Hoppa yfir valmynd
10. mars 2023 Brussel-vaktin

Jafnréttisbaráttan, kolefnislausar bifreiðar og fráveitur

Að þessu sinni er fjallað um:

  • alþjóðlegan baráttudag kvenna og refsiaðgerðir Evrópusambandsins (ESB)
  • ágreining um efni reglugerðar um kolefnishlutlausar bifreiðar
  • afstöðu Íslands til nýrrar fráveitutilskipunar ESB
  • fund samgönguráðherra og orkumálaráðherra ESB og viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug
  • fund Schengen-ráðsins
  • yfirlit yfir framkvæmd tilskipunar um tímabundna vernd vegna stríðsins í Úkraínu
  • tímabundna útvíkkun reglna um ríkisaðstoð
  • breytingar á gjöldum og þóknunum sem Lyfjastofnun Evrópu (EMA) innheimtir
  • tillögur um bætt umferðaröryggi og aukið samstarf vegna umferðarlagabrota
  • reglugerð um öryggisfjarskiptakerfi um gervihnetti
  • samkomulag um Evrópska færniárið

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er 8. mars ár hvert og var dagurinn í ár tileinkaður jafnrétti á tímum stafrænna umbreytinga. Ljóst er að á heimsvísu er gríðarmikið verk óunnið í jafnréttismálum. Þannig lét aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, þau orð falla í tilefni dagsins að með sama áframhaldi myndi það taka 300 ár að ná markmiðum um jafnrétti kynjanna og ESB hefur tekið í sama streng.

Þann 7. desember 2000 samþykkti ráðherraráð ESB reglugerð um beitingu þvingunar- og refsiaðgerða gegn einstaklingum og aðilum, þar á meðal ríkjum, sem bera ábyrgð á eða taka þátt í alvarlegum mannréttindabrotum. Markmið reglugerðarinnar er berjast gegn slíkum brotum, þar á meðal ofbeldisbrotum gegn konum, á heimsvísu. Þann 7. mars sl. tók ráðherraráð ESB ákvörðun um beita regluverkinu gegn tilgreindum einstaklingum og aðilum sem hafa átt þátt í eða eru taldir bera ábyrgð á alvarlegum ofbeldisbrotum gegn konum. Af þessu tilefni lýsti utanríkismálastjóri ESB, Josep Borrell, því yfir að með þessu léti ESB verkin tala og hét því að ESB myndi berjast gegn hvers kyns ofbeldi gegn konum óháð því hvar í heiminum það ætti sér stað.

Sendiráðið stóð í samvinnu við hin norrænu sendiráðin í Brussel að morgunverðarviðburði helguðum jafnrétti í sviðslistum. Þátttakendur í pallborði komu alls staðar af Norðurlöndum og af Íslands hálfu tók þátt Anna Kolfinna Kuran.

Ágreiningur um reglugerð um kolefnishlutlausar bifreiðar frá og með 2035

Í Vaktinni 4. nóvember sl. var greint frá samkomulagi sem náðst hafði 27. október sl. í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni reglugerðar um nýja losunarstaðla fyrir fólksbifreiðar og minni atvinnubifreiðar. Fól samkomulagið í sér að nýskráðar bifreiðar skyldu vera kolefnishlutlausar frá og með árinu 2035, sbr. fréttatilkynningu Evrópuþingsins annars vegar og fréttatilkynningu ráðherraráðsins hins vegar sem birtar voru af þessu tilefni.

Samkomulag í þríhliða viðræðum stofnana ESB um efni löggjafartillagna markar alla jafna endanlega niðurstöðu um meginefni þeirra og markmið, enda þótt textavinnu sé ólokið og formlegri afgreiðslu bæði Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB sömuleiðis. Líður því alla jafnan nokkur tími frá því að samkomulag næst og þar til mál koma til lögformlegrar afgreiðslu.

Var framangreint samkomulag síðan staðfest 16. nóvember sl. af fastafulltrúum aðildarríkja ESB og hinn 14. febrúar sl. var reglugerðin á grundvelli samkomulagsins síðan formlega samþykkt í Evrópuþinginu. Að fengnu samþykki Evrópuþingsins skorti því aðeins formlegt samþykki ráðherraráðs ESB til að löggjöfin teldist endanlega samþykkt og var áætlað að sú afgreiðsla færi fram 7. mars sl.

Það kom því allmikið á óvart þegar talsmaður sænsku formennskunnar í ráðherraráði ESB tilkynnti um það í síðustu viku að afgreiðslu málsins í ráðinu hefði verið frestað um óákveðinn tíma. Ástæðan er uppkomin andstaða Þýskalands við afgreiðslu málsins í óbreyttri mynd, sem m.a. hefur fengið stuðning frá Ítalíu, Tékklandi, Póllandi og Búlgaríu. Sjónarmið þeirra er að ótækt sé að samþykkja reglur um kolefnishlutleysi sem miði við tiltekna tækni. Vilja þau að áfram verði heimilt, þ.e. eftir 2035, að skrá bifreiðar með brunahreyfla svo fremi sem þeir gangi fyrir vistvænu eldsneyti. Málið er sérstakt og hefur hlotið mikið umtal innan ESB og í fjölmiðlum síðan það kom upp enda afar fátítt að mál sem komin eru þetta langt í löggjafarferlinu séu stöðvuð. Þá hefur Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, m.a. þurft að þola gagnrýni úr eigin röðum um hversu seint athugasemdir ríkisstjórnar hans við málið hafa komið fram. Takist ekki að afgreiða reglugerðina í sama formi og hún var samþykkt í Evrópuþinginu, eins og nú er útlit fyrir, er ljóst að taka þarf efni hennar á ný upp í þríhliða viðræðum stofnana ESB og til annarrar umræðu í Evrópuþinginu. Aðrir möguleikar á úrlausn málsins til skemmri tíma kunna þó að vera fyrir hendi og mun það væntanlega skýrast á næstunni hver niðurstaðan verður.

Afstöðuskjal Íslands varðandi nýja fráveitutilskipun ESB

Í Vaktinni 4. nóvember sl. var fjallað um tillögur framkvæmdastjórnar ESB að strangari reglum um mengunarvarnir, um loftgæði, hreinleika yfirborðs- og grunnvatns og meðferð og hreinsun skólps frá þéttbýli.

Tillögurnar hafa verið í opnu samráðsferli og er frestur til að skila inn athugasemdum til 14. mars 2023.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur að undanförnu unnið að afstöðuskjali, og var skjalið kynnt á ríkisstjórnarfundi í dag, 10. mars og í framhaldinu sent framkvæmdastjórn ESB í gegnum samráðsgátt ESB, „Have your say“.

Ísland styður metnaðarfull markmið varðandi vernd ferskvatns og hafs og bendir á að rétt sé að hafa innbyggðan sveigjanleika í tilskipuninni til að ná þeim markmiðum, m.a. vegna þess að aðstæður í mjög strjálbýlu landi eins og Íslandi eru ólíkar þéttbýlum svæðum í Evrópu.

Ísland tók upp fyrri tilskipun ESB um fráveitumál og hefur hún verið innleidd í íslenska löggjöf að mestu leyti en töluvert vantar þó enn upp á framkvæmd hennar. Skoða þarf áætlanir um frekari umbætur í fráveitumálum í ljósi nýrrar væntanlegrar tilskipunar, sem gæti haft áhrif á kröfur í framtíðinni.

Í tillögu framkvæmdastjórnar ESB nú er aukin áhersla á nýtingu skólps sem auðlindar og gert ráð fyrir hertum kröfum um hreinsun skólps frá þéttbýli, m.a. til að takast á við mengun vegna örplasts, hættulegra þrávirkra efna og lyfjaleifa í viðbót við fyrri mengunarvarnakröfur. Einnig er gerð krafa um betri orkunýtni og kolefnishlutleysi fráveitu.

Í afstöðuskjali Íslands segir að mikilvægt sé að tengja hreinsun skólps betur við löggjöf um stjórn vatnamála, þ.e. að hreinsun á skólpi taki mið af ástandi viðtaka og rannsóknum sem segi til um hvers konar hreinsunar er þörf á hverjum stað. Brýnt sé að draga úr mengun frá uppsprettu, sem geti verið auðveldara að gera á Íslandi en víða annars staðar vegna smæðar landsins. Mikilvægt sé að fara eftir meginreglunni sem nefnd hefur verið mengunarbótareglan og felur í sér að kostnaður vegna aðgerða í fráveitumálum sé borinn af mengunarvöldum. Ísland vill leggja áherslu á mikilvægi þess að rými sé gefið fyrir nýsköpun á sviði skólphreinsunar, s.s. með náttúrumiðuðum lausnum eða öðrum kostum, þar sem þeir teljast fýsilegir. Þá er bent á að tímafrestir í tillögunni séu mjög knappir og líklegt að Ísland nái ekki að uppfylla þá.

Endurskoðun fráveitutilskipunarinnar var m.a. til umræðu á vegum hóps innan Evrópuþingsins – the European Parliament Intergroup on Climate Change, Biodiversity and Sustainable Development - þann 9. mars sl. Þessi hópur sameinar fulltrúa Evrópuþingsins (MEPs) úr öllum þingflokkum og þingnefndum til að finna sjálfbærar lausnir á nokkrum af stærstu áskorunum samtímans. Um er að ræða umræðuvettvang sem gerir þingmönnum kleift að hlusta, rökræða og móta hugmyndir og stefnur byggðar á framlagi frá mismunandi haghöfum, svo sem viðkomandi sérfræðingum, félagasamtökum, sveitarfélögum, atvinnulífinu, vísindamönnum og fræðimönnum, í viðurvist fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB, ráðherraráðs ESB og aðildarríkjanna og sátu fulltrúar Íslands fundinn jafnframt.

Þá er gert ráð fyrir að tillögur framkvæmdastjórnarinnar komi til umræðu á fundi umhverfisráðherra ESB þann 16. mars nk.

Fundir samgönguráðherra og orkumálaráðherra ESB – Viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug

Þann 27. og 28. febrúar sl. voru haldnir óformlegir fundir samgönguráðherra og orkumálaherra ESB í Stokkhólmi. Var Íslandi boðin þátttaka á fundunum og sótti Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra fund evrópskra samgönguráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fund orkumálaráðherra. Auk þess var haldinn sameiginlegur fundur orkumálaráðherra og samgönguráðherra sem íslensku ráðherrarnir sóttu báðir þar sem framtíð orku- og samgöngumála var rædd í samhengi.

Á sameiginlegum fundi ráðherranna voru orkuskipti í samgöngum rædd en þau eru veigamikill þáttur er kemur að umræðu um orkumál almennt. Samgöngugeirinn tekur til sín 1/3 af orkunotkun í ESB og er ábyrgur fyrir ¼ af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Fram kom að fjárveitingar til grænna fjárfestinga hafi verið stórauknar og að miklar áskoranir séu fólgnar í því að tryggja næga græna orku til framleiðslu á vistvænu eldsneyti, svo sem vetni og afleiddum orkugjöfum fyrir orkuskipti í samgöngum. Þá var alþjóðleg samkeppnisstaða Evrópu á sviði græns iðnaðar til umræðu, sbr. umfjöllun Vaktarinnar að undanförnu um IRA-löggjöf Bandaríkjanna (BNA) og framkvæmdaáætlun Græna sáttmálans sem felur í sér bein viðbrögð ESB við alþjóðlegri samkeppni á sviði græns iðnaðar og orkuskipta.

Fundur samgönguráðherra

Á fundi samgönguráðherra voru áskoranir í orkuskiptum í samgöngum einnig í brennidepli, en nægt framboð á kolefnislausu eldsneyti er lykillinn að orkuskiptum en framboð er enn sem komið er ekki til staðar. Í máli Adina Valean, framkvæmdastjóra samgöngumála í framkvæmdastjórn ESB, kom fram að framkvæmdastjórnin hefði í sjálfu sér ekki skoðanir á því hvaða lausnir yrðu ofan á heldur væri það hlutverk markaðarins að finna skilvirkustu lausnirnar. Einnig kom fram að í undirbúningi væri að reisa sjö verksmiðjur sem áætlað væri að gætu framleitt um 2,2 milljónir tonna af vistvænu eldsneyti fyrir árið 2030. Meira þyrfti þó að koma til. Ráðast þyrfti í miklar fjárfestingar í samgöngutækjum og innviðum til þess að orkuskiptin næðu fram að ganga. ESB hefði ákveðið að styðja við þessar fjárfestingar í samgöngumálum með framlögum úr sjóðum sambandsins s.s. í gegnum Connecting Europe áætlunina og fleiri áætlanir og sjóði.

Sigurður Ingi Jóhannsson gerði grein fyrir þeim góða árangri sem þegar hefði náðst við rafvæðingu fólksbílaflotans og uppbyggingu rafhleðslustöðva á Íslandi. Hins vegar væru orkuskipti skammt á veg kominn varðandi þungaflutninga. Í því efni ætti eftir að yfirstíga margar áskoranir til þess að ná fram hagkvæmum lausnum, t.d. hvað varðar framleiðslu á grænni orku, vetni og rafeldsneyti, í nægjanlegu magni og á samkeppnishæfu verði og uppbyggingu orkustöðva o.s.frv.

Fundur orkumálaráðherra

Helstu umræðuefni fundarins voru skipulag orkumarkaða, sbr. þá vinnu sem nú stendur yfir um endurskoðun reglna um evrópskan raforkumarkað, og öryggi og viðbúnað til að tryggja orkuframboð næsta vetur og framtíðarstefnu í orkumálum til að tryggja samkeppnishæfni iðnaðarstarfsemi o.fl.

Á fundinum kom fram að staða orkubúskapar í Evrópu væri betri en gert hafði verið ráð fyrir í byrjun vetrar. Staða jarðgassbirgða væri betri vegna milds vetrar og minni notkunar en einnig vegna þess að gasflutningar m.a. frá Noregi, Alsír og Aserbaídsjan hefðu komið í staðinn fyrir rússneskt gas. Eftir sem áður er ljóst að Evrópa þarf að búa sig undir að staðan varðandi jarðgas geti orðið erfið næsta vetur, vegna líklegrar þurrðar á rússnesku gasi, aukinni eftirspurn frá Kína og óvenju litlu framboði á fljótandi jarðgasi. Góðri stöðu nú var þakkað sameiginlegri stefnu og aðgerðum ESB-ríkja, s.s. við innkaup og dreifingu á gasi.

Faith Birol, framkvæmdastjóri Alþjóða orkumálastofnunarinnar (IEA) flutti erindi á fundinum og fór yfir þróun orkumála á umliðnum misserum og horfur framundan. Í máli hans kom fram að staðan væri betri en búist hefði verið við. Tekjur Rússlands af sölu olíu og gass hefðu dregist saman um 40%. Stóraukning hefði orðið í fjárfestingu í endurnýjanlegri orku og varmadælum í Evrópu. Það hefði orðið 15% aukning í sölu rafbíla á milli ára. Losun hefði minnkað um 2,5% á milli ára. Næsti vetur gæti þó orðið erfiðari en sá sem nú sér fyrir endann á. Evrópa þyrfti að móta nýja iðnaðarstefnu, þar sem fyrri stefna hefði byggt um of á aðgengi að ódýrri orku þar sem 35% hennar hefði komið frá Rússlandi. Endurnýjanleg orka og rafvæðing væri framtíðin í iðnaði.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, vakti athygli á því að staða Íslands í orkumálum væri ólík stöðu flestra annarra Evrópuríkja, þar sem Ísland er sjálfu sér nægt varðandi raforku og hita, þökk sé endurnýjanlegum innlendum orkulindum. Ísland sé reiðubúið að deila sinni þekkingu, ekki hvað síst á sviði jarðhitavirkjana, en þar eigi Evrópa meiri möguleika en margir átti sig á. Ráðherra benti á að Ísland standi sig vel hvað varðar orkuskipti í vegasamgöngum. Hlutfall vistvænna ökutækja í landinu sé yfir helmingur nýskráninga og Ísland er í öðru sæti á eftir Noregi í nýskráningum rafbíla. Líkt og hjá öðrum ríkjum sé hins vegar lengra til lands er kemur að orkuskiptum í skipaútgerð og flugsamgöngum. Ísland ætli sér hins vegar einnig að vera í fararbroddi á þeim sviðum og vinna við slíkt væri þegar hafin. Ráðherra greindi frá að hann hefði skipað starfshóp sem er falið að leggja fram tillögur um hvernig megi hraða orkuskiptum í flugi, s.s. með notkun endurnýjanlegs flugvélaeldsneytis fyrir millilandaflug. Hann lagði áherslu á að stefna og reglugerðir Evrópusambandsins varðandi orkuskipti yrðu að vera sanngjarnar og þar yrði að gæta að því að raska ekki samkeppnisgrundvelli.

Viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, nýttu báðir tækifærið og ræddu um fyrirhugaðar breytingar á viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug. Í máli þeirra beggja kom fram að gæta þyrfti að samkeppnistöðu flugrekstrar og þess að hið nýja kerfi yki ekki hættu á kolefnisleka. Lögðu þeir ríka áherslu á sérstöðu Íslands í þessu tilliti með vísan til landfræðilegrar legu Íslands fjarri meginlandi Evrópu sem muni að óbreyttu valda hlutfallslega meiri kostnaðarauka hjá flugfélögum og sem gera út frá Íslandi, en almennt gerist innan EES-svæðisins, þar sem kostnaður eykst í hlutfalli við fjarlægðir og eins vegna þeirrar staðreyndar að Íslendingar geta almennt ekki nýtt sér aðra samgöngumáta til að komast á milli landa innan EES-svæðisins.

Innviðaráðherra benti á að kerfið skerti sérstaklega samkeppnisstöðu alþjóðlegra tengiflugvalla innan EES-svæðisins í samkeppni við tengiflugvelli utan þess, eins og í Ameríku, Tyrklandi og fleiri stöðum. Samkeppnisstaða tengiflugvallarins á Íslandi myndi að óbreyttu skerðast sérstaklega mikið í samkeppni um flug yfir Atlantshafið vegna hlutfallslega meiri kostnaðar við kaup á ETS-losunarheimildum. Þá skjóti það skökku við að útreikningar sýni að losun kolefnis er jafnan minni í tengiflugi á milli Norður-Ameríku og áfangastaða á meginlandi Evrópu en með millilendingu á öðrum tengiflugvöllum innan svæðisins. Kerfið eins og það er sett upp geti því leitt til kolefnisleka sem væri í þversögn við tilgang viðskiptakerfisins. Skýrt kom fram að nauðsynlegt væri að leita lausna til að jafna samkeppnisstöðu Íslands að þessu leyti.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra greindi frá því að íslensk stjórnvöld hefðu gert  ESB skýrlega grein fyrir sjónarmiðum sínum í þessu máli og að nauðsynlegt væri að taka tillit til þeirra. ESB hefði jafnan sýnt skilning og hagsýni er kæmi að því að takmarka og koma í veg fyrir kolefnisleka í loftslagsstefnu sinni og þau sjónarmið hlytu að verða skoðuð í þessu máli um leið og gæta yrði að meginreglunni um jafna samkeppnisstöðu á innri markaði ESB. 

Fundur Schengen-ráðsins

Ráðherrar innanríkismála funduðu innan ráðherraráðs ESB í Brussel fimmtudaginn 9. mars. sl. og voru málefni Schengen-svæðisins meðal umræðuefna. Kristján Andri Stefánsson, sendiherra, sótti fundinn f.h. dómsmálaráðherra. Framkvæmdastjórn ESB kynnti nýja yfirlitsskýrslu um stöðuna á Schengen-svæðinu, þ.e. um stöðuna á ytri og innri landamærum svæðisins, um innra öryggi svæðisins, s.s. smygl á einstaklingum, ólögleg viðskipti með fíkniefni og vopn og um skipulagða glæpastarfsemi.

Í umræðum á fundinum var sérstaklega fjallað um vegabréfsáritanir og þá einkum heimild til að víkja til hliðar áður fenginni undanþágu þriðjaríkis frá áritanaskyldu inn á Schengen-svæðið (e. Visa Suspension Mechanisma). Áritanastefna ESB, sem Ísland er þátttakandi í, er í stöðugri þróun og hefur oft reynst mikilvægur liður í utanríkisstefnu ESB, t.d. á síðasta ári í aðgerðum gagnvart Rússlandi vegna innrásar í Úkraínu, og eins gagnvart Vanúatú og liprunaraðgerðum gagnvart Kósovó. Á sama tíma og áritanastefnan hefur nýst vel að mörgu leyti hafa ríkin einnig rekið sig á ákveðnar takmarkanir þegar kemur að beitingu hennar. Ráðherrar voru sammála um mikilvægi heimildar ríkjanna til að víkja til hliðar eða afturkalla áður veitta undanþágu frá áritanaskyldu, verði vart við misnotkun í miklum mæli. Þá voru þeir einnig sammála um að heimildin til að virkja kerfið væri of þröng og ferli málsmeðferðar til töku slíkra ákvarðana væri of langt og flókið. Ráðherrar voru einnig sammála um að samræmi þurfi að vera á milli þeirra viðmiða sem þriðjuríkin þurfa að uppfylla til að fá áritanafrelsi og þeirra viðmiða sem litið er til við mat á því hvort afnema eigi áritanafrelsi. Ríkin voru einnig flest sammála því að eftirlits- eða úttektarkerfi þurfi að vera til staðar. Slíkt kerfi væri til þess fallið að veita þriðjuríkjum aðhald.

Fyrrnefnd skýrsla framkvæmdastjórnarinnar um stöðuna innan Schengen-svæðisins sýnir að met hefur verið slegið innan Evrópu í tilhæfulausum umsóknum um alþjóðlega vernd frá ríkisborgurum þriðjuríkja sem undanþegin eru áritanaskyldu. Efst á listanum eru umsóknir frá ríkisborgurum Venesúela, sem nýtur áritanafrelsis inn á Schengen-svæðið. Í þessu samhengi má nefna að síðastliðin fjögur ár (2018-2022) bárust Íslandi um 900 umsóknir um alþjóðlega vernd frá Venesúela. Fjöldi umsókna jókst um 300% á milli áranna 2021 og 2022. Árið 2022 sóttu um 1.200 einstaklingar frá Venesúela um vernd á Íslandi. Þá má einnig nefna að sl. 4 mánuði hefur fjöldi umsækjenda um vernd frá Venesúela verið hærri en fjöldi umsækjenda frá Úkraínu. Sendiherra Íslands tók til máls á fundinum og benti á framangreint og á mikilvægi þessi að gripið yrði til viðeigandi aðgerða. Á fundinum kom fram hjá framkvæmdastjórn ESB að unnar verði yfirlitsskýrslur um valin ríki sem njóta áritunarfrelsis meðan unnið yrði að breytingum á umræddri reglugerð.

Sænska formennskan upplýsti ráðherranna einnig um gildistöku á endurbættu Schengen-upplýsingakerfi (e. Schengen Information System (SIS)) þann 7. mars sl. Starfræksla Schengen-upplýsingakerfisins hefur löngum þótt einn af mikilvægustu þáttum Schengen-samstarfsins en um er að ræða rafrænt gagnasafn upplýsinga frá þátttökuríkjunum til notkunar á öllu Schengen-svæðinu. Markmið Schengen-upplýsingakerfisins er að tryggja öryggi á Schengen-svæðinu, þar á meðal almannaöryggi og allsherjarreglu, en kerfið treystir eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins og greiðir fyrir samvinnu lögregluyfirvalda ríkjanna til að koma í veg fyrir og uppræta brotastarfsemi. Kerfið heldur utan um upplýsingar um eftirlýsta eða horfna einstaklinga, þriðjuríkis borgara sem dvelja ólöglega innan svæðisins, stolna muni, s.s. bíla, vopn, báta og persónuskilríki. Eftir uppfærslu á kerfinu hefur skráningarflokkum fjölgað og er því nú fleiri gögnum og upplýsingum miðlað í gegnum kerfið. Gæði upplýsinganna hefur einnig verið aukið. Endurbætt SIS er grunnurinn að yfirstandandi vinnu á þróaðasta landamæraeftirlitskerfi heims sem mun einnig samanstanda af komu- og brottfararkerfinu (e. Entry/Exit System (EES) og ETIAS-ferðaheimildakerfinu. Ráðherrar ræddu einnig fyrirsjáanlega seinkun á innleiðingu EES-kerfisins og mikilvægi þess að skýr tímalína yrði birt sem fyrst og eigi síðar en á næsta ráðherrafundi sem áætlaður er í júní nk.

Samstarfsríkjum Schengen, Íslandi, Noregi, Sviss og Liechtenstein, var boðið að sitja fund innanríkisráðherra þegar umræður um útlendingamálin fóru fram. Ráðherrar minntust flestir hörmunganna við strendur Ítalíu í lok febrúar sl. þar sem tugir einstaklinga létu lífið, m.a. börn, og voru allir sammála um að leita yrði allra leiða til að koma í veg fyrir smygl á flóttamönnum yfir Miðjarðarhafið. Í því samhengi ítrekuðu ráðherrarmikilvægi innleiðingar á aðgerðaráætlun framkvæmdastjórnar ESB fyrir ferðaleiðir flóttamanna yfir Miðjarðarhafið og um Vestur-Balkanskagann. Ráðherrar ESB ítrekuðu einnig fyrri skuldbindingar um að ná framförum með heildarpakka ESB í útlendingamálum. Þá ræddu þeir einnig innleiðingu á vegvísi Dyflinnarmála (e. Dublin Roadmap) og mikilvægi samhæfðrar nálgunar við leit og björgun á sjó.   

Yfirlit yfir framkvæmd tilskipunar um tímabundna vernd vegna stríðsins í Úkraínu

Framkvæmdastjórn ESB samþykkti og birti hinn 8. mars sl. orðsendingu þar sem farið er yfir árangur við framkvæmd tilskipunar um tímabundna vernd (e. Temporary Protection Directive) en hún var virkjuð í fyrsta sinn fyrir rúmu ári, hinn 4. mars 2022 í kjölfar þess að Rússar hófu ólögmætt innrásarstríð sitt gegn Úkraínu sem varir enn.

Á þessum tíma hafa fjórar milljónir manns fengið vernd í ríkjum innan evrópska efnahagssvæðisins (EES), þar á meðal á Íslandi, en hingað til lands hafa komið á þriðja þúsund manns á flótta frá Úkraínu. Þar af hafa rúmlega 800 manns fengið útgefið atvinnuleyfi en þess má geta að um 1.900 einstaklingar eru á aldrinum 18-67 ára og má því gera ráð fyrir að atvinnuþátttaka meðal þeirra sé um 42%.

Farið er yfir viðbrögð ESB- og EES-ríkjanna á liðnu ári í orðsendingunni. Þar kemur m.a. fram að meginmarkmið tilskipunarinnar hafi verið að veita tafarlausa vernd fyrir fólk á flótta frá Úkraínu og draga eftir fremsta megni úr flækjustigi og flöskuhálsum við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd. Í því skyni hafi verið ráðist í aðgerðir sem fólu í sér skýrar og einfaldari verklagsreglur við skráningu og útgáfu nauðsynlegra gagna. Nú ári seinna eru um milljón manns á flótta með atvinnu í álfunni og þá hefur verið ráðist í umfangsmiklar aðgerðir, með tilheyrandi fjárveitingum, til að koma húsaskjóli yfir fólkið sem flýja hefur þurft heimkynni sín.

Þá hefur verið einblínt á sérstaka vernd fyrir börn en sem stendur leitar fimmtungur úkraínskra barna hælis í Evrópu. Aðgangur að menntun og starfsþjálfun hefur verið bættur en frá og með byrjun skólaárs í september hefur um hálf milljón úkraínskra barna verið skráð í menntakerfi ESB. Að auki hefur verið komið á fót áætlun til að berjast gegn mansali og styðja við fórnarlömb stríðsglæpa. Aðgangur að heilbrigðis- og félagsþjónustu hefur þá verið bættur og tæplega tvö þúsund úkraínskir sjúklingar hafa verið fluttir til 20 ESB- og EES-ríkja og lögð hefur verið áhersla á að bæta geðheilbrigðisþjónustu og veita sálrænan stuðning.

Svokallaður samstöðuvettvangur fyrir Úkraínu (e. Solidarity Platform Ukraine), sem komið var á fót í kjölfar virkjunar tilskipunarinnar, er helsta ástæða þess að tekist hefur vel til í samræmdu viðbragði Evrópuríkja. Á grundvelli samstöðuvettvangsins og tilskipunarinnar hefur hælisleitendastofnun ESB (e. EU Agency for Asylum), Frontex – landamærastofnun ESB, og Europol – löggæslustofnun ESB komið saman til að bregðast við auknu streymi fólks frá Úkraínu til aðildarríkjanna í kjölfar stríðsins.

Í orðsendingunni kemur fram að ESB sé tilbúið að styðja Úkraínu eins lengi og þarf og hefur verndarákvæðið nú verið framlengt um eitt ár.

Reglur um ríkisaðstoð rýmkaðar

Framkvæmdastjórn ESB hefur í samræmi við þá stefnumörkum sem sett er fram í framkvæmdaáætlun Græna sáttmálans, sem ítarlega hefur verið fjallað um í Vaktinni að undanförnu, tekið ákvörðun um að rýmka tímabundið reglur um ríkisaðstoð á sviðum sem teljast mikilvæg vegna umskiptanna yfir í kolefnishlutlaust hagkerfi. Þá hefur framkvæmdastjórnin samhliða gert breytingu á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar sem veitir undanþágur frá tilkynningarskyldu vegna ríkisaðstoðar (e. General Block Exemption). Miða þessar breytingar fyrst og fremst að því að styðja við og hraða fjármögnun og fjárfestingum í grænum iðnaði innan ESB.

Frekari tíðinda er að vænta í næstu viku varðandi framfylgd framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans en þá hefur framkvæmdastjórnin boðað framlagningu reglugerðartillaga til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um kolefnishlutlausan iðnað (e. Net Zero Industry Act).

Breytingar á gjöldum og þóknunum sem Lyfjastofnun Evrópu (EMA) innheimtir

Tillögur framkvæmdastjórnar ESB um breytingar á reglugerð um gjaldskrá EMA sem lagðar voru fram 13. desember sl. eru nú til umræðu í ráðherraráðinu og á Evrópuþinginu. Núverandi gjaldskrárkerfi er komið til ára sinna, en gjöldin eru innheimt af markaðsleyfishöfum lyfja. Hluti af tekjum EMA sem innheimtar eru á þessum grunni er endurdreift til lyfjastofnana innan EES-svæðisins fyrir tilekna vinnu sem þær taka að sér við útgáfu og endurmat markaðsleyfa lyfja. Markmiðið með breytingunni er einkum að hverfa frá kerfi fastra gjalda og taka upp kerfi sem byggir á raunkostnaði við vinnuna sem innt er af hendi. Þá er einnig verið að einfalda löggjöf og tryggja sjálfbærni í samstarfi lyfjastofnana á svæðinu. 

Lyfjastofnanir á EES-svæðinu, þar með talið Lyfjastofnun Íslands hafa með sér mikið og náið samstarf og hefur sérstakur vettvangur forstjóra stofnananna (Heads of Medicines Agencies - HMA) haldið utan um samstarfið. Að mati HMA eru framkomnar tillögur mikið áhyggjuefni, en samtökin hafa í skriflegu erindi til Svía, sem nú fara með formennsku í ráðherraráðinu, gert alvarlegar athugasemdir við þær. Snúa áhyggjurnar einkum að því að með tillögunum sé höggið of stórt skarð í tekjustofna lyfjastofnana í aðildarríkjunum á sama tíma og umsóknum um markaðsleyfi lyfja fjölgar og þær verða sífellt flóknari. Í þessu sambandi er bent á að tillögurnar byggi á sjö ára gömlum gögnum, en miklar breytingar hafi orðið á vinnuumhverfi sérfræðinganna sem mötin vinna frá þeim tíma, m.a. vegna áskorana sem fylgt hafa Covid-19 faraldrinum. 

Dæmi er um að greiðslur til lyfjastofnana fyrir vísindalegt mat (e. Scientific advice/assessment) geti lækkað um allt að 60% gangi tillögurnar eftir. Það gæti þýtt að lyfjastofnanir almennt í Evrópu muni ekki hafa fjárhagslegt svigrúm til að sinna vísindalegu mati á öllum umsóknum vegna tekjutaps sem af þessu kann að leiða. Þannig megi búast við að lyfjastofnanir muni ekki hafa burði til að halda í þá sérhæfðu starfskrafta sem nauðsynlegir eru. Alvarlegar afleiðingar eins og lyfjaskortur og verulegar tafir á framboði nýrra lyfja gæti orðið raunin.

Hagsmunir Íslands eru töluverðir í þessu máli. Framlag Íslands við veitingu markaðsleyfa fyrir ný lyf innan EES-svæðisins hefur einkum verið á sviði vísindarannsókna og vísindaráðgjafar en á undanförnum árum hefur Lyfjastofnun Íslands skilað af sér um 8% þeirrar vinnu sem lokið er á þessum sviðum á vegum Lyfjastofnunar Evrópu (EMA). Hlutdeildin er sérstaklega mikil í samanburði við stærð stofnunarinnar. Tillögurnar munu að óbreyttu fela því í sér mikið tekjutap fyrir Lyfjastofnun sem þýðir að erfiðara verður fyrir hana að viðhalda þeirri sérfræðiþekkingu sem þarf til að vinna vísindamat. Hafa íslensk stjórnvöld komið áhyggjum sínum í þessum efnum á framfæri við ESB.

Af hálfu ráðherraráðs ESB, þar sem Svíar fara nú með formennsku eins og áður segir, hefur verið vel tekið í athugasemdirnar. Tillögurnar verða til umræðu í ráðherraráðinu 14. mars nk. en með auglýstri dagskrá þess fundar fylgir samantekt um þær áherslur sem formennskan hyggst beita sér fyrir, við endurskoðun tillagnanna. Skoða á almennar leiðréttingar á gjaldliðunum m.a. með hliðsjón af verðbólgu, þá á að endurskoða tiltekna gjaldliði þ. á m. þá sem snúa að vísindaráðgjöf og snerta Ísland hvað mest. Einnig er gert ráð fyrir aukinni aðkomu EMA og aðildarríkjanna við mótun tillagna af hálfu framkvæmdastjórnarinnar um breytingar á gjaldliðum í framtíðinni.

Tillögur um bætt umferðaröryggi og aukið samstarf vegna umferðarlagabrota

Þann 1. mars sl. birti framkvæmdastjórn ESB nýjan tillögupakka sem miðar að bættu umferðaröryggi fyrir alla vegfarendur innan ESB m.a. í samræmi við markmið ESB um að útrýma dauðaslysum í umferðinni fyrir árið 2050. Umferðaröryggispakkinn samanstendur af þremur eftirfarandi tillögum, en tvær fyrstnefndu eru merktar EES-tækar af hendi framkvæmdastjórnar ESB:

  • Tillaga um breytingu á tilskipun um miðlun upplýsinga milli ríkja ESB um umferðarlagabrot.

    Markmiðið með tillögunni er að fækka þeim sem komast hjá refsingu fyrir umferðarlagabrot í gestaríki. Árið 2019 náðist t.d. ekki að framfylgja viðurlögum vegna umferðarlagabrota ökumanna í gestaríki í 40% tilvika, annað hvort vegna þess að ekki náðist í viðkomandi eða vegna þess að ekki var hægt að fylgja eftir sektarboði af einhverjum ástæðum. Með tillögunni verður skráningarríki ökuskírteinis gert skylt að veita upplýsingar um ökumann í slíkum tilvikum. Í tillögunni er hlutverk og ábyrgð svonefndra landstengiliða m.a. skýrt nánar svo sem í samstarfi við lögregluyfirvöld við rannsókn umferðarlagarbrota. Þá er þeim brotaflokkum fjölgað sem tilskipunin nær til.

    Áhrifamat tillögunnar hefur verið sett í almennt samráð og er umsagnarfrestur til 2. maí nk.

  • Tillaga um breytingu á tilskipun um ökuskírteini.

    Markmiðið með tillögunni er að styðja við umferðaröryggi og setja fram samræmdar tæknikröfur vegna útgáfu rafrænna ökuskírteina innan EES. Lögð eru til ný ákvæði sem kveða á um takmörkun ökuréttinda í tvö ár fyrir nýja skírteinishafa og ný ákvæði (e. zero tolerance) um akstur undir áhrifum áfengis eða annarra efna. Í tillögunni eru ákvæði um tveggja ára skilorð handhafa nýrra ökuskírteina sem leiðir til missis ökuskírteinis við endurtekin eða alvarleg brot á umferðarlögum.

    Ungu fólki verður heimilt að hefja ökunám 17 ára undir leiðsögn nái tillagan fram að ganga. Þá er í tillögunni ákvæði sem útfæra betur hvernig standa skuli að mati á færni ökumanna vegna heilsufarsástæðna og eru tillögurnar m.a. settar fram með tilliti til framfara í læknavísindum. Loks fjalla ákvæði tillögunnar um þjálfun og prófun ökumanna til að auka færni þeirra við að aka á vegum sem deilt er með óvörðum vegfarendum, s.s. hjólreiðamönnum.

    Áhrifamat þessarar tillögu hefur sömuleiðis verið sett í almennt samráð og er umsagnarfrestur til 2. maí nk.

  • Tillaga að nýrri tilskipun um samræmda gildistöku ákvarðana um ökuleyfissviptingar í ESB ríkjunum.

Með tillögunni er lagt til að sett verði upp nýtt kerfi sem gerir ESB ríkjum kleift að framfylgja sviptingu ökuleyfis þvert á öll ríki ESB vegna alvarlegra umferðarlagabrota. Tillagan nær til brota s.s. alvarleg brot á reglum hámarkshraða, akstur undir áhrifum áfengis eða annarra efna og þegar ökumaður verður valdur að banaslysi eða alvarlegum líkamsáverkum sem eru afleiðingar umferðarlagabrots.

Reglugerð um öryggisfjarskiptakerfi um gervihnetti samþykkt

Ráðherraráð ESB samþykkti 7. mars sl. reglugerð um öryggisfjarskiptakerfi um gervihnetti, en Evrópuþingið hafði áður samþykkt málið fyrir sitt leyti á grundvelli fyrirliggjandi samkomulags um efni málsins. Fjallað var um málið í Vaktinni 4. mars 2022, 24. júní sl. og nú síðast 16. desember sl. en EES/-EFTA ríkin, Ísland, Liechtenstein og Noregur hafa sameiginlega óskað eftir þátttöku í verkefninu á grundvelli EES-samningsins. Er sú málaleitan enn á umræðustigi.

Samkomulag um Evrópska færniárið

Í vikunni náðist samkomulag milli ráðherraráðs ESB og Evrópuþingsins um efni tillagna framkvæmdastjórnarinnar um að tímabilið frá 9. maí 2023 til 8. maí 2024 verði tileinkað sérstöku færniátakið og hefur átakið verði nefnt Evrópska færniárið (e. European Year of Skills). Fjallað var um verkefnið í Vaktinni 10. febrúar sl. en þar kom jafnframt fram að áætlunin hefði verið merkt EES-tæk og er gert ráð fyrir að EES-ríkin muni taka þátt í átakinu enda eru áherslur hennar í ágætu samræmi við stefnumörkun ríkjanna á þessu sviði.  Nú er einungis eftir formleg afgreiðsla þings og ráðs um málið. Búið er að setja upp heimasíðu á vef Evrópusambandsins helgaða átakinu.

Evrópska færniárið kom til umræðu á fundi mennta-, æsku-, menningar- og íþróttamálaráðherra ESB. Á fundinum voru grænu umskiptin í brennidepli og samþykktu ráðherrarnir niðurstöður leiðtogafundar ESB frá því í febrúar um færni og hæfni fyrir grænu umskiptin og var tillögu framkvæmdastjórnarinnar um Evrópska færniárið fagnað auk þess sem lögð var áhersla á nauðsyn samstillts átaks Evrópuþjóða til endurmenntunar og uppbyggingar þekkingar fyrir grænu umskiptin til þess að tryggja betri störf fyrir alla og samkeppnishæfni og viðnámsþrótt evrópsks atvinnulífs til framtíðar. Í umræðum ráðherranna um málið kom m.a. fram að rétt menntun og framboð á menntun skipti sköpum til þess að unnt væri að mæta þörfum atvinnulífsins og tryggja samkeppnisfærni Evrópu.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir einnig um mögulegar aðgerðir til þess að mæta skorti á kennurum og mikilvægi aukinnar Evrópusamvinnu til þess að laða fleiri að kennarastarfinu auk þess sem bæta þyrfti menntun kennara og starfsaðstæður. Fram kom að hæfir og vel menntaðir kennarar væru nauðsynleg forsenda þess að efla menntun og færni. Í flestum Evrópuríkjum er skortur á vel menntuðum kennurum og víðast hvar er ekki næg aðsókn í kennaranám.

Í lok fundarins var kynnt fyrirhuguð dagskrá dags evrópskra rithöfunda sem ætlunin er að efna til 27. mars nk. og verður dagurinn helgaður lestrarátaki í framhaldsskólum og munu rithöfundar heimsækja ýmsa skóla auk þess sem haldin verður ráðstefna í Búlgaríu um mikilvægi lesturs og lestrarkunnáttu.

***

Brussel-vaktin, fréttabréf fastanefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta