Hoppa yfir valmynd

Vegabréf

Hægt er að sækja um vegabréf hjá sendiráði Íslands í Washington.

Afgreiðslutími fyrir vegabréf er frá kl. 9:30-11:00 alla virka daga, samkvæmt tímapöntun. 

Vinsamlegast pantið tíma símleiðis:
Washington: 202-265-6653 

Umsækjendur þurfa að hafa í huga að frágangur umsóknar og mynda- og fingrafarataka getur tekið nokkra stund.

Umsóknargjald óskast greitt með ávísun eða greiðslukortum.

Vegabréf og nafnskírteini eru einu persónuskilríkin sem gefin eru út af íslenskum yfirvöldum.  Vegabréf eru einu íslensku ferðaskilríkin sem vissa er fyrir að öll önnur ríki viðurkenni sem gild ferðaskilríki. Nafnskírteini eru hins vegar eingöngu viðurkennd sem gild ferðaskilríki innan ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Því þurfa Íslendingar ávallt að ferðast með vegabréf þegar ferðast er til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Börn undir 18 ára aldri þurfa eigin vegabréf. Báðir forsjármenn, ásamt barni, eiga að mæta þegar sótt er um vegabréf fyrir barn og skrifa undir umsóknina. 

Áður en komið er á umsóknarstað þarf að fylla út eyðublað um samþykki forsjáraðila vegna útgáfu vegabréfs fyrir einstakling undir 18 ára aldri. Eyðublaðið (V-901) skal vera útfyllt, vottað og útprentað við komu í sendiráð. Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef maður gefur rangar upplýsingar um forsjá barns í þeim tilgangi að gefið verði út vegabréf til þess án samþykkis forsjárforeldris.

Fari einn með forsjá barns er undirskrift þess foreldris nægjanleg vegna umsóknar enda staðfesti Þjóðskrá Íslands að viðkomandi fari einn með forsjá.

Til að forðast tafir í útgáfu vegabréfs er þó vakin athygli foreldra sem fara einir með forsjá, að gangi þeir í hjúskap þarf enn fremur samþykki stjúpforeldris. Taki þeir aftur á móti upp sambúð þarf samþykki sambúðarforeldris eftir að sambúðin hefur verið skráð í þjóðskrá samfellt í eitt ár. Samkvæmt 10. gr. laga nr. 136/1998 um vegabréf er refsivert að gefa upp rangar upplýsingar.

Ef minnsta óvissa er um forræði þess sem leggur fram umsókn um vegabréf barns, verða upplýsingar staðreyndar eftir fremsta megni.

Börn yngri en 12 ára eru undanþegin fingrafaratöku.

Eingöngu er heimilt að gefa út vegabréf samkvæmt umsókn annars forsjárforeldris þegar hitt forsjárforeldrið er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms, fjarvistar eða annarra sérstakra aðstæðna að undangenginni athugun á umræddum aðstæðum og mati á því hvort hætta sé á að barn verði fært úr landi með ólögmætum hætti. Fullyrðingar um að annað foreldrið sé erlendis þar sem ekki náist í það eru alls ekki fullnægjandi grundvöllur. Sjá nánar á heimasíðunni www.skra.is

Börn sem fædd eru erlendis þurfa að vera komin með kennitöluskráningu í íslensku þjóðskránni til þess að hægt sé að sækja um vegabréf fyrir þau. Hafi barnið aldrei fengið útgefið vegabréf skal sýna fæðingarvottorð barnsins þegar sótt er um.

Eyðublöð:

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum