Opnun íslenska skálans á Feneyjatvíæringnum
Kristján Andri Stefánsson sendiherra opnaði í gær íslenska skálann á Feneyjatvíæringnum að viðstöddu miklu fjölmenni.
Fulltrúi Íslands að þessu sinni er Hrafnhildur Arnardottir / Shoplifter sem sýnir þar verk sitt Chromo Sapiens. Sýningin er í vöruhúsi á Giudecca-eyju í Feneyjum og einkennisefniviður listamannsins er gervihár. Litir, hljóð og aðlaðandi áferð leiða gesti í gegnum þrjú ólík rými sem umlykja þá í myndrænum og hljóðrænum samruna við dynjandi nið hljómsveitarinnar HAM sem samið hefur sérstakt tónverk fyrir sýninguna. Sýningarstjóri er Birta Guðjónsdóttir.
Sýningin stendur frá 11. maí til 24. nóvember.