Hoppa yfir valmynd

Þjónusta við Íslendinga

Sendiráðið veitir þeim Íslendingum sem búsettir eru í Bretlandi og eiga hér leið margvíslega þjónustu. Þannig hefur sendiráðið milligöngu um útvegun vegabréfa og ökuskírteina og er Íslendingum sem eru í nauðum staddir til aðstoðar.

Sendiráðið veitir auk þess Íslendingum sem eru búsettir í umdæmislöndum þess eða eru þar á ferðalagi aðstoð af ýmsu tagi. Sú aðstoð felst t.d. í útgáfu neyðarvegabréfa, skjalavottunum, aðstoð vegna veikinda, slysa og sakamála.

Hægt er að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins utan opnunartíma sendiráðsins, en hún stendur vaktina allan sólarhringinn í síma +354 545 9900. Nánari upplýsingar um borgaraþjónustuna.

Það skal tekið fram að sendiráðið veitir enga fjárhagsaðstoð af nokkru tagi.

Flutningur til Bretlands

Vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu gilda reglur um frjálsa för fólks á EES-svæðinu ekki lengur hér frá og með 1. janúar 2021. Þá tók við nýtt innflytjendakerfi og má finna nánari upplýsingar um það í frétt utanríkisráðuneytisins um réttindi íslenskra ríkisborgara í Bretlandi eftir Brexit

Sendiráðið bendir á heimasíðu breska ríkisins www.gov.uk þar sem má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um búsetu í Bretlandi, t.d. mál sem varða skatta, skóla, atvinnu, húsnæði og réttindi og skyldur. Umsóknir um vegabréfsáritanir til Bretlands fara í gegnum UK Visa Application Center í Reykjavík.

Dvalarleyfi

Íslendingar sem flytja til Bretlands eftir 31. desember 2020 þurfa að sækja um í gegnum nýtt innflytjendakerfi breskra stjórnvalda.

Íslendingum ber skylda til að tilkynna flutning frá Íslandi til Þjóðskrár Íslands.

Atvinna

Allir launþegar í Bretlandi verða að sækja um „National Insurance Number“, vegna greiðslna á tekjuskatti og almannatryggingum. Sækja má um NI númer þegar atvinnuleit er hafin eða þegar viðkomandi er kominn með vinnu. Sótt er um í gegnum Jobcentre Plus.

Húsnæði

Algengt er að leigusalar fari fram á sex vikna tryggingu og einn mánuð fyrirfram við undirritun leigusamnings. Á leigusölum hvílir lagaleg skylda til að geyma tryggingagreiðslur í svokölluðu „Tenancy deposit protection scheme“.

Skráning hjá heimilislækni og tannlækni

Á heimasíðu National Health Service (NHS) má finna næstu heilsugæslustöðvar og tannlækna með því að slá inn sínu póstnúmeri. Panta þarf tíma hjá heilsugæslustöð og framvísa umbeðnum gögnum, t.d.  vegabréfi og „utility bill“ (gas- og rafmagnsreikningi t.d.) sem sönnun á heimilisfangi. Sjá nánar á vef NHS.

Vegabréf

Umsækjendur um ný vegabréf þurfa að mæta í eigin persónu til sendiráðsins og panta þarf tíma fyrirfram á tímabókunarsíðu okkar. Ræðismenn taka ekki lengur við umsóknum um vegabréf en geta gefið út neyðarvegabréf.

Ökuskírteini

Íslenskum sendiskrifstofum óheimilt að taka á móti umsóknum um íslensk ökuskírteini ef viðkomandi Íslendingur er með fasta búsetu erlendis. Föst búseta miðast við að viðkomandi búi a.m.k. 185 daga á hverju almanaksári í viðkomandi landi. Undanskildir eru aðilar sem dvelja erlendis vegna tímabundinna verkefna eða náms (12. gr. tilsk. nr. 2006/126/EB).

Hafir þú fasta búsetu í Bretlandi en íslenskt ökuskírteini má skipta því yfir í breskt skírteini með því að fylgja þessum hlekk á vef breskra stjórnvalda.

Nánari upplýsingar fyrir Íslendinga með fasta búsetu á Íslandi eða dvelja í Bretlandi tímabundið er að finna undir flipanum "Ökuskírteini" efst á þessari síðu.

Upplýsingar um fjarpróf

Námsmenn við íslenskar menntastofnanir sem þurfa að sitja próf í Bretlandi geta sótt um að taka fjarpróf í sendiráðinu á virkum dögum milli 09:30-16:00.

Ferlið er eftirfarandi:

  • Námsmaður sendir próftökubeiðni til sendiráðsins á netfangið [email protected]. Taka þarf fram fullt nafn námsmanns, kennitölu, heiti menntastofnunar og námsbrautar, dagsetningu og tímasetningu prófs.
  • Námsmaður sendir næst inn umsókn um fjarpróf til skólans eftir að hafa fengið svar frá sendiráðinu.
  • Skólinn upplýsir sendiráðið um að heimild sé veitt fyrir próftöku í sendiráðinu.
  • Námsmaður staðfestir viku fyrir próf að hann eða hún ætli að þreyta prófið.
  • Skólinn sendir sendiráðinu prófið a.m.k. einum virkum degi fyrir prófdag.

Námsmaður greiðir £3 póstburðargjald til sendiráðsins fyrir hvert próf.

Annað:

  • Framvísa verður persónuskilríkjum áður en próf hefst.
  • Tilkynna ber forföll eins fljótt og auðið er til sendiráðsins.
  • Námsmenn mega ekki yfirgefa prófstað fyrr en prófið á Íslandi er hafið (nema að um annað hafi verið samið við viðkomandi menntastofnun).
  • Sendiráðið er ekki hannað fyrir próftökur og er ekki tryggt að þar sé hljótt vegna almennrar starfsemi í húsinu. Mælt er með því að námsmenn taki með sér eyrnatappa.
  • Sendiráðið áskilur sér rétt til að hafna beiðnum um próftökur sökum anna tengdum reglubundinni starfsemi þess eða plássleysis. Í slíkum tilfellum er það alfarið á ábyrgð próftaka að finna annan stað til að þreyta prófið. 

Á vefsíðu utanríkisráðuneytisins er að finna upplýsingar um vegabréfsáritanir fyrir Íslendinga sem þær þurfa vegna ferðalaga til einstakra landa sem og upplýsingar um vegabréfsáritanir sem útlendingar þurfa vegna ferðalaga til Íslands á vefsíðu Útlendingastofnunar.

Ökuskírteini

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu (nú dómsmálaráðuneytinu) árið 2016 er íslenskum sendiskrifstofum óheimilt að taka á móti umsóknum um íslensk ökuskírteini ef viðkomandi Íslendingur er með fasta búsetu erlendis. Föst búseta miðast við að viðkomandi búi a.m.k. 185 daga á hverju almanaksári í viðkomandi landi. Undanskildir eru aðilar sem dvelja erlendis vegna tímabundinna verkefna eða náms (12. gr. tilsk. nr. 2006/126/EB).

Þetta stafar af því að umferðalögum var breytt í lok febrúar 2016. Inn í lögin komu ákvæði sem tiltekur að „föst búseta á Íslandi“ sé meðal þeirra skilyrða sem þarf að uppfylla til að geta fengið útgefið íslenskt ökuskírteini. Íslendingar með fasta búsetu í Bretlandi verða því að sækja um breskt ökuskírteini.

Umsóknir um ökuskírteini hjá sendiráðinu fyrir Íslendinga með fasta búsetu á Íslandi eða dvelja í Bretlandi tímabundið:

Tekið er á móti umsækjendum um íslensk ökuskírteini alla virka daga og panta þarf tíma í síma 0207 259 3999 eða á netfangið [email protected].

Umsókninni þarf að fylgja svokallað kennispjald, sem útvega þarf frá Ríkislögreglustjóra. Nauðsynlegt er að hringja í sendiráðið fyrirfram, gefa upp nafn og íslenska kennitölu og biðja sendiráðið að útvega kennispjaldið. Fylla þarf út umsókn í sendiráðinu, koma með tvær nýlegar passamyndir í lit og greiða umsóknargjald. Umsækjendur sem nota gleraugu við aksturinn eru beðnir um að framvísa augnvottorði. Afgreiðslutími ökuskírteinis er um fjórar vikur.

 

Hafir þú fasta búsetu í Bretlandi en íslenskt ökuskírteini má skipta því yfir í breskt skírteini með því að fylgja þessum hlekk á vef breskra stjórnvalda.

Íslendingafélög 

Á Bretlandseyjum eru starfandi nokkur Íslendingafélög og íslenskur söfnuður:           

Aðrir íslenskir hópar í Bretlandi:

Íslenskukennsla

UCL Language Centre

Íslenski söfnuðurinn 

Íslenski söfnuðurinn í London var stofnaður árið 1983 og heldur um þrjár messur á ári  í sænsku kirkjunni í London auk hátíðarguðsþjónustu þann 17. júní í dönsku kirkjunni við Regent’s Park. Einnig eru haldnar messur á Humberside.

Sr. Sjöfn Müller Þór hefur umsjón með þjónustu við söfnuðinn. Formaður safnaðarnefndar er Inga Lísa Middleton.

Vefsíða safnaðarins: https://sjofnthor.wixsite.com/the-icelandic-church

Facebook-síða safnaðarins: https://www.facebook.com/islenskisofnudurinnLondon

Gjöld óskast greidd með debetkorti. Ekki er tekið við kreditkortum og ávísunum.


 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum