Iceland Responsible Fisheries - kynningarfundur í París

Miðvikudaginn 24. janúar var haldinn kynningarfundur í sendiráði Íslands í París með kaupendum sjávarafurða í Frakklandi og hagsmunaðilum. Fundurinn var vel sóttur en það voru Íslandsstofa, Iceland Responsible Fisheries og sendiráðið í París sem stóðu að fundinum. Markmiðið var að styrkja tengsl við helstu kaupendur á íslenskum sjávarafurðum og fræða um stjórn fiskveiða á Íslandi, rannsóknarstarf og stöðu fiskistofna og vottunarmál undir merkjum Iceland Responsible Fisheries.

Sendiherra ávarpaði samkomuna í upphafi fundar. Kristján Freyr Helgason, fulltrúi sjávarútvegsmála hjá fastanefnd Íslands í Brussel flutti ávarp um stjórn fiskveiða, Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofnasviðs hjá Hafrannsóknastofnun fór ítarlega yfir rannsóknir og ráðgjöf stofnunarinnar og Finnur Garðarsson, framkvæmdastjóri Ábyrgra fiskveiða ses fjallaði um kynningu á vottun undir merkjum Iceland Responsible Fisheries. Guðný Káradóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu fór yfir markaðs- og kynningarmál og Hrefna Karlsdóttir, sérfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi tók saman niðurstöður fundarins. Að kynningu lokinni var viðstöddum boðið að gæða sér á íslensku sjávarréttahlaðborði framreiddu af meistarakokkinum Friðriki Sigurðssyni.