Starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB, þróun varnarsamstarfs á vettvangi ESB o.fl.
Að þessu sinni er fjallað um:
- starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB
- þróun og stöðu varnarsamstarfs á vettvangi ESB
- viðbrögð ESB við ákvörðun BNA um álagningu tolla á innflutning á áli og stáli
- stefnumótun um langtíma fjármálaáætlun ESB 2028 - 2035
- fund leiðtoga ESB og forsætisráðherra Kanada
- fundi ráðherraráðs ESB um viðskipta- og iðnaðarmál
- aðgerðir til að tryggja örugg og sjálfbær netviðskipti
- opið samráð um fyrirhugaða löggjöf um mikilvæg og lífsnauðsynleg lyf
- framtíðarsýn fyrir árið 2025
Næsti útgáfudagur Vaktarinnar er 7. mars nk.
Starfsáætlun framkvæmdastjórnarinnar
Hinn 11. febrúar sl. birti framkvæmdastjórn ESB starfsáætlun sína fyrir árið 2025.
Um er að ræða fyrstu starfsáætlun nýrrar framkvæmdastjórnar sem tók við embætti 1. desember sl. Áætlunin gefur tóninn fyrir störf framkvæmdastjórnarinnar út skipunartímabilið eða til næstu fimm ára þar sem stefnumótun á lykilsviðum, aðgerðaráætlanir og löggjafartilllögur á komandi ári eru kynntar. Byggist áætlunin í grunninn á pólitískri stefnumörkun (e. Political Guidelines) Ursulu von der Leyen (VdL), forseta framkvæmdastjórnarinnar, sem hún birti í júlí sl. í aðdraganda að kjöri hennar í embætti forseta, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 26. júlí sl. um þær áherslur. Jafnframt byggist starfsáætlunin á erindisbréfum VdL til meðlima framkvæmdastjórnarinnar hvers um sig, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 6. desember sl., um nýja framkvæmdastjórn. Loks byggist starfsáætlunin á fjórum nýlegum skýrslum. Í fyrsta lagi skýrslu Mario Draghi um samkeppnishæfni ESB til framtíðar, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 13. september sl., um þá skýrslu. Í öðru lagi á skýrslu Sauli Niinistö um hvernig styrkja megi viðbúnað og getu ESB í varnar- og almannaöryggismálum, sbr. umfjöllun í Vaktinni 6. desember sl. Í þriðja lagi á skýrslu um framtíð landbúnaðar í ESB, sbr. umfjöllum um þá skýrslu í Vaktinni 11. október sl., og í fjórða lagi á skýrslu Enrico Letta um framtíð innri markaðarins, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 19. apríl sl. um þá skýrslu.
Starfsáætlunin ber yfirskriftina Moving forward together: A Bolder, Simpler, Faster Union og er meginmarkmið hennar að auka samkeppnishæfni, öryggi og efnahagslegan viðnámsþrótt innan ESB.
Með áætluninni fylgir viðaukaskjal þar sem finna má lista yfir mál sem framkvæmdastjórnin hyggst beita sér fyrir á tímabilinu. Skjalið skiptist í fimm hluta. Í fyrsta viðauka er að finna lista yfir 45 ný mál sem framkvæmdastjórnin hyggst leggja fram á árinu. Í öðrum viðauka er að finna lista yfir 37 matsferli og álagspróf á framfylgd tiltekinna stefnumála og gildandi löggjöf ESB sem ráðgert er að ráðast í á árinu. Í þriðja viðauka er að finna lista yfir 123 þegar framlagðar löggjafartillögur, frá síðasta tímabili, sem framkvæmdastjórnin leggur áherslu á að fái áframhaldandi framgang og afgreiðslu í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB, en mörg þeirra mála varða EES-samninginn og hefur verið fjallað um þau í Vaktinni á umliðnum misserum. Í fjórða viðaukanum er að finna skrá yfir 37 löggjafartillögur til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB sem dregnar verða til baka. Í fimmta og síðasta viðaukanum er að finna skrá yfir fjórar ráðsreglugerðir sem felldar verða niður.
Gríðarlega rík áhersla er lögð á einföldun regluverks í starfsáætluninni, einkum til að auka samkeppnishæfni og létta reglubyrði þvert á atvinnulífið og er boðuð röð af bandorms-löggjafartillögum (e. Omnibus packages) sem ætlaðar eru til einföldunar á mismunandi sviðum. Í því sambandi verður m.a. sérstaklega horft til þess hvernig létta megi reglubyrði í landbúnaði og tengdum greinum. Til að leggja áherslu á þann ásetning framkvæmdastjórnarinnar að einfalda regluverk fylgir starfsáætluninni sérstök orðsending um einföldun regluverks. Með þessu er fylgt eftir stefnumiðum VdL um að gripið verði til víðtækra aðgerða til að létta á reglubyrði, en í erindisbréfum meðlima framkvæmdastjórnarinnar er þeim, hverjum fyrir sig, gert að yfirfara löggjöf á sínu málefnasviði með einföldun að leiðarljósi. Í því skyni stendur m.a. til að innleiða nýtt álagspróf sem notað verði til að meta þá byrði sem hlýst af regluverki ESB.
Starfsáætlunin skiptist í eftirfarandi sjö meginþætti:
- Ný áætlun um sjálfbæra hagsæld og samkeppnishæfni (e. A new plan for Europe’s sustainable prosperity and competitiveness)
- Nýir tímar í varnar- og öryggismálum Evrópu (e. A new era for European Defence and Security)
- Stuðningur við samfélög og velferðarkerfi (e. Supporting people, strengthening our societies and our social model)
- Viðhald lífsgæða: landbúnaður, fæðuöryggi, vatnsvernd og náttúruvernd (e. Sustaining our quality of life: farming, food security, water and nature
- Vernd lýðræðis og grunngilda ESB (e. Protecting our democracy, upholding our values)
- ESB á sviði heimsmála: Nýtum styrkleikana og samstarfið (e. A global Europe: Leveraging our power and partnerships)
- Árangur fyrir alla og undirbúningur fyrir framtíðina (e. Delivering together and preparing our Union for the future)
Hér á eftir verður nánar fjallað um þessa meginþætti starfsáætlunarinnar og nýja stefnumótun og löggjafartillögur sem þar hanga á spýtunni.
Ný áætlun um sjálfbæra hagsæld og samkeppnishæfni
Óhætt er að segja að meginþunginn í starfsáætluninni felist í þessum þætti hennar þar sem aðgerðir til að auka samkeppnishæfni innri markaðar ESB eru í algerum forgangi. Þessi áhersla á samkeppnishæfni sem snýr jöfnum höndum að aðgerðum sem miða að því að auka samkeppnishæfni innri markaðarins inn á við og aðgerðum sem miða að því að koma við hagvörnum, ef þarf, til að tryggja aðföng og efnahagslegt öryggi ESB út á við. Þessi áhersla á aukna samkeppnishæfni og strategískt sjálfræði ESB hefur verið afar áberandi í umræðu á vettvangi ESB á umliðnum misserum eins og ítarlega hefur verið fjallað um í Vaktinni við ýmis tilefni.
Nýjar stefnumótunaráætlanir og löggjafartillögur sem boðaðar eru undir þessum þætti áætlunarinnar eru:
- Leiðarvísir fyrir aukna samkeppnishæfni (e. Competitiveness Compass).
Orðsendingin er þegar komin fram, sbr. umfjöllun í Vaktinni 31. janúar sl.
- Stefnumótun fyrir innri markaðinn (e. Single Market Strategy).
Málið er á mótunarstigi hjá framkvæmdastjórninni og nýlega lauk opnu umsagnarferli um málið, þar sem EES/EFTA-ríkin skiluðu m.a. inn umsögn, sbr. umfjöllun í Vaktinni 31. janúar sl.
- Sex löggjafartillögur til einföldunar regluverks, þar af eru þrjár bandormstillögur, á mismunandi málefnasviðum boðaðar undir þessum þætti áætlunarinnar.
- Grænn iðnaðarsáttmáli (e. Clean Industrial Deal).
Grænn iðnaðarsáttmáli er í raun beint framhald af Græna sáttmálanum og þá jafnframt af framkvæmdaáætlun (iðnaðaráætlun) Græna sáttmálans, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 10. febrúar 2023, um þá áætlun. Ljóst er þó að fókusinn hefur færst til, þ.e. hann er nú í grunninn settur á iðnaðarmarkmiðin en síður á umhverfismarkmiðin. Hátt og sveiflukennt orkuverð innan ESB er talin vera megináskorunin þegar kemur að því að efla samkeppnishæfni. Til að mæta því er stefnt að því að auka framleiðni og aðgengi að hreinni orku á viðráðanlegu verði. Boðað hefur verið að sáttmálinn verði birtur í lok febrúar nk. og mun hann fela í sér áætlun þar sem markmiðin um afkolun (e. decarbonisation) og aukna samkeppnishæfni verða samþætt. Gert er ráð fyrir að með sáttmálanum verði leiðin að markmiðinu um 90% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2040 vörðuð, en til stendur að binda það markmið í loftlagslöggjöf ESB í framhaldinu.
- Aðgerðaplan um bætt aðgengi að orku á viðráðanlegu verði (e. Affordable Energy Action Plan).
- Löggjafartillaga um hröðun á afkolun í iðnaði (e. Industrial Decarbonisation Accelerator Act).
- Stefna um sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og vöxt þeirra (e. EU start-ups and scale-ups).
Þessi stefna tengist boðaðri tillögu um nýja sameiginlega reglubók á sviði fyrirtækjaréttar, gjaldþrotaskiptaréttar og vinnu- og skattaréttar til að einfalda regluumhverfi nýsköpunarfyrirtækja óháð því hvar þau ákveða að fjárfesta og starfa á innri markaðinum. Er væntanlegt regluverk nefnt 28. lögsagnarumdæmið (e. 28th legal regime).
- Sparnaðar- og fjárfestingasamband ESB (e. Savings and Investment Union).
Tillagan sem á rót sína að rekja til skýrslu Enricos Letta um framtíð innri markaðarins, sem áður hefur verið vísað til. Hún er hluti af áætlun um uppbyggingu hins sameiginlega fjármagnsmarkaðar (e. Capital Markets Union), sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 31. maí sl. um þá áætlun. Hagsmunir sem hér hanga á spýtunni eru taldir gríðarlega miklir en talið er að unnt gæti verið að laða að 470 milljarða evra í fjárfestingu til viðbótar við það sem nú er.
- Löggjafartillaga um stafræna innviði (e. Digital Networks Act).
Tillögunni er m.a. ætlað að auðvelda samtengingu stafrænna innviða yfir landamæri.
- Gervigreindaráætlun (e. AI Continent Action Plan).
Stefnt er á að ESB verði í fararbroddi er kemur að gervigreind, ekki bara við reglusetningu á því sviði, heldur einnig við þróun hennar og hagnýtingu.
- Skammtafræðiáætlun (e. Quantum Strategy of EU).
Gert er ráð fyrir að í kjölfar áætlunarinnar verði lögð fram löggjafartillaga til að tryggja stöðu ESB á þessu mikilvæga nýsköpunarsviði.
- Löggjafartillaga um geimrétt (e. Space Act).
- Lífhagkerfisáætlun (e. Bioeconomy Strategy).
- Áætlun um að hætta öllum orkuinnflutningi frá Rússlandi (e. Roadmap towards ending Russian energy imports)
- Fjárfestingaáætlun um sjálfbærar samgöngur (e. Sustainable Transport Investment Plan).
Nýir tímar í varnar- og öryggismálum Evrópu
Eins og rakið í sérstakri umfjöllun hér að neðan í Vaktinni hefur þróun samstarfs á sviði varnar- og öryggismála verið afar hröð á undanförnum misserum. Starfsáætlun framkvæmdastjórnarinnar endurspeglar þennan breytta veruleika á skýran hátt.
Nýjar stefnumótunaráætlanir og löggjafartillögur sem boðaðar eru undir þessum þætti áætlunarinnar eru:
- Hvítbók um framtíð varnarsamstarfs í Evrópu (e. White Paper on the Future of European Defence).
Er hvítbókinni ætlað að leggja grundvöll að víðtæku samráði um framtíð varnarsamstarfs á vettvangi ESB, um fjárfestingarþarfir, varnargetu og fjármögunarmöguleika.
- Viðbúnaðaráætlun ESB (e. EU Preparedness Union Strategy).
Áætlunin mun taka til eflingar viðbúnaðar vegna mögulegs krísuástands sem upp getur komið á mismunandi sviðum og af mismunandi orsökum svo sem loftslagsbreytingum, farsóttum o.s.frv. Verður m.a. litið til Niinistö-skýrslunnar við gerð áætlunarinnar.
- Löggjafartillaga um mikilvæg og lífsnauðsynleg lyf (e. Critical Medicines Act)
Sjá umfjöllun um þessi löggjafaráform hér að neðan í Vaktinni.
- Stefna um stuðning við læknifræðilegar mótvægisaðgerðir gegn lýðheilsuógnum (e. Strategy to support medical countermeasures against public health threats).
Stefnunni er ætlað að styðja við framangreinda viðbúnaðaráætlun ESB.
- Birgðastöðuáætlun (e. EU Stockpiling Strategy)
Þessari áætlun er sömuleiðis ætlað að styðja við framangreinda viðbúnaðaráætlun ESB.
- Stefna um innri öryggismál ESB (e. New European Internal Security Strategy)
Stefnan mun m.a. lúta að baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi þvert á landamæri innan ESB.
- Löggjafartillaga um ólögmæta skotvopnasölu (e. Firearms Trafficking Directive).
- Aðgerðaráætlun um netöryggi sjúkrahúsa og annarra veitenda heilbrigðisþjónustu (e. Action plan on the cybersecurity of hospitals and healthcare providers).
Aðgerðaráætlunin hefur þegar verið lögð fram, sbr. umfjöllun í Vaktinni 31. janúar sl.
- Löggjafartillaga um sameiginlega nálgun við endursendingar á fólki í ólögmætri för (e. New common approach on returns).
