Macron vill bjóða Evrópuríkjum utan ESB upp á nánara samstarf
Að þessu sinni er fjallað um:
- lyktir ráðstefnunnar um framtíð Evrópu
- ræðu Macrons Frakklandsforseta um Evrópumál
- reglur um græn skuldabréf
- ákvörðun norsku ríkisstjórnarinnar að gera úttekt á EES-samstarfinu
- tillögu um aðgerðir gegn barnaklámi
- brýningu framkvæmdastjórnarinnar í Covid-19 málum
- tillögu um samræmdan gagnagrunn heilsufarsupplýsinga
- samráð um fjórar nýjar gerðir á samgöngusviðinu
Ráðstefnu um framtíð Evrópu lokið
Ráðstefnunni um framtíð Evrópu er nú lokið og voru tillögur afhentar við hátíðlega athöfn í Strassborg sl. mánudag, 9. maí. Það var Frakklandsforseti sem hafði átt frumkvæði að því að slík ráðstefna skyldi haldin. Í eitt ár hafa 800 evrópskir borgarar valdir af handahófi fjallað um umbætur á evrópsku samstarfi við hlið þingmanna og fulltrúa frjálsra félagasamtaka. Niðurstaðan varð sú að gerðar voru 325 tillögur til að mæta 49 markmiðum sem eiga að gera Evrópusambandið lýðræðislegra og virkara og auka valdheimildir þess á ákveðnum sviðum s.s. í umhverfismálum, heilbrigðis- og félagsmálum o.fl.
Þannig er lagt til að beina niðurgreiðslum að lífrænum landbúnaði, móta lágmarksviðmið fyrir heilsugæslu, færa kosningarétt niður í 16 ára aldur, fella brott kröfu um að öll ríki standi að ákvörðun þar sem það á enn við, s.s. á sviði utanríkismála, og færa Evrópuþinginu rétt til að eiga frumkvæði að nýrri löggjöf en frumkvæðisrétturinn hefur hingað til eingöngu verið hjá framkvæmdastjórninni.
Macron teflir fram nýrri sýn á Evrópusamstarf
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, flutti ræðu á Evrópuþinginu í Strassborg 9. maí sl. f.h. formennskuríkis ráðherraráðsins. Ræða hans vakti töluverða athygli. Forsetinn er nýlega endurkjörinn og formennskutíð Frakka í ráðherraráði Evrópusambandsins er senn á enda. Tilefnið var afhending lokaskýrslu ráðstefnunnar um framtíð Evrópu. Þar sagðist hann sjá fyrir sér lagskipt samstarf í Evrópu. Ekki væri hægt að ætlast til að öll ríkin færðust nær auknu samstarfi á sama hraða. Í innsta kjarna yrðu ríkin sem vildu ganga lengst í samstarfi. Einnig þyrfti að bjóða upp á pólitískt bandalag fyrir ríki sem vilja tengjast Evrópusambandinu nánar. „Það hefur komið mér á óvart hvað löngunin til að halda í samband 27 ríkja hamlar því að við séum metnaðarfyllri,“ sagði hann og bætti við að menn mættu ekki óttast það að bjóða upp á mismunandi leiðir. Það eru tæplega fimm ár liðin síðan Macron flutti aðra stefnumarkandi ræðu um Evrópumálin í Sorbonne, þann 26. september 2017. Síðan þá hefur hver kreppan rekið aðra, BREXIT, Covid-19 og nú stríðið í Úkraínu. En Evrópusamstarfið hefur ekki breyst eða tekið mið af þessu. Fyrir fimm árum lagði forsetinn áherslu á átaksverkefni af ýmsum toga eins og varðandi efnahagsmál, skattamál og menntun. Nú beindi hann athyglinni að uppbyggingu og skipulagi Evrópusambandsins. Evrópa þyrfti að vera skilvirkari, sjálfstæðari, sjálfri sér nóg og opnari gagnvart nágrönnum sínum.
