Þjónusta við Íslendinga
Almennar upplýsingar um dvöl í Svíþjóð
Sendiráð Íslands í Stokkhólmi leggur lið bæði þeim Íslendingum sem búsettir eru í umdæmislöndum sendiráðsins, námsmönnum og ferðamönnum. Aðstoð sendiráðsins getur verið með ýmsum hætti. Algengast er að fólk leiti til sendiráðsins vegna útgáfu vegabréfa og neyðarvegabréfa.
Þeir sem hyggjast heimsæka sendiráðið vegna erindis eru beðnir um að bóka tíma eða tilkynna komu sína fyrir fram í gegnum síma eða tölvupóst. Þeir sem eru í hjólastól eða gætu þurft aðstoð til þess að komast inn á sendiskrifstofuna eru beðnir að láta vita af því við tímabókun svo hægt sé að ganga úr skugga um að aðgengi verði óhindrað við heimsókn.
Það skal tekið fram að sendiráðið veitir ekki fjárhagsaðstoð af nokkru tagi.
Helstu upplýsingar um Svíþjóð má finna á http://www.sweden.se/
Ef þú ert að íhuga að flytja til Svíþjóðar er að mörgu að hyggja. Norræna upplýsingaþjónustan Info Norden veitir góð ráð þeim sem eru að flytja á milli Norðurlandanna og öllum er ráðlagt að kynna sér þær upplýsingar vel. Þar er að finna upplýsingar um kennitöluskráningu, húsnæðismál, leikskóla- og skólamál, bankamál, almannatryggingar og fleira.
Íslendingafélög og söfnuðir:
- Íslendingafélagið í Malmö og nágrenni
- Íslendingafélagið í Gautaborg
- Íslenski söfnuðurinn í Gautaborg (Íslenska kirkjan í Svíþjóð)
- Íslendingafélagið í Stokkhólmi
Námsmenn:
- Félag íslenskra námsmanna í Stokkhólmi
- SÍNE (Samband íslenskra námsmanna erlendis)
Börn af íslenskum uppruna sem búsett eru í Svíþjóð eiga rétt á móðurmálskennslu með því skilyrði að annað eða báðir foreldrar tali íslensku sem móðurmál, barnið hafi grunnþekkingu á íslensku og tali íslensku á heimili sínu, og að hæfur kennari sé til staðar. Móðurmálskennslan er greidd af sveitarfélaginu sem fjölskyldan býr í.
Þegar barn er komið á skólaaldur eiga foreldrar að fá heim umsóknareyðublað sem fylla skal út, ef óskað er eftir móðurmálskennslu. Eyðublaðinu er skilað til skólans sem kemur því til viðeigandi yfirvalda í sveitarfélaginu. Í Stokkhólmsléni er það Språkcentrum sem skipuleggur kennsluna. Best er að snúa sér til skrifstofu viðkomandi sveitarfélags.
Í sænskum lögum um grunnskóla (Grundskoleförordning – 1994:1194, 9 § - 14 §) má lesa nánar um rétt til móðurmálskennslu í grunnskóla (sjá www.notisum.se/). Þar kemur fram í 2. mgr. 13. gr. að sveitarfélagi sé skylt að skipuleggja móðurmálskennslu ef sótt er um það fyrir minnst 5 nemendur í senn. Innan Stokkhólmsléns hefur verið horft framhjá þessari reglu, en sendiráðið hefur haft spurnir af því að sveitarfélög annars staðar í Svíþjóð hafa hafnað umsóknum um móðurmálskennslu m.a. vegna þess að þeim sé ekki skylt að verða við þeim nema áðurnefndu lágmarki sé náð.
Íslenskur ríkisborgararéttur
Útlendingastofnun á Íslandi sinnir móttöku umsókn um íslenskan ríkisborgararétt, hvort sem umsókn á að afgreiðast af innanríkisráðuneyti eða Alþingi. Nánari upplýsingar um íslenskan ríkisborgararétt má finna á heimasíðu Útlendingastofnunar.
Lög um íslenska ríkisborgararétt
Ríkisborgararéttur í Svíþjóð
Upplýsingar um tvöfaldan ríkisborgararétt og ríkisborgararétt í Svíþjóð má finna hér.
Umsóknir um endurnýjun ökuskírteinis
Þeir sem eiga lögheimili á Íslandi geta sótt um endurnýjun á íslensku ökuskírteini í sendiráðinu í Stokkhólmi.
Þeir sem eiga lögheimili í Svíþjóð geta ekki sótt um endurnýjun á íslensku ökuskírteini en geta þó sótt um að fá sænskt ökuskírteini þess í stað. Séu ökuréttindi viðkomandi á Íslandi enn í gildi þarf viðkomandi ekki að taka próf til að öðlast sænskt ökuskírteini. Nánari upplýsingar veitir Transportstyrelsen.
Vinsamlegast pantið tíma hjá sendiráðinu fyrirfram í síma 08 442 8300.
Sjá gjaldskrá borgaraþjónustu fyrir verð.
Umsókninni þarf að fylgja svokallað kennispjald sem útvega þarf frá Ríkislögreglustjóra. Best er að hringja fyrirfram, gefa upp nafn og íslenska kennitölu og biðja sendiráðið að útvega kennispjaldið. Fylla þarf út umsókn í sendiráðinu, koma með eina passamynd og greiða með reiðufé eða greiðslukorti. Sé umsækjandi með meirapróf, þarf viðkomandi að sækja sér læknisvottorð hjá sínum heimilislækni áður en komið er í sendiráðið að sækja um nýtt ökuskirteini.
Nánari upplýsingar um endurnýjun ökuskírteinis má finna á heimasíðu Sýslumanna.
Íslensk ökuskírteini eru gild í Svíþjóð.
Próftaka í sendiráði
Íslenskum námsmönnum er heimilt að taka próf frá íslenskum menntastofnunum í sendiráðinu á virkum dögum. Menntastofnun skal senda beiðni um próftöku á netfang sendiráðsins [email protected] og gera grein fyrir nemanda, námsgrein og dagsetningu prófs. Frekari upplýsingar og leiðbeiningar fást hjá sendiráðinu með því að senda póst á [email protected]