- Stefnumótun í málefnum flótta- og farandfólks (e. European Migration and Asylum Strategy)
Áhersla verður lögð á innleiðingu nýsamþykkts löggjafarpakka um málefni flótta- og farandfólks (e. Asylum & Migration Pact), sbr. umfjöllun um innleiðingaráætlun ESB vegna þeirrar löggjafar í Vaktinni 28. júní sl. Samhliða því er ráðgert að tefla fram nýrri framtíðarstefnumótun á þessu sviði.
Stuðningur við samfélög og velferðarkerfi
Fram kemur að lífsgæði í ESB séu einstök. Kreppur undanfarinna ára hafi þó haft áhrif á lífsgæði margra. Tryggja verði sanngirni og jöfn tækifæri fyrir alla og forðast misskiptingu.
Nýjar stefnumótunaráætlanir og löggjafartillögur sem boðaðar eru undir þessum þætti áætlunarinnar eru:
- Nýtt aðgerðarplan til innleiðingar á félagslegri réttindastoð ESB (e. A new action plan to implement the European Pillar of Social Right).
Sjá til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 18. nóvember 2022 um félagslega réttindastoð ESB.
- Vegvísir um sköpun vandaðra starfa (e. Quality jobs roadmap)
- Færniátak (e. Union of Skills).
- Neytendastarfsskrá og aðgerðaáætlun um bætta stöðu neytenda á innri markaðinum (e. 2030 Consumer Agenda, including an action plan for consumers in the Single Market).
Sjá m.a. í þessu samhengi umfjöllun hér að neðan um aðgerðir ESB til að tryggja örugg og sjálfbær netviðskipti.
Viðhald lífsgæða: landbúnaður, fæðuöryggi, vatnsvernd og náttúruvernd -
Nýjar stefnumótunaráætlanir og löggjafartillögur sem boðaðar eru undir þessum þætti áætlunarinnar eru:
- Löggjafartillaga um breytingu á loftslagslöggjöf ESB (e. European Climate Law amendment).
Í tillögunni er m.a. gert ráð fyrir að markmiðið um 90% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2040 verði lögfest.
- Framtíðarsýn fyrir evrópskan landbúnað og fæðuöryggi í ESB (e. Vision for Agriculture and Food).
- Löggjafartillaga um einföldun regluverks á sviði landbúnaðar (e. Common Agricultural Policy simplification package).
- Sáttmáli um málefni hafsins (e. Ocean Pact).
Í sáttmála um málefni hafsins verður sjálfbærni höfð að leiðarljósi.
- Ný stefnumótun um vatnsvernd (e. European Water Resilience Strategy).
Vernd lýðræðis og grunngilda ESB
Ný stefnumörkun og löggjafartillögur sem boðaðar eru undir þessum þætti áætlunarinnar eru:
- Áætlun um lýðræðisvarnir (e. European Democracy Shield).
- Áætlun um að styðja við, vernda og efla samfélagslega innviði (e. EU Strategy to support, protect and empower the civil society).
- Leiðarvísir um réttindi kvenna (e. Roadmap for Women’s Rights).
Boðað er að leiðarvísirinn verður birtur á næsta alþjóðlega baráttudegi kvenna, þ.e. 8. mars nk.
- Ný stefna í málefnum hinsegin fólks og stefna í baráttunni gegn kynþáttahyggju (e. New equality strategies for LGBTIQ and Anti-racism).
ESB á sviði heimsmála: Nýtum styrkleikanna og samstarfið
Nýjar stefnumótunaráætlanir og löggjafartillögur sem boðaðar eru undir þessum þætti áætlunarinnar eru:
- Miðjarðarhafsáætlun ESB (e. Pact for the Mediterranean).
Markmið áætlunarinnar er að efla og auka samskipti við þriðju ríki sem liggja að Miðjarðarhafinu.
- Svartahafsáætlun ESB (e. EU strategic approach to the Black Sea/ Black Sea Strategy).
- Stefnumótun um samskipti ESB og Indlands (e. Joint Communication on a new Strategic EU-India Agenda).
Boðað hefur verið að framkvæmdastjórnin undir forustu VdL muni sækja Indland heim í lok febrúar til að ræða samskipti ríkjanna og áframhaldandi viðræður um fríverslunarsamning á milli ESB og Indlands.
Árangur fyrir alla og undirbúningur fyrir framtíðina.
Nýjar stefnumótunaráætlanir og löggjafartillögur sem boðaðar eru undir þessum þætti áætlunarinnar eru:
- Ný langtíma fjármálaáætlun ESB 2028 – 2035 (e. Post-2027 Multiannual Financial Framework proposals).
Formlegur undirbúningur fyrir nýja fjármálaáætlun ESB til sjö ára er þegar hafinn, sbr. sérstaka umfjöllun hér að neðan í Vaktinni.
- Stefnumótun og umbætur sem talið er nauðsynlegt að ráðast í áður en til inntöku nýrra aðildarríkja kemur (e. An EU fit for enlargement: policy reviews and reforms).
Framangreind starfsáætlun framkvæmdastjórnarinnar, sem og stefnumörkun VdL og erindisbréf framkvæmdastjóra, verða lögð til grundvallar við mótun á nýjum forgangslista vegna hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB en undirbúningur að gerð listans er nú þegar hafinn undir forystu forsætisráðuneytis og utanríkisráðuneytis, sem og með þátttöku allra ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Gert er ráð fyrir að drög að hagsmunagæsluskjali og forgangslista verði birt í opnu samráði í samráðsgátt stjórnvalda áður en skjalið kemur til afgreiðslu í ríkisstjórn, að undangengnu sérstöku samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.
Þróun og staða varnarsamstarfs á vettvangi ESB
Efnisyfirlit umfjöllunar
- Inngangur
- Almenn stefnumörkun ESB á sviði varnarmála
- Niinistö-skýrslan
- Ný staða framkvæmdastjórnar varnarmála og fastanefnd Evrópuþingsins um öryggis- og varnarmál
- Samstarfsyfirlýsingar um öryggis- og varnarmál
- Óformlegur fundur leiðtogaráðs ESB 3. febrúar sl.
- Weimar+ yfirlýsingin
- Öryggisráðstefnan í München
Inngangur
Þróun varnarsamstarfs á vettvangi ESB hefur verið hröð á undanförnum misserum, og er ljóst að innrás Rússlands í Úkraínu 24. febrúar 2022, eða fyrir rétt tæpum þremur árum síðan, og sú gjörbreytta staða í varnar- og öryggismálum sem skapast hefur í kjölfar innrásarinnar hefur flýtt mjög fyrir þeirri þróun. Breytt stefnumörkun á þessu sviði hefur verið leidd af leiðtogaráði ESB og birtist sú breytta sýn strax í kjölfar innrásarinnar með Versalayfirlýsingunni sem ráðið sendi frá sér skömmu eftir upphaf innrásarinnar í mars 2022. Breytt sýn og áherslur birtust einnig skýrlega í Granadayfirlýsingu leiðtogaráðsins sem gefin var út í framhaldi af fundi ráðsins 6. október 2023, sbr. umfjöllun í Vaktinni 13. október 2023, sbr. einnig stefnuáætlun leiðtogaráðsins til næstu fimm ára sem birt var í júní sl., sbr. umfjöllun um þá áætlun í Vaktinni 26. júlí sl. Í samræmi við framangreindar áherslubreytingar hafa varnarmál verið á meðal umræðuefna á svo að segja öllum fundum ráðsins frá því að stríðið braust út og var það engin undantekning á óformlegum fundi leiðtogaráðsins 3. febrúar sl., sbr. nánari umfjöllun um þann fund hér að neðan.
Almenn stefnumörkun ESB sviði varnarmála
Framangreind breytt sýn um hlutverk ESB á sviði varnarmála birtist ef til vill hvað skýrast í byrjun mars 2023 þegar framkvæmdastjórn ESB og utanríkismálastjóri ESB sendu frá sér orðsendingu um stefnumörkun á sviði varnarmála, þá fyrstu sinnar tegundar, þar sem lagðar voru til metnaðarfullar aðgerðir til að styðja við samkeppnishæfni og framleiðslugetu hergagnaiðnaðarins innan ESB (e. defence industrial strategy) auk þess sem vikið er að auknu varnarmálasamstarfi almennt, sbr. nánari umfjöllun um orðsendinguna í Vaktinni 15. mars 2024.
Niinistö-skýrslan
Þann 30. október sl. var birt skýrsla Sauli Niinistö, fv. forseta Finnlands, um borgaralegan og hernaðarlegan viðbúnað og viðbragðsgetu . Skýrslan ber yfirskriftina Safer together og var unnin að beiðni forseta framkvæmdastjórnar ESB, Ursulu von der Leyen (VdL). Er í skýrslunni leitast við að leggja mat á þær flóknu og fjölþátta áskoranir sem ESB og aðildarríki þess standa frammi fyrir á sviði varnarmála og almannavarna nú um stundir og til framtíðar og hvaða leiðir eru helst færar til að efla viðbúnað sambandsins á þessum sviðum. Skýrslan er m.a. hugsuð sem liður í mótun hvítbókar um framtíð varnarsamstarfs á vettvangi ESB (e. White Paper on the Future of European Defence), sem framkvæmastjórnin vinnur nú að, en stefnt er að því að hvítbókin verði kynnt í mars nk., svo sem vikið var að í umfjöllun um starfsáætlun framkvæmdastjórnarinnar hér að framan, og við mótun nýrrar viðbúnaðarstefnu fyrir ESB (e. Preparedness Union Strategy), sbr. nánari umfjöllun um skýrslu Niinistö í Vaktinni 6. desember sl.
Ný staða framkvæmdastjórnar varnarmála og fastanefnd Evrópuþingsins um öryggis- og varnarmál
Framangreindar áherslubreytingar hafa jafnframt birst skýrlega í breytingum sem gerðar hafa verið á skipulagi innan ESB og er þar helst að nefna að við skipun nýrrar framkvæmdastjórnar ESB, að afloknum kosningum til Evrópuþingsins síðastliðið sumar, var ákveðið að setja á fót nýja stöðu framkvæmdastjóra varnarmála og var Andrius Kubilius frá Litáen skipaður í þá stöðu, sbr. nánar um verkefni hans í erindisbréfi, sbr. einnig umfjöllun Vaktarinnar 6. desember sl., um nýja framkvæmdastjórn ESB. Þá samþykkti Evrópuþingið í desember sl. að setja á fót nýja fastanefnd um öryggis- og varnarmál, sbr. umfjöllun í Vaktinni 20. desember sl.
Samstarfssyfirlýsingar um öryggis- og varnarmál
Breyttar áherslur ESB á sviði varnarmála hafa ekki einvörðungu snúið að innri stefnumótun og skipulagi heldur einnig að tvíhliða samskiptum ESB við ríki utan sambandsins. Þáttur í því eru samstarfsyfirlýsingar um öryggis- og varnarmál en með þeim er hrint í framkvæmd tillögum í strategískri áætlun ESB sem samþykkt var af öllum aðildaríkjum ESB einungis fáum vikum eftir að árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu braust út og nefnd er Strategic Compass. Á grundvelli þessarar áætlunar hefur ESB nú þegar undirritað samstarfsyfirlýsingar við sex ríki þ.e. Noreg, Moldóvu, Suður-Kóreu, Japan, Albaníu og Norður-Makedóníu og fleiri slíkir yfirlýsingar eru í farvatninu m.a. við Bretland, sbr. umfjöllun hér að neðan um kvöldverðarfund Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands með leiðtogaráði ESB. Sjá nánar um tvíhliða samstarfsyfirlýsingar um öryggis- og varnarmál ESB við ríki utan ESB í reifun hugveitu Evrópuþingsins.
Óformlegur fundur leiðtogaráðs ESB
Óformlegur fundur leiðtogaráðs ESB var haldinn í Brussel 3. febrúar sl. Eins og fram kom í boðsbréfi António Costa, forseta leiðtogaráðs ESB, sem hann sendi leiðtogum ESB-ríkjanna fyrir fundinn, sbr. umfjöllun í Vaktinni 17. janúar sl., var fundurinn að mestu til helgaður umræðu um varnarmál og í því sambandi meðal annars hugsaður sem þáttur í undirbúningi áðurnefndrar hvítbókar um framtíð varnarsamstarfs innan ESB. Eins og lagt var upp með í boðsbréfi forseta leiðtogaráðsins fyrir fundinn var sjónum einkum beint að þremur grundvallarálitaefnum sem fyrir ESB liggur að móta afstöðu til, þ.e.:
- Hvernig skilgreina eigi varnarviðbúnað sem nauðsynlegt er að aðildarríkin þrói og byggi upp sameiginlega með hliðsjón af sameiginlegum öryggishagsmunum?
- Hvort samstaða sé um það í ráðinu að auka sameiginleg framlög til varnarmála og verja þeim með skipulögðum hætti? Hvernig unnt sé að auka fjármögnun af hálfu einkaaðila og hvaða úrræði henti best til þess? Hvernig best sé að nýta fjárlög ESB til skemmri og lengri tíma í þessu skyni? Í ljósi þess hversu fjármögnunarþörfin er mikil, hvaða aðrir kostir við fjármögnun komi til greina?
- Hvernig getur ESB eflt og dýpkað samstarf sitt við núverandi samstarfsríki utan ESB? Hvaða markmið á setja í samstarfi við samstarfsríki og hver á forgangsröðunin að vera?
Ekki var við því að búast fyrir fundinn að leiðtogarnir myndu ná sameiginlegri afstöðu til þeirra stóru álitaefna sem reifuð eru í boðsbréfinu heldur var markmiðið fremur að opna umræðuna um þessi málefni með afgerandi hætti. Af niðurstöðum fundarins og ummælum António Costa að honum loknum má ætla að það hafi að einhverju marki tekist en þar sagði hann m.a. að umræðan snerist ekki lengur um það hvort auka ætti samstarfið heldur hvernig (e. We're not discussing the 'if' anymore, we're discussing the 'how'). Samkvæmt niðurstöðum fundarins spannst umræðan á fundinum um fjögur eftirtalin megin atriði, sem endurspegla uppleggið í boðsbréfinu, þ.e. um aukna varnargetu, fjármögnun aðgerða, aukna samkeppnishæfni og strategískt samstarf við þriðju ríki og yfir Atlantshafið
Aukin varnargeta
Í ljósi öryggisáskorana sem árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu hefur haft í för með sér, aukinnar kjarnorkuógnar, net- og fjölþáttaógna sem og óstöðugleika í Austurlöndum nær, er talið að ESB verði að auka varnargetu sína og strategískt sjálfræði. Í því sambandi var sjónum sérstaklega beint að verkefnasviðum þar sem talið var að aukið samstarf á vettvangi ESB geti haft virðisauka í för með sér, þ. á m. á sviði:
- loftvarna og loftvarnakerfa,
- flugskeyta og skotfæra,
- hreyfanleika hersveita,
- og stefnumótunar.
