Hoppa yfir valmynd

Þjónusta við Íslendinga

Hér eru ýmsar upplýsingar um dvöl í Frakklandi.

Sendiráð Íslands í París leggur lið bæði þeim Íslendingum sem búsettir eru í umdæmislöndunum, námsmönnum og ferðamönnum. Aðstoð sendiráðsins getur verið með ýmsum hætti. Algengast er að fólk leiti til sendiráðsins vegna útgáfu vegabréfa og vottorða.

Það skal tekið fram að sendiráðið veitir enga fjárhagsaðstoð af nokkru tagi.

Gagnlegar upplýsingar um Frakkland má finna á vefsíðu ferðamálaráðs Frakklands. 

Íslenskum ríkisborgurum er frjálst að dvelja í Frakklandi lengur en 3 mánuði að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum.  Þeim ber skylda til að eiga gilt vegabréf meðan á dvöl þeirra stendur og þurfa að geta sýnt fram á framfærslugetu.  Íslenskum ríkisborgurum ber ekki skylda til að sækja um dvalarleyfi í Frakklandi en það getur þó í sumum tilfellum reynst gagnlegt. Benda má á að almenningi er skylt að ganga með persónuskilríki á sér í Frakklandi og flokkast einungis vegabréf og dvalarleyfi sem gild persónuskilríki fyrir íslenska ríkisborgara.  

Sjá nánari upplýsingar á upplýsingasíðu franskra stjórnvalda: Séjour de longue durée d'un Européen en France | Service-public.fr


Námsmenn

Íslenskir námsmenn þurfa einnig að geta sýnt fram á skráningu í nám í Frakklandi og sjúkratryggingu á Íslandi.  Námsmenn geta haldið lögheimili sínu á Íslandi meðan á námi stendur og haldið rétti sínum til almannatrygginga. Framvísa þarf evrópska sjúkratryggingakortinu við komu á heilbrigðisstofnun.

Námsmenn þurfa ekki að sækja um dvalarleyfi í Frakklandi, nema þeir óski eftir því sérstaklega.  Hægt er að sækja um dvalarleyfi hér: Étrangers en France | Accueil (interieur.gouv.fr)


Launþegar

Launþegar þurfa ekki að sækja um dvalarleyfi í Frakklandi, nema þeir óski eftir því sérstaklega.  Hægt er að sækja um dvalarleyfi hér: Étrangers en France | Accueil (interieur.gouv.fr)

Eftirlaunaþegar og fólk án atvinnu

Eftirlaunaþegar og fólk án atvinnu geta að uppfylltum skilyrðum dvalið í Frakklandi lengur en 3 mánuði. 

Þau þurfa að geta sýnt fram á framfærslugetu og sjúkratryggingu.  Sjá frekari upplýsingar um kröfur varðandi framfærslugetu hér: Séjour de longue durée d'un Européen en France | Service-public.fr

Eftirlaunaþegar og fólk án atvinnu þurfa ekki að sækja um dvalarleyfi í Frakklandi, nema þau óski eftir því sérstaklega.  Hægt er að sækja um dvalarleyfi hér: Étrangers en France | Accueil (interieur.gouv.fr)

Upplýsingar um sjúkratryggingar og réttindi milli landa: https://island.is/s/sjukratryggingar/sjukratryggingar

Til að stofna bankareikning í Frakklandi þarf viðkomandi að vera með:

  • Fast heimilisfang í Frakklandi
  • Vegabréf
  • Staðfesting á heimilisfangi (justificatif de domicile)
  • Fæðingarvottorð

Og eftir atvikum:

  • Staðfesting á föstum tekjum (launaseðill, LÍN, skuldbinding foreldra...)

Æskilegt er að ætla sér rúman tíma til að leita að húsnæði því framboð er lítið, sérstaklega í París. Best er að vera á staðnum en mælt er með því að kynna sér markaðinn fyrirfram, t.d. á netinu.

Beðið er um eftirfarandi skjöl við undirskrift leigusamnings:

  • Staðfesting á föstum tekjum
  • Staðfesting á bankareikningi (RIB)
  • Innbústrygging (hægt að fá í bönkum eða hjá tryggingarfélagi)
  • Greiða þarf í flestum tilvikum allt að þrjá mánuði fyrirfram
  • Oftast er beðið um ábyrgðarmenn
  • Námsmenn geta sótt um húsaleigubætur (sjá heimasíðu CAF)

Leiguhúsnæði á almennum markaði:
https://www.seloger.com/ 
https://www.pap.fr/
https://www.lodgis.com/fr/ 

Fyrir námsmenn:
https://www.lacartedescolocs.fr/

https://www.lokaviz.fr/

Cnous (Crous)

Íslensk ökuskírteini

Sá sem hefur fasta búsetu erlendis og glatar íslensku ökuskírteini sínu getur ekki lengur sótt um endurútgáfu þess.  Föst búseta miðast við að viðkomandi búi a.m.k. 185 daga erlendis á hverju almanaksári.  Undanskildir eru aðilar sem dvelja erlendis vegna tímabundinna verkefna eða náms (12. gr. tilsk. nr. 2006/126/EBE).  Íslendingar með fasta búsetu erlendis verða því að sækja um nýtt ökuskírteini í því landi sem þeir teljast hafa fasta búsetu.  

Íslensk ökuskírteini eru gild í Frakklandi og þeim, sem hefur þar fasta búsetu, ber ekki skylda til að sækja um franskt ökuskírteini nema ef viðkomandi hefur gerst sekur um umferðarlagabrot (sjá opinberar upplýsingar á frönsku hér). 

Frönsk ökuskírteini:

Sýslumannsembættin (préfecture) eða aðallögreglustöðin í París (Préfecture de police) annast afgreiðslu.  Nánar um afgreiðslu franskra ökuskírteina hér.

Íslendingar á atvinnuleysisbótum á Íslandi sem flytja til Frakklands eiga rétt á atvinnuleysisbótum í Frakklandi. Skilyrði er að framvísa eyðublaði E303 innan 7 daga frá komu til Frakklands hjá Pôle Emploi.

Hér má finna heimilisfang Pôle Emploi sem tilheyrir dvalarstað viðkomandi.

Pôle Emploi aðstoðar jafnframt atvinnulausa við leit að nýrri atvinnu.

Markmið skólans eru að gefa íslenskum börnum í París og nágrenni tækifæri til að eiga samskipti á íslensku, að læra að lesa og skrifa á íslensku með hliðsjón af grundvallaratriðum íslenskrar málfræði og að kynnast íslenskri sögu og menningu. Kennslan á sér stað nokkra laugardagsmorgna yfir vetrartímann. Tekið er á móti börnum frá 2 ára aldri. Kennslan fer fram í Sænska skólanum í 17. hverfi, sem er í sama húsi og sænska kirkjan. Vinsamlegast hafið samband við Ástu Sólveigu Georgsdóttur til að fá frekari upplýsingar.

Börn íslenska foreldra fædd í Frakklandi eða börn fædd í blönduðu hjónabandi þarf að skrá á næstu borgarskrifstofu (La Mairie) innan við 72 tíma eftir fæðingu. Ef barn fæðist á miðvikudegi, fimmtudegi eða á föstudegi, er síðasti skráningardagur mánudagur. Viðkomandi fær franskt fæðingarvottorð á fæðingarheimilinu og barninu er strax gefið nafn.

Upplýsingar um skráningu barns í íslenska þjóðskrá.

Íslendingar sem vilja gifta sig í Frakklandi þurfa:

  • Að hafa haft lögheimili í Frakklandi í að minnsta kosti 3 mánuði fyrir giftingu (hóteldvöl telst ekki gild)
  • Frumrit að fæðingarvottorði
  • Staðfesting á heimilisfangi (t.d. leigusamningur, síma- eða rafmagnsreikningur)
  • Staðfesting á að viðkomandi sé ógiftur - hjúskaparstöðuvottorð (certificat de célibat)
  • Staðfesting á að viðkomandi sé leyfilegt að gifta sig samkvæmt íslenskum lögum - fæst hjá sendiráðinu (certificat de coutume)
  • Gild skilríki (vegabréf)
  • Nöfn á vottum og öll ofangreind vottorð mega ekki vera eldri en 2ja mánaða.

EES-samningurinn kveður á um frjáls vöru- og þjónustuviðskipti, frjálsa fjármagnsflutninga og sameiginlegan vinnumarkað á EES-svæðinu. Samningurinn kveður einnig á um samvinnu EES-ríkjanna á sviði félagsmála, jafnréttismála, neytendamála, umhverfismála, menntamála, vísinda- og tæknimála o.fl. Sjá nánar: www.ees.is

Þegar fjölskylda eða einstaklingur flytur aftur til Íslands eftir að hafa búið erlendis þarf að huga að ýmsu.  Nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni island.is.

Allar upplýsingar á heimasíðu Campus France og á app-inu Immersion France.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta