Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2019 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra gagnrýndi mannréttindabrjóta í mannréttindaráði

Utanríkisráðherra flytur ræðu sína í mannréttindaráðinu fyrr í dag - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra var í dag viðstaddur opnun fertugustu fundarlotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf og flutti þar ræðu Íslands. Er þetta í þriðja skipti sem Guðlaugur Þór ávarpar mannréttindaráðið – fyrstur íslenskra utanríkisráðherra. 

Í ræðu sinni lýsti Guðlaugur Þór áhyggjum íslenskra stjórnvalda af vaxandi gyðinga- og múslimahatri í Evrópu, sem og gagnvart hinsegin fólki í Tsjetsjeníu og Tansaníu. Þá gagnrýndi ráðherra stjórnvöld í Tyrklandi fyrir handtökur á mannréttindaforkólfum, blaðamönnum og dómurum, og Sádi Arabíu fyrir bága stöðu mannréttinda og frelsis í landinu. Í því sambandi tilgreindi hann sérstaklega réttindi kvenna og morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi.

Jafnframt lagði Guðlaugur Þór áherslu á mikilvægi þess að hlúa að mannréttindaráðinu með virkri þátttöku jafnframt því sem unnið væri að endurbótum á starfsháttum þess. „Ríki sem taka sæti í ráðinu eiga að sýna gott fordæmi og vera búin undir að sæta gagnrýni þegar mannréttindi eru brotin,“ sagði Guðlaugur Þór í ræðu sinni, en Ísland var kjörið til setu í ráðinu í fyrrasumar. Hann sagði of marga mannréttindabrjóta í ráðinu og talaði fyrir aukinni þátttöku smáríkja. „Ég vona að kjör Íslands í mannréttindaráðið geti orðið öðrum hvatning,“ sagði Guðlaugur.

Guðlaugur Þór átti jafnframt fund með framkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar til að ræða um rannsóknir á taugasjúkdómum og mænuskaða. Talið er að um milljarður manna þjáist af taugasjúkdómum um allan heim og hafa þjóðir heims sameinast um að vinna bug á ósmitbærum sjúkdómum sem þessum með heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. 

Guðlaugur Þór hitti einnig utanríkisráðherra Írlands, Simon Coveney, og tók upp á fundi þeirra mál Jóns Þrastar Jónssonar, sem leitað er í Dublin. Þakkaði Guðlaugur Þór sýnda velvild írsku þjóðarinnar sem tók virkan þátt í leit um liðna helgi og gott samstarf lögregluyfirvalda. Ráðherrarnir ræddu einnig mannréttindi, samstarf á sviði afvopnunar og útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. 

Síðar í dag mun utanríkisráðherra eiga fundi með forsvarsmönnum alþjóðlegra félagasamtaka á sviði mannréttinda og situr kvöldverð í boði utanríkisráðherra Danmerkur þar sem rætt verður um endurbætur á mannréttindaráðinu.

Á morgun tekur Guðlaugur meðal annars þátt í framlagaráðstefnu um mannúðaraðstoð við Jemen.

Ræðu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í mannréttindaráðinu má lesa hér á Stjórnarráðsvefnum

 

  • Utanríkisráðherra flytur ræðu sína í mannréttindaráðinu fyrr í dag - mynd
  • Guðlaugur Þór Þórðarson og Tedros Adhanom Ghebreyesus, aðalfrkvstj. WHO - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta