Hoppa yfir valmynd
7. mars 2019 Utanríkisráðuneytið

Ísland í fararbroddi ríkja í gagnrýni á Sádi Arabíu í mannréttindamálum

Ísland leiddi í dag hóp ríkja í gagnrýni á stöðu mannréttindamála í Sádi Arabíu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf. Er það í fyrsta skipti sem Sádi Arabía sætir slíkri samstilltri gagnrýni í ráðinu, og markar frumkvæðið því tímamót. Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, flutti hið sameiginlega ávarp fyrir hönd 36 ríkja.

Í ávarpinu er framganga stjórnvalda í Sádi Arabíu í mannréttindamálum gagnrýnd harðlega, meðal annars að baráttufólk fyrir mannréttindum, þ.m.t. auknum réttindum kvenna, sé handtekið og sæti fangelsisvist án dóms og laga. Þá fordæma ríkin morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi og undirstrika mikilvægi þess að standa vörð um málfrelsi hvarvetna í heiminum, og þá kröfu að fram fari sjálfstæð og óhlutdræg rannsókn á morði Khashoggis og hinir ábyrgu sæti ábyrgð.

Ríkjahópurinn gagnrýnir jafnframt að lögum um varnir gegn hryðjuverkum sé beitt til að réttlæta handtökur einstaklinga sem ekkert hafa til sakar unnið og einungis nýtt sér grundvallar mannréttindi. Sérstaklega er kallað eftir því að 10 nafngreindir einstaklingar, þar af níu konur, verði leystir úr haldi - Loujain al-Hathloul, Eman al-Nafjan, Aziza al-Yousef, Nassima al-Sadah, Samar Badawi, Nouf Abdelaziz, Hatoon al-Fassi, Mohammed Al-Bajadi, Amal Al-Harbi og Shadan al-Anezi.

Ísland var kjörið til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í júlí síðastliðinn í fyrsta skipti, en hafði áður verið virkt sem áheyrnarríki. Alls sitja 47 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna í ráðinu. Ríkin sem eiga hlut að þessari yfirlýsingu auk Íslands eru: Austurríki, Ástralía, Belgía, Bretland, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Kanada, Króatía, Kýpur, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Mónakó, Noregur, Nýja Sjáland, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Spánn, Svartfjallaland, Slóvakía, Slóvenía, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland.

"Mannréttindi eru hornsteinn utanríkisstefnu Íslands og við tökum alvarlega þá ábyrgð að vera kjörinn fulltrúi í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Ríki í ráðinu eiga að sýna gott fordæmi og taka þau mál á dagskrá sem brýnt er að fjalla um, líkt og stöðu mannréttinda í Sádi Arabíu. Því höfðum við frumkvæði að sameiginlegu ávarpi fjölda ríkja, enda slagkraftur skilaboða meiri þegar ríki sameinast um þau. Ég er þakklátur fyrir stuðninginn. Við erum í mannréttindaráðinu til að láta að okkur kveða - og jafnvel þora þegar aðrir þegja," segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. 

Ræðu fastafulltrúa Íslands má finna hér.

  • Frá mannréttindaráði SÞ í febrúar 2019. Mynd: UN Photo - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta