Viðskipti
Viðskiptaþjónusta sendiráðsins
Meginverkefni sendiráðs Íslands í Nýju Delí er að vinna að frekari eflingu viðskiptasamstarfs Íslands og Indlands, með aukinni staðarþekkingu og uppbyggingu tengslanets í indversku viðskipta- og stjórnmálalífi. Það starf er einkum þríþætt:
- Styrking lagalegs ramma viðskipta ríkjanna.
- Aðstoð við og kynning á íslenskum atvinnugreinum sem hyggja á viðskipti við Indland. Samstarf við íslensk og indversk hagsmunasamtök í einstökum geirum, s.s. sjávarútvegi, orku, fjárfestingum, lyfjaiðnaði, ferðamennsku o.fl.
- Almenn þjónusta og bein aðstoð við íslensk fyrirtæki sem hyggja á viðskipti við Indland. Meðal þjónustu sendiráðsins má nefna skrifstofuaðstöðu, tengslamyndun, markaðsrannsóknir, milligöngu um áreiðanleikakannanir, upplýsingamiðlun um stofnun fyrirtækja og regluverk varðandi viðskipti á Indlandi.
Helstu hagsmunasamtök Indlands á sviði viðskipta eru á meðal samstarfsaðila sendiráðsins, þ.á.m.:
- Confederation of Indian Industry
- Federation of Indian Chambers of Commerce and Industry (FICCI)
- NASSCOM (Trade Body and Chamber of Commerce of the IT-BPO industries).
- Associated Chambers of Commerce and Industry of India (ASSOCHAM)
Staðarráðnir viðskiptafulltrúi sendiráðsins, hr. Rahul Chongthan, og aðstoðarviðskiptafulltrúi, frú Deepika Sachdev, eru hluti af viðskiptafulltrúakerfi Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins (VUR).
Viðskipti á Indlandi
Ýmis íslensk fyrirtæki eiga þegar í viðskiptum á Indlandi. Erlend og alþjóðleg fyrirtæki hafa undanfarin ár gefið Indlandi aukin gaum sem fjárfestinga- og viðskiptamöguleika, eins og lesa má úr tölum um stóraukna erlenda fjárfestingu erlendra aðila á Indlandi. Hagvöxtur á Indlandi endurspeglar þá gríðarlegu efnahagslegu uppbyggingu sem staðið hefur yfir og fram undan er á Indlandi, næst fjölmennasta ríki heims.
Íslenskum aðilum sem hafa hug á viðskiptum við eða á Indlandi er bent að hafa samband við sendiráðið sem veitir margvíslega viðskiptaþjónustu í því tilliti, t.d. með gerð markaðsyfirlita, aðstoð við tengslamyndun á Indlandi, ráðgjöf um regluverk indverskra stjórnvalda og margt fleira.
Markmið sendiráðs Íslands á Indlandi er að nýta þann pólitíska velvilja sem ríkir milli Íslands og Indlands til að ýta undir raunsanna efnahags- og viðskiptasamvinnu fyrirtækja, stofnana og einkaaðila.