Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2025 Brussel-vaktin

Leiðarvísir fyrir aukna samkeppnishæfni

Að þessu sinni er fjallað um:

  • leiðarvísi fyrir aukna samkeppnishæfni
  • ræðu forseta framkvæmdastjórnar ESB í Davos
  • óformlegan fund innanríkismálaráðherra ESB
  • aðgerðaráætlun ESB um netöryggi sjúkrahúsa og annarra veitenda heilbrigðisþjónustu
  • fund í Evrópuþinginu um samskipti ESB og Noregs á sviði sjávarútvegsmála
  • umsögn EES/EFTA-ríkjanna um stefnumótun fyrir innri markaðinn
  • EES/EFTA álit um þátttöku í samstarfsáætlunum ESB á tímabilinu 2028 – 2034
  • formennskuáætlun Liechtenstein í fastanefnd EFTA

Leiðarvísir fyrir aukna samkeppnishæfni

Framkvæmdastjórn ESB birti í vikunni orðsendingu til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar um leiðarvísi fyrir aukna samkeppnishæfni (e. Competitiveness Compass).

Leiðarvísirinn er fyrsta stóra stefnumótunarskjalið sem ný framkvæmdastjórn sendir frá sér eftir að hún tók við embætti 1. desember sl. Leiðarvísinum er ætlað að varða leiðina til aukins hagvaxtar með áherslu á aukna nýsköpun og framleiðslu samhliða einföldun regluverks og skrifræðis. Markmið um græn og stafræn umskipti (twin transition) halda gildi sínu en leitað leiða til að þau dragi ekki úr samkeppnishæfni og áhersla lögð á tæknilegt hlutleysi. Áfram er stefnt að því að Evrópa verði fyrsta kolefnishlutlausa álfa jarðarinnar.

Fram kemur að ESB hafi í efnhagslegu tilliti dregist aftur úr öðrum helstu viðskiptablokkum heims á síðustu tveimur áratugum og ekki tekist halda uppi sömu framleiðni. ESB hafi á hinn bóginn allt sem til þarf til að snúa því við, svo sem hæfileikaríkt og vel menntað vinnuafl, fjármagn, sameiginlegan innri markað og einstaka félagslega innviði.

Með leiðarvísinum er leitast við að hrinda í framkvæmd mörgum þeim ábendingum sem fram komu í skýrslu Marios Draghi um samkeppnishæfni ESB til framtíðar, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 13. september sl., um skýrsluna, og er ætlað að varða leiðina fram á við framkvæmd þeirra. Líkt og í Draghi skýrslunni eru skilgreind þrjú meginsvið aðgerða. Í fyrsta lagi um aðgerðir til að efla nýsköpun og vaxtarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja. Í öðru lagi um samþættingu afkolunar (e. decarbonisation) og samkeppnishæfni og í þriðja lagi um aðgerðir til að draga úr áhættu og auka öryggi í aðfangaöflun (hagvörnum).

  • Aðgerðir til að efla nýsköpun og vaxtarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja     
    Áhersla á aukna nýsköpun snýr einkum að hátæknigeirum þar sem ESB hefur dregist aftur úr, svo sem á sviði gervigreindar, háþróaðra efna, skammtatækni, vélmenna og geimtækni. Þá er boðað að sett verði fram stefna um sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og vöxt þeirra (e. Dedicated EU Start-up and Scale-up Strategy). Loks er boðuð tillaga um nýja sameiginlega reglubók á sviði fyrirtækjaréttar, gjaldþrotaskiptaréttar og vinnu- og skattaréttar til að einfalda regluumhverfi nýsköpunarfyrirtækja óháð því hvar þau ákveða að fjárfesta og starfa á innri markaðinum. Er væntanlegt regluverk nefnt 28unda lögsagnarumdæmið (e. 28th legal regime).

  • Samþætt áætlun um afkolun og aukna samkeppnishæfni
    Hátt og sveiflukennt orkuverð innan ESB er talin vera megináskorunin þegar kemur að því að efla samkeppnishæfni. Til að mæta því er stefnt að því að auka framleiðni og aðgengi að hreinni orku á viðráðanlegu verði. Grænn iðnaðarsáttmáli (e. Clean Industrial Deal) sem boðað er að verði birtur í lok febrúar nk. mun fela í sér áætlun þar sem markmiðin um afkolun og aukna samkeppnishæfni verða samþætt. Auk þess er boðað sérstakt aðgerðaplan um bætt aðgengi að orku á viðráðanlegu verði (e. Affordable Energy Action Plan) sem og löggjafartillaga um hröðun á afkolun í iðnaði (e. Industrial Decarbonisation Accelerator Act). Jafnframt gerir leiðarvísirinn ráð fyrir sérstöku aðgerðaplani vegna orkufreks iðnaðar svo sem á sviði stál- og efnaiðnaðar en fyrirséð er að erfiðast verði að ná markmiðum á þeim sviðum.

  • Aðgerðir til að draga úr áhættu, efla hagvarnir og auka öryggi í aðföngum
    Í leiðarvísinum er dregin fram sú staðreynd að aðgengi ESB að mikilvægum hráefnum sé að miklu leyti komið undir skilvirku samstarfi við önnur ríki. Fram kemur að ESB hafi nú þegar umfangsmesta kerfi fríverslunarsamninga við önnur ríki sem fyrirfinnst í heiminum og að slíkum samningum fari einnig ört fjölgandi. Halda þurfi áfram á þeirri braut til að auka fjölbreytni, efla hagvarnir og styrkja aðfangakeðjur. Þá er boðuð endurskoðun á reglum um opinber innkaup sem muni heimila forgangsröðun í opinberum innkaupum á mikilvægum sviðum.

Til að undirbyggja framangreind þrjú meginsvið aðgerða er jafnframt boðað að ráðist verði í aðgerðir til:

  • einföldunar regluverks, sbr. svonefnda Omnibus tillögu,
  • að fækka hindrunum að innri markaðinum, sbr. svonefnda Horizontal Single Market Strategy,
  • að fjármagna aðgerðir til að auka samkeppnishæfni, sbr. svonefnt European Savings and Investments Union,
  • að efla færni vinnuafls og sköpun gæðastarfa, sbr. svonefnt Union of Skills,
  • að samræma betur stefnumótun á vettvangi ESB og á vettvangi aðildarríkjanna, sbr. verkfærakistu, eða svonefnda Competitiveness Coordination Tool.

Sjá nánar um leiðarvísinn í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar. Sjá einnig nýja árlega skýrslu framkvæmdastjórnarinnar fyrir árið 2025 um stöðu mála á innri markaðinum og samkeppnishæfni ESB (e. 2025 Annual Single Market and Competitiveness Report).

Ræða forseta framkvæmdastjórnar ESB í Davos

Ursula von der Leyen (VdL), forseti framkvæmdastjórnar ESB, flutti ávarp á fundi Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) í Davos 21. janúar sl. Eins og við var búist þá kom VdL víða við í ávarpi sínu en meðal málefna sem hún vék að var:

  • harðnandi samkeppni efnahagsvelda um hráefni, tækni og alþjóðlegar samgönguæðar,
  • þrjár stoðir aukinnar samkeppnishæfni ESB: Evrópskur fjármagnsmarkaður, einfaldara regluverk og ódýrari orka,
  • að alþjóðasamvinna væri enn lykilinn að því að leysa úr áskorunum heimsbyggðarinnar,
  • og samskiptin við Kína og Bandaríkin.

Harðnandi samkeppni efnahagsvelda um hráefni, tækni og alþjóðlegar samgönguæðar

VdL sagði helstu efnahagsveldi heims eiga í stöðugt harðnandi samkeppni um yfirráð og aðgang að mikilvægum hráefnum, tækninýjungum og mikilvægum alþjóðlegum samgönguæðum. Hörð samkeppni ætti sér stað um að ná forskoti á jafn ólíkum sviðum og þróun gervigreindar, umhverfisvænni tækni, nýtingu geimsins og aðgangi og yfirráðum yfir Suður-Kínahafi og norðurslóðum. Harðnandi samkeppni þýði líka að efnahagsveldin beita í vaxandi mæli úrræðum á borð við viðskiptaþvinganir, viðskiptatakmörkunum og tollum og leitist með því móti við að styrkja hagvarnir sínar og þjóðaröryggi. Þessi þróun kalli á endurskoðun á leikreglum alþjóðaviðskiptakerfisins til þess að þær geti mætt kröfum nútímans.

Þrjár stoðir aukinnar samkeppnishæfni: Evrópskur fjármagnsmarkaður, einfaldara regluverk og ódýrari orka

VdL lagði áherslu á að ESB verði að bregðast við þessari þróun með því að líta í eigin barm og breyta um stefnu og vísaði hún þar sérstaklega til skýrslu Mario Draghi um samkeppnishæfni ESB til framtíðar, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 13. september sl. um skýrsluna, og jafnframt til nýrrar orðsendingar framkvæmdastjórnarinnar um leiðarvísi til næstu fimm ára fyrir ESB til aukinnar samkeppnishæfni, en fjallað er um orðsendinguna hér að framan í Vaktinni. Fram kom að ESB standi framar öðrum efnahagsveldum á sviði velferðar, umhverfisverndar og jafnræðis en til þess að mæta harðnandi samkeppni frá öðrum efnahagsveldum verði ESB hins vegar að herða róðurinn og styrkja samkeppishæfni sína. Í því skyni myndi stefnumótun ESB byggjast á þremur meginstoðum.

  • Í fyrsta lagi myndi framkvæmdastjórnin leitast við að vinna að því að koma á virkum evrópskum fjármagnsmarkaði með það að markmiði að sparnaður íbúa í ESB nýtist betur til fjárfestinga innan þess.
  • Í öðru lagi myndi framkvæmdastjórnin leggja áherslu á einföldun regluverks. Með þessu móti yrði blásið nýju lífi blásið í nýsköpun og athafnalíf innan ESB.
  • Í þriðja lagi myndi framkvæmdastjórnin beita sér fyrir aðgerðum til að draga úr orkukostnaði innan sambandsins, m.a. með því að efla framleiðslu endurnýjanlegra orkugjafa og gera þá að hagkvæmari og eftirsóknarverðari kosti fyrir fyrirtæki og neytendur.

Alþjóðasamvinna enn lykilinn að því að leysa úr áskorunum heimsbyggðarinnar

VdL sagði að Parísarsamningurinn væri enn bjartasta von mannkyns og áréttaði einarðan stuðning ESB við framkvæmd hans. Þrátt fyrir harðnandi samkeppni yrðu ríki heims að geta tekið höndum saman og brugðist við sameiginlegum áskorunum á borð við loftslagsbreytingar.

Fram kom í máli hennar að ESB finndi fyrir vaxandi áhuga ríkja heims um að styrkja samstarf sitt við ESB. Til marks um það nefndi hún að nýlega hefði tekist að ná samningum við Sviss, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 17. janúar sl., að fríverslunarsamningur við Mercosur væri í höfn, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 20. desember sl., um þann samning, og loks hafi nýlega náðst samkomulag um að uppfæra fríverslunarsamning ESB við Mexíkó. Í ræðu sinni velti hún þeirri spurningu upp hverju það sætti að svo vel gengi við gerð fríverslunarsamninga nú, og taldi hún ástæðunna væri ekki aðeins að leita í þeirri staðreynd að markaður ESB væri stór og aðlaðandi heldur ekki síður í því að ESB kæmi hreint að borðinu, að samningsaðilar vissu að hverju þeir gengju og gætu treyst því að reglum yrði fylgt. ESB bæri gagnkvæman hag samningsaðila fyrir brjósti á meðan aðrir leituðu fyrst og fremst eftir auknum útflutningi og aðgengi að hráefnum. Þá tilkynnti hún að framkvæmdastjórnin myndi undir hennar forystu sækja Indland heim í lok febrúar með það fyrir augum að styrkja nánari samvinnu ESB og Indlands. Í þessu samhengi ítrekaði hún að ESB væri opið fyrir viðskiptasamningum þar sem gagnkvæmir hagsmunir væru til staðar og vilji til að fylgja alþjóðaviðskiptareglum.

Samskiptin við Kína og Bandaríkin

VdL lauk máli sínu á því að beina sjónum að stöðunni í tveimur stærstu efnahagsveldum heims, Kína og Bandaríkjunum.

Varðandi Kína þá lýsti VdL þeirri skoðun sinni að í samtali við Kína ætti að leitast við að finna fleti þar sem viðskiptaveldin ættu sameiginlega hagsmuni. Á hinn bóginn sagði VdL að kínversk stjórnvöld yrðu að taka á ríkisstyrktri offjárfestingu í hagkerfinu og það væri skoðun ESB að það væri allra hagur, þ.m.t. Kína, að kínversk stjórnvöld tækju á því ójafnvægi og þeirri röskun á markaði sem þetta skapaði. Um allan heim, þ.m.t. innan ESB væri unnið að því að leiðrétta það ójafnvægi sem af því hlytist, t.d. varðandi innflutning rafbíla frá Kína. Hins vegar væri ESB reiðubúið til þess að styrkja samskiptin við Kína og jafnvel auka viðskipta- og fjárfestingartengsl ef jafnvægi í viðskiptum næðist, í anda sanngirni og gagnkvæmni.

Ávarpið var flutt degi eftir að Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna og markaðist það nokku af yfirlýsingum hans. Rík áhersla var þó lögð á mikilvægi góðrar samvinnu við Bandaríkin. Í því samhengi vísaði hún m.a. til þeirrar gríðarlega miklu fjárfestinga- og viðskiptatengsla sem væru á milli ESB og BNA. Engin tvö viðskiptasvæði í heiminum væru eins nátengd og samtvinnuð og þessi tvö, með heildarumfang viðskipta á um 1.500 milljarða evra. Báðir aðilar ættu ríka hagsmuni af því að tryggja áframhaldandi góð og öflug skilyrði fyrir viðskipti yfir Atlantshafið. Því myndi ESB vera tilbúið til samstarfs, ræða sameiginleg hagsmunamál og væri ætíð reiðubúið til þess að semja. Nálgun ESB myndi einkennast af raunsæi, en hins vegar myndi ESB ávallt standa vörð um hagsmuni sína og verja þau grunngildi sem samstarf Evrópuríkjanna byggist á.

Rásmarkið í hnattræna kapphlaupinu er heima

Degi eftir ávarp VdL í Davos flutti hún ræðu í Evrópuþinginu þar sem hún sagði hið hnattræna kapphlaup hefjast heima (e. the global race begins at home) og boðaði að ný stefnumótun framkvæmdastjórnarinnar um hvernig styrkja mætti samkeppnishæfni ESB litið senn dagsins ljós. Þessi leiðarvísir (e. the competitiveness compass) er kominn fram, sbr. umfjöllun hér að framan í Vaktinni. Hún boðaði aukna nýsköpun, áætlun um afkolun og að efnahagslegt viðnámsþol og öryggi yrði eflt. Hún vísaði til þess að aukin samvinna við ríki um allan heim væri ekki eingöngu efnahagsleg nauðsyn heldur felist einnig í því skilaboð til umheimsins um að það sé svar ESB við aukinni hnattrænni samkeppni. Evrópa vilji meiri samvinnu við alla þá sem opnir séu fyrir henni, m.a. nánustu bandamenn sína, og nefndi hún sérstaklega Bandaríkin í því samhengi. Hún vísaði til þess á ný að engin hagkerfi í heiminum væru jafn samofin og ESB og Bandaríkin og að milljónir starfa beggja vegna Atlantshafsins reiði sig á viðskipti og fjárfestingu þarna á milli. Til viðbótar komi vinátta, fjölskyldutengsl, sameiginleg saga og menning. Þetta muni alltaf vera ofarlega í huga í samskiptum við ný stjórnvöld í Bandaríkjunum.

Óformlegur fundur innanríkismálaráðherra ESB

Óformlegur fundur innanríkismálaráðherra ESB (e. Home Affairs) fór fram í Varsjá 30. janúar 2025. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, sótti fundinn fyrir Íslands hönd. Á dagskrá voru málefni flótta- og farandfólks, almannavarnir og innra öryggi Evrópu.

Málefni flótta- og farandfólks

Undir þessum dagskrárlið var í umræðunni einkum vikið að nýjum og nýstárlegum lausnum við stjórnun komu fólks í óreglulegri för. Líkt og nánar var fjallað um í Vaktinni 24. október sl. hefur orðið skýr viðhorfs- og stefnubreyting í ESB í þessum málum frá því sem áður var. Má segja að sú stefnubreyting hafi styrkst enn frekar í sessi á þessum ráðherrafundi þar sem ríkin voru almennt sammála um mikilvægi þess að huga að nýstárlegum lausnum (e. innovative solutions) við endursendingar og í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, t.d. hugmyndir um örugg þriðju ríki, örugg málsmeðferðarsvæði utan ESB, endursendingarmiðstöðvar (e. return hubs) og nýja heildræna nálgun í samskiptum við þriðju ríki. Þá var rætt um óvinveitt þriðju ríki sem beita fólksflutningum sem pólitísku vopni (e. instrumentalisation) til að skapa óstöðugleika innan ESB. Til að bregðast við þessu gaf framkvæmdastjórn ESB nýlega út orðsendingu til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um varnir gegn fjölþáttaógnum (e. hybrid threats) vegna vopnvæðingar fólksflutninga (e. weaponisation of migration) af hálfu Rússlands og Belarús, sbr. einnig umfjöllun í Vaktinni 20. desember sl.

Framkvæmdastjórn ESB hefur boðað tillögur að nýju regluverki á sviði endursendinga, sem reiknað er með að verði kynntar í mars á þessu ári. Magnus Brunner, nýr framkvæmdastjóri innri öryggismála, öryggis landamæra og málefna flótta- og farandsfólks, fór stuttlega yfir hvers mætti vænta í tillögum framkvæmdastjórnar. Vísaði hann m.a. til þess að skilgreina þyrfti betur skyldur útlendinga til að sýna samstarf við brottvísun og hvaða afleiðingar það hefur ef einstaklingur gerir það ekki, styrkja þyrfti úrræði svo unnt sé að brottvísa hættulegum einstaklingum, breyta framkvæmd endurkomubanna, koma á gagnkvæmri viðurkenningu brottvísunarákvarðana og auka notkun brottfararúrræða (e. specialized detention facilities). Hann vísaði einnig til mikilvægis þess að ræddar yrðu nánar mögulegar útfærslur á endursendingarmiðstöðvum (e. return hubs) í öruggum þriðju ríkjum. Þá væri framkvæmdastjórnin að leggja til nýjar skilgreiningar á öruggum þriðju ríkjum og öruggum upprunaríkjum.

Í ræðu sinni vísaði Brunner til tilkynningar Íslands til framkvæmdastjórnar ESB frá desember sl. þar sem þess var óskað að tekið yrði til skoðunar að fella tímabundið úr gildi undanþágu Venesúela frá áritunarskyldu til að ferðast inn á Schengen-svæðið. Þótt hin ströngu lagaskilyrði fyrir að beita þessu úrræði hafi ekki verið uppfyllt í þessu tilviki að mati framkvæmdastjórnarinnar, taldi Brunner þær aðstæður sem tilkynning Íslands beri vott um vera gott dæmi um nauðsyn þess að endurskoða regluverk um áritanir. Mikill fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Evrópu kæmi frá áritunarfrjálsum ríkjum og brýnt sé að bregðast við því. Reglurnar um afnám áritunarfrelsis (e. Visa Suspension Mechanism) væru mikilvægt tól sem ESB þyrfti að geta beitt í miklu ríkari mæli og með skjótvirkari hætti til að koma í veg fyrir misnotkun.

Ríkin tóku öll undir mikilvægi þess að endurskoða þyrfti regluverkið í kringum endursendingar og fögnuðu því að tillögur framkvæmdarstjórnarinnar væru í farvatninu. Þá töldu þau brýnt að huga að ytri þætti útlendingamála, m.a. með því að auka samstarf við þriðju ríki, bæði uppruna- og gegnumferðarríki, til að fækka komum fólks í óreglulegri för og auka skilvirkni endursendinga. Dómsmálaráðherra tók undir þessi sjónarmið og vonaðist til þess að tilkynning Íslands vegna Venesúela myndi, þrátt fyrir niðurstöðu framkvæmdarstjórnarinnar, senn leiða til breytinga á málsmeðferðarreglum um afnám áritunarfrelsis.

Almannavarnir

Undir þessum dagskrárlið var m.a. skýrsla Sauli Niinistö, fv. forseta Finnlands, frá 30. október sl. um viðbúnað og viðbragðsgetu ESB á sviði almannavarna og hermála, til umræðu, sbr. umfjöllun um skýrsluna í Vaktinni 6. desember sl. Í skýrslunni, sem ber yfirskriftina Safer together og unnin var samkvæmt beiðni forseta framkvæmdastjórnar ESB, er leitast við að leggja mat á þær flóknu og fjölþátta áskoranir sem ESB og aðildarríki þess standa frammi fyrir á sviði varnarmála og almannavarna nú um stundir og til framtíðar og hvaða leiðir eru helst færar til að efla viðbúnað sambandsins á þessum sviðum. Gert er ráð fyrir að stuðst verði við tillögur skýrslunnar við mótun nýrrar framtíðarstefnu á sviði varnarmála og almannavarna, m.a. við útgáfu hvítbókar um framtíð varnarsamstarfs á vettvangi ESB (e. White Paper on the Future of European Defence) og mótun nýrrar viðbúnaðarstefnu fyrir ESB (e. Preparedness Union Strategy).

Mikil umræða fór fram á milli ríkjanna um þær ógnir og áskoranir sem þau standa frammi fyrir. Talið var nauðsynlegt að styrkja almannavarnir, öryggi og varnarmál sambandsins. Þá þyrfti að styrkja og samhæfa betur samstarf á milli stjórnvalda og stofnana, bæði innanlands og á vettvangi ESB, m.a. á sviði almannavarna en einnig vegna netöryggismála, hryðjuverka og skipulagðra glæpasamtaka. Þá ræddu ríkin um mikilvægi þess að samtvinna hernaðarlega og borgaralega aðkomu og endurmóta samstarfsverkefni hins opinbera við einkaaðila.

Innra öryggi Evrópu

Undir þessum dagskrárlið var m.a. rætt um væntanlega stefnu í innri öryggismálum ESB (e. European Internal Security Strategy). Ríkin vísuðu til þess að þau og sambandið stæðu frammi fyrir flóknu og óstöðugu öryggislandslagi sem krefðist nýstárlegra og markvissra lausna. Ríkin væru að bregðast við síendurteknum ógnum af hryðjuverkum, aukningu netglæpa og tölvuárása, auk fjölþættrar skipulagðrar glæpastarfsemi eins og mansals, fíkniefna- og vopnasmygls. Þá hefðu landfræðipólitísk átök eins og stríðið í Úkraínu og átökin í Mið-Austurlöndum skapað nýjar áskoranir, m.a. vegna komu flótta- og farandfólks en einnig vegna misnotkunar á samfélagsmiðlum og dulkóðaðra samskiptatækja til að ýta undir öfgahyggju og falsfréttir.

Ríkin töldu mikilvægt að huga að ytri þáttum innri öryggismála þar sem ESB og aðildarríki þess væru stöðugt undir ógnum frá ákveðnum þriðju ríkjum. Nýlegar skemmdir á strengjum á botni Eystrasalts væru ekki einstök afmörkuð atvik heldur mætti líta á þau sem hluta af skipulögðum fjölþáttaárásum (e. hybrid attacks) gegn ESB. Kallað var eftir því að ný stefna myndi útvíkka öryggishugtak ESB þannig að það yrði yfirgripsmikið og þverlægt, þ.e. næði bæði til innra og ytra öryggis en einnig annarra þátta eins og upplýsinga, fjármála, orku, matvæla og heilbrigðis. Þá ætti stefnan að tryggja að öryggissjónarmið yrðu höfð til hliðsjónar í allri laga-, stefnu- og áætlunargerð innan ESB. Enn fremur þyrfti ESB að efla samstarf sitt við alla viðeigandi aðila, bæði opinbera aðila og einkaaðila, en einnig þriðju ríki. Fyrstu skrefin ættu að beinast að því að styrkja og nýta að fullu gildandi verkfæri, svo sem EMPACT (e. European Multidisciplinary Platform Against Criminal Threats), og auka stuðning stofnana ESB á sviði dóms- og innanríkismála, m.a. Europol og Frontex.

Vísað var til þess að tryggja þyrfti aðlögunarhæfni ESB til að bregðast við nýjum áskorunum. Hraðar stafrænar breytingar og hæfni hryðjuverkamanna, öfgamanna og annarra glæpamanna til að aðlagast og innleiða nýja tækni kallaði á aukið stafrænt öryggi. Þá þyrftu löggæsluyfirvöld að hafa aðgang að gögnum við sakamálarannsóknir sem kalli á aukið samstarf við þriðju ríki og einkaaðila. Loks var vísað til þess að óvinveitt þriðju ríki hefðu nýlega reynt að hafa áhrif á lýðræðislegar kosningar í Evrópu en slíkt gæti haft töluverð áhrif á innra öryggi ESB og aðildarríkja þess.

Aðgerðaráætlun um netöryggi sjúkrahúsa og annarra veitenda heilbrigðisþjónustu

Þann 15. janúar sl. kynnti framkvæmdastjórn ESB orðsendingu um aðgerðaáætlun sem miðar að því að efla netöryggi sjúkrahúsa og annarra veitenda heilbrigðisþjónustu. Forseti framkvæmdastjórnarinnar, Ursula von der Leyen, boðaði slíka áætlun í stefnuáherslum sínum sem kynntar voru Evrópuþinginu í júlí sl., sbr. umfjöllun Vaktarinnar 26. júlí sl. Heilbrigðiskerfin standa frammi fyrir vaxandi ógn á sviði netöryggismála. Að mati ESB er heilbrigðisgeirinn sá iðnaður sem hefur verið einna mest útsettur fyrir árásum. Meðan að Covid-19 heimsfaraldurinn geisaði voru innviðir heilbrigðisgeirans t.d. í auknum mæli skotmark netárása þar sem  óprúttnir aðilar reyndu að nýta sér viðkvæm sjúkragögn eins og rafrænar sjúkraskrár í fjárhagslegum tilgangi. Markmið áætlunarinnar er að verja heilbrigðisgeirann gegn hverskonar netógnum og netárásum og tryggja þar með öruggara umhverfi bæði fyrir sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólk. 

Í aðgerðaáætluninni er horft til fjögurra áherslusviða:

  1. Aukinna forvarna sem miða að því að byggja upp getu heilbrigðisgeirans til að koma í veg fyrir netöryggisatvik með aðgerðum og leiðbeiningum til að efla viðbúnað.
  2. Greiningu og auðkenningu ógna. Svokölluð stuðningsmiðstöð (Cybersecurity Support Centre) um netöryggi fyrir sjúkrahús og aðra veitendur heilbrigðisþjónustu verður sett á fót og er henni ætlað að þróa viðvörunarkerfi um netógnir og er ráðgert að miðstöðin verði hluti af Netöryggisstofnun ESB, (ENISA).
  3. Viðbragða við netárásum til að lágmarka áhrif. Áætlunin gerir ráð fyrir snörpu sérsniðnu viðbragði fyrir heilbrigðisgeirann við hverskonar netöryggisógnum og er gert ráð fyrir að áætlunin verði samþætt við löggjöf á sviði netöryggismála sem fyrir er í ESB (m.a. Cyber Solidarity Act, Directive on Security of Network and Information Systems across the EU,Cyber Solidarity Act, Cybersecurity Act, Medical Devices Regulation og Cyber Resilience Act).
  4. Verndun evrópskra heilbrigðiskerfa með fælingaraðgerðum gegn aðilum sem ógna netöryggi. Þetta felur m.a. í sér notkun á sameiginlegum diplómatískum viðbrögðum ESB (e. Cyber Diplomacy Toolbox) til að bregðast við skemmdarverkum á netinu.

Aðgerðaáætlunin verður innleidd í nánu samstarfi við veitendur heilbrigðisþjónustu, aðildarríkin og netöryggissamfélagið. Orðsendingin gengur nú til umræðu í ráðherraráði ESB, á Evrópuþinginu og í efnahags- og félagsmálanefnd ESB og svæðanefndinni, en að auki, til að tryggja sem áhrifamestar aðgerðir, hyggst framkvæmdastjórnin efna til opins samráðs um áætlunina og munu niðurstöður þess vera notaðar til að endurskoða áætlunina í lok ársins.

Fundur í Evrópuþinginu um samskipti ESB og Noregs á sviði sjávarútvegsmála

Sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins fjallaði um samskipti ESB og Noregs á sviði sjávarútvegsmála (e. fisheries relation with Norway) á opnum fundi síðastliðinn miðvikudag. Tilgangur fundarins var að varpa ljósi á stöðu mála í fiskveiðisamningum á milli aðila. Eftir úrsögn Breta úr ESB hafa samningaviðræður milli ESB og Noregs um fiskveiðikvóta og gagnkvæmar veiðiheimildir reynst mun erfiðari en áður þar sem Norðmenn sjá hagsmunum sínum betur borgið í samvinnu við Breta en við ESB. Norðmenn hafa, að mati ESB, beinlínis verið mjög tregir í samningaviðræðum en hagsmunir ESB eru miklir og á það sérstaklega við um veiðiheimildir á þorski við Svalbarða og kvóta fyrir sænskar útgerðir á norskri vorgotssíld í norskri lögsögu. Sjá nánar stutta skýrslu sem lá frammi fyrir fundinn um samband EBS og Noregs á sviði sjávarútvegsmála sem upplýsingaþjónusta Evrópuþingsins gaf út í nóvember í fyrra. Í skýrslunni er einnig sagt frá samningum ESB við önnur strandríki í Norður-Atlantshafi þar á meðal við Ísland.

Þann 6. desember sl. sendi sjávarútvegsnefnd þingsins bréf til utanríkisviðskiptanefndar þingsins um samstarf og samninga ESB við Noreg á sviði sjávarútvegsmála. Bréfið er sent eftir að fyrrnefnda nefndin fékk samninga ESB og EES/EFTA-ríkjanna um Uppbyggingarsjóðinn og markaðsaðgang fyrir fisk til umfjöllunar. Í bréfinu kom fram hörð gagnrýni á afstöðu norskra stjórnvalda til  samstarfs á sviði sjávarútvegs. Þar er ýmislegt tínt til m.a. að Norðmenn stundi ósjálfbærar veiðar, séu ósamvinnuþýðir í samningum, hafi minnkað verulega kvóta til ESB svo sem við Svalbarða og séu enn að veita Rússum aðgang að höfnum í Noregi. Nefndinni þykir miður að ekki hafi verið beðið eftir niðurstöðum hennar áður en samningarnir um Uppbyggingarsjóðinn og tollkvótana tóku gildi til bráðabirgða í byrjun þessa árs. Ísland er aðili að hluta þessara samninga en gagnrýnin beinaist aðeins  að Noregi.

Utanríkisviðskiptanefnd Evrópuþingsins fundaði síðan í gær og var einn liður á dagskránni umræða um áðurnefnda samninga ESB og EES/EFTA-ríkjanna sem undirritaðir voru síðastliðið sumar um framlög til Uppbyggingarsjóðs EES og tollkvóta fyrir Ísland og Noreg fyrir tímabilið 2021 – 2028, sbr. umfjöllun um samningana í Vaktinni 8. desember 2023. Samið hefur verið um þessa tvo ólíku þætti samhliða undanfarin ár. Í umræðunum kom fram almennur stuðningur við góð samskipti ESB við EES/EFTA-ríkin, enda væru ríkin þrjú á meðal nánustu samstarfsríkja ESB. Hins vegar var í umræðu um samningana vikið að erfiðleikum í samskiptum ESB og Noregs á sviði sjávarútvegsmála. Írskur þingmaður sem tók til máls sagði að Brexit hefði haft mikil áhrif á sjávarútveg Írlands en þar koma Norðmenn við sögu t.d. með samningum við Breta um markrílveiðar en Norðmenn hafa tekið sér einhliða kvóta í skiptum við Breta gegn aðgangi að veiðum í breskri lögsögu. Þetta hefur leitt til þess að ESB fær minni kvóta og þar með Írland. Þingmaðurinn beindi því til framkvæmdastjórnarinnar að bregðast við sem fyrst til að stöðva þessa þróun. 

Þess má geta að í júlí í fyrra, þegar árlegar samningaviðræður um fiskveiðisamninga milli ESB og Noregs stóðu sem hæst, fundaði Maroš Šefčovič, núverandi framkvæmdastjóri viðskipta- og efnahagsöryggismála í framkvæmdastjórn ESB tvívegis með utanríkisráðherra Noregs um málið.

Á fundi sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins á miðvikudaginn sl. gerðu sérfræðingar og hagsmunaaðilar grein fyrir stöðu málsins og svöruðu síðan spurningum þingmanna nefndarinnar. Í máli framsögumanna komu fram sömu ávirðingar í garð Norðmanna og frá er greint í bréfi sjávarútvegsnefndar þingsins sem vísað er til hér að framan. Norðmenn voru að auki gagnrýndir fyrir að gera hlutasamkomulag við Breta og Færeyinga um makríl og neita ESB um sögulegan rétt til veiða í þorski. Rætt var um að ESB ætti að nota markaðsaðganginn sem tæki í samningaviðræðum við Norðmenn í ríkari mæli en nú þegar er gert, þ.e. til að hækka tolla á innflutning á norskum sjávarafurðum.  

Þess má geta að framkvæmdastjórn ESB hefur lagt til að reglur um ráðstafanir til að sporna gegn ósjálfbærum veiðum verði endurskoðaðar í þeim tilgangi að vernda fiskistofna gagnvart ríkjum sem þeir telja að leyfi slíkar veiðar, sbr. ESB reglugerð nr. 1026/2012. Meginbreytingin sem unnið er að felst í því að veita ESB heimild til að beita þvingunaraðgerðum ef ríki eru talin ósamvinnuþýð (e. failure to cooperate) s.s. ef þau neita að eiga samráð, virða ekki samþykkt verklag, svara ekki tilboðum eða taka ekki tillit til hagsmuna annarra ríkja o.s.frv. Með þessu leitast ESB við að tryggja sjálfbærar veiðar en ljóst má vera að breytingarnar miða einnig að því að bæta samningsstöðu sambandsins. ESB segir að endurskoðunin beinist ekki gegn neinu ákveðnu ríki en það var ljóst á fundi þingnefndarinnar að þátttakendur í umræðunni töldu þessar breytingar geta gagnast í samningaviðræðum við Noreg.

Hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér.

Umsögn EES/EFTA-ríkjanna um stefnumótun fyrir innri markaðinn

Framkvæmdastjórn ESB vinnur nú að nýrri stefnumótun fyrir innri markað sambandsins (e. Single market strategy) sem ráðgert er að birt verði í formi orðsendingar til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB á öðrum ársfjórðungi þessa árs, líkt og fjallað var um í Vaktinni, 17. janúar sl.

EES/EFTA ríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein hafa í dag skilað umsögn um stefnumótunarvinnuna í samráðsgátt ESB.