Það var Macron sem átti frumkvæðið að því að halda ráðstefnuna um framtíð Evrópu. Hann fagnaði útkomunni en lagði áherslu á að hér þyrfti að vera um meira að ræða en stílæfingu. Hann lýsti ennfremur ánægju með að Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, skyldi þegar þann sama dag hafa heitið því að fylgja tillögunum eftir í stefnuræðu sinni í september næstkomandi.
Von der Leyen sagðist tilbúin að beita sér fyrir breytingum á grundvallarreglum Evrópusambandsins. Bætti hún því við að krafan um að allir væru samþykkir sem enn ætti við á tilteknum lykilsviðum ætti ekki lengur við. Síðar þann sama dag fór hún til Búdapest að reyna að sannfæra Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, um að falla frá andstöðu við tillögu hennar að sjötta pakka þvingunaraðgerða gagnvart Rússlandi, sem felur í sér bann við innflutningi á olíu.
Emmanuel Macron gaf til kynna að hann vildi grundvallarbreytingar þrátt fyrir bitra reynslu árið 2005 þegar bæði franskir og hollenskir kjósendur lögðust gegn nýrri stjórnarskrá Evrópu. Það þyrfti að fjölga tilvikum þar sem aukinn meirihluti dugir til að ná niðurstöðu um mál. Hann kvaðst mundu taka málið upp á leiðtogafundi ESB í Brussel 23. og 24. júní. Hann veit sem er að hann nýtur stuðnings Evrópuþingsins í þessum efnum en mörg aðildarríkin eru andsnúin slíkum breytingum.
Heyrist hljóð úr horni
Málflutningi formennskuríkisins var andmælt þegar á mánudag. Þá létu í sér heyra þrettán aðildarríki (Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Króatía, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Rúmenía, Slóvenía, Svíþjóð og Tékkland) og birtu sameiginlega yfirlýsingu þar sem varað er við ótímabærri endurskoðun grunnsáttmála ESB. Evrópusamstarfið virkaði vel eins og viðureignin við Covid-19 sýndi og aðgerðir til stuðnings Úkraínu sömuleiðis. Franska dagblaðið Le Monde hefur eftir fréttaskýranda að breyting á grunnsáttmálum sé ólíkleg. Mögulega hafi Macron hreyft þessu máli vegna stjórnmálaástands innanlands. Í stað þess að virða sáttmálana að vettugi líkt og einn helsti andstæðingur hans, Jean-Luc Mélenchon, boðar, þá nefni forsetinn endurskoðun þeirra.
„Í grunninn er áskilnaður um einróma samþykki orðinn undantekning og á einungis við í félagsmálum, skattamálum og utanríkismálum,“ segir heimildarmaður blaðsins á skrifstofu forsetans. Forsetinn hafi viljað draga fram kosti þess að þeir sem vilji ganga lengra í samvinnu geti gert það. Það sýni dæmin um evruna og Schengen. Vissulega óttist einhverjir Evrópu á mismunandi hraða en það verði að gefa inn til þess að Evrópa eflist.
Belti náinna samstarfsríkja
Emmanuel Macron hvatti einnig til þess að myndað yrði eins konar belti Evrópuríkja sem deila gildismati með Evrópusambandinu fyrir pólitískt samstarf og á sviði öryggis, orku, samgöngu, fjárfestinga, innviða og frjáls flæðis fólks. „Úkraína, sem er mjög fjarri evrópskum viðmiðum þegar kemur að lífskjörum og vörnum gegn spillingu, gæti verið þátttakandi án þess að þurfa að bíða niðurstöðu aðildarviðræðna sem gætu tekið áratugi,“ sagði forsetinn.
Heimildarmaður Le Monde hjá forsetaembættinu segir að það ástand heimsmála sem leiði af stríðinu í Úkraínu geri það mjög brýnt að styrkja tengsl Úkraínu, Moldovu, Georgíu og ríkjanna á vestanverðum Balkanskaga við Evrópusambandið. Forsetinn sér fyrir sér að aðild að þessu nýja bandalagi myndi ekki fela í sér sjálfkrafa aðild að ESB síðar meir og það yrði heldur ekki lokað fyrir ríki sem hefðu sagt skilið við ESB.
Frönsk stjórnvöld hafa aldrei farið leynt með fyrirvara sína gagnvart frekari stækkun sambandsins sem myndi við núverandi aðstæður flækja ákvörðunartöku enn frekar. Nú væri rík þörf á að beita sköpunargáfunni í þágu lausna sem stuðluðu að stöðugleika í Evrópu án þess að raska þeirri nánd sem skapast hefði innan ESB.
Reglugerð ESB um staðal fyrir græn evrópsk skuldabréf
Í byrjun apríl 2022 kynntu ráðherraráð ESB og evrópska þingið nýja reglugerð um græn evrópsk skuldabréf. Reglugerðin byggir á tillögum framkvæmdastjórnarinnar um að tekinn verði upp sérstakur staðall fyrir slík bréf. Staðallinn inniheldur hvaða skilyrði skuldabréfin þurfi að uppfylla til að heimilt sé að kalla tiltekna skuldabréfaútgáfu græn evrópsk bréf (e. European green bond or EUGB). Reglugerðin beinist því fyrst og fremst að skuldabréfaútgefendum. Meginskilyrðið er að bréfin standi að baki umhverfisvænum og sjálfbærum markmiðum eða fjárfestingum. Jafnframt skulu þau uppfylla önnur skilyrði „Taxonomy“ reglugerðinnar (EU 2020/852) sem oft áður hefur verið fjallað um hér í Vaktinni. Reglugerðin er sem sagt mikilvægur hluti af Græna Sáttmálanum (e. Green Deal) sem samþykktur hefur verið af aðildarríkjum ESB sem aftur er óaðskiljanlegur hluti af hinu margumtalaða Parísarsamkomulagi. Segja má að staðallinn verði einskonar gæðastimpill fyrir skuldabréfaútgáfur (e. high quality green bonds) á fjármálamörkuðum í Evrópu og annars staðar og ýti þannig undir það markmið ESB að skapa sameiginlegan fjármálamarkað (e. Capital Markets Union). Þá er talið að samræmdur staðall á þessu sviði muni draga úr hættu á grænþvotti (e. greenwashing) auk þess að gera skuldabréfamarkaðinn gegnsærri og öruggari fyrir fjárfesta, bæði einstaklinga og fyrirtæki. Vonir ESB standa jafnvel til þess að nýi staðallinn nái fótfestu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og komi þar með í stað þeirra fjölmörgu óformlegu sjálfbærnistaðla sem beitt hefur verið fram til þessa.
Undanfarna mánuði hefur vinnuhópur EES EFTA um fjármálaþjónustu haft reglugerðina til skoðunar. Drög að sameiginlegu áliti hópsins (e. EEA EFTA Comment) liggja nú fyrir og hafa verið send viðeigandi aðilum og stofnunum. Þar kemur fram að EES EFTA ríkin styðji tillöguna um samræmdan staðal og telji hann geta bætt umhverfisvitund og ýtt undir háleitari umhverfismarkmið á skuldabréfamarkaði. Einnig muni staðallinn samræma og bæta samkeppnisstöðu á EES svæðinu öllu sem er mjög mikilvægt, ekki síst í ljósi þess hversu hraður vöxturinn hefur verið í útgáfu slíkra skuldabréfa á Norðurlöndunum.
Í reglugerðinni er einnig að finna tillögur að skráningar- og eftirlitskerfi gagnvart þeim fyrirtækjum (e. external reviewers) sem taka að sér að meta skuldabréf á grundvelli staðalsins. Framkvæmdastjórn ESB leggur til að Evrópska verðbréfaeftirlitið (e. European Securities Markets Authorities, ESMA) annist skráninguna og hafi einnig beint eftirlit með þessum skráðu fyrirtækjum. Í áliti sínu styðja EES EFTA ríkin þessa almennu nálgun um skráningu og eftirlit fyrirtækjanna. Hins vegar leggja þau til að ábyrgðin á beinu eftirliti með matsfyrirtækjunum verði á hendi innlendra aðila (e. national supervisors) enda sé þekking á því sviði þegar til staðar í viðkomandi ríkjum. ESMA muni aftur á móti áfram gegna sínu hlutverki að vera almennur samræmingaraðili.
Að lokum er reglugerðinni ætlað að taka gildi tuttugu dögum eftir birtingu hennar í Stjórnartíðindum ESB (e. Official Journal of the EU) en að henni verði ekki beitt fyrr en 18 mánuðum síðar. Eins og oft áður eru tuttugu dagar alltof skammur tími fyrir upptöku reglugerða eða tilskipana í EES samninginn. Þess vegna leggur vinnuhópurinn til að 18 mánaða reglan eigi við, bæði hvað varðar gildistöku og framkvæmd reglugerðarinnar um græn evrópsk skuldabréf, enda mikilvægt að EES ríkin sem heild hefji þessa vegferð á sama tíma. Miðað við framangreind tímamörk mun reglugerðin í fyrsta lagi koma til framkvæmda í ársbyrjun 2024. Nú er bara að bíða og sjá hvort tillögur vinnuhópsins fái brautargengi hjá ráðherrum og þingmönnum ESB.
Reynslan af EES-samstarfinu verði metin
Í „Hurdalsplattformen“, stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar Noregs er áréttað að EES-samningurinn leggi grunninn að samskiptum Noregs við Evrópu. Með samþykkt ríkisráðs Noregs sl. föstudag 6. maí hefur verið skipuð óháð sjö manna nefnd til að leggja mat á reynsluna af EES-samstarfinu síðastliðin tíu ár, en tíu ár eru nú liðin frá sambærilegri úttekt, Utenfor og innenfor. Nefndin hefur víðtækt umboð til skoðunar á EES samstarfinu, öðrum viðeigandi samningum sem Noregur hefur gert við ESB og skal veita ráðgjöf um hvernig hagsmunum Noregs verður best gætt í ESB samstarfi. Í erindisbréfi nefndarinnar eru upptalin átján atriði sem nefndin skal a.m.k. skoða, þ. á m. reynsla Bretlands, Sviss og Kanada út frá þeirra samningsbundna samstarfi við ESB og mikilvægi EES samningsins fyrir norræna samvinnu og að hve miklu leyti norræn samvinna sé háð ramma EES. Skýrslu nefndarinnar skal skila til utanríkisráðuneytisins fyrir lok árs 2023 - hún skal vera hnitmiðuð og læsileg, einnig öðrum en sérfræðingum. Nefndin verður leidd af Line Eldring formanni Fellesforbundet sem er næst stærsta aðildarfélag LO (hið norska ASÍ) og stærsta fagfélag einkageirans í Noregi – sem til langs tíma hefur krafist skoðunar á valkostum við EES samninginn. Sjá nánar í fréttatilkynningu.
Tillaga sem beinist að barnaklámi vekur sterk viðbrögð
Framkvæmdastjórn ESB birti 11. maí sl. tillögu um vernd barna á netinu. Forráðamenn netþjónustufyrirtækja og félagasamtök sem beita sér fyrir vernd friðhelgi einkalífs óttast að dulkóðun skilaboða hjá WhatsApp, iMessage, TikTok, Messenger og Signal gangi þá ekki lengur upp. Samkvæmt tillögunni sem beinist að baráttunni gegn barnaklámi á að setja á laggirnar Evrópumiðstöð gegn kynferðislegri misnotkun barna. Einnig er sú skylda lögð á stærri netþjónustufyrirtæki að meta áhættuna af dreifingu barnakláms eða ósæmilegum samskiptum, að fjarlægja án tafar ólöglegt efni og gera viðvart um barnaklám sem finnst.
Samkvæmt texta tillögunnar er lögð á fyrirtækin skylda til að grípa til markvissra aðgerða til að fjarlægja efni ef yfirvöld gera viðvart. Í því augnamiði eiga þau að beita tækni sem er eins lítið ágeng og möguleg og í samræmi við lög og tækniþekkingu á hverjum tíma þannig að ekki sé skotið yfir markið. Þessi ákvæði þykja mjög víðtæk og að þau leiði til skyldu til að fylgjast með innihaldi skilaboða án þess þó að brjóta gegn friðhelgi einkalífs.
Forstjóri WhatsApp, Will Cathcart, sem er hluti af Meta-samsteypunni, líkt og Facebook og Instagram, tók djúpt í árinni á Twitter: „Það veldur gríðarlegum vonbrigðum að sjá tillögu um Evrópureglur um netið sem verndar ekki dulkóðun frá einum enda til annars.“ Vísar hann þar í tækni sem til dæmis einkennir WhatsApp og Signal þar sem skilaboð eru dulkóðuð þannig að einungis sendandi og viðtakandi geta lesið þau.
Viðbrögð Meta voru á þann veg að leggja áherslu á mikilvægi dulkóðunar, m.a. til að vernda friðhelgi einkalífs barna. Fyrirtækið einbeiti sér að því að fyrirbyggja brot með því til dæmis að koma í veg fyrir að fullorðnir geti sent skilaboð á börn sem þeir tengjast ekki.
Dot Europe, hagsmunasamtök fyrirtækja eins og Apple, Meta, TikTok og Google, lögðu áherslu á að finna þyrfti jafnvægi milli öryggis og einkalífs án þess að vega að þeirri meginreglu að bannað sé að vera með almenna síun efnis. Er þar vísað til þess að Evrópusambandið og Evrópuráðið hafa ítrekað undirstrikað að of langt væri gengið ef fyrirtæki þyrftu að hafa fyrirfram eftirlit með öllu efni sem fer um netið.
En það eru ekki bara stóru netfyrirtækin sem lýsa yfir áhyggjum. Talsmaður European Digital Rights kvað það vera fordæmlaust ef til stæði að skilaboð milljóna manna yrðu stöðugt skönnuð í leit að ólöglegu efni án þess að sérstakt tilefni gæfist til. Aðrir sögðu þessar tillögur jafngilda því að pósturinn myndi opna öll bréf og lesa þau.
Aðildarríkin hvött til að auka viðbúnað fyrir næsta heimsfaraldur
Í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar ESB frá 27. apríl sl. hvetur hún aðildarríki til að hafastyrka stjórn á faraldrinum og vera viðbúin komu þess næsta. Bent er á að með samstilltu átaki hafi Evrópusambandinu tekist að bjarga hundruðum þúsunda mannslífa með því að útvega bóluefni, halda innri markaði sínum gangandi, lágmarka áhrif ferðatakmarkana og virkja framleiðslugetu á nauðsynlegum og mikilvægum varningi þegar aðfangakeðjur brugðust. Þessum árangri þurfi að viðhalda.
Fyrir haustið þurfi ríki að hafa gripið til aðgerða sem tryggi árvekni og áframhaldandi samhæfðan undirbúning og viðbragð gegn næstu heilbrigðisvá. Staðan á Covid heimsfaraldrinum, sem nú er stöðug, gefi tækifæri til þess. Mælst er til þess að aðgerðirnar nái til eftirfarandi þátta:
- Tryggja áframhaldandi bólusetningu gegn Covid-19 samhliða bólusetningu gegn árstíðabundinni inflúensu
- Koma upp áreiðanlegu eftirlitskerfi sem lýsi raunverulegri stöðu á Covid-19faraldrinum á hverjum tíma
- Halda áfram að prófa og raðgreina nægilegan fjölda sýna til að meta dreifingu afbrigða og greina ný
- Fjárfesta í og endurheimta heilbrigði þjóða til framtíðar með því að meta áhrif heimsfaraldursins, m.a. vegna tafa sem orðið hafa á að veita nauðsynlega meðferð og heilbrigðisþjónustu og vegna áhrifa á geðheilsu
- Styðjast við samræmdar reglur sambandsins sem tryggja örugg ferðalög, innan þess og milli annarra ríkja
- Styðja við þróun næstu kynslóðar af bóluefnum og öðrum lækninga- og meðferðarmöguleikum
- Vinna gegn misvísandi og röngum upplýsingum um mikilvægi bólusetninga og sóttvarna gegn COVID-19
- Styðja við samræmdar alþjóðlegar aðgerðir gegn Covid-19
Þá kemur fram að auk þessa er framkvæmdastjórnin að leggja sitt af mörkum í aðgerðum til að tryggja nægjanlegt framboð á nauðsynlegum lækningatækjum og meðferðum við Covid-19 sjúkdómnum. Auglýst hefur verið útboð undir formerkjum „EU FAB“ til að tryggja nauðsynlega framleiðslugetu á bóluefnum í neyðartilfellum í framtíðinni. Útboðið beinist að bóluefnaframleiðendum með aðstöðu innan ESB/EES svæðisins og er opið til 3. júní n.k.
Til langs tíma felast aðgerðir framkvæmdastjórnarinnar í því að efla enn frekar viðbúnað við heimsfaraldrinum með samhæfðum viðbrögðum aðildarríkjanna og þjóða heims, innleiða tillögur sambandsins um heilbrigðismál (e. implementing the European Health Union), takast á við víðtækari heilsufarsleg áhrif heimsfaraldursins, þar á meðal aukið álag á geðheilsu og hraða stafrænni þróun í heilbrigðismálum.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir okkur stödd á ákveðnum tímamótum í heimsfaraldrinum - komið sé að því að lifa með Covid-19 nú þegar faraldurinn er kominn af neyðarstigi. Áfram verði að vera á varðbergi. Enn sé smitfjöldi mikill í Evrópusambandsríkjunum og dauðsföll í heiminum mörg. Þá geti ný afbrigði veirunnar komið fram og breiðst hratt út. Allir þekki leiðina fram á við - flýta þurfi áframhaldandi bólusetningu, koma Covid-prófum og greiningu þeirra í markvissari farveg og halda áfram að samræma viðbrögð innan Evrópusambandsins.
Samevrópskur gagnagrunnur á sviði heilbrigðismála
Tillaga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um regluverk fyrir samevrópskan heibrigðisgagnagrunn, European Health Data Space (EHDS), var birt opinberlega 3. maí sl., sjá frétt. Tillagan er merkt EES-tæk og fer nú til umræðu í ráðherraráðinu og til þingsins. Gagnagrunninum er ætlað að verða ein af meginstoðunum við uppbyggingu á öflugra samstarfi aðildarríkja Evrópusambandsins á sviði heilbrigðismála (e. European Health Union).
Gagnagrunnurinn markar nýtt upphaf fyrir stafræna heilbrigðisþjónustu meðal aðildarríkja, en með honum er lagður grunnur að traustum og öruggum aðgangi og notkun heilbrigðisupplýsinga. Hann byggir á reglum sambandsins um almenna persónuvernd (General Data Protection Regulation, GDPR), tillögum að lögum um stjórnun gagna (Data Governance Act), lögum um gögn (Data Act) og svokallaðri NIS-tilskipun um öryggi net- og upplýsingakerfa. Þá hefur Covid-19 ýtt á og flýtt fyrir stafrænni þróun innan heilbrigðisgeirans auk þess að draga fram mikilvægi þess að heilbrigðisupplýsingar geti óhindrað flætt yfir landamæri.
Markmið
Grunnurinn mun í aðalatriðum halda utan um gögn sem ætluð eru til tvenns konar nota, í fyrsta lagi að veita örugga og skilvirka heilbrigðisþjónustu (e. primary use of data) og bæta aðgengi að henni, þar sem stjórnun einstaklingsins á eigin gögnum er í forgrunni og í öðru lagi til rannsókna, nýsköpunar og stefnumörkunar (e. secondary use of data). Markmiðin eru eftirfarandi:
- Að gera einstaklingum kleift að stjórna og nota eigin heilsufarsgögn með öruggum hætti óháð staðsetningu og auðvelda heilbrigðisstarfsfólki aðgang að nauðsynlegum upplýsingum hverju sinni
- Að stuðla að einum innri markaði fyrir stafræna heilbrigðisþjónustu aðildarríkja þar sem gögn eru framsett með samræmdum og samhæfðum hætti
- Að byggja undir og styðja við rannsóknir og nýsköpun, stefnumörkun og eftirlit. Með aðgangi að ópersónugreinanlegum heilsufarsgögnum mun hann auðvelda stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og opinberum stofnunum pólitíska stefnumörkun og gerð laga og reglugerða. Á sama hátt veitir hann vísindamönnum og frumkvöðlum aðgengi að gögnum til rannsókna og nýsköpunar.
Samhliða verður þess gætt að grunnurinn uppfylli stranga staðla Evrópusambandsins um gagnavernd og meðferð á ópersónugreinanlegum heilsufarsgögnum.
Ávinningur
Að mati framkvæmdastjórnarinnar er ávinningurinn af grunninum margvíslegur. Borgararnir fá aðgang að eigin heilbrigðisgögnum hvenær og hvar sem er án endurgjalds. Þeir taka sjálfir ákvörðun um að deila eigin gögnum með heilbrigðisstarfsfólki, bæta við gögnum, leiðrétta röng gögn, og takmarka aðgang að þeim. Þá verður mögulegt fyrir viðkomandi að fylgjast með notkun þeirra. Tryggt verður að sjúkragögn viðkomandi eins og rafrænir lyfseðlar, myndir og myndgreiningar, rannsóknarniðurstöður, útskriftarskýrslur o.fl. verði aðgengileg á stöðluðu samræmdu formi. Samhliða er persónuverndin og öryggi gagnanna tryggt. Þessi hluti grunnsins þar sem haldið er utan um persónugreinanleg gögn mun verða þróaður áfram undir merkjum MyHealth@EU sem gengur þvert á landamæri. Gert er ráð fyrir að öll aðildarríki tilnefni þar til bært yfirvald sem ber ábyrgð á gögnunum og tekur þátt í uppbyggingu grunnsins og stafrænna innviða hans. Með því móti verða réttindi borgaranna tryggð. Fyrir heilbrigðisstarfsfólk felst ávinningurinn einkum í hraðara og öruggara aðgengi að heilsufarsgögnum sjúklings sem bæta mun meðferð hans og draga úr stjórnunarkostnaði.
Ávinningur fyrir vísindasamfélagiðer töluverður Það mun fá aðgang að miklu magni hágæða gagna á ódýrari og hagkvæmari hátt, en áður. Það mun síðan ýta undir og hjálpa til við að þróa nýjar meðferðir við sjúkdómum. Þá verður auðveldara og ódýrara fyrir stjórnvöld, stjórnmálamenn og opinberar stofnanir að fá aðgang að ópersónugreinanlegum gögnum sem tryggja eiga öryggi sjúklinga, bæta virkni og árangur heilbrigðiskerfa og lýðheilsu til lengri tíma. Frumkvöðlar munu hafa hag af auknu aðgengi að ópersónugreinanlegum stafrænum gögnum til nýsköpunar og nýr markaður fyrir staðlaðar stafrænar sjúkraskrár verður til. Strangar kröfur verða gerðar til notkunar gagnanna sem verður að vera borgurunum og heilbrigðiskerfum ríkjanna til framdráttar og hagsbóta. Leyfi fyrir notkuninni þarf að fá hjá þar til bærum aðilum eins og heilbrigðisstofnunum sem tengja á við innviði sambandsins eins og HealthData@EU og byggja þarf upp.
Gagnrýni
Þessara tillagna hefur verið beðið með óþreyju, enda viðfangsefnið flókið, viðkvæmt og afar vandmeðfarið. Fréttaveitan Politico hefur dregið fram gagnrýnisraddir sem telja að framkvæmdastjórnin hafi gengið of langt í samhæfingu og miðstýringu. Það gæti staðið verkefninu fyrir þrifum þar sem aðildarríki séu mjög misjafnlega á vegi stödd til að takast á við uppbyggingu af þessu tagi.
Samráð á samgöngusviðinu
Framkvæmdastjórnin hefur birt á samráðsvef sínum óskir um ábendingar um eftirfarandi fyrirhugaðar lagabreytingar.
Reglurammi um aðgang að gögnum sem verða til í bifreiðum.
Margvísleg gögn verða til í bifreiðum við akstur. Hægt er að safna og skrá þessi gögn svo þau verði aðgengileg á stöðluðu formi. Miðað er við að setja reglur sem stuðla að samkeppni á markaði við að veita þjónustu er byggja á jöfnu aðgengi að gögnum. Þessi gögn snúa m.a. að eftirfarandi:
- Viðhaldi og viðgerðum
- Deilibílum
- Hreyfanleika (mobility) sem þjónustu
- Tryggingaþjónustu
Hægt er að senda inn ábendingar til 22. júní sbr. eftirfarandi tengli:
Access to vehicle data, functions and resources (europa.eu)
Endurskoðun reglugerðar um stofnun Siglingaöryggisstofnun Evrópu (EMSA)
Frá því að Siglingaöryggisstofnunin var sett á fót hafa orðið miklar breytingar á áherslum í stjórnmálum á málefnasviði stofnunarinnar sem kalla á endurskoðun á reglum um hlutverk hennar. Sérstök áhersla er lögð á að aðlaga starfsemi stofnunarinnar að þeim áherslum sem koma fram í stefnumörkun Evrópusambandsins um sjálfbærar og snjallar samgöngur sem var samþykkt í desember 2020.
Hægt er að senda inn ábendingar fram til 20. júní og má nálgast samráðið í eftirfarandi tengli:
European Maritime Safety Agency – review of mandate (europa.eu)
Endurskoðun á tilskipun 96/53 um hámarksstærð þungra ökutækja,
Tilgangur endurskoðunarinnar er að styrkja núverandi regluverk við að ná ætluðum tilgangi um tryggja virkni innri markaðarins, draga úr umhverfisáhrifum og stuðla að auknu umferðaröryggi.
Samráðið stendur til 19. júlí 2022. Stefnt er að tillaga að tilskipun liggi fyrir á síðasta ársfjórðungi þessa árs sem kemur til með að falla undir EES samninginn.
Nánar um samráðið hér: public consultation as regards the evaluation of the current rules on weights and dimensions of commercial vehicles.
Endurskoðun á reglugerð um opna flugmarkaði EES
Tilgangur endurskoðunarinnar er að draga lærdóm af reynslu af Covid faraldrinum um hvernig megi stuðla að auknum fjárhagslegum styrk flugfélaga, að regluverkið stuðli að seiglu þjónustunnar og styðji við inngrip við neyðarástand, og loks að regluverkið styðji betur við stefnu framkvæmdastjórnarinnar um grænar og snjallar samgöngur.
Samráðið stendur til 26. maí 2022.
Nánar um samráðið hér: public consultation as regards the revision of the Air Services Regulation
***
Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.
Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.
Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].