Í þessu samhengi er lögð áhersla á eflingu og uppbyggingu hergagnaiðnaðar í ESB og samstarf á því sviði sem og aukin sameiginleg innkaup.
Fjármögnun aðgerða
ESB og aðildarríki þess eru sammála um að verja þurfi meiru til varnarmála og gera það með betri og samþættari hætti en verið hefur. Í því samhengi var áréttað að framlög til varnarmála hafi aukist um 30% á tímabilinu frá 2021 – 2024. Þannig voru heildarframlög ESB og aðildarríkja þess 326 milljarðar evra á árinu 2024, og þar af ráðstafaði ESB 16,4 milljörðum evra í málaflokkinn. Er talið að auka megi þau framlög á tímabilinu 2025 – 2027, þá einkum á grundvelli stefnumörkunar um aukna samkeppnishæfni og framleiðslugetu hergagnaiðnaðarins innan ESB (e. European defence industrial strategy) frá því í mars á síðasta ári, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 15. mars sl.
Í þessu sambandi ræddu leiðtogarnir leiðir til að tryggja fjármögnun með skilvirkari hætti, m.a. á grundvelli:
- opinberrar fjármögnunar og einkafjármögnunar, m.a. í gegnum Evrópska fjárfestingabankann,
- fjárlaga ESB,
- og annarra almennra fjármögunarvalkosta. (Er hér að líkindum m.a. vísað til mögulegrar sameiginlegrar skuldabréfaútgáfu, en sú leið hefur þó verið afar umdeild á meðal aðildarríkjanna.)
Í þessu samhengi tilkynnti framkvæmdastjórnin að hún hyggist skoða leiðir til að skapa aukinn sveigjanleika í sameiginlegum reglum ESB um efnahagsstjórn og fjármálastöðugleika til að skapa meira svigrúm fyrir útgjöld til varnarmála í ríkisfjármálum aðildarríkjanna.
Aukin samkeppnishæfni
Leiðtogarnir ræddu hvernig auknar fjárfestingar í varnarmálum gætu skilað sér í aukinni samkeppnishæfni, atvinnusköpun og hagsæld fyrir bæði fólk og fyrirtæki. Til dæmis er bent á að fjárfesting hafi aukist um 16,9% á milli áranna 2022 og 2023 með fjölgun starfa á varnarmálasviðinu um 8,9%.
Strategískt samstarf við þriðju ríki og yfir Atlantshafið
Með auknu viðnámsþoli og sterkari stöðu á sviði öryggis- og varnarmála er talið að ESB geti orðið enn áreiðanlegri samstarfsaðili á því sviði og í samskiptum yfir Atlantshafið. Í því samhengi ræddu leiðtogarnir leiðir til að styrkja og dýpka enn frekar samstarfið við samstarfsríki, þar á meðal samvinnuna innan NATO og samstarfið við Bandaríkin (BNA) og Bretland.
Samskipti ESB og BNA voru töluvert rædd á fundinum. Að loknum fundinum lagði forseti leiðtogaráðsins áherslu á að þegar vandamál og ágreiningur kæmi upp þyrffi einfaldlega að taka á þeim og finna lausnir án þess þó að gefa afslátt af grundvallargildum og -hagsmunum. Gildi svo sem fullveldi, friðhelgi yfirráðasvæðis og landamærahelgi séu grunnstoðir alþjóðakerfisins sem ESB og BNA hafi átt ríkan þátt í að varðveita. Leiða má getum að því að vísun til fullveldis- og friðhelgisgildanna hafi m.a. vísað til Grænlands jafnvel þótt hann hafi ekki sagt það berum orðum. BNA væru vinaríki, bandamaður og samstarfsaðili og samstarf þeirra ætti sér djúpar rætur og myndi standast tímans tönn (e. „The United States is our friend, our ally and our partner. This is a relationship that has deep roots and will endure in time“).
Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands mætti til kvöldverðar með leiðtogunum og var þetta í fyrsta skipti frá Brexit sem breskur forsætisráðherra mætir til fundar með öllum leiðtogum aðildarríkja ESB. Vonir Breta höfðu staðið til að ljúka gerð yfirlýsingar um öryggis- og varnarmál (Security partnership), með svipuðu sniði og ESB hefur þegar gert við sex önnur ríki, á grundvelli Strategic Compass sem nánar er fjallað um hér að framan, en af því varð þó ekki á fundinum. Í lok fundarins greindu Costa og VdL, hins vegar frá því að leiðtogar ESB muni mæta til fundar í Bretlandi í maí nk. til þess að ræða nánara öryggis- og varnarsamstarf Bretlands og ESB.
Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, mætti einnig til fundarins og snæddi hann hádegisverð með leiðtogunum. Sjá nánar um aðkomu hans að fundinum í fréttatilkynningu NATO.
Weimar+ yfirlýsingin
Síðastliðinn miðvikudag sendi utanríkismálastjóri ESB, Kaja Kallas, ásamt utanríkisráðherrum Þýskalands, Frakklands, Póllands, Ítalíu, Spánar og Bretlands frá sér sameiginlega yfirlýsingu um stuðning við Úkraínu þar sem áréttað er að Úkraína og Evrópa verði að fá fulla aðild að samningaviðræðum um mögulegt vopnahlé eða lok átakanna í Úkraínu til að tryggja langvarandi og réttlátan frið til handa Úkraínu, sem sé sömuleiðis forsenda öryggis í álfunni og yfir Atlantshafið. Þá áréttuðu ráðherrarnir ríkan vilja til að ræða næstu skref við bandaríska bandamenn sína. Var yfirlýsingin send út í kjölfar fregna af því að forseti Bandaríkjanna og forseti Rússlands hefðu átt langt samtal um möguleg endalok stríðsins auk þess sem Bandaríkjaforseti átti samtal við forseta Úkraínu í framhaldi af því fyrrnefnda. Yfirlýsingin kom einnig í kjölfar ummæla varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Pete Hegseth, á fundi í NATO þar sem hann sagði óraunhæft að ætla að Úkraína gæti endurheimt allt sitt landsvæði á ný og jafnframt að traustar öryggistryggingar fyrir Úkraínu í framhaldi af vopnahléi verði að byggja á liðsafla frá Evrópu og öðrum ríkjum og að slíkt friðargæsluverkefni verði ekki aðgerð á vegum Atlantshafsbandalagsins. Svo virðist sem hvorki ESB né einstök aðildarríki þess eða önnur Evrópuríki hafi verið höfð með í ráðum í þessum samtölum og yfirlýsingunum bandarískra stjórnvalda.
Í gær, fimmtudag, fór svo fram fundur varnarmálaráðherra aðildarríkja NATO, þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, tók þátt ásamt Hegseth og öðrum varnarmálaráðherrum NATO-ríkjanna. Sjá nánar um fundinn í fréttatilkynningu NATO og í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins.
Öryggisráðstefnan í München
Hin árlega öryggisráðstefna í München hófst í dag. Mikil athygli er á ráðstefnunni að þessu sinni sem endurspeglar vitaskuld þá miklu spennu sem uppi er í öryggis- og varnarmálum í heiminum. Fjöldinn allur af háttsettum ráðamönnum mun sækja ráðstefnuna að þessu sinni m.a. forsætisráðherra Íslands, Kristrún Frostadóttir, og utanríkisráðherra Íslands, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Mun forsætisráðherra m.a. taka þátt í pallborðsumræðum á sunnudaginn auk þess sem hún og Þorgerður munu eiga ýmsa tvíhliða fundi. Tólf meðlimir framkvæmdastjórnar ESB munu taka þátt í ráðstefnunni, þar á meðal VdL sem flutti ræðu í dag þar sem hún kynnti meðal annars áætlun um aukin framlög til varnarmála. Varaforseti Bandaríkjanna, J.D. Vance, sem og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Marco Rubio, verða einnig á ráðstefnunni. Mun Rubio að auki taka þátt í fundi utanríkisráðherra G7-ríkjanna sem haldinn verður í München samhliða ráðstefnunni. Forseti Úkraínu, Volodymyr Zelenskyy, sækir ráðstefnuna jafnframt og margir fleiri.
Viðbrögð ESB við ákvörðun BNA um álagningu tolla á innflutning á áli og stáli
Ursula von der Leyen (VdL), forseti framkvæmdastjórnar ESB, sendi frá sér stutta yfirlýsingu síðastliðinn þriðjudag í kjölfar þess að forseti Bandaríkjanna (BNA), Donald Trump, tók ákvörðun um álagningu 25% tolls á allt innflutt ál og stál til Bandaríkjanna óháð því hvaðan það kemur. Í tilkynningunni harmar VdL ákvörðunina og minnir á að tollar séu skattar á fólk og fyrirtæki. Þá tekur hún fram að ósanngjörnum tollaálögum verði ekki látið ósvarað og að þeim verði mætt meðákveðnum en hóflegum mótvægisaðgerðum til að vernda hagsmuni ESB, atvinnulífs og neytenda. Í dag birti framkvæmdastjórn ESB síðan nýja yfirlýsingu um tollastefnu Bandaríkjanna.
Enn á eftir að koma í ljós hvort ESB muni grípa til mótvægisaðgerða í tilefni af framangreindri tollaálagningu, en til að meta stöðuna voru viðskiptaráðherrar ESB-ríkjanna m.a. boðaðir til sérstaks fjarfundar af hálfu pólsku formennskunnar síðastliðinn miðvikudag.
Fyrir liggur að ESB hefur um nokkurt skeið unnið að undirbúningi mögulegra mótvægisaðgerða komi til þess að BNA leggi aukna tolla á vöruinnflutning frá ESB eins og Bandaríkjaforseti hefur boðað. Þá hafa fréttir einnig borist af því að ESB hafi sent háttsetta sendinefnd til Washington í síðustu viku til að leita sameiginlegra lausna í viðskipta- og tollamálum. Í tengslum við leiðtogafund um í París í vikunni sem leið áttu svo VdL og Kaja Kallas utanríkismálastjóri ESB fund með J.D. Vance þar sem m.a. voru rædd viðskiptatengsl ríkjanna,, sbr. útskrift VdL af fundi hennar og Vance.
.jpg?proc=MediumImage)
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, J.D. Vance, varaforseti Bandaríkjanna, Kaja Kallas, utanríkismálastjóri ESB, o.fl.
Íslensk stjórnvöld hafa í samskiptum sínum við ESB að undanförnu lagt áherslu á að komi til mótvægisaðgerða af hálfu ESB verði gætt að stöðu EES/EFTA-ríkjanna, m.a. með hliðsjón af þátttöku þeirra í innri markaði ESB á grundvelli EES-samningsins, sbr. m.a. fundi utanríkisráðherra með ráðamönnum ESB nýverið, sbr. umfjöllun í Vaktinni 17. janúar sl., sbr. einnig umfjöllun hér að neðan í Vaktinni um þátttöku atvinnuvegaráðherra, Hönnu Katrínar Friðriksson, á óformlegum fundi ráðherraráðs ESB um viðskipta- og iðnaðarmál.
Stefnumótun um langtíma fjármálaáætlun ESB 2028 - 2035
Framkvæmdastjórn ESB birti í vikunni orðsendingu um leiðina að næsta langtíma fjárhagsramma ESB (e. The Road to the next Multiannual Financial Framework). Fjárhagsramminn markar stefnu yfir næsta sjö ára tímabil frá 2028 – 2035, en í lok árs 2027 lýkur tímabili núverandi áætlunar. Langtíma áætluninni er ætlað að stuðla að fyrirsjáanleika í útgjöldum ESB og leggja grundvöll að árlegum fjárlögum sambandsins.
Í orðsendingunni koma fram helstu áskoranir í stefnumótun og fjármögnun sem munu móta útfærslu næsta fjárhagsramma. Má þar nefna háan orkukostnað í Evrópu, skort á vinnuafli og þekkingu, ónægt aðgengi nýsköpunar- og vaxtarfyrirtækja að fjármagni, spennu á alþjóðavettvangi, uppbyggingu á sviði varnarmála, áætlanir um stækkun ESB, innflytjendamál o.fl. Ljóst þykir að laga þurfi fjármögnun innan ESB til lengri tíma að breyttum þörfum og forgangsmálum.
Aukin fjármögnunarþörf ESB kallar á nýjar leiðir til að afla tekna fyrir ESB, að mati framkvæmdastjórnarinnar. Er í þessu sambandi helst horft til þess að fjölga sjálfstæðum tekjustofnum ESB (e. own resources) en eins og staðan er nú er langstærstur hluti fjárlaga ESB fjármagnaður með beinum fjárframlögum frá aðildarríkjunum samkvæmt ákveðnum reglum. Aðildarríkin eru ekki sammála um að hvaða marki nauðsynlegt er að styrkja fjárhagslega burði ESB með þessum hætti enda glíma aðildarríkin mörg hver við þrönga fjárhagsstöðu og þrýstingur til frekari útgjalda heima fyrir fer vaxandi.
Reifaðar eru mögulegar breytingar á því hvernig fjárlögum ESB verður beitt í nýja rammanum, m.a. með því að gerð verði áætlun fyrir hvert land um helstu umbætur og fjárfestingar, sem unnar yrðu og útfærðar í samstarfi við lands-, svæðis- og staðaryfirvöld. Er nýja Evrópska samkeppnishæfnissjóðnum (e. European Competitiveness Fund) til að mynda ætlað að efla fjárfestingargetu til að styðja við mikilvæga geira og tækni þvert á aðildarríkin.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, hefur kallað eftir því að viðmið næsta fjárhagsramma verði stefnumörkun sambandsins (e. policy-based) en ekki aðgerðaráætlanir þess (e. programme-based). Í því samhengi hafa verið viðraðar hugmyndir um að fækka mjög samstarfsáætlunum ESB með því að sameina margar minni áætlanir, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 31. janúar sl. um EES/EFTA-álit um þátttöku þeirra í samstarfsáætlunum ESB. Tilfærsla fjármuna milli verkefna með breyttum stefnuáherslum á tímabili fjárhagsrammans yrði með þessu móti gerð auðveldari.
Evrópusambandið hefur hafið opið samráð við almenning um fjárhagsrammann. Samráðið nær til nokkurra sviða og er hægt að finna hlekki á samráðssíðurnar í fréttatilkynningu sem fylgdi orðsendingunni. Þá verður 150 borgurum ESB boðið að koma saman til umræðna og til að leggja fram tillögur í þessum efnum.
Stefnt er að því að formleg tillaga að næsta fjárhagsramma verði kynnt sumarið 2025, og mun sú tillaga í framhaldi af því ganga til umræðu og afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB. Þá er jafnframt ráðgert að tillagan verði til umræðu í leiðtogaráði ESB í júní nk. Ný langtíma fjármálaáætlun mun síðan taka gildi í ársbyrjun 2028 eins og áður segir.
Fundur leiðtoga ESB og forsætisráðherra Kanada
Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, átti í vikunni fund með forseta leiðtogaráðs ESB, António Costa, og forseta framkvæmdastjórnar ESB, Ursulu von der Leyen, í Brussel. Á fundinum voru náin tengsl ESB og Kanada rædd og mikilvægi þess að viðhalda góðu samstarfi í því flókna alþjóðaumhverfi sem nú er til staðar. Sjá nánar um fundinn hér.
Atvinnuvegaráðherra á fundi ráðherraráðs ESB um viðskipta- og iðnaðarmál
Atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson, tók þátt í óformlegum fundi ráðherraráðs ESB um iðnaðar- og viðskiptamál sem fram fór í Varsjá í Póllandi dagana 3. - 4. febrúar sl. en Pólverjar fara nú með formennsku í ráðherraráðinu.
Samkeppnishæfni ESB var megin fundarefnið að þessu sinni og hvernig betur megi samþætta iðnstefnu og sameiginlega viðskiptastefnu ESB gagnvart þriðju ríkjum. Þá var stuðningur við aðlögun umsóknarríkja að sambandinu einnig til umræðu.
Á meðal aðildarríkjanna var mikil samstaða um tækifærin sem felast í grænu og stafrænu umskiptunum og áframhaldandi stuðningi við nýsköpun, innleiðingu hreinorkutækni og kolefnishlutlauss tækniiðnaðar sem haldist í hendur við aukna samkeppnishæfni ESB til lengri tíma.
Í umræðu um leiðir til að fjármagna fjárfestingar til eflingar á samkeppnishæfni ESB bar hæst að styðja yrði við frekari einkafjárfestingu og hugmyndir um samevrópska ríkisstyrki í strategískum geirum. Þá var töluvert rætt um stuðning við strategíska iðngeira á borð við stáliðnað og bílaiðnað og framleiðslu á batteríum og hálfleiðurum. Mörg aðildarríki bentu á mikilvægi þess að tryggja lægra raforkuverð og ráðast í frekari innviðauppbyggingu í orkugeiranum. Mörg aðildarríki bentu á mikilvægi þess að einfalda regluverk, auka fyrirsjáanleika og bæta rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja til að ýta undir hagvöxt.
Fjöldi aðildarríkja taldi mikilvægt að samþætta utanríkisviðskiptastefnu og iðnstefnu enn frekar, minnka áhættu og tryggja aðfangakeðjur með gerð viðskipta- og samstarfssamninga við áreiðanleg þriðju ríki. Samstaða var um að í ljósi ástandsins í heimsmálum væri enn brýnna en áður að tryggja frjáls og opin viðskipti sem byggi á virðingu fyrir alþjóðalögum. Aftur á móti voru mörg aðildarríki á þeirri skoðun að nýta verði öll verkfæri sem ESB hafi yfir að ráða til að tryggja hagvarnir og vernda ESB gegn ósanngjarni samkeppni frá öðrum efnahagsveldum. Almenn samstaða var um að grípa yrði til varnarráðstafana af festu en jafnframt af meðalhófi í mögulegu tollastríði við Bandaríkin með samstöðu aðildarríkja að leiðarljósi.
Á fundinum lagði atvinnuvegaráðherra áherslu á samstöðu og samstilltar aðgerðir meðal Evrópuríkja, áframhaldandi þróun innri markaðar EES-svæðisins og mikilvægi EES-samningsins fyrir EES/EFTA-ríkin. Ísland er afar samþætt virðiskeðjum innri markaðarins í gegnum EES-samstarfið og því brýnt að verndarráðstafanir ESB gagnvart öðrum efnahagsveldum taki mið af stöðu og hagsmunum EES/EFTA-ríkjanna í gegnum EES-samninginn.
Ráðherra lagði jafnframt áherslu á virka þátttöku Íslands á innri markaðnum í gegnum EES-samninginn, frjálsa samkeppni, neytendavernd, jöfnun samkeppnisskilyrða, einföldun regluverks, stuðning við nýsköpun, afléttingu viðskiptahindrana og áframhaldandi þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum ESB.
Mikill samhljómur var á fundinum á meðal EES/EFTA-ríkjanna um að tryggja verði jafnræði aðildarríkja EES-samningsins. Lögðu þau áherslu á að skuldbindingar ESB á grundvelli EES-samningsins séu virtar svo ekki verði t.d. litið á EES/EFTA-ríkin sem þriðju ríki í verndarráðstöfunum sem ESB kann að grípa til. Er þetta mikilvægt fyrir íslenska hagsmuni, þar sem að Ísland er ekki hluti af sameiginlegri viðskiptastefnu og tollabandalagi ESB en Ísland hefur á hinn bóginn stutt frjáls og opin alþjóðaviðskipti sem byggja á virðingu fyrir alþjóðalögum.

Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, ásamt Krzysztof Paszyk, ráðherra þróunar- og tæknimála í Póllandi, en Pólland fer um þessar mundir með formennsku í ráðherraráði ESB.
Aðgerðir framkvæmdastjórnar ESB til að tryggja örugg og sjálfbær netviðskipti
Framkvæmdastjórn ESB hyggst grípa til aðgerða vegna aukins innflutnings verðlítilla vara sem keyptar eru á netinu utan ESB, svo sem frá Kína. Í nýlegri reifun frá hugveitu Evrópuþingsins hefur sjónum verið beint að þeim vandamálum sem fylgja slíkum innflutningi.
Aðgerðirnar eru kynntar í tilkynningu um netviðskipti sem birt var 5. febrúar sl. Framkvæmdastjórnin hvetur til fjölþættra aðgerða, þ. á m. á sviðum viðskipta, tolla og neytendaverndar en einnig á grundvelli nýrra lagagerða um stafræna þjónustu og stafræna markaði.
Vöxtur í innflutningi verðlítilla vara til ESB með netviðskiptum (að andvirði 150 evrur eða minna) hefur verið gríðarlegur á undanförnum árum. Að jafnaði eru 12 milljón slíkra pakka fluttir inn til aðildarríkja ESB á hverjum degi og er magnið tvöfalt meira en 2023 og þrefalt meira en árið 2022.
Innflutningi af þessu tagi fylgir nokkur áhætta. Þannig eru neytendur útsettir fyrir hættulegum vörum og vörum sem ekki standast öryggiskröfur. Þá eru neytendur í aukinni hættu á að verða fyrir óréttmætum viðskiptaháttum svo sem með kaupum á falsvarningi og eftirlíkingum. Hið gríðarmikla magn af pökkum þýðir jafnframt aukið kolefnisspor og óæskileg umhverfisáhrif.
Aðgerðir framkvæmdastjórnarinnar eru eftirfarandi:
Umbætur í tollamálum. Hvatt er til þess að ráðherraráð ESB og Evrópuþingið ljúki afgreiðslu þegar framlagðra tillagna um heildarendurskoðun á tollkerfi ESB (e. Customs Union Reform Package), sbr. umfjöllun um þær tillögur í Vaktinni 9. júní 2023. Í pakkanum er meðal annars lagt til að afnumdar verði tollundanþágur fyrir pakka undir 150 evrur og auk þess sem lagðar eru til breytingar til að auka viðbragðsgetu og samstarf tollyfirvalda aðildarríkjanna. Framkvæmdastjórnin hvetur jafnframt til þess að sérstökum aðflutningsgjöldum verði komið á fyrir vörur sem eru fluttar inn beint til neytenda til þess að bregðast við kostnaði sem fylgir tolleftirliti af þessari stærðargráðu.
Samstilltar og hnitmiðaðar eftirlitsaðgerðir. Lagt er til að neytendayfirvöld og tollyfirvöld í aðildarríkjunum ráðist í samstilltar aðgerðir yfir landamæri til að stöðva og fjarlægja vörur sem ekki standast kröfur.
Eftirlit í þágu neytenda verði sett í forgang. Framkvæmdastjórnin hvetur til þess að eftirlit í þágu neytenda á grundvelli reglugerðanna um stafræna þjónustu og stafræna markaði og vöruöryggisgerðarinnar verði sett í forgang auk þess sem samstarf neytendayfirvalda í aðildarríkjunum verði aukið.
Notkun stafrænna lausna. Lagt er til að stuðst verði við hið svonefnda vöruvegabréf (e. Digital Product Passport) og gervigreind til þess að auðvelda eftirlitsstarf.
Umhverfisvernd. Lagt er til að gerð verði aðgerðaáætlun á grundvelli reglugerðar um vistvæna vöruhönnun, sbr. umfjöllun um þá reglugerð í Vaktinni 1. apríl 2022, og skjóta upptöku rammatilskipunarinnar fyrir úrgang, sbr. umfjöllun um þá tilskipun í Vaktinni 15. mars sl.
Vitundarvakning. Lagt er til að neytendur og atvinnurekendur verði valdefldir með því að vekja athygli á réttindum neytenda, áhættu sem fylgir innflutningi af þessu tagi og úrskurðarleiðum neytenda.
Alþjóðasamstarf og viðskipti. Séð verði fyrir þjálfun í framkvæmd vöruöryggislöggjafar ESB og aðferðum við að meta undirboð og ósanngjarnar styrkveitingar þriðju ríkja.
Opið samráð um fyrirhugaða löggjöf um mikilvæg og lífsnauðsynleg lyf
Eins og vikið er að í umfjöllun hér að framan um starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB hyggst framkvæmdastjórnin leggja fram tillögu að nýrri löggjöf um mikilvæg lyf (e. Critical Medicines Act), en markmið hennar er að draga úr skorti og tryggja afhendingaröryggi lífsnauðsynlegra lyfja. Framkvæmdastjórnin hefur nú auglýst eftir sjónarmiðum og hugmyndum sem nýst geta við mótun laganna í samráðsgátt ESB (e. have your say). Krísur undanfarinna ára, þ.e. kórónuveirufaraldurinn og árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu, þykja hafa afhjúpað veikleika innan ESB á þessu sviði.
Lyfjaskortur er vaxandi áhyggjuefni meðal aðildarríkja ESB, en eitt af forgangsverkefnum framkvæmdastjórnarinnar síðastliðin misseri á sviði heilbrigðismála hefur verið að grípa til ráðstafana til tryggja framboð lífsnauðsynlegra lyfja og framboðskeðjur þeirra. Margvíslegum aðgerðum gegn lyfjaskorti og auknu afhendingaröryggi lyfja hefur þegar verið hrint í framkvæmd bæði til lengri og skemmri tíma. Fjallað hefur verið um þessar aðgerðir framkvæmdastjórnarinnar íVaktinni 27. október 2023, 19. janúar 2024 og 3. maí 2024. Þar er m.a. að finna umfjöllun um útgáfu lista yfir mikilvæg lyf (e. a Union List of Critical Medicines) og bandalag gegn skorti mikilvægra lyfja (e. Critical Medicines Alliance) sem Lyfjastofnun er nú aðili að.
Samráðið er opið til 27. febrúar nk. líkt og Lyfjastofnun Íslands hefur m.a. auglýst á vef sínum.
Skýrslur greiningar- og rannsóknarteymis ráðherraráðs ESB um framtíðarsýn fyrir árið 2025
Greiningar- og rannsóknarteymi ráðherraráðs ESB (e. The Analysis and Research Team (ART)) gaf í janúar út tvær skýrslur um framtíðarsýn fyrir árið 2025.
Í fyrri skýrslunni sem ber heitið Forward Look 2025,Time for Leadership leitast teymið við að greina áskoranir er kemur að forystuhlutverkinu og beinir teymið sjónum sínum sérstaklega að fimm lykilviðfangsefnum, þ.e. núverandi átakaumhverfi í alþjóðlegum samskiptum, samkeppni efnahagsveldanna, langtímaefnahagshorfum, félagslegri skautun í þjóðfélagsumræðu og lýðræðislegri kosningabaráttu og viðvarandi ógnum vegna loftslagsbreytinga. Sjá skýrsluna hér.
Í síðari skýrslunni sem ber heitið Prospect for 2025, what others are saying leitast teymið, eins og nafnið gefur til kynna, við að greina hvernig fjölmiðlar og aðrir greinendur sjá horfurnar á árinu og er í því sambandi horft til greinenda á Vesturlöndum, Suður-Ameríku og í Kína. Horft er til framtíðarsýnar á sviði samfélagsmála, tæknimála, efnahagsmála, umhverfismála, pólitískra landfræðilegra deilumála (e. (Geo-) politics). Sjá skýrsluna hér.
Sjá einnig í þessu samhengi umfjöllun Vaktarinnar 17. janúar sl. um tíu málefni sem ástæða er til að fylgjast sérstaklega með á árinu að mati hugveitu Evrópuþingsins.
***
Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.
Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].
Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].