Þjónusta við Íslendinga
Borgaraþjónusta
Sendiráðið er umsóknarstöð fyrir íslensk vegabréf, gefur út neyðarvegabréf og liðsinnir íslenskum ríkisborgurum í vanda, oft í samvinnu við kjörræðismenn í umdæmisríkjum sendiráðsins.
Vegabréfsáritanir
Sendiráðið í Peking gefur út vegabréfsáritanir inn á Schengen svæðið fyrir erlenda ríkisborgara sem eiga erindi til Íslands.
Viðskiptaþjónusta og menningarráðgjöf
Sendiráðið starfar náið með íslenskum fyrirtækjum og viðskiptafulltrúi sendiráðsins veitir þeim aðstoð og ráðgjöf. Að sama skapi veitir menningarfulltrúi sendiráðsins aðstoð og ráðgjöf á sviði menningarmála. Sendiráðið getur haft milligöngu um útgáfu opinberra skjala í samstarfi við viðeigandi stofnanir á Íslandi.
Íslendingar ferðast í síauknum mæli til Kína, hvort heldur í skipulögðum hópferðum eða á eigin vegum. Mælst er til þess að þeir sem ferðast á eigin vegum sendi sendiráðinu upplýsingar um ferðaáætlun svo hægara sé um vik að leita fólk uppi ef þess gerist þörf. Hægt er að gera slíkt í gegnum netfangið [email protected]. Ítrekað er að farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.
Hér að neðan er að finna upplýsingar um vegabréfsáritanir, bólusetningar og ýmis hagnýt atriði sem hafa ber í huga þegar haldið er í heimsókn.
Heilsugæsla og sjúkrahús
Undanfarin ár hefur heilsugæsla tekið miklum framförum í Kína. Þrátt fyrir það má búast við miklum mun á þjónustu frá einum stað til annars. Í Beijing og Shanghai eru stærstu vestrænu spítalarnir. Mælt er með því að ganga frá sjúkra- og ferðatrygginu áður en lagt er afstað og taka öll lyfseðilsskyld lyf með að heiman. Ef veikindi eða slys ber að höndum er hægt að hafa samband við sendiráðið á opnunartíma þess, en utan opnunartíma má ná sambandi við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins í síma +354 545 9900 sem er opin allan sólarhringinn.
Hótelbókanir
Hægt er að bóka hótel ef farið er á eigin vegum á flestum bókunarsíðum, til dæmis eftirfarandi síðum:
- Trip.com
- Elong.net
- Booking.com
Vatn
Ekki er ráðlagt að drekka kranavatn eða fá sér klaka með drykkjum í Kína. Þetta á við um allt land. Best er að sjóða allt vatn sem notað er eða drekka flöskuvatn.
Matvæli
Matareitranir hafa stundum valdið vandræðum meðal ferðalanga í Kína, sér í lagi á sumrin. Gangið úr skugga um að matur sé gegnsteiktur. Ávexti og grænmeti er erfitt að þrífa. Best er að fjarlægja hýðið, síðan sjóða. Þá geta mjólkurvörur verið afar varasamar ef ekki geymdar á réttan hátt.
Gjaldmiðill
Kínverski gjaldmiðillinn er Renmibi (RMB), í daglegu tali nefnt Yuan eða „Kvai“. Alþjóðlega er kínverski gjaldmiðillinn nefndur Yuan (CYN). Hægt er að skoða gengi gjaldmiðla á eftirfarandi vefsvæði.
Greiðslukort
Greiðslukort verða æ algengari í Kína. Hægt er að greiða með greiðslukorti á alþjóðlegum hótelum, veitingastöðum og vestrænum verslunarkeðjum. Hraðbankar eru aðgengilegir í flestum stórborgum landsins. Hámark upphæða sem hægt er að taka út með greiðslukorti er ákveðið af þeim banka sem gefur kortið út á Íslandi.
Samgöngur í Beijing
Staðið hefur verið í umtalsverðum umbótum á samgöngukerfinu undanfarin ár. Neðanjarðarlestarkerfið hefur verið stækkað umtalsvert og ferðir eru tíðar.
Einnig er mikið er af leigubílum og þeir eru tiltölulega ódýrir en grunngjaldið er 13 RMB. Ekki tíðkast að gefa þjórfé og ekki borgar sig að reyna að semja um verðið fyrirfram. Best er að láta mælinn gilda.
Hér má finna lítinn leigubíla-leiðarvísi um Beijing en hann er hægt að nota til að komast á milli helstu staða. Bílstjórarnir geta flestir lesið kínverska letrið og farið á þann stað sem óskað er eftir.
Ekki er leyfilegt fyrir erlenda ríkisborgara að aka bifreið í Beijing nema að taka bílpróf og fá útgefið kínverskt ökuskirteini.
Símasamband
Frá Íslandi til Kína: 0086 landsnúmer svæðisnúmer og 8 stafa símanúmer.
Frá Kína til Íslands: 00354 og 7 stafa símanúmer.
Rafmagnsinnstungur
Alþjóðleg hótel bjóða uppá innstungur fyrir vestrænar klær. Ef ferðast er í dreifbýli er mælt með að taka fjölnota innstungu með i för.
Veðurfar
Veðurfar í Kína er mjög fjölbreytilegt milli árstíða og staðsetningar í landinu. Upplýsingar um hvernig veðrið er má nálgast hér.
Almennir frídagar í Kína
1. janúar – nýarsdagur
1. maí – frídagur verkamanna
1. október – Þjóðhátíðardagur Kína
Kínverska nýárið fellur að jafnaði í febrúar á ári hverju en dagsetning er breytileg.
Sjá nánar um frídaga undir flokknum Um sendiskrifstofu.
Áritanir
Íslendingar þurfa vegabréfsáritun vilji þeir heimsækja Kína. Kínverska sendiráðið í Reykjavík annast útgáfu vegabréfsáritana á Íslandi og á heimasíðu þeirra er hægt að nálgast allar upplýsingar.
Sendiráð Kína í Reykjavík
Bríetartún 1
105 Reykjavik
Sími: 00354-5276688
Fax: 00354-5626110
Netfang: [email protected]
Heimasíða: http://is.china-embassy.org/eng/
Opnunartímar: 09:00-11:30 (Mánudaga, miðvikudaga og föstudaga)
Frekari upplýsingar um reglugerð vegabréfsáritana er að finna á heimasíðu kínverskra stjórnvalda.
Hong Kong SAR og Macao SAR
Íslendingar þurfa ekki vegabréfsáritun til að komast inn í Hong Kong SAR og Macaó SAR. Reglur um landvist á þessum tveimur sérstöku stjórnarsvæðum (Special Administrative Region) eru ekki tengdar reglum Alþýðulýðveldisins Kína.
Upplýsingar um möguleika á endurnýjun á vegabréfaáritun til Kína frá Hong Kong er að finna á heimasíðu „the Commisioners Office“ í Hong Kong.
Breyttar reglur varðandi búsetuskráningu í Kína
Þann 1. nóvember 2007 gengu í gildi nýjar reglur um búsetuskráningu í Kína.
Allir sem búsettir eru í Kína eru skyldugir til að skrá búsetu sína hjá yfirvöldum. Samkvæmt reglum frá „Public Security Bureau“ eru allir skyldugir, frá 1. nóvember 2007, til að skrá sig á næstu hverfislögreglustöð 24 klukkustundum eftir komuna til Kína. Reglur þessar gilda einnig ef flutt er innan sömu borgar.
Brot varðar sektum allt að 5000 RMB fyrir þá aðila sem ekki hafa gengið frá búsetuskráningu sinni á innan við 24 klst.
Einnig skal skrá alla gesti sem dvelja á einkaheimili lengur en 3 daga. Sumstaðar er nægilegt að skrá gestina hjá eigin „management office”. Skráning á að eiga sér stað innan við 24 klukkustundum frá komu.
Athugið að ef dvalið er á hóteli, þá sér hótelið sjálfkrafa um að búsetuskrá gesti sína.
Sendiráðið hvetur alla íslenska ríkisborgara til að ganga úr skugga um að þeir séu rétt skráðir og skrá sig sem fyrst ef svo er ekki.
Sendiráð Íslands beinir því til íslenskra ríkisborgara búsetta í Kína að vera vakandi vegna reglna í landinu um framlengingu vegabréfaáritunar og dvalarleyfa.
Er hægt að framlengja vegabréfaárituninni í Hong Kong?
Ekki er tryggt að hægt sé að framlengja vegabréfaáritunum í Hong Kong eins og verið hefur. Misvísandi upplýsingar hafa borist frá kínverskum yfirvöldum þess efnis. Sendiráð Íslands mælir með því að íslenskir ríkisborgarar leiti sér upplýsinga fyrirfram.
Hægt er að hafa samband við „Entry og Exit Administration Office" til að leita frekari upplýsinga um möguleika á framlengingu áritunar og dvalarleyfis.
- Information desk Tel: ( 86 010) 8402 0101
- Customer Service Line Tel: ( 86 010) 8401 5300 eða 8401 5316
Upplýsingar um möguleika á endurnýjun á vegabréfaáritun til Kína frá Hong Kong er að finna á heimasíðu „the Commisioners Office“ í Hong Kong. Sendiráð Íslands mælir með að haft sé samband við viðkomandi stofnun áður en haldið er til Hong Kong.
Hvað gerist ef dvalist er lengur en vegabréfaáritunin segir til um?
Sendiráðið beinir því til íslenskra ríkisborgara að athuga gildistíma áritunar sinnar og tryggja þarf að áritun sé í samræmi við áætlaða lengd dvalar. Ef dvalist er umfram þann tíma sem áritunin segir til um getur það varðað sektum allt að 500 RMB (u.þ.b. 10.000 ISK) á dag og jafnvel harðari refsingu.
Er hægt að ferðast frá Kína án vegabréfs og vegabréfaáritunar, ef t.d. vegabréfi er týnt?
Nei slíkt er ekki hægt. Við þessar kringumstæður er nauðsynlegt að fá útgefið neyðarvegabréf frá íslenska sendiráðinu í Beijing og sækja um nýja vegabréfaáritun frá kínverskum yfirvöldum. Athugið að þetta ferli getur tekið nokkra daga. Nánari leiðbeiningar um ferlið er að finna undir tenglinum „þegar slysin gerast“ hér til hliðar.
Er hægt að ferðast frá Kína eftir að vegabréfaáritunin í vegabréfinu er útrunnin?
Í Kína er öflugt eftirlit með slíku og viðkomandi getur orðið fyrir því að vera stöðvaður við venjulegt eftirlit á flugvellinum. Að jafnaði er einungis hægt að yfirgefa Kína ef vegabréfaáritunin er í gildi.
Almennt um háskólanám
Íslendingar geta sótt um nám við kínverska háskóla án milligöngu íslenskra háskólastofnana. Fjölmargir kínverskir háskólar bjoða uppá námsbrautir sérstaklega ætlaðar erlendum nemendum.Í þeim tilfellum er kínversku kunnátta ekki alltaf skilyrði fyrir inntöku.
Kínverskir háskólar bjóða þar að auki uppá fjölmarga áhugaverða möguleika til kínverskunáms fyrir erlenda nemendur.
Hér má finna tengla og heimilisföng nokkurra helstu háskóla í Kína.
Námsmenn sem stunda nám við háskólastofnun á Íslandi en óska eftir skiptinámi í Kína er bent á að leita til námsráðgjafa viðkomandi menntastofnunar um frekari upplýsingar. Í mörgum tilfellum eru íslenskir háskólar í samstarfi við virta háskóla í Kína þar sem gildandi eru samningar um nemendaskipti.
Hvað varðar kínverskunám er oft talið að besti aðbúnaðurinn sé í Beijing Language and Culture University eða Peking University.
Best er að athuga hver skilyrði eru fyrir inngöngu í hverjum skóla fyrir sig enda gera skólarnir mismunandi kröfur til verðandi nemenda.
Styrkir til náms
Kínversk stjórnvöld bjóða reglulega styrki til handa Íslendingum sem hyggja á háskólanám í Kína. Íslenska menntamálaráðuneytið hefur séð um að auglýsa þessa styrki og veita umsóknum viðtöku.
Styrkirnir eru ekki bundnir við kínverskunám. Hins vegar er bent á að sumir háskólar í Kína krefjast töluverðrar færni í kínversku til að veita inngöngu. Boðið er upp á staðlað stöðupróf í kínversku, "The Chinese Proficiency Test (Hanyu Shuiping Kaoshi, HSK)", til að kanna kínverskukunnáttu útlendinga.
Varðandi möguleika á skólavali geta styrkþegar væntanlega haft nokkur áhrif þar á, sérstaklega ef inntökuvottorð frá viðkomandi skóla fylgir umsókn þeirra.
Hér er að finna upplýsingar um hvernig skuli bregðast við þegar ákveðin óhöpp gerast.
- Nákvæmar leiðbeiningar er að finna um hvað gera skuli ef vegabréf hefur týnst og hvert skuli fara.
- Upplýsingar um forvarnir og viðbrögð við ákveðnar aðstæður sem og rýmingaráætlun sendiráðsins er að finna í neyðaráætluninni. Lagt er til að fólk kynni sér áætlunina við fyrsta hentugleika.
- Hér má einnig finna mikilvægar upplýsingar svo sem símanúmer um spítala, norrænar sendiskrifstofur, flugfélög og svo framvegis víðsvegar um Kína.
- Gagnlega tengla sem varða heilbrigði og skyndihjálp.
Glatað vegabréf
Hér er að finna ítarlegar leiðbeiningar um hvernig og hvað skuli gera ef íslenskt vegabréf hefur glatast. Til að fá nánari upplýsingar og aðstoð er best að hafa samband við sendiráðið svo skjótt sem auðið er.
Farið er í gegnum ákveðið ferli þegar vegabréf týnast og skiptir máli að hverju þrepi sé fylgt nákvæmlega.
Muna þarf að koma með tvær passamyndir til sendiráðsins.
Neyðaráætlun
Sendiráð Íslands í Beijing mælir með því að Íslendingar búsettir í Kína kynni sér, prenti út og geymi neyðaráætlun sendiráðins á vísum stað. Ráðlagt er að hafa hana við hendina ef nauðsyn krefur.
Gagnleg símanúmer
Hér að finna upplýsingar um helstu neyðarnúmer, sjúkrahús, norrænar sendiskrifstofur, flugfélög í Beijing og víðsvegar í Kína. Unnið verður áfram að því að bæta við fleiri upplýsingum jafnt og þétt.
Sendiráðið mælist til að allir sem eru búsettir í Kína eða ferðast um landið prenti út og geymi þessar upplýsingar á vísum stað.
Gagnlegir tenglar
Heilbrigðisstofnanir
- World Health Organisation
- Rauði Krossinn í Kína
- Landlæknisembættið
- Rauði Kross Íslands
- International SOS Hospital
- United Family Hospital
Aðrar opinberar stofnanir
- Almannavarnir Ríkisins
- Íslenska utanríkisráðuneytið
- Sendiráð Íslands í Beijing
- Sendiráð Danmerkur
- Sendiráð Noregs
- Sendiráð Finnlands
- Sendiráð Svíþjóðar
Skyndihjálp
- Rauði Kross Bretlands: Samantekt um skyndihjálp
- BBC: samantekt um skyndihjálp
Tryggingar
Hér er að finna almennar upplýsingar um tryggingamál bæði fyrir ferðamenn sem og námsfólk í Kína
Tryggingastofnun Ríkisins (TR)
Tryggingastofnun Ríkisins tryggir íslenska ferðamenn á ferðum sínum um Kína upp að vissu marki. Endurgreiðsla af sjúkrakostnaði er miðuð við kostnað á Íslandi og svo er greitt ákveðið hlutfall af þeim kostnaði sem er umfram ef um slíkt er að ræða.
Hjá ferðamanni er hlutfallið eftirfarandi;
- Af kostnaði fyrstu 75.000 kr. greiðast 50%
- Af kostnaði umfram 75.000 greiðast 75%
- Af kostnaði umfram 10.000.000 greiðast 90%
Hjá námsmanni eru hlutfallið eftirfarandi;
- Af kostnaði fyrstu 75.000 kr. greiðast 75%
- Af kostnaði umfram 75.000 greiðast 90%
- Af kostnaði umfram 10.000.000 greiðast 100'%
Hafi viðkomandi tekið sér sjúkra- eða slysatryggingu hjá vátryggingarfélagi sem greiðir hluta kostnaðarins, á viðkomandi ekki rétt á greiðslu frá Tryggingastofnun vegna umframkostnaðar, nema að því leyti sem vátryggingarfélagið bætir hann ekki. Sama á við ef um bætur er að ræða frá þriðja aðila.
Einstaklingur getur fengið svokallaða tryggingayfirlýsingu áður en farið er. Þar kemur fram að viðkomandi sé tryggður á Íslandi. Yfirlýsingin er í raun bara staðfesting og er ekki hægt að greiða með henni.
Það skal tekið fram að þessar upplýsingar eru breytingum undirlagðar og eru byggðar á gögnum frá Tryggingastofnun Ríkisins. Því er mælt með að leita sér nýjustu upplýsinga hjá TR.
Vátryggingarfélög
Íslensk vátryggingarfélög bjóða uppá mismunandi kjör eftir einstaklingum. Því er mælt með að hafa samband við vátryggingafélögin til að fá nákvæmt verð fyrir ferða- og slysatryggingu sé slíkt ekki innifalið í heimilistryggingunni.
Námsmenn þurfa að tryggja sig sérstaklega þar sem námsmannatrygging er að jafnaði ekki innifalin í heimilistryggingu.
- Borgun
Emergency number: (+354) 533 1400
www.borgun.is - Valitor
Emergency number (+45) 7010 5050
www.valitor.is - Tryggingamiðstöðin hf.
Telephone number: ( 354) 515 2000
Emergency number: ( 354) 800 6700
www.tryggingamidstodin.is - Sjóvá-Almennar tryggingar hf.
Telephone number: ( 354) 440 2000
www.sjova.is - VÍS Vátryggingarfélag Íslands
Telephone number ( 354) 560 5000
www.vis.is