Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2025 Brussel-vaktin

Fundir utanríkisráðherra með Šefčovič og Kallas, samningar ESB og Sviss o.fl.

Að þessu sinni er fjallað um:

  • fundi utanríkisráðherra með Šefčovič og Kallas
  • fund Mark Rutte með utanríkismálanefnd Evrópuþingsins; Rutte: Við erum ekki í stríði, en við búum ekki við frið heldur
  • næsta fund leiðtogaráðs ESB þar sem varnarmál verða í brennidepli
  • nýjan samningapakka ESB og Sviss
  • ráðgefandi álit lögsögumanns Evrópudómstólsins um að fella beri úr gildi tilskipun um lágmarkslaun í heild sinni
  • fjórtán verkefnahópa sem skipaðir hafa verið til að fjalla um helstu áherslumál nýrrar framkvæmdastjórnar
  • tíu málefni sem ástæða er til að fylgjast sérstaklega með á komandi ári
  • aukningu í fjárfestingum evrópskra fyrirtækja í rannsóknum og þróunarstarfsemi
  • stefnumótun fyrir innri markað ESB

 

Fundir utanríkisráðherra með Šefčovič og Kallas

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra heimsótti Brussel í vikunni og átti fundi með Maroš Šefčovič framkvæmdastjóra viðskipta- og efnahagsöryggismála og Kaja Kallas utanríkismálastjóra og varaforseta framkvæmdastjórnar ESB. Jafnframt átti hún fund með Mark Rutte framkvæmdastjóra NATO. 

Fundur utanríkisráðherra með Šefčovič

Šefčovič fer eins áður segir með mál er varða utanríkisviðskipti og efnahagsöryggismál í nýrri framkvæmdastjórn ESB auk þess sem hann fer með samskipti ESB við EES/EFTA-ríkin á grundvelli EES-samningsins. Á fundunum lagði utanríkisráðherra áherslu á náið samstarf Íslands og ESB og vilja til að efla það enn frekar. Staðinn verði vörður um EES-samstarfið og það styrkt á þeim viðsjárverðu tímum sem nú eru á alþjóðavettvangi. Ráðherra gerði ennfremur grein fyrir áformum nýrrar ríkisstjórnar um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur framkvæmdastjórn ESB staðfest að umsókn Íslands um aðild að ESB frá árinu 2009 sé enn í gildi jafnvel þótt hún hafi legið í dvala. Á hinn bóginn sé það ákvörðun leiðtogaráðs ESB og aðildarríkjanna á vettvangi ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnarinnar með hvaða hætti viðræðum verði framhaldið þegar og ef ósk um það berst frá íslenskum stjórnvöldum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Maros Šefčovič, framkvæmdastjóri hjá Evrópusambandinu sem er ábyrgur fyrir utanríkisviðskiptum og samskiptum við Ísland.  

Fundur utanríkisráðherra með Kallas

Kallas er eins og áður segir utanríkismálastjóri í nýrri framkvæmdastjórn ESB og einn af varaforsetum framkvæmdastjórnarinnar, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 6. desember sl. um nýja framkvæmdastjórn. Á fundinum lagði utanríkisráðherra, líkt og á fundinum með Šefčovič, áherslu á vilja ríkisstjórnarinnar til að efla samstarf Íslands og ESB enn frekar sem og að staðinn verði vörður um EES-samstarfið og það styrkt á viðsjárverðum tímum á alþjóðavettvangi. Þá voru öryggis og varnarmál til umræðu sem og málefni norðurslóða.

Að loknum fundunum með Šefčovič og Kallas lét utanríkisráðherra hafa eftirfarandi eftir sér:

„Ísland á þegar í nánu og víðtæku samstarfi við Evrópusambandið, þar sem EES-samningurinn er hornsteinn sem tryggt hefur aðgang okkar að innri markaðnum í yfir þrjátíu ár. Þetta samstarf mætti efla enn frekar, til dæmis á sviðum utanríkismála, heilbrigðismála og öryggis- og varnarmála. Við ræddum einnig þróun heimsmálanna, þar með talið málefni Úkraínu, Mið-Austurlanda og norðurslóða. Það mun án efa reyna á samtakamátt ríkja sem deila sameiginlegum gildum á komandi misserum og þar vill Ísland áfram vinna þétt með nágrannaríkjum okkar og Evrópusambandinu,“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Kaja Kallas, utanríkismálastjóri og varaforseti framkvæmdastjórnar ESB.

Virk hagsmunagæsla við framkvæmd EES-samningsins mikilvæg

Í tengslum við framangreinda fundi ráðherra hitti utanríkisráðherra einnig starfsfólk sendiráðsins. Á fundinum lagði hún áherslu mikilvægi EES-samningsins og virka hagsmunagæslu í tengslum við hann.

Starfsfólk sendiráðsins í Brussel ásamt utanríkisráðherra.

Rutte: Við erum ekki í stríði, en við búum ekki við frið heldur

Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, var gestur á sameiginlegum fundi utanríkismálanefndar Evrópuþingsins, undirnefndar um öryggis- og varnarmál og sendinefndar þingsins gagnvart NATO-þinginu sem er samstarfs- og samráðsvettvangur þingmanna frá aðildarríkjum NATO.

Í opnunarræðu sinni á fundinum lýsti Rutte því yfir að NATO ætti ekki í stríði, en það byggi þó ekki við frið heldur (e. “We are not at war, but we are not at peace either,”) og vísaði hann þar til áskorana sem tengjast Rússlandi, Kína, Íran og Norður-Kóreu og einnig til langvarandi ógna í formi hryðjuverka, útbreiðslu kjarnorkuvopna, upplýsingaóreiðu og loftslagsbreytinga. Þá vék hann meðal annars að nauðsyn þess að efla samstarf NATO og ESB og því að aðildarríki auki framlög til varnarmála.

Sjá nánar um fundinn í fréttatilkynningu Evrópuþingsins auk þess sem hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér.

Varnarmál verða í brennidepli á næsta fundi leiðtogaráðs ESB

António Costa, forseti leiðtogaráðs ESB, hefur sent leiðtogum aðildarríkja ESB boðsbréf á næsta fund leiðtogaráðsins sem haldinn verður 3. febrúar nk. Samkvæmt bréfinu verður fundurinn að þessu sinni að mestu til helgaður umræðu um varnarmál og verður sjónum einkum beint að þremur grundvallarálitaefnum sem móta þarf afstöðu til:

  • Hvernig skilgreina eigi varnarviðbúnað sem nauðsynlegt er að aðildarríkin þrói og byggi upp sameiginlega með hliðsjón af sameiginlegum öryggishagsmunum?
  • Hvort samstaða sé um það í ráðinu að auka sameiginleg framlög til varnarmála og verja þeim með skipulögðum hætti? Hvernig unnt sé að auka fjármögnun af hálfu einkaaðila og hvaða úrræði henti best til þess? Hvernigbest sé að nýta fjárlög ESB til skemmri og lengri tíma í þessu skyni? Í ljósi þess hversu fjármögnunarþörfin er mikil, hvaða aðrir kostir við fjármögnun koma til greina?
  • Hvernig getur ESB eflt og dýpkað samstarf sitt við núverandi samstarfsríki utan ESB? Hvaða markmið á setja í samstarfi við samstarfsríki og hver á forgangsröðunin að vera?

Í boðsbréfinu kemur fram að Mark Rutte, framkvæmdastjóra NATO, hafi verið boðið til hádegisverðar með leiðtogunum í tengslum við fundinn. Þá hafi forsætisráðherra Bretlands, Keir Starmer, jafnframt verið boðið til kvöldverðar með leiðtogunum. Að venju mun forseti Evrópuþingsins, Roberta Metsola, ávarpa fundinn í upphafi.

Nýir samningar ESB og Sviss

Hinn 20. desember sl. lýstu forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, og forseti Sviss, Viola Amherd, því yfir að tekist hefði að ljúka samningaviðræðum um nýjan heildarpakka samninga um samskipti ESB og Sviss á fjölmörgum sviðum en viðræðurnar hafa staðið í um 10 ár, með hléum, eða frá árinu 2014.

Eins og kunnugt er þá hafnaði Sviss aðild að EES-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1992 og hefur ríkið því byggt samskipti sína við ESB á grundvelli tvíhliða samninga sem aftur byggja í grunninn á fríverslunarsamningi ESB og Sviss frá árinu 1972. Samningapakkinn nú er sá þriðji í röðinni frá því að framangreindur fríverslunarsamningur var gerður. Fyrsti pakkinn, þekkur undir heitinu Bilaterals I, var gerður árið 1999 og tók til frjálsar farar fólks, tæknilegra hindrana, opinberra útboða, landbúnaðar, vöruflutninga á landi og með flugi og til rannsóknasamstarfs. Annar pakkinn (e. Bilaterals II) var gerður árið 2004 og tók m.a. til aðildar Sviss að Schengen-svæðinu, til viðskipta með unnar landbúnaðarafurðir, hagskýrslugerðar og til varna gegn svikastarfsemi. Eru nú meira en 100 samningar í gildi sem varða aðgengi Sviss að innri markaði ESB, að hluta, og á öðrum sviðum og eru meira en 20 sameiginlegar nefndir starfræktar til að annast rekstur og uppfærslu þeirra samninga sem leggja m.a. þá skyldu á Sviss að innleiða í landslög ESB-löggjöf á þeim sviðum sem samningarnir taka til. Sjá nánar hér um málefnasvið sem núverandi samningar taka til.

Heildarpakkanum sem nú hefur tekist samkomulag um er ætlað að útfæra og dýpka samband ESB og Sviss og skapa meiri festu í samskiptunum. Nánar tiltekið felur samningapakkinn í sér:

  • Uppfærslu á fimm núgildandi samningum ESB og Sviss sem varða málaflokka sem falla undir innri markað ESB til að endurspegla þá þróun sem orðið hefur á löggjöf ESB á þeim sviðum. Er hér um að ræða samninga um frjálsa för fólks, flutninga á landi, flugsamgöngur, samræmismat (e. conformity assessment) og landbúnaðarvörur.
  • Nýjan samning um matvælaöryggi sem ætlað er að samræma reglur um matvælaöryggi á öllum sviðum.
  • Nýjan samning um samvinnu á sviði heilbrigðismála sem mun gera Sviss kleift að taka þátt í starfi Sóttvarnarstofnunar Evrópu (e. European Centre for Disease Prevention and Control, ECDC) og viðvörunar- og viðbragðskerfi ESB á sviði heilbrigðismála (e. Early Warning and Response System).
  • Nýjan samning um þátttöku Sviss í sameiginlegum raforkumarkaði ESB.
  • Nýjan samning um varanleg og sanngjörn framlög Sviss til efnahagslegrar og félagslegar uppbyggingar innan ESB með áþekkum hætti og EES/EFTA-ríkin gera með framlögum til Uppbyggingasjóðs EES, sbr. umfjöllun í Vaktinni 8. desember 2023, um nýtt samkomulag EES/EFTA-ríkjanna við ESB um þau framlög.
  • Nýjan samning um að Sviss skuli gert kleift að taka þátt í samstarfsáætlunum ESB, þ.m.t. Horizon Europe, Erasmus+ og Digital Europe. Er gert ráð fyrir að svissneskir þátttakendur geti hafið þátttöku í einstökum verkefnum þegar á þessu ári, en áframhaldandi þátttaka Sviss í samstarfsáætlunum er þó eigi að síður háð því að samningapakkinn verði undirritaður og fullgiltur.
  • Sérstakan samning um þátttöku Sviss í Geimvísindastofnun Evrópu (EU Space Agency) á tilteknum sviðum.

Þó að heildarpakkinn nú geri ráð fyrir að áfram verði byggt á tvíhliða samningunum þá er markmið samninganna eigi að síður að styrkja lagasamræmi á milli ESB og Sviss á þeim sviðum sem samningarnir taka til. Þannig er gert ráð fyrir að samningarnir verði reglulega uppfærðir til að samræma þá við þróun löggjafar ESB á viðkomandi sviðum. Þetta á þó aðeins við um þá samninga sem varða málefni sem falla undir innri markaðinn. Sviss getur hins vegar hafnað uppfærslu á nýrri löggjöf ESB, en komi til þess er ESB heimilt að grípa til mótaðgerða og er ekki skilyrði að mótaðgerðirnar séu bundnar við viðkomandi samning en þær verða þó að varða innri markaðinn.

Eftirlit með framkvæmd samninga er í höndum hvors samningsaðila um sig eins og verið hefur og er eftirlitinu lýst sem tveggja stoða lausn. Komi hins vegar upp ágreiningur um túlkun eða beitingu samninganna og sameiginlegar nefndir samningsaðila geta ekki leyst úr slíkum ágreiningi má vísa slíkum deilumálum til gerðardóms. Gerðardómnum ber hins vegar ávallt að vísa álitaefnum um túlkun löggjafar og reglna ESB til dómstóls ESB sem á síðasta orðið um túlkunina. Þá skulu dómafordæmi dómstóla ESB um túlkun löggjafar ESB vera bindandi fyrir samningsaðila að því marki sem samningarnir byggja á slíkri löggjöf og á það jafnt um dóma sem fallið hafa fyrir undirritun samninganna og eftir.

Samkvæmt samkomulaginu mun Sviss jafnframt eiga rétt á því að taka þátt í mótun löggjafar ESB á þeim sviðum sem samningar þess við ESB taka til.

Í uppfærðum samningum um frjálsa för fólks er samið um að Sviss geti gripið til sérstakra verndaraðgerða gagnvart frjálsri för fólks. Í því samhengi er rétt að geta þess að þjóðaratkvæðagreiðslur í Sviss um takmarkanir á frjálsri för hafa haft áhrif á samningsstöðu Sviss í viðræðunum við ESB. Ákvæðið um verndaraðgerðir á þessu sviði felur þó aðeins í sér að Sviss geti borið fram beiðni um að grípa til verndaraðgerða til takmarka frjálsa för fólks í sameiginlegri nefnd samningsaðila. Náist ekki samkomulag í sameiginlegu nefndinni má vísa málinu til gerðardóms sem skal kveða úr um hvort að skilyrði til að grípa til slíkra verndaraðgerða séu uppfyllt.

Næsta skref er að ljúka lagalegum yfirlestri samninganna og ganga frá þeim til undirritunar. Á vettvangi ESB verða samningarnir þýddir á öll opinber tungumál ESB og í framhaldi af því mun framkvæmdastjórnin kynna þá fyrir aðildarríkjunum og þarf framkvæmdastjórnin að fá heimild ráðherraráðs ESB til að undirrita samningana auk þess sem Evrópuþingið þarf að samþykkja fullgildingu þeirra. Í Sviss er gert ráð fyrir að undirritun geti átt sér stað á komandi vori og í framhaldi af því er gert ráð fyrir að svissneska þingið greiði atkvæði um samningana árið 2026. Þá er líklegt að samningarnir verði bornir upp í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Lögsögumaður  Evrópudómstólsins telur að fella beri úr gildi tilskipun um lágmarkslaun í heild sinni

Nú í vikunni gaf einn af lögsögumönnum (e. Advocate General) Evrópudómstólsins út ráðgefandi álit sitt til dómstólsins í máli sem Danir höfðuðu í janúar 2023 gegn ESB til ógildingar á tilskipun um lágmarkslaun sem samþykkt var þann 4. október 2022. Fjallað var um málshöfðun Dana í Vaktinni 27. janúar 2023, sbr. einnig umfjöllun um tilskipunina í Vaktinni 9. september 2022.

Álitið, sem hefur komið nokkuð á óvart, byggist einkum á því að ESB skorti valdheimildir til þess samþykkja tilskipunina á þeim lagagrunni sem vísað er til í gerðinni og að hún geti falið í sér skerðingu á fullveldi aðildarríkjanna og jafnframt að gerðin geti skapað fordæmi fyrir því að ESB hafi heimildir í málum sem hingað til hafa verið talin á forræði aðildarríkjanna og geti efnislega raskað sérstöku vinnumarkaðsmódeli sem Danmörk byggir á. 

Tilskipunin byggist á 153 gr. sáttmála um starfshætti ESB (Treaty on the Functioning of the European Union) þar sem kveðið er á um heimild ESB til þess að setja reglur um aðstæður á vinnumarkaði og félagslega vernd til að ná fram markmiðum sem sett eru fram í sáttmála um ESB um atvinnu, bætt lífskjör og starfsaðstæður Evrópubúa, en í  í 5. mgr. 153. gr. sáttmálans um starfshætti ESB er launasetning þó sérstaklega undanskilin.

Tilskipunin mælir hvorki fyrir um skyldu ríkja til þess að innleiða lögbundin lágmarkslaun né um samræmingu slíkra launa, heldur er tilgangur gerðarinnar að  stuðla að því að regluverk og umgjörð aðildarríkjanna um launasetningu tryggi að lágmarkslaun nægi til framfærslu.

Lögsögumaðurinn leggur til við dómstólinn að gerðin verði ógilt í heild sinni. Álitið er eins og að ofan greinir eingöngu ráðgefandi og bindur ekki hendur dómstólsins en dómstóllinn hefur farið að áliti lögsögumanns í um 2/3 hluta þeirra mála þar sem lagt hefur verið til að gerðir séu ógiltar.

Álitið hefur vakið mikla athygli og hefur því verið misjafnlega tekið. Þannig hafa norsk og dönsk stjórnvöld fagnað niðurstöðunni en samtök verkalýðsfélaga í Evrópu aftur á móti gagnrýnt hana harðlega og segja að ef Evrópudómstóllinn staðfesti álitið verði það þungt áfall fyrir vinnandi fólk og verkalýðsfélög og grafi undan félagslegum framförum í Evrópu. Niðurstöðu Evrópudómstólsins er að vænta í maí nk.

Fjórtán verkefnahópar skipaðir til að fjalla um helstu áherslumál nýrrar framkvæmdastjórnar

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur skipað fjórtán verkefnahópa innan framkvæmdastjórnarinnar til að fjalla um og tryggja þverfaglegan undirbúning og pólitíska leiðsögn við framgang helstu áherslumála nýrrar framkvæmdastjórnar. Öllum verkefnahópunum er stýrt af varaforsetum og framkvæmdastjórum í framkvæmdastjórninni.

Um er að ræða verkefnahópa:

  • um undirbúning og framkvæmd nýrrar stefnu um grænan iðnaðarsáttmála (e. Clean Industrial Deal),
  • um gervigreind (e. Artificial Intelligence),
  • um aðgerðir á sviði utanríkismála (e. External Action),
  • um færni vinnuafls, atvinnu- og félagsmál (e. Skills, Jobs and Social Rights),
  • um efnahagsöryggismál (e. Economic Security),
  • um varnarsamband ESB (e. Defence Union),
  • um sparnaðar- og fjárfestingasamband ESB (e. European Savings and Investments Union),
  • um viðbúnaðarbandalag ESB (e. Preparedness Union),
  • um innri öryggismál ESB (e. European Internal Security),
  • um vatnsþol og vatnsgæði (e. Water Resilience),
  • um húsnæði á viðráðanlegu verði (e. Affordable Housing),
  • um sprotafyrirtæki og leiðir fyrir þau til vaxtar (e. Startups and Scaleups),
  • um lýðræðisskjöld ESB (e. European Democracy Shield),
  • og um framtíðarsýn á sviði landbúnaðar- og matvælamála (e. Vision for Agriculture and Food).

Eru hóparnir skipaðir í samræmi við starfsreglur framkvæmdastjórnarinnar sem samþykktar voru í upphafi skipunartímabilsins og endurspegla verkaefnahóparnir stefnuáherslur Ursulu von der Leyen (VdL) eins og hún kynnti þær fyrir Evrópuþinginu í júlí sl., sbr. umfjöllun Vaktarinnar 26. júlí sl. um þær áherslur, sbr. einnig erindisbréf VdL til framkvæmdastjóra í nýrri framkvæmdastjórn, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 6. desember sl. um nýja framkvæmdastjórn. Verkáætlun nýju framkvæmdastjórnarinnar er svo væntanleg í febrúar.

Tíu málefni sem ástæða er til að fylgjast sérstaklega með á komandi ári

Hugveita Evrópuþingsins hefur tekið saman lista yfir tíu málefni sem að mati starfsmanna veitunnar er ástæða til að gefa sérstakan gaum á komandi ári. Þessi málefni eru eftirfarandi:

  1. Hvernig gætt verði jafnvægis á milli sjónarmiða um aukna alþjóðlega samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja með því að auðvelda þeim að vaxa og stækka á innri markaðinum og sjónarmiða um að nýsköpun þrífist best þar sem fjöldi fyrirtækja keppa sín á milli í virku samkeppnisumhverfi.

    Í skýrslu Enrico Letta, sbr. umfjöllun um skýrsluna í Vaktinni 19. apríl sl., og í skýrslu Mario Dragi, sbr. umfjöllun um þá skýrslu í Vaktinni 13. september sl., er lögð áhersla á bæði framangreind sjónarmið, þ.e. aukna alþjóðlega samkeppnishæfni og framleiðni og aukna nýsköpun. Er það mat hugveitunnar að á árinu verði tekist á vægi um þessara sjónarmiða við stefnumótun til framtíðar.

  2. Ákvörðun um loftlagsmarkmið fyrir árið 2040.

    Loftlagslöggjöf ESB gerir ráð fyrir því að í ár verði lögfest áfangamarkmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2040. Stefnt hefur verið að því að markið verði sett á 90% samdrátt, miðað losun eins og hún var árið 1990, en eftir er að lögfesta það markmið eins og áður segir. Er viðbúið að tekist verði á um þetta á árinu, nú þegar fókuspunkturinn í stefnumótun ESB hefur í auknum mæli færst frá markmiðum Græna sáttmálans yfir á aukna samkeppnishæfni atvinnulífs og uppbyggingu græns tækniiðnaðar, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 26. júlí sl. þar sem fjallað er annars vegar um nýja stefnuáætlun leiðtogaráðs ESB og stefnuáherslur Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB.

  3. Hvaða næstu skerf verða tekin til að styrkja efnahagslegt öryggi?

    Þróun alþjóðamála á undanförnum árum hefur orðið til þess að ESB hefur í sífellt auknum mæli talið sig tilneytt til að endurskoða stefnu sína um opið alþjóðlegt og markaðsdrifið hagkerfi þar sem því er treyst að allir starfi í samræmi við alþjóðaviðskiptareglur. Fyrsta efnahagsöryggisáætlun ESB sem gefin var út árið 2023, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 23. júní 2023 um þá áætlun, er ef til vill skýrasta dæmið um stefnubreytingu af hálfu ESB þessum efnum, en margt annað mætti einnig nefna. Er álitið að þessi þróun muni halda áfram á árinu þar sem ný skref til að tryggja efnahagslegt öryggi ESB verða stigin.

  4. Fjármögnun ESB og mótun langtíma fjármálaáætlunar

    Mótun nýrrar langtíma fjármálaáætlunar ESB er á dagskrá á árinu og þarf framkvæmdastjórn ESB að kynna drög að nýrri áætlun fyrir 1. júlí nk. Er gert ráð fyrir löngum og ströngum umræðum um málið á síðari hluta ársins.

  5. Hvernig styrkja megi getu ESB og aðildarríkjanna til að fjárfesta til framtíðar

    Samkvæmt áðurnefndum skýrslum Draghi og Letta er mikil áhersla lögð á að ráðist verði í miklar innviðafjárfestingar svo sem á sviði fjárskipta og í orku- og flutningskerfum raforku til að tryggja framgang grænna og stafrænna umskipta. Einnig er kallað eftir miklum fjárfestingum á sviði rannsókna og nýsköpunar sem og á sviði öryggis- og varnarmála. Hvaða leiðir verði farnar til mæta þessu verður mjög í deiglunni á árinu að mati hugveitunnar.

  6. Munu evrópskir rafbílar ná betri fótfestu

    Mikið er í húfi fyrir bifreiðaiðnaðinn í ESB að evrópskir rafbílar nái betri fótfestu á markaðinum sem og að hlutfall rafbíla í umferð aukist til að markmið ESB um orkuskipti í samgöngum náist. Er viðbúið að málefni bifreiðaiðnaðarins verði mjög í umræðunni á árinu samfara því að kröfur um losun frá bifreiðum verða sífellt strangari.

  7. Hvernig ESB geti orðið samkeppnisfært á sviði gervigreindar

    Enda þótt ESB hafi orðið fyrst til setja lög um notkun gervigreindar í því skyni að leitast við að tryggja að fólk geti treyst tækninni, þá hefur ESB verið töluvert langt á eftir sínum helstu keppinautum, þ.e. Bandaríkjunum og Kína, er kemur að þróun og hagnýtingu gervigreindar. Er gert ráð fyrir að ESB muni grípa til ýmissa ráðstafana á árinu til að bæta úr þeirri stöðu.

  8. Hvernig styrkja megi evrópskan hergagnaiðnað

    Stríðið í Úkraínu hefur afhjúpað takmarkanir og veikleika ESB-ríkja á sviði hergagnaiðnaðar, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 15. mars sl. um nýja stefnumótun á sviði varnarmála. Gert er ráð fyrir að þessi málefni verði mjög í deiglunni á árinu en boðuð hefur verið útgáfa hvítbókar um framtíð varnarsamstarfs ESB (e. White Paper on the Future of European Defence) og er stefnt að því að hvítbókin komi út nú á fyrstu 100 starfsdögum nýrrar framkvæmdastjórnar.

  9. Hvernig hraða megi ákvörðunartöku um frávísun og endursendingar fólks í ólögmætri för

    Hvernig bæta megi frávísunar- og endursendingarkerfið vegna fólks í ólögmætri för hefur lengi verið forgangsmál hjá ESB, en þrátt fyrir það hefur endursendingartíðnin verið lág. Hefur ráðherraráðið nú kallað eftir því við framkvæmdastjórnina að bætt verði úr og er gert ráð fyrir að tillögur að aðgerðum verði kynntar snemma á þessu ári.

  10. Hvernig auka megi traust í samfélaginu

Traust til stjórnvalda, fjölmiðla, samfélagsmiðla og fleiri aðila hefur farið minnkandi á umliðnum árum, m.a. samfara aukinni upplýsingaóreiðu, og er vaxandi krafa á stjórnvöld um að gripið verði til aðgerða til að auka traust og draga úr upplýsingaóreiðu. Verður þessi umræða í brennipunkti á árinu að mati hugveitunnar.

Sjá nánari umfjöllun um framangreind málefni í greiningarskjali hugveitunnar.

Fjárfestingar evrópskra fyrirtækja í rannsóknum og þróunarstarfsemi aukast

Síðastliðin 21 ár eða frá árinu 2004 hefur framkvæmdastjórn ESB tekið saman og gefið út árlega skýrslur um fjárfestingar fyrirtækja í ESB í rannsóknum og þróunarstarfssemi (R&D) samanborið við helstu keppinauta, svo sem Bandaríkin (BNA) og Kína (e. The EU Industrial R&D Investment Scoreboard).

Skýrsla fyrir fjárfestingar á árinu 2023 kom út í lok síðasta árs og sýnir hún aukningu í fjárfestingum fyrirtækja í ESB um 9,8%, en til samanburðar var aukningin 5,9% í BNA og 9,6% í Kína. Er þetta í fyrsta skipið frá árinu 2013 sem aukningin er mest í ESB.

 

Af 2.000 stærstu fyrirtækjunum í rannsóknum og þróun eru 322 með höfuðstöðvar í ESB, og er hlutdeild þeirra í heildarfjárfestingum í R&D í heiminum 18,7%. Flest fyrirtækin eru hins vegar með höfðuðstöðvar í BNA eða 681, og er hlutdeild þeirra í heildarfjárfestingum langmest eða 42,3%. 524 fyrirtæki eru með höfuðstöðvar í Kína (hlutfall í heildarfjárfestingum 17,1%), 185 í Japan, (hlutfall í heildarfjárfestingum 8,3%) og þau 288 fyrirtæki sem eftir standa skiptast á önnur lönd í heiminum, þar af eru 63 með höfuðstöðvar á Bretlandi, 55 í Taívan, 40 í Suður-Kóreu og 39 í Sviss.

Niðurstöður skýrslunnar nú eru í samræmi við þá stórauknu áherslu sem lögð hefur verið á rannsóknir og þróun í stefnumörkun og aðgerðum á vettvangi ESB á undanförnum árum. Hægt er að nálgast skýrsluna í heild sinni hér.

Stefnumótun fyrir innri markað ESB

Framkvæmdastjórn ESB vinnur nú að nýrri stefnumótun fyrir innri markað sambandsins (e. Single market strategy 2025) og er ráðgert að stefnumótunin verði birt í formi orðsendingar til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB á öðrum ársfjórðungi þessa árs.

Framkvæmdastjórnin hefur nú birt áformaskjal um stefnumótunarvinnuna í samráðsgátt ESB þar sem kallað er eftir umsögnum um málið og er umsagnafrestur til 31. janúar nk.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta