Forsætisráðherra ávarpar mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna og fundar með framkvæmdastjóra Alþjóða Rauða krossins
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í Genf í dag. Í ávarpi sínu ræddi forsætisráðherra um launajafnrétti sem réttindamál, hinsegin réttindi og réttinn til heilnæms umhverfis. Þá ræddi hún einnig um þróun jafnréttismála í heiminum þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um þau réttindi sem áunnist hefðu.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Víða um heim má sjá bakslag í réttindum kvenna, ekki síst þegar kemur að kynfrelsi kvenna og sjálfsákvörðunarrétti kvenna í þeim málum. Það minnir okkur á að saga mannréttinda er svo sannarlega ekki án átaka, hart hefur verið barist fyrir réttindum og stundum verður bakslag í réttindabaráttunni. Þá er mikilvægt að standa vörð um þau réttindi sem hafa áunnist og gefast ekki upp í baráttunni fyrir bættum réttindum fyrir okkur öll.“
Forsætisráðherra fundaði einnig með Yves Daccord, framkvæmdastjóra Alþjóða Rauða krossins og heimsótti safn Alþjóða Rauða krossins um mannúðarmál fyrr í dag. Á fundi forsætisráðherra með Daccord ræddu þau m.a. stöðu mála í Sýrlandi, Jemen og Suður-Súdan og stuðning íslenskra stjórnvalda við starf Alþjóða Rauða krossins.
Þá tók forsætisráðherra þátt í umræðum um mannréttindi kvenna (e: Panel on the Human Rights of Women; Violenc Against Women in the World of Work) á vegum mannréttindaráðsins á morgun.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, er í þriggja daga heimsókn í Genf í tengslum við júnílotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem jafnréttismál eru í brennidepli. Forsætisráðherra fundaði í gær með Filippo Grandi, framkvæmdastjóra Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Michelle Bachelet