30 ár frá staðfestingu laga um Evrópska efnahagssvæðið
Að þessu sinni er fjallað um:
- staðfestingu laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið
- breytingar á viðskiptakerfi með losunarheimildir og stofnun félagslegs loftslagssjóðs
- orkumál – samkomulag um markaðsleiðréttingakerfi fyrir gas o.fl.
- orkuskiptaverkefnið WHISPER
- spillingarmál í Evrópuþinginu
30 ár frá staðfestingu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið
Hinn 13. janúar 1993, fyrir réttum 30 árum, voru lög um Evrópska efnahagsvæðið staðfest á ríkisráðsfundi. Með þessum lögum var stjórnvöldum heimilað að fullgilda fyrir Íslands hönd samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn) auk þess sem meginmáli samningsins var veitt lagagildi á Íslandi.
Til ríkisráðsfundarins hafði verið boðað að ósk þáverandi forseta Íslands, frú Vigdísar Finnbogadóttur, en hún hafði þá verið undir þrýstingi að synja lagafrumvarpinu staðfestingar og vísa á þann hátt frambúðargildi laganna til þjóðaratkvæðagreiðslu á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar. Til þess kom þó ekki en við undirritun laganna gaf forseti frá sér yfirlýsingu sem færð var til bókar. Það var á þeim tíma harla fátítt að forseti gæfi sérstaka yfirlýsingu í tengslum við undirritun laga þótt ekki væri það með öllu óþekkt.
En spólum aðeins lengra aftur í tímann. Eins og fjallað var um í Vaktinni 4. nóvember sl. voru um nýliðin áramót liðin 30 ár frá því að innri markaður ESB (e. Single Market) með sterku sameiginlegu stofnana- og reglusetningarkerfi var komið á fót á grundvelli sáttmálans um innri markað EB eða Einingarlaga Evrópu eins og þau hafa verið nefnd á íslensku (e. Single European Act). Er þrjátíu ára sögu innri markaðarins nú minnst á vettvangi ESB með margvíslegum hætti. Aðdragandi sáttmálans var langur en samningurinn var endanlega fullgiltur af öllum þáverandi aðildarríkjum EB í júní 1987 og varð skuldbindandi 1. júlí sama ár. Voru árin þar á eftir til lok árs 1992 nýtt til að undirbúa gildistöku og framkvæmd samningsins.
Samhliða fyrirhuguðum auknum efnahagssamruna aðildarríkja EB á grundvelli einingarlaganna, samanber einnig aðdraganda og undirritun Maastricht sáttmálans í febrúar 1992, varð spurningin um nánara samstarf EFTA-ríkjanna við EB áleitnari. Formlegar viðræður EFTA-ríkjanna og EB um nánara samstarf hófust árið 1989. Lauk þeim viðræðum með samningi milli Efnahagsbandalags Evrópu, Kola- og stálbandalags Evrópu og aðildarríkja þessara bandalaga annars vegar og aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) hins vegar, sem undirritaður var í Óportó í Portúgal 2. maí 1992 og við þekkjum í dag sem EES-samninginn.
Sameiginlegur innri markaður ESB og EES-EFTA ríkjanna er þungamiðja EES-samningsins og var það undirliggjandi markmið samningsaðila við undirritun að samningurinn tæki gildi um leið og framangreindur sáttmáli EB um innri markaðinn, þ.e. 1. janúar 1993. Ýmislegt varð þó til þess að það markmið náðist ekki og frestaðist gildistaka EES-samningsins um eitt ár eða til 1. janúar 1994.
Breytingar á viðskiptakerfi með losunarheimildir og félagslegum loftslagssjóði komið á fót
Samkomulag hefur náðst í þríhliða viðræðum ráðherraráðs ESB, Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnar ESB um efni löggjafar sem felur í sér breytingar á viðskiptakerfi sambandsins með losunarheimildir (e. Emission Trading System, ETS). Löggjöfin er hluti af hinum svokallaða Fit for 55-pakka ESB sem ætlað er að tryggja að loftslagsmarkmið sambandsins um 55% samdrátt kolefnislosunar fyrir árið 2030 náist (sé miðað við losun árið 1990).
Breytingunum er ætlað að styrkja ETS-kerfið með því að útvíkka gildissvið þess auk þess sem markmið um samdrátt í losun verða hækkuð. Þannig verði nú stefnt að því að dregið verði úr losun af völdum þeirra geira sem ETS-kerfið nær utan um, sem nemur um 62%, fyrir árið 2030 (sé miðað við tölur frá 2005). Er það umtalsverð aukning frá núgildandi löggjöf, eða um 19 prósent, úr 43%. Auk þess muni samdráttur árlegrar losunar aukast, ár frá ári, úr 2,2% samkvæmt núgildandi löggjöf í 4,3% á árabilinu 2024-2027 og 4,4% frá árinu 2028.
Samkomulagið felur aukinheldur í sér að endurgjaldslausar losunarheimildir til ákveðinna fyrirtækja verði afnumdar í skrefum á komandi árum. Helst þetta í hendur við markmið kerfis um kolefnisjöfnunargjald við landamæri (e. Carbon Border Adjustment Mechanism, CBAM) sem samkomulag náðist um í síðasta mánuði og fjallað var um í Vaktinni 16. desember sl. Samkomulagið markar auk þess ákveðin tímamót en með því er fyrstu löggjöfinni sem nær til losunar af völdum skipaflutninga komið á fót. Þá felur löggjöfin í sér að komið verði á fót aðskildu viðskiptakerfi – ETS II – sem ná mun til losunar frá byggingum, vegaflutningum og ákveðnum iðngreinum. Þessu til viðbótar eru svo sérreglur um viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug en fjallað hefur verið reglulega um fyrirhugaðar breytingar á þeim reglum í Vaktinni að undanförnu, nú síðast 16. desember sl.
Samhliða framangreindu er á grundvelli löggjafarinnar komið á fót svokölluðum félagslegum loftslagssjóði (e. Social Climate Fund) en hann mun veita aðildarríkjunum sérstaka fjárhagsaðstoð til að koma til móts við viðkvæm heimili, örfyrirtæki og flutningsþega og hjálpa þeim að takast á við verðáhrif sem breytingarnar kunna að hafa í för með sér. Fyrirhugað er að fjármunir úr sjóðnum muni renna í fjárfestingar í orkunýtingarráðstöfunum, varmadælur, sólarrafhlöður og rafhreyfanleika. Sjóðurinn tekur til starfa árið 2026, áður en framangreindu ETS II-kerfi verður ýtt úr vör, og verður hann fjármagnaður með framlögum sem nema 65 milljörðum evra af fjárlögum ESB, auk 25% samfjármögnunar aðildarríkjanna.
Orkumál – samkomulag um markaðsleiðréttingarkerfi fyrir gas o.fl.
Á fundi orkumálaráðherra ESB þann 19. desember sl. náðist samkomulag um efni reglugerðar um markaðsleiðréttingakerfi fyrir gas. Reglugerðin hefur verið til umræðu í ráðinu frá því nóvember sl. og var málið jafnframt til umræðu á leiðtogaráðsfundi ESB í Brussel 15. desember sl., sbr. umfjöllun í Vaktinni 16. desember sl., sbr. einnig umfjöllun um efni þessara tillagna í Vaktinni 2. desember sl. Gert er ráð fyrir því að markaðsleiðréttingarkerfið, sem ætlað er að vernda íbúa og hagkerfið fyrir óhóflega háu gasverði og verðtoppum á markaði verði virkjað ef tilteknar aðstæður skapast á gasmarkaði. Gert er ráð fyrir að fyrirkomulagið gildi tímabundið í eitt ár frá og með 15. febrúar nk. til að byrja með. Er framkvæmdastjórn ESB ætlað að endurmeta regluverkið og hugsanlega þörf fyrir framlengingu fyrir 1. nóvember nk.
Á framangreindum fundi orkumálaráðherra voru eftirfarandi mál einnig rædd og samþykkt eftir atvikum:
- Samþykkt var formlega reglugerð ráðsins um aukna samstöðu og betri samræmingu við gaskaup og gasskipti yfir landamæri og áreiðanlegri verðviðmið.
- Samþykkt var reglugerð ráðsins sem setur tímabundinn ramma til að flýta fyrir uppbyggingu orkuvera þar sem framleidd er endurnýjanleg orka.
- Reglugerðartillögur sem kynnar voru 15. desember 2021 um samdrátt í losun metans í orkugeiranum voru ræddar og náðist samkomulag innan ráðsins um almenna nálgun á efni tillagnanna. Um er að ræða hluta af annarri lotu tillagna sem falla undir löggjafarpakkann Fit for 55 sem miðar að því að samræma loftslags- og orkulöggjöf ESB að markmiðum um samdrátt í losun.
Tillagan kveður nánar tiltekið á um að gerðar verði nýjar kröfur til olíu-, gas- og kolaframleiðenda um að mæla, tilkynna og sannreyna metanlosun í starfsemi sinni (MRV- Measurement, Reporting, and Verification). Gert er ráð fyrir að rekstraraðilum verði skylt að skrá allar borholur og námur vandlega þannig að fylgjast megi með og rekja losun þaðan og gera viðeigandi mótvægisaðgerðir til að koma í veg fyrir og lágmarka metanlosun í rekstri þeirra.
Metan er sú lofttegund sem veldur næst mestum gróðurhúsaáhrifum á eftir koldíoxíði en talið er að rekja megi um 30% af áhrifunum til metanlosunar.
Er reglugerðinni ætlað að gera ESB kleift að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt markmiðum um að draga úr losun metans um 30% fyrir árið 2030 sem ESB setti af stað í samstarfi við Bandaríkin á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 2021 (Global Methane Pledge) þar sem yfir 100 ríki skuldbundu sig til að draga úr losun metans samkvæmt framangreindu.
Ráðið mun nú ganga til samningaviðræðna við Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB (þríhliðaviðræður) um endanlegan texta reglugerðarinnar.
- Ráðherrarnir samþykktu almenna nálgun gagnvart tillögu framkvæmdastjórnar ESB um breytingar á regluverki á sviði endurnýjanlegar orku.
Til upprifjunar þá lagði framkvæmdastjórnin, sem hluta af REPowerEU áætluninni, til röð breytinga á gildandi löggjöf á orkusviðinu, þ.e. tilskipun um endurnýjanlega orku (the Renewable Energy Directive (RED)), tilskipun um orkunýtni bygginga (the Energy Performance of Buildings Directive (EPBD)) og tilskipun um orkunýtni (the Energy Efficiency Directive (EED)). Verið er að endurskoða allar þrjár tilskipanirnar sem hluta af Fit for 55-pakkanum, sem framkvæmdastjórnin samþykkti árið 2021
- Loks lagði tékkneska formennskan fram og kynnti áfangaskýrslu um gaspakkann svonefnda (e. Gas package) sem felur í sér tillögu að tilskipun annars vegar og tillögu að reglugerð hins vegar um sameiginlegar reglur innri markaðarins fyrir endurnýjanlega orkugjafa.
Orkuskiptaverkefnið WHISPER
Orkuskiptaverkefnið WHISPER hefur hlotið 1,4 milljarða króna styrk til fjögurra ára úr rannsóknar- og nýsköpunarsjóðum ESB á grundvelli Horizon Europe áætlunarinnar sem Ísland er þátttakandi í á grundvelli EES-samningsins.
WHISPER er fjölþjóðlegt samstarfsverkefni en íslensk fyrirtæki eru þar í meirihluta. Verkís verkfræðistofa leiðir verkefnið og aðrir íslenskir þátttakendur eru fyrirtækin SideWind, Samskip, BBA//FJELDCO og Athygli.
Verkefninu er ætlað að þróa og prófa nýsköpunarlausnir í orkuskiptum á sjó sem geta dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda hjá flutningaskipum. Sjá nánar um verkefnið og styrkveitinguna á vef Verkís verkfræðistofu.
Ísland tekur þátt í fjölmörgum samstarfsáætlunum á vegum ESB þar sem víða gefast möguleikar til að afla styrkja til rannsóknar- og þróunarverkefna. Á vef EFTA má sjá yfirlit yfir áætlanir sem Ísland er aðili að. Nánari upplýsingar um einstaka samkeppnissjóði, skilyrði umsókna og fleira má finna á vef Rannís.
Spillingarmál í Evrópuþinginu
Evrópuþingið kemur saman á ný eftir jólahlé til þingfunda næstkomandi mánudag. Þingfundir hefjast með athöfn í tilefni af 30 ára afmæli innri markaðar ESB, sbr. umfjöllun um þau efni hér að framan. Þá munu Svíar sem tóku við formennsku í ráðherraráði ESB um áramótin kynna áherslur sínar fyrir þinginu á þriðjudaginn og síðan verður löggjafarstörfum framhaldið þaðan sem frá var horfið.
Alvarlegt spillingarmál sem upp kom í desember setur á hinn bóginn skugga á störf þingsins í upphafi árs. Er hér vitaskuld vísað til meintrar mútuþægni fyrrum varaforseta Evrópuþingsins, Evu Kaili, af hendi stjórnvalda í Katar, en þingið ákvað þegar í desember að víkja þingmanninum úr stóli varaforseta vegna málsins. Hefur þingmaðurinn setið í gæsluvarðhaldi frá því að málið kom upp en litið er svo á að friðhelgisreglur eigi ekki við í hennar tilviki þar sem hún hafi verið staðin að glæp.
Fleiri þingmenn sæta rannsókn vegna málsins, sem og aðstoðarmenn þingmanna og starfsmenn þingsins. Hefur forseti Evrópuþingsins af þessum sökum, að beiðni löggæsluyfirvalda sem fara með rannsókn málanna, hafið málsmeðferð í Evrópuþinginu er miðar að því að afnema þinghelgi þeirra þingmanna er tengjast málinu. Mun forseti tilkynna formlega um málsmeðferðina er þingið kemur saman á mánudaginn, í samræmi við þingsköp Evrópuþingsins. Hefur forseti óskað eftir því að málið fái forgang í störfum þingsins og er stefnt að því að niðurstaða náist fyrir 13. febrúar nk.
Jafnframt hefur forsetinn í samstarfi við forystu þingflokka á Evrópuþinginu hafið undirbúning að setningu reglna sem miða að því að auka eftirlit með gjöfum til þingmanna og uppræta spillingu.
***
Brussel-vaktin, fréttabréf fastanefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.
Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.
Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].