Í umsögninni er lögð áhersla á mikilvægi EES-samningsins fyrir EES/EFTA-ríkin, þátttöku ríkjanna í löggjafarstarfi ESB á grundvelli samningsins og hversu vel samþætt ríkin eru í virðiskeðju innri markaðarins. EES/EFTA-ríkin styðji markmið ESB um efnahagslegt öryggi, viðnámsþrótt og samkeppnishæfni og leitist við að styðja áfram í sameiningu grænu og stafrænu umskiptin auk nýsköpunar.

EES/EFTA-ríkin benda á að vegna spennu í alþjóðasamskiptum hafi stefnumótun og löggjafarstarf ESB á sviði innri markaðarins orðið sífellt þverfaglegra og innihaldi í auknum mæli ákvæði um málefni sem falla utan EES-samningsins á borð við viðskiptastefnu sambandsins. Mikilvægt sé að slíkar tillögur reisi ekki nýjar hindranir á innri markaðnum fyrir EES/EFTA-ríkin. Uppskipting innri markaðarins myndi draga úr samkeppnishæfni og efnahagslegu öryggi. Lögð er áhersla á áframhaldandi gott samstarf við ESB til að takast á við sameiginlegar áskoranir við rekstur EES-samningsins.

Lögð er áhersla á að hindranir á innri markaðnum verði fjarlægðar og reglubyrði minnkuð. Lítil og meðalstór fyrirtæki séu uppistaða innri markaðarins og að ekki megi íþyngja þeim um of. Þung reglubyrði dragi úr samkeppni og bindi fjármagn sem annars væri unnt að nýta til nýsköpunar.

Endurskoða eigi úreltar reglur með kerfisbundnum hætti og fella þær úr gildi ásamt því að taka upp alhliða mat á áhrifum af löggjafartillögum framkvæmdastjórnarinnar, m.a. um áhrif þeirra á samkeppnishæfni.

Í umsögninni kemur fram að EES/EFTA-ríkin telji mikil tækifæri felast í grænu og stafrænu umskiptunum. Þau séu til þess fallin að auka viðnámsþrótt ESB og efnahagslegt öryggi. Stafræn tækni og gervigreind séu aflvaki nýsköpunar og samkeppnishæfni ESB til framtíðar. EES/EFTA-ríkin styðji átak ESB til að styrkja aðfangakeðjur, hagvarnir og efnahagslegt öryggi.

Grænu og stafrænu umskiptin hafi skapað eftirspurn eftir aukinni þekkingu og færni vinnuafls. Styðja verði við aukna færni og menntun vinnuafls í gegnum ýmis samvinnuverkefni ESB.

Jöfn samkeppnisskilyrði séu forsenda aukinnar samkeppnishæfni á Evrópska efnahagssvæðinu. Þessu megi ekki gleyma þrátt fyrir aukna samkeppni og hörku í samskiptum efnahagsveldanna. Fara þurfi varlega í sakirnar við endurskoðun reglna um ríkisaðstoð til að koma í veg fyrir uppskiptingu innri markaðarins.

EES/EFTA-ríkin muni hér eftir sem hingað til vera áreiðanlegir og uppbyggilegir samstarfsaðilar ESB og leitast við að finna sameiginlegar lausnir þegar á reynir í EES-samstarfinu. Mikilvægt sé að styðja áfram við innri markaðinn og styðja við vöxt og velsæld í öllum EES-ríkjunum. 

EES/EFTA álit um þátttöku í samstarfsáætlunum ESB á tímabilinu 2028 – 2034

EES/EFTA-ríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein, hafa sent ESB álit (e. EEA EFTA Comment) um þátttöku ríkjanna í samstarfsáætlunum ESB á næsta áætlunartímabili 2028 – 2034 sem nú er í mótun á vettvangi ESB.

Í álitinu er áréttaður ríkur vilji EFTA-ríkjanna innan EES til að taka þátt í mótun áætlana fyrir næsta tímabil og minnt á að EES-samningurinn geri ráð fyrir að EES/EFTA-ríkin og hagaðilar innan þeirra taki virkan þátt í áætlunum og við undirbúning þeirra til jafns við aðildarríki ESB.

Sjá nánar um áherslur EES/EFTA-ríkjanna í álitinu sem birt er á vef EFTA-skrifstofunnar.      

Formennskuáætlun Liechtenstein í fastanefnd EFTA

Liechtenstein tók við formennsku í fastanefnd EFTA (e. EFTA Standing Committee) 1. janúar sl.

Formennska í fastanefndinni gengur á milli EES/EFTA-ríkjanna þriggja, Íslands, Liechtensteins og Noregs, og er formennskutímabilið sex mánuðir í senn og mun Ísland taka við formennskunni á síðari hluta ársins. Fastanefndin er skipuð sendiherrum EES/EFTA-ríkjanna í Brussel og er megin hlutverk hennar að samræma afstöðu ríkjanna gagnvart ESB áður en gerðir eru teknar upp í EES-samninginn á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Formennskuáætlun Liechtenstein er birt á vefsíðu EFTA-skrifstofunnar og er hægt að nálgast hana hér.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta