadis framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála og málefna hafsins.

Kadis gegnir stöðu framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála og málefna hafsins. Sem slíkur fer hann fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Maritime Affairs and Fisheries. Við framkvæmd starfa sinna heyrir hann undir Fitto varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Kadis er falið að vinna eftir.

Maria Luís Albuquerque framkvæmdastjóri fjármálaþjónustu og uppbyggingu sameiginlegs fjárfestinga- og fjármagnsmarkaðar.

Albuquerque gegnir stöðu framkvæmdastjóra fjármálaþjónustu og uppbyggingu sameiginlegs fjárfestinga- og fjármagnsmarkaðar. Sem slík fer hún með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Financial Stability, Financial Services and Capital Markets Union. Við framkvæmd starfa sinna heyrir hún undir Séjourné varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Albuquerque er falið að vinna eftir.

Hadja Lahbib framkvæmdastjóri viðbúnaðar og almannavarna. Einnig framkvæmdastjóri jafnréttismála.

Lahbib gegnir tvíþættu hlutverki, annars vegar gegnir hún stöðu framkvæmdastjóra almannavarna og hins vegar stöðu framkvæmdastjóra jafnréttismála. Í krafti fyrrnefndu stöðunnar fer hún með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for European Civil Protection and Humanitarian Aid Operations auk þess sem hún mun fara með yfirstjórn nýrrar Neyðar- og viðbragðsskrifstofu ESB á sviði heilbrigðismála (e. Health Emergency Preparedness and Response Authority - HERA). Heyrir hún undir Minzatu varaforseta annars vegar og hins vegar undir Kallas utanríkisráðherra er kemur að mannúðaraðstoð til þriðju ríkja. Við framkvæmd starfa á sviði jafnréttismála mun Lahbib njóta stuðnings Taskforce on Equality og heyra undir Minzatu varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Lahbib er falið að vinna eftir.

Magnus Brunner framkvæmdastjóri innri öryggismála, öryggis landamæra og málefna flótta- og farandsfólks.

Brunner gegnir stöðu framkvæmdastjóra innri öryggismála, öryggis landamæra og málefna flótta- og farandsfólks. Sem slíkur fer hann með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Migration and Home Affairs. Við framkvæmd starfa sinna heyrir hann undir Virkkunen varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Brunner er falið að vinna eftir.

Jessika Roswall framkvæmdastjóri umhverfismála, vatnsverndarmála og hringrásarhagkerfisins.

Roswall gegnir stöðu framkvæmdastjóra umhverfismála, vatnsverndarmála og hringrásarhagkerfisins. Sem slík fer hún með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Environment. Við framkvæmd starfa sinna heyrir hún undir Ribera varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Roswall er falið að vinna eftir.

Piotr Serafin framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrar.

Serafin gegnir stöðu framkvæmdastjóra fjármála- og rekstrar. Sem slíkur fer hann með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeilda í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Budget, DG for Human Resources and Security, DG for Translation, DG for Interpretation auk þess sem fleiri skrifstofur á sviði fjármála og rekstrar heyra undir hann. Við framkvæmd starfa sinna heyrir hann beint undir VdL.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Serafin er falið að vinna eftir.

Dan Jørgensen framkvæmdastjóri orkumála og húsnæðismála.

Jørgensen gegnir stöðu framkvæmdastjóra orkumála og húsnæðismála. Sem slíkur fer hann fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Energy auk þess hann nýtur aðstoðar nýs aðgerðahóps innan framkvæmdastjórnarinnar á sviði húsnæðismála (e. New taskforce on housing). Við framkvæmd starfa sinna heyrir hann undir Ribera varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Jørgensen er falið að vinna eftir.

Ekaterina Zaharieva framkvæmdastjóri rannsókna, nýsköpunar og frumkvöldastarfsemi.

Zaharieva gegnir stöðu framkvæmdastjóra rannsókna, nýsköpunar og frumkvöldastarfsemi. Sem slík fer hún með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Innovation and Research og Joint Research Centre auk þess mun hún njóta aðstoðar sérstaks aðgerðarhóps á sviði nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi (e. Taskforce on startups). Við framkvæmd starfa sinna heyrir hún undir Séjourné varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Zaharieva er falið að vinna eftir.

Michael McGrath framkvæmdastjóri lýðræðismála, dóms- og réttarríkismála og neytendaverndar.

McGrath gegnir stöðu framkvæmdastjóra lýðræðismála, dóms- og réttarríkismála neytendaverndar. Sem slíkur fer hann með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Justice and Consumers. Við framkvæmd starfa sinna heyrir hann undir Virkkunen varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem McGrath er falið að vinna eftir.

Apostolos Tzitzikostas framkvæmdastjóri samgöngu- og ferðamála.

Tzitzikostas gegnir stöðu framkvæmdastjóra samgöngu- og ferðamála. Sem slíkur fer hann með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Mobility and Transport. Við framkvæmd starfa sinna heyrir hann undir Fitto varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Tzitzikostas er falið að vinna eftir.

Christophe Hansen framkvæmdastjóri landbúnaðar- og matvælamála.

Hansen gegnir stöðu framkvæmdastjóra landbúnaðar- og matvælamála. Sem slíkur fer hann fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Agriculture and Rural Development. Við framkvæmd starfa sinna heyrir hann undir Fitto varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Hansen er falið að vinna eftir.

Glenn Micallef framkvæmdastjóri kynslóðajafnréttis, menningarmála og æskulýðs- og íþróttamála.

Micallef gegnir stöðu framkvæmdastjóra kynslóðajafnréttis, menningarmála og æskulýðs- og íþróttamála. Sem slíkur fer hann fara með yfirstjórn viðkomandi stjórnardeildar í framkvæmdastjórninni, þ.e. DG for Education, Culture, Youth and Sport (deilt með Mînzatu). Við framkvæmd starfa sinna heyrir hann undir Mînzatu varaforseta.

Sjá nánari umfjöllun í fyrirliggjandi erindisbréfi um helstu verkefni og áherslur sem Micallef er falið að vinna eftir.

Búdapestyfirlýsing leiðtogaráðs ESB

Eins og greint var frá í Vaktinni 8. nóvember sl. þá sendi leiðtogaráð ESB þann 8. nóvember sl. frá sér svonefnda Búdapestyfirlýsingu (e. Budapest declaration) sem ætlað er varða leiðina fram á við í störfum ESB í átt til aukinnar samkeppnishæfni.

Yfirlýsingin er tiltekið framhald af tveimur öðrum grundvallar yfirlýsingum ráðsins sem það hefur sent frá sér síðan Rússlands hóf árásarstríð sitt gegn Úkraínu braust út með þeim stórauknum efnahagslegu og alþjóðlegu áskorunum sem því fylgdi. Er hér annars vegar um að ræða Versalayfirlýsingu ráðsins (e. Versailles Declaration) sem samþykkt var á fundi ráðsins 10. og 11. mars 2022 og hins vegar Granadayfirlýsinguna (e. Granada declaration) sbr. umfjöllun um þessar yfirlýsingar í Vaktinni 13. október 2023, sbr. einnig nýja stefnuáætlun ráðsins, sbr. umfjöllun um þá áætlun í Vaktinni 28. júní sl. Marka þessar yfirlýsingar að ýmsu leyti grundvallar breytingar í stefnumörkun ESB sem ekki sér fyrir endann á.

Yfirlýsingin nú snýr fyrst og fremst að aukinni samkeppnishæfni ESB og nýjum sáttmála ESB þar að lútandi sem nú er í mótun á vettvangi nýrrar framkvæmdastjórnar ESB með hliðsjón af þeim tillögum sem settar eru fram í títtnefnum skýrslum Letta og Draghi, sbr. meðal annars umfjöllun hér að neðan um tillögur um uppbyggingu hins sameiginlegs fjármagnsmarkaðar innan ESB. Helstu efnisatriði, ályktanir og áherslur sem fram koma í yfirlýsingunni eru eftirfarandi:

  • Leiðtogar ESB lýsa sig staðráðna í því tryggja sameiginlega efnahagslega hagsmuni aðildarríkja ESB, með því að efla samkeppnishæfni og með því að gera ESB að fyrsta loftlagshlutlausa (e. climate-neutral) svæði heims.
  • Að, til að efla samkeppnishæfni ESB, þurfi að nálgast viðfangsefnið þvert á stefnumörkun ESB á ólíkum málefnasviðum sem og á stefnumörkun í einstökum aðildarríkjum.
  • Að tryggja þurfi virkni innri markaðarins á öllum sviðum og leysa úr læðingi afl hans á sviði nýsköpunar, fjárfestinga o.s.frv.
  • Lagt er fyrir framkvæmdastjórn ESB að kynna áfangaskipta og tímasetta áætlun, fyrir lok júní nk., um hvernig dýpka megi virkni innri markaðarins.
  • Að tekin verði ákveðin skref í uppbyggingu sameiginlegrar umgjarðar um einkasparnað og fjárfestingar (e.  Savings and Investments Union) og við uppbyggingu hins sameiginlega fjármagnsmarkaðar (e. Capital Markets Union).
  • Að tryggð verði endurnýjun á sviði iðnaðarstarfsemi samfara því sem unnið sé að samdrátti í kolefnislosun þannig að ESB geti áfram verið í forystu á iðnaðar- og tæknisviðinu.
  • Að ráðist verði í stórfellt átak til einföldunar á regluverki.
  • Að geta á sviði viðbúnaðar og varnarmála verði stóraukinn.
  • Að ESB verði í framlínunni er kemur að rannsóknum og nýsköpun.
  • Að orkuöryggi verði tryggt um leið og unnið verði að kolefnishlutleysi fyrir árið 2050.
  • Að áfram verði unnið að uppbyggingu hringrásarhagkerfisins.
  • Að geta ESB á sviði stafrænna málefna verði efld.
  • Að fjárfest verði í aukinni færni vinnuafls innan ESB með það markmiði að búa til aukinn fjölda gæðastarfa innan sambandsins.
  • Að reka metnaðarfulla, sjálfbæra og opna utanríkisviðskiptastefnu á grundvelli reglna Alþjóðaviðskiptastofnunnarinnar (WTO)
  • Að reka samkeppnishæfa, sjálfbæra og viðnámsþolna landbúnaðarstefnu með stöðugri og fyrirsjáanlegri umgjörð fyrir bændur og með því að tryggja sanngjarna samkeppni með landbúnaðarafurðir á alþjóðavísu og á innri markaðinum.

Að lokum er áréttað að til að ná framangreindum markmiðum þurfi að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar, bæði á vettvangi hins opinbera og einkaaðila.

Þá er kallað eftir því allar stofnanir ESB, aðildarríkin og aðrir hagaðilar vinni með samhentum hætti að þessum markmiðum.

Skýrsla Niinistö um eflingu viðbúnaður á sviði almannavarna og hermála

Þann 30. október sl. var skýrsla Sauli Niinistö, fv. forseta Finnlands, um viðbúnað og viðbragðsgetu ESB á sviði almannavarna og hermála, birt. 

Í skýrslunni sem ber yfirskriftina Safer together og unnin var samkvæmt beiðni forseta framkvæmdastjórnar ESB, Ursulu von der Leyen (VdL), er leitast við að leggja mat á þær flóknu og fjölþátta áskoranir sem ESB og aðildarríki þess standa frammi fyrir á sviði varnarmála og almannavarna nú um stundir og til framtíðar og hvaða leiðir eru helst færar til að efla viðbúnað sambandsins á þessum sviðum.

Af hálfu VdL er gert ráð fyrir að stuðst verði við tillögur skýrslunnar við mótun nýrrar framtíðarstefnu á sviði varnarmála og almannavarna, m.a. við útgáfu hvítbókar um framtíð varnarsamstarfs á vettvangi ESB (e. White Paper on the Future of European Defence) sem boðað er að koma muni út á fyrstu 100 starfsdögum nýrrar framkvæmdastjórnar og einnig við mótun nýrrar viðbúnaðarstefnu fyrir ESB (e. Preparedness Union Strategy), sbr. umfjöllun hér að framan um nýja framkvæmdastjórn, sbr. einnig umfjöllun Vaktarinnar 26. júlí sl. um stefnuáherslur VdL.

Skýrslan er ein fjögurra skýrslna sem veitt er sérstakt vægi í erindisbréfum fyrir nýja framkvæmdastjóra. Hinar þrjár sem vísað er til í erindisbréfunum eru í fyrsta lagi skýrsla Mario Draghi um samkeppnishæfni ESB til framtíðar, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 13. september sl. um þá skýrslu. Í öðru lagi skýrsla Enrico Letta um framtíð innri markaðarins, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 19. apríl sl. um þá skýrslu, og í þriðja lagi skýrsla um framtíð landbúnaðar í ESB, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 11. október sl. um þá skýrslu.

Skýrslan er allmikil að umfangi og efni og þar eru settar fram um 80 tillögur til úrbóta sem spanna víðfeðmt svið almannavarna og hermála. Segja má að ákallið um alhliða og þverfaglegan viðbúnað (e. comprehensive preparedness) af hálfu ESB og aðildarríkjanna, sem gengur eins og rauður þráður í gegnum efni skýrslunnar, séu megin skilaboð hennar.

Samantekið eru helstu niðurstöður og ályktanir sem dregnar eru í skýrslunni eftirfarandi:

  • Að nýr veruleiki blasi við; með hliðsjón af nýafstöðnum heimsfaraldri, mestu stríðsátökum í álfunni frá lokum síðari heimsstyrjaldar, aukinni alþjóðlegri spennu og öfgum í veðurfari sökum loftlagsbreytinga.
  • Að öryggi sé undirstaða samfélagsins; í þeim skilningi að öryggis- og varnarmál séu grundvallarmál sem almenn velferð velti á.
  • Að nauðsynlegt sé að vera undirbúinn undir verstu mögulegu sviðsmyndir.
  • Að taka þurfi upp alhliða og þverfaglega nálgun; bæði á vettvangi hins opinbera og þvert á samfélagið, og er þessi ályktun sú sem mest áhersla er lögð á í skýrslunni, sbr. umfjöllun hér að framan.
  • Að þátttaka almennings í viðbúnaðarráðstöfunum sé kjarnaatriði.
  • Að ESB-ríkin séu öruggari ef þau standa saman; þ.e. að tryggja þurfi samheldni og víðtæka samtryggingu á meðal aðildarríkjanna þegar stór áföll ríða yfir.
  • Að ákvarðaður verði hár samnefndari fyrir inntak samstarfs á þessu sviði; þrátt fyrir ólíkar áhættur og áhættumat í aðildarríkjunum.
  • Að strategískt stefnumótunarhlutverk ESB verði aukið; meðal annars í samskiptum við helstu bandalagsaðila svo sem Bandaríkin.
  • Að í neyðaraðstæðum sé skjót ákvarðanataka lykilatriði; en til að tryggja að hún sé möguleg þurfi að endurskoða skipulag og samþætta starfsemi viðbragðsaðila og tryggja aðgengi að nauðsynlegum upplýsingum og gögnum.
  • Að efla samstarf borgaralegra viðbragðsaðila og hernaðarlegra
  • Að auka ætti samstarf ESB og Nató; en samtökin tvö takast nú á við samskonar áskoranir í almannavarnarmálum og hermálum en beita til þess ólíkum úrræðum.
  • Að efla samstarf við bandalags- og samstarfsríki í nágrenni ESB og á heimsvísu; með því að treysta stöðu ESB sem trausts og áreiðanlegs samtarfsaðila.
  • Að vega og meta þurfi fjárfestingar í viðbúnaði með hliðsjón af því hverjar afleiðingarnar geti orðið ef ekki er gripið til þeirra og hafa í huga að fjárfesting í viðbúnaði getur aukið samkeppnishæfni ESB; sbr. m.a. umfjöllun í skýrslu Mario Draghi.
  • Að hanna þurfi alhliða og þverfaglegan viðbúnaðarramma (e. comprehensive preparedness by design); sem lagður sé til grundvallar við mótun nýrrar löggjafar og fjármögnunarkerfa, sem og við uppbyggingu aðfangakeðja o.fl.

Í skýrslunni eru skilgreindar níu hornsteinar (e. building blocks) fyrir fullmótað viðbúnaðarkerfi innan ESB og er umfjöllun skýrslunnar og tillögur sem settar eru fram um hverja blokk fyrir sig dregnar saman á sérstökum upplýsingablöðum (e. factsheets) sem fylgja skýrslunni. Umræddar hornsteinar eru eftirfarandi:

  1. Að byggja upp getu til að ráða fram úr krísum samtímans og greina og gera ráð fyrir mögulegum krísum framtíðar. Sjá nánar á upplýsingablaði um hornstein#1.
  2. Að tryggja að ESB sé starfhæft undir öllum mögulegum kringumstæðum sem upp geta komið. Sjá nánar á upplýsingablaði um hornstein#2.
  3. Að tryggja hraða ákvörðunartöku með skipulagi og ferlum sem eru fullnægjandi í þeim tilgangi. Sjá nánar á upplýsingablaði um hornstein#3.
  4. Að efla hlutverk almennings í því að byggja upp samfélag sem er viðbúið og viðnámsþolið. Sjá nánar á upplýsingablaði um hornstein#4.
  5. Að fullnýta möguleika sem felast í samstarfi opinberra aðila og einkaaðila á þessu sviði (e. public-private partnerships). Sjá nánar á upplýsingablaði um hornstein#5.
  6. Að sjá við óvinveittum og sviksamlegum aðilum til að sporna við fjölþátta árásum. Sjá nánar á upplýsingablaði um hornstein#6.
  7. Að efla varnarviðbúnað ESB og opna fyrir möguleika á því að samnýta borgaralega innviði og innviði á sviði varnar- og hermála. Sjá nánar á upplýsingablaði um hornstein#7.
  8. Að byggja upp sameiginlegt viðnámsþol með samstarfsaðilum með staðfastri diplómatískari nálgun. Sjá nánar á upplýsingablaði um hornstein#8.
  9. Að hagnýja efnahagslega þætti sem felast í uppbyggingu viðbúnaðar með sameiginlegum fjárfestingum sem beint er inn á við, fyrst og fremst. Sjá nánar á upplýsingablaði um hornstein#9.

Í upplýsingablaði sem einnig fylgir skýrslunni er leiðin fram á við í átt að alhliða og þverfaglegum viðbúnaði (e. comprehensive preparedness) samkvæmt framangreindu rakin í stuttu máli, sbr. einnig eftirfarandi skýringarmynd: 

Skýrslan er í góðu samræmi við nýlega stefnumótun ESB á sviði varnarmála, sbr. umfjöllun um þá stefnu í Vaktinni 15. mars sl., og endurspeglar þá breyttu sýn sem er að ryðja sér til rúms um hlutverk og stöðu ESB á því sviði, svo sem á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, sem meðal annars má sjá skýran stað í skipulagi nýrrar framkvæmdastjórnar, sbr. umfjöllun um nýja framkvæmdastjórn hér að framan í Vaktinni.

Efnahagsspá ESB að hausti 2024

Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út haustspá sína um efnahagsmál. Í spánni kemur fram að eftir viðvarandi stöðnun megi merkja hóflegan vöxt í hagkerfi ESB en verðbólga haldi áfram að hjaðna. Spáin gerir ráð fyrir að hagvöxtur árið 2024 verði 0,9% í ESB og 0,8% á evrusvæðinu. Spáð er að vöxtur efnahagsumsvifa verði 1,5% í ESB og í 1,3% á evrusvæðinu árið 2025 og 1,8% í ESB og 1,6% á evrusvæðinu árið 2026.

Búist er við að verðbólga á evrusvæðinu lækki um meira en helming á árinu 2024, úr 5,4% árið 2023 í 2,4%, verði svo 2,1% árið 2025 og 1,9% árið 2026. Í ESB er spáð að verðhjöðnunarferlið verði enn skarpara: verðbólga fari niður í 2,6% 2024, en hún var 6,4% árið 2023 og verði 2,4% árið 2025 og 2,0% árið 2026.

Eftir að vöxtur tók við sér að nýju á fyrsta ársfjórðungi 2024 hefur efnahagur ESB haldið áfram að stækka, en hægt, á bæði öðrum og þriðja ársfjórðungi. Atvinnustig jókst, atvinnuleysi hefur aldrei verið lægra í ESB (5,9%), og kaupmáttur launa óx. Hvort tveggja studdi við auknar ráðstöfunartekjur heimila en neysla hélst hófleg þrátt fyrir það. Hár framfærslukostnaður og óvissa í kjölfar stórra áfalla síðustu ár, auk hás vaxtastigs, hafa stuðlað að auknum sparnaði heimila. Samdráttur í fjárfestingu var umtalsverður og víðtækur í flestum aðildarríkjum og eignaflokkum á fyrri hluta árs 2024.

Með lækkandi vöxtum og vaxandi kaupmætti er útlit fyrir að neysla muni aukast. Búist er við að fjárfesting taki við sér m.a. vegna sterkari efnahagsreikninga fyrirtækja, batnandi afkomuhorfum og betri lánskjara. Áhrifa endurreisnar- og viðnámssjóðsins (e. recovery and resilience facility, RRF) og annarra sjóða ESB mun gæta til aukningar á fjárfestingu á spátímabilinu.

Samkvæmt spánni mun innlend eftirspurn knýja fram hagvöxt á tímabilinu. Gert er ráð fyrir að útflutningur og innflutningur aukist á nokkurn veginn sama hraða árin 2025 og 2026, sem þýðir hlutlaust framlag utanríkisviðskipta til vaxtar.

Skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu munu hækka frá 82,1% árið 2023 í 83,4% árið 2026 í ESB. Þetta má rekja til þess að hár nafnvöxtur landsframleiðslu nær ekki lengur að draga úr áhrifum neikvæðs frumjöfnuðar og hás vaxtakostnaðar.

Óvissa og hætta á neikvæðum áföllum hafa aukist. Langvinnt árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu og vaxandi spenna í Mið-Austurlöndum eru hluti af breyttum veruleika í landfræðilegu pólitísku samhengi og gætu haft neikvæð áhrif á orkuöflun í Evrópu. Útlit er fyrir að helstu viðskiptalönd ESB muni beita verndartollum í auknum mæli sem mun hafa neikvæð áhrif á efnahag sambandsins sem reiðir sig mikið á alþjóðaviðskipti. Innan ESB gætu óvissa í stefnumörkun og kerfislægar áskoranir í iðnaði sett mark sitt á hagvöxt og vinnumarkað. Þá eru flóðin á Spáni í lok október sl. til marks um þær afleiðingar sem aukin náttúruvá, bæði í tíðni og að umfangi, getur haft í för með sér fyrir umhverfið og fólk og þar með fyrir efnahagslífið.

Tillögur í skýrslum Letta, Draghi og Noyer um uppbyggingu hins sameiginlega fjármagnsmarkaðar

Í október sl. gaf hugveita Evrópuþingsins (European Parliament Research Service, EPRS) út samantekt um þrjár stórar skýrslur sem birtar hafa verið á árinu og fjalla m.a. um uppbyggingu sameiginlegs fjármagnsmarkaðar innan ESB (e. capital markets union, CMU). Um uppbyggingu sameiginlegs fjármagnsmarkaða hefur verið fjallað um áður í Vaktinni, t.d. 15. mars 2024 og 31. maí 2024.

Að beiðni leiðtogaráðs ESB skrifaði Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, skýrslu um framtíð innri markaðar ESB. Skýrslunni var skilað um miðjan apríl sl. Þar leggur Letta mikla áherslu á mikilvægi uppbyggingar sameiginlegs fjármagnsmarkaðar í ESB, sem miðlar einkafjármagni til arðbærra verkefna milli ríkja sambandsins með skilvirkum hætti, fyrir framtíð innri markaðarins. Fjallað var um skýrslu Letta í Vaktinni 13. september sl.

Christian Noyer, fyrrverandi seðlabankastjóri Frakklands, skilaði skýrslu í lok apríl sl. með tillögum sem miða að því að efla samband fjármagnsmarkaða innan ESB. Skýrslan var skrifuð að beiðni þáverandi fjármálaráðherra Frakklands, Bruno la Maire.

Þriðja skýrslan, og jafnframt sú umfangsmesta, var skrifuð af Mario Draghi, fyrrum seðlabankastjóra í Seðlabanka Evrópu og fyrrum forsætisráðherra Ítalíu, að beiðni VdL. Í skýrslunni sem kom út í september kemur skýrt fram að nauðsynlegt sé að skapa umgjörð í ESB til að fjármagna lykilatvinnugreinar til framtíðar með sparnaði Evrópubúa, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 13. september sl. um skýrsluna.

Áætlanir um að koma á fót virkum sameiginlegum fjármagnsmarkaði, eða sparnaðar- og fjárfestingasambandi ESB, eins og bæði Noyer og Letta kölluðu það í sínum skýrslum, hafa verið til staðar um nokkurt skeið á vettvangi ESB og hefur þegar verið gripið til ýmissa ráðstafana til að liðka fyrir því að slíkur markaður fái þrifist. Eftir sem áður þykja ýmsar veigamiklar hindranir enn standa því í vegi að evrópskur sparnaður nýtist með virkum hætti til þess að fjármagna evrópska nýsköpun og hagræn markmið ESB.

ESPR tók saman umfjöllun um að hvaða leyti þessar þrjár skýrslur eru líkar og hvar greinir á milli. Í samantektinni eru tillögur sem settar eru fram í framangreindum skýrslum flokkaðar í fimm flokka, þ.e. tillögur sem lúta að:

  1. Verðbréfun
  2. Eftirliti
  3. Markaðsinnviðum
  4. Lífeyrissparnaði og almennum sparnaði
  5. Samræmingu á viðskiptalöggjöf

Allar skýrslurnar fela í sér tillögur sem falla í fyrstu fjóra flokkana en skýrsla Noyer er frábrugðin að því leyti að þar er ekki með beinum hætti að finna tillögur um samræmingu á viðskiptalöggjöf.

Hugtakið verðbréfun vísar grófum dráttum til þess þegar útbúið er lánasafn sem notað er sem veð til þess að gefa út verðbréf sem er selt á markaði. Verðbréfun eykur möguleika lánveitenda, t.d. til að losa sig við útlánaáhættu og ráðast í aðrar fjárfestingar eða lána enn meira. Verðbréfun fékk á sig óorð í kjölfar fjármálakreppunnar 2008 en hefur náð sér miklu hraðar á strik að nýju í Bandaríkjunum heldur en í ESB á síðustu árum, þrátt fyrir að tap vegna verðbréfunar í kreppunni hafi verið umtalsvert meira í Bandaríkjunum en í ESB. Ljóst er að nú hafa viðhorfin breyst og eiga allar skýrslurnar þrjár það sameiginlegt að þar er lögð til rýmkun á reglum um verðbréfun innan ESB, þó útfærslurnar séu mismunandi og gangi mislangt.

Í öllum skýrslunum þremur er lagt til að eftirlit á verðbréfamarkaði verði breytt að umtalsverðu leyti. Höfundar skýrslnanna eru sammála um að styrkja eigi hlutverk Evrópsku verðbréfaeftirlitsstofnunarinnar (ESMA) en hugmyndir um útfærslur eru þó mismunandi. Letta sér fyrir sér að ESMA hafi eftirlit með stærstu verðbréfafyrirtækjunum sem starfa þvert á landamæri innan ESB, tillaga Draghi er að ESMA fái enn umfangsmeira hlutverk í líkingu við SEC (U.S. Securities and Exchange Commission) í Bandaríkjunum. Noyer sér fyrir sér að verðbréfafyrirtæki gætu fengið val um hvort þau væru undir eftirliti ESMA eða eftirlitsaðila í heimaríki.

Er kemur að markaðsinnviðum eru skýrslunar samdóma um að því fylgi mikið óhagræði hversu margir miðlægir mótaðilar og verðbréfamiðstöðvar séu í ESB. Letta og Draghi leggja til sameiningar í því skyni að til verði stærri og hagkvæmari einingar en Noyer leggur til varfærnari leið þar sem samræming lagaumgjarðarinnar liðki fyrir sameiningum. Hann leggur einnig til að stórgreiðslukerfi Seðlabanka Evrópu (e.  Trans-European Automated Real-time Gross Settlement Express Transfer system - TARGET2) verði eiginleg verðbréfamiðstöð til þess að ná upprunalegum markmiðum kerfisins en í dag þjónar kerfið fremur tilgangi tæknilegs samræmingarvettvangs fyrir evrópskar verðbréfamiðstöðvar.

Íbúar ESB spara hlutfallslega mikið en sparnaðurinn er að miklu leyti geymdur á bankabókum eða nýttur til fjárfestinga erlendis, aðallega í Bandaríkjunum. Til þess að miðla betur evrópsku einkafjármagni til arðbærra fjárfestinga í Evrópu er í öllum skýrslunum lagt til að breytingar verði gerðar á umgjörð lífeyrissparnaðar og annars sparnaðar í gegnum sjóði. Letta leggur til að umgjörðin verði samræmd innan ESB en Noyer vill sjá ramma þar sem núverandi og nýjar sparnaðarleiðir í hverju ríki gætu fengið vottun í ríkjunum, skv. ESB-reglum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í öllum skýrslunum er lagt til að komið verði á fót (skattalegum) hvötum fyrir einstaklinga til uppbyggingar lífeyrissparnaðar í annarri stoð lífeyriskerfisins, þ.e. með séreignarlífeyrissparnaði.

Letta og Draghi eru sammála um að til þess að raunverulegar framfarir verði við uppbyggingu sameiginlegs fjármagnsmarkaðar þurfi að gera ýmsar breytingar á fyrirtækjalöggjöf ESB. Báðir leggja til samræmingu á gjaldþrotalöggjöf til þess að stuðla að fjárfestingum yfir landamæri innan ESB og Draghi víkur einnig að því að mismunandi skattumgjörð standi uppbyggingu sameiginlegs fjármagnsmarkaðar fyrir þrifum. Samræming á þessum sviðum hefur gengið treglega innan ESB, m.a. vegna þess að mismunandi sjónarmið eru uppi innan ríkjanna og margt af því sem mestu máli skiptir er á forræði ríkjanna sjálfra, þ.e. fellur utan valdheimilda stofnana ESB í núverandi skipulagi. Þessu til viðbótar leggja Draghi og Letta fram tillögur á breiðari grunni um breytt viðskiptaumhverfi. Letta talar um sameiginlega ESB-reglubók á sviði viðskipta (e. European Business Code) og er lagt til á sumum sviðum að komi ESB viðskiptalöggjöf alfarið í stað innlendra laga í aðildarríkjunum. Þá víkur hann einnig að þeim möguleika að fyrirtæki geti haft val um það hvort þau séu felld undir evrópska viðskiptalöggjöf  eða löggjöf í viðkomandi aðildarríki. Tillögur Draghi eru af sama meiði og tillögur Letta en áherslan hjá honum er þó einkum á samræmingu viðskiptalöggjafar er taki til þróunar- og nýsköpunarfyrirtækja.

Vænta má að þessar skýrslur muni leggja grundvöll að fjölda löggjafartillagna frá framkvæmdastjórninni á því skipunartímabilinu sem er framundan til þess að bæta virkni fjármagnsmarkaða, efla innri markaðinn og stuðla að aukinni samkeppnishæfni. Þær hafa nú þegar sett mark sitt á stefnuáherslur Ursulu von der Leyen, sem fjallað var um í Vaktinni 6. júlí sl. og er skýrslum Draghi og Letta veitt sérstakt vægi í  erindisbréfum nýrra framkvæmdastjóra ESB, sbr. umfjöllun hér að framan um nýja framkvæmdastjórn ESB.

COP29 og afstaða ESB

Dagana 11.- 23. nóvember sl. fór fram tuttugasta og níunda loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) í Baku í Aserbaídsjan þar sem ríki heims komu saman til að leggja á ráðin um hvernig skuli tryggja aðgerðir til að ná markmiðinu um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 °C í samræmi við Parísarsáttmálann.

Samningsafstaða ESB var samþykkt í aðdraganda ráðstefnunnar á vettvangi ráðherraráðs ESB þann 14. október sl. Samkvæmt henni lagði ESB áherslu á þá staðreynd að loftslagsbreytingar eru tilvistarógn við mannkynið, vistkerfin og líffræðilegan fjölbreytileika, sem og við frið og öryggi í heiminum. Megin áherslur í samningsafstöðu ESB voru að niðurstöður COP29 yrðu metnaðarfullar og leiddu til þess að raunverulegur árangur næðist til að takmarka hlýnun jarðar í samræmi við sett markmið og að mikilvægt væri að öll ríki grípi til aðgerða og að samkomulag næðist um ný sameiginleg töluleg markmið um fjármögnun loftslagsaðgerða (e. New Collective Qualified Goal – NCQG).

ESB lagði jafnframt áherslu á að ný markmið um fjármögnun loftslagsaðgerða (NCQG) yrðu raunhæf og þannig sniðin að þau þjónuðu tilgangi sínum (e. fit for purpose), m.a. með tilliti til þeirra margbreytilegu áhrifa sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér. Þá sé mikilvægt að markmiðin endurspegli efnahagslega stöðu og getu ólíkra ríkja heims og hlut þeirra í losun gróðurhúsalofttegunda miðað við stöðuna eins og hún var árið 1990, en það er almennt viðmiðunarár sem Parísarsáttmálinn byggir á. ESB lagði áherslu á að opinberar fjárveitingar geti ekki einar og sér skilað þeirri fjármögnun sem til þarf heldur þurfi einkafjármagn jafnframt að koma til og í raun að standa undir stærstum hluta fjármögnunar grænna umskipta.

Til að fylgja eftir þessum áherslum tók ESB forystu í viðræðunum á COP29 sem leiddu að lokum til samkomulags um ný sameignleg markmið um fjármögnun loftsagsaðgerða (NCQG). Samkvæmt samkomulaginu skal stefnt að því að framlög til loftlagsaðgerða verði a.m.k 1,3 billjónir bandaríkjadala á ári fyrir árið 2035 og er í þeirri tölu bæði gert ráð fyrir opinberum framlögum og fjárfestingum og einkafjárfestingum. Þessu markmiði skal ná með því m.a. að styrkja hlutverk fjölþjóðlegra þróunarbanka (e. multilateral development banks – MDBs) á þessu sviði. Auk þess að taka forystu í viðræðum um sameiginleg markmið um fjármögnun loftslagsaðgerða, gegndi ESB mikilvægu hlutverki í því að ná samkomulagi um reglur um kolefnismarkaði skv. 6. gr. Parísarsamkomulagsins sem eiga að leiða til aukins gagnsæis, ábyrgðar og samræmingar í loftslagsaðgerðum.

ESB lagði áherslu á að ef takast eigi að takmarka hlýnun við 1,5 °C krefjist það sameiginlegs átaks og frekari aðgerða frá öllum ríkjum, sérstaklega af hálfu stóru ríkjanna og helstu hagkerfa heimsins. Það sé því brýnt að ný loftslagsmarkmið einstakra ríkja (e. National Determined Contribution – NDC), sem ríkjum er ætlað að leggja fram á árinu 2025, verði metnaðarfull og til framfara með hliðsjón af hnattrænni stöðu loftslagsmála (e. Global Stocktake), þ.e. hvar heimurinn stendur í raun og veru með hliðsjón af settum markmiðum. Ný landsmarkmið verði að fela í sér aðgerðir til að auka samdrátt í losun allra gróðurhúsalofttegunda þvert á hagkerfið. Í samræmi við þessar áherslur tilkynnti ESB á þinginu áform sín um að kynna ný metnaðarfull loftsslagsmarkmiði (NDC) fyrir árið 2025 og hvatti önnur ríki til að gera slíkt hið sama.

Að mati ESB er nauðsynlegt að hraða aðgerðum og leggur ESB áherslu á að horfið verði frá notkun jarðefnaeldsneytis í orkukerfum á réttlátan, skipulagðan og sanngjarnan hátt til þess að hægt sé að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Þessu til stuðnings tilkynnti ESB m.a. um að það hefði ákveðið að ganga til samstarfs við samtökin  Beyond Oil and Gas Alliance til að knýja á um orkuskiptin.

Ísland er aðili að loftslagssamningi SÞ og sótti sendinefnd Íslands ráðstefnuna.

Samræmd stafræn flutningstilkynning vegna útsendra starfsmanna

Þann 13. nóvember sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu að reglugerð um samræmdar stafrænar flutningstilkynningar vegna útsendra starfsmanna fyrirtækja sem veita þjónustu yfir landamæri (e. A single digital declaration portal for posted workers).

Tillagan miðar að því að létta reglubyrði af fyrirtækjum með því að einfalda ferlið við tilkynningarnar og gera þær skilvirkari. Þá er henni ætlað að auka gagnsæi og greiða fyrir eftirliti með því að farið sé að ákvæðum tilskipunar um útsenda starfsmenn auk þess að auðvelda útsendum starfsmönnum að gæta réttar síns, þar sem gert er ráð fyrir því að þeir geti fengið afrit af skráðum upplýsingum sem þá varða úr gagnagáttinni.

Frelsi til að veita þjónustu yfir landamæri innan evrópska efnahagssvæðisins felur m.a í sér rétt fyrirtækja til að senda starfsmenn sína til tímabundinna starfa á svæðinu. Í slíkum tilvikum þarf að uppfylla skilyrði tilskipunar um útsendan starfsmann varðandi starfskjör. Ríkjunum er einnig skylt að veita hvort öðru aðstoð við eftirlit með því að reglunum sé framfylgt. Ríkin hafa öll sett reglur sem skylda þjónustuveitendur til að veita yfirvöldum í þjónusturíkinu viðeigandi upplýsingar. Í tilkynningunni skal m.a. veita upplýsingar um starfsmanninn, ráðningarkjör, vinnustað, tímaramma starfsins og eðli starfseminnar sem um ræðir. Þá er gerð er krafa um að starfsmaður njóti réttar til launa í veikinda- og slysatilvikum.

Framkvæmd tilkynninganna og form þeirra eru hins vegar mjög mismunandi eftir löndum og er það talið valda töfum og óþarfa kostnaði og hindra þannig frjálst flæði þjónustu á innri markaðinum. Um fimm milljón starfsmenn voru útsendir á svæðinu á árinu 2022 og fer þeim fjölgandi. Gert er ráð fyrir að allt að 73% skemmri tíma muni taka að fylla út stafrænar tilkynningar samkvæmt reglugerðartillögunni sem nú liggur fyrir.

ESB mun setja upp stafræna gátt (Portal) þar sem unnt verður að fylla út stafrænt eyðublað sem verður aðgengilegt á öllum opinberum tungumálum aðildarríkjanna. Gert er ráð fyrir því að eyðublöðin verði unnt að laga til að þörfum og óskum aðildarríkjanna. Viðmótið verður sambærilegt viðmóti IMI gagnagrunnsins (e. Internal Market Information System) sem ESB heldur nú þegar úti og flest aðildarríkin þekkja.

Gert er ráð fyrir því að upptaka gerðarinnar verði valkvæð fyrir aðildarríkin. Þetta mun stafa af því að sum ríkin hafa þegar komið sér upp skilvirkum tölvukerfum í þessu skyni og vilja síður leggja þau af, að sinni a.m.k. Þá er rétt að geta þess að reglugerðin felur ekki í sér breytingar á tilskipun um starfsmenn.

r má sjá myndrænar upplýsingar um tilgang og væntan ávinning af reglugerðinni.

Tillagan gengur nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Ný tilmæli um reyklaus svæði

Í vikunni samþykkti ráðherraráð ESB endurskoðuð tilmæli um auknar varnir gegn áhrifum óbeinna reykinga. Framkvæmdastjórn ESB lagði tillöguna fram í  september sl. og frá henni var greint í Vaktinni 11. október sl.

Markmiðið með tilmælunum er að hjálpa til við að draga úr áhrifum óbeinna reykinga og leggja grunn að tóbakslausri kynslóð í ESB fyrir árið 2040, í samræmi við krabbameinsáætlun ESB.

Baráttan gegn sjúkdómum eins og krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum er eitt af forgangsverkefnum ESB og endurspeglast m.a. í formennskuáætlun Ungverjalands sem nú fer með formennsku í ráðherraráði ESB. Tilmælin eru þáttur í framfylgd þeirrar áætlunar. Frá því að síðustu tilmæli ráðsins um reyklaus svæði voru samþykkt 2009 hefur fjöldi tóbaks- og tóbakslíkra vara litið dagsins ljós sem reynst hafa höfðað sterkt til ungs fólks eins og rafsígaréttur og upphitaðar tóbaksvörur. Markaðsþróun þessa nýja varnings er talið sérstakt áhyggjuefni og er í tilmælunum varað við auknu aðgengi og skaðlegum áhrifum hans á börn og ungmenni.

Innan fimm ára er framkvæmdastjórninni ætlað að skila skýrslu um framkvæmd þessara tilmæla og leggur ráðið áherslu á að tengja þá athugun við endurskoðun á tóbakslöggjöf ESB sem kallað hefur verið eftir.

Fundur EES-ráðsins

EES-ráðið (EEA Council) kom saman til reglulegs fundar í Brussel 25. nóvember sl. EES-ráðinu er ætlað að verða pólitískur aflvaki fyrir framkvæmd EES-samningsins. og er það skipað utanríkisráðherrum Íslands, Noregs og Liechtenstein og háttsettum fulltrúum ráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB.

Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, stýrði fundinum að þessu sinni en Noregur fer nú með formennsku í fastanefnd EFTA  og í EES-samstarfinu. Af hálfu Ungverjalands, sem nú ferm með formennsku í ráði Evrópusambandsins sat fundinn Péter Sztáray, ráðherra öryggis- og orkuöryggismála í Ungverjalandi. Auk þeirra sátu fundinn, Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtenstein og Maroš Šefčovič, þáverandi varaforseti og núverandi framkvæmdastjóri viðskipta og efnahagsöryggismála í framkvæmdastjórn ESB. Í fjarveru utanríkisráðherra Íslands sat Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel, fundinn fyrir hönd Íslands.

Meginumræðuefni fundarins var framkvæmd EES-samningsins og samkeppnishæfni og viðnámsstyrkur innri markaðarins. Þá var sú óvissa á sviði viðskipta- og tollamála sem þykir hafa skapast í kjölfar forsetakosninga í Bandaríkjunum rædd. Í lok fundarins voru samþykktar sameiginlegar ályktanir og niðurstöður af fundinum (e. EEA Council conclusions) þar sem m.a. er fjallað um:

  • stuðning við Úkraínu,
  • samstarfið innan EES og rekstur EES-samningsins,
  • efnahagsöryggismál og samkeppnishæfni innri markaðarins,
  • loftslagsmál og græn umskipti,
  • stafræn umskipti,
  • samstarf á sviði félags- og vinnumarkaðsmála,
  • samstarf á sviði heilbrigðismála,
  • þátttöku EES/EFTA-ríkjanna í samstarfsáætlunum ESB,
  • Uppbyggingarsjóð EES,
  • sjávarútvegsmál og markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir
  • og viðskipti með landbúnaðarafurðir.

Í tengslum við ráðsfundinn funduðu fulltrúar EES/EFTA-ríkjanna þriggja með þingmannanefnd EFTA (e. EFTA Parliamentary Committee) og ráðgjafarnefnd EFTA (e. EFTA Consultative Committee), sjá nánar um þá fundi í fréttatilkynningu EFTA en þar var m.a. rætt um samkeppnishæfni í Evrópu, framtíð innri markaðarins og áhrif aukins fjölda svonefndra þverlægra gerða á rekstur EES-samningsins, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 11. október sl. um skýrslu átakshóps EFTA um slíkar gerðir og áskoranir sem þeim fylgja.

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta