Ferðalög til og frá Bretlandi
ETA — Rafræn ferðaleyfi til Bretlands
Frá og með 2. apríl 2025 þurfa Íslendingar á leið til Bretlands að hafa sótt um rafrænt ferðaleyfi (ETA, Electronic Travel Authorisation) áður en þeir ferðast.
ETA leyfið gildir í tvö ár frá útgáfudegi, eða þangað til vegabréf rennur úr gildi sé það skemmri tími. Leyfið er tengt vegabréfinu og þarf því að sækja um nýtt ETA endurnýji ferðalangur vegabréfið sitt.
Fyrir styttri heimsóknir
- Íslenskum og öðrum erlendum ríkisborgurum, sem ekki hafa dvalarleyfi í Bretlandi, verður skylt að hafa fengið ETA áður en þeir ferðast til Bretlands.
- Þetta á bæði við um þá sem ferðast til Bretlands í einkaerindum og styttri vinnuheimsóknum.
- Ekki þarf ETA fyrir millilendingar að því gefnu að ekki þurfi að fara í gegnum vegabréfaeftirlit. Hægt er að kanna hjá flugfélagi ef óvissa ríkir um það. Þurfi ferðalangur að fara í gegnum vegabréfaeftirlit, jafnvel bara til að sækja farangur og innrita sig inn aftur, þarf ETA.
ETA kostar GBP 16 og gildir í tvö ár frá útgáfudegi eða þar til vegabréf viðkomandi rennur út ef það er innan þessara tveggja ára. Mikilvægt er að kanna að sótt sé um á réttri síðu eða í gegnum rétt app, mikilvæg vísbending þess efnis er að skoða verðið, það er aldrei hærra en 16 pund á mann.
Einfaldast að nota appið til að sækja um
Auðveldast er að sækja um ETA með „UK ETA app“ smáforriti, fyrir iPhone og Android síma,
en einnig er hægt að sækja um á vefsíðu breskra stjórnvalda, GOV.UK.
ETA er ekki dvalarleyfi
Athugið að ef dvelja á lengur en í 6 mánuði í Bretlandi, þarf að sækja um viðeigandi dvalarleyfi, og er ekki nóg að hafa ETA.
- Einstaklingar sem hafa nú þegar dvalarleyfi í Bretlandi þurfa ekki ETA til þess að ferðast til landsins.
Grunur um svikasíður
Þónokkuð er um að fólk sé að lenda inni á svikasíðum og smáforritum. Ef grunur leikur á um slíkt má alltaf sannreyna hvort ETA sé gilt eða ekki í gegnum spjallmenni breskra stjórnvalda á gov.uk síðunni.
Þá hvetja bresk stjórnvöld fólk til að tilkynna um svikasíður og -forrit í gegnum gov.uk vefinn.
Nánar á vef breskra stjórnvalda
Frekari upplýsingar um ETA má finna á GOV.UK.