Hoppa yfir valmynd
17. maí 2019

Mennta- og menningarmálaráðherra Íslands í Japan

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra hitti í vikunni Masahiko Shibayama, mennta- og vísindamálaráðherra Japans í Tókýó.

Ráðherrarnir ræddu meðal annars undirbúning ráðherrafundar um vísindi norðurslóða, sem Ísland og Japan munu halda sameiginlega haustið 2020 í Japan.

Vilji er til þess að efla tengsl Íslands og Japans á sviði mennta- og vísindamála og var ákveðið á fundinum að hefja vinnu við gerð rammasamkomulags um rannsókna- og vísindasamstarf landanna.

Í heimsókn sinni til Japans fundaði mennta- og menningarmálaráðherra einnig með Yoko Kamikawa, framkvæmdastjóra norðurslóðanefndar japanska þingsins, Shinako Tsuchiya, formanni vinafélags Íslands á japanska þjóðþinginu og heimsótti höfuðstöðvar Sasakawa stofnunarinnar og hafrannsóknarstofnunarinnar OPRI (e. The Ocean Policy Research Institute).

Nú þegar eru fjölmargir samstarfssamningar milli íslenskra háskóla og háskóla í Japan og hafa íslenskir og japanskir vísindamenn birt um 300 sameiginlegar vísindagreinar á ýmsum fræðasviðum, svo sem erfðafræði, jarðfræði, stærðfræði, tölvunarfærði, stjörnufræði og eðlisfræði. Japanska heimsskautarannsóknarstofnunin NIPR (e. National Institute of Polar Research) rekur einnig tvær ómannaðar norðurljósarannsóknarstöðvar á Íslandi.

Ísland tók formlega við formennsku í Norðurskautsráðinu 7.maí sl. og er yfirskrift formennskuáætlunar Íslands næstu tveggja ára „Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“. Þar er lögð megináhersla á þrjú málefnasvið: málefni hafsins, loftslagsmál og grænar orkulausnir sem og fólkið og samfélög á norðurslóðum. Einnig verður haldið áfram vinnu við að styrkja innra starf Norðurskautsráðsins,   kynna starf þess út á við og auka samstarf við áheyrnarlönd Norðurskautsráðsins, m.a. Japan. Þá verður jafnframt unnið að þeim tæplega eitt hundrað verkefnum sem vinnuhópar Norðurskautsráðsins sinna að jafnaði á sviði umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar.

 

  • Mennta- og menningarmálaráðherra Íslands í Japan - mynd úr myndasafni númer 1
  • Mennta- og menningarmálaráðherra Íslands í Japan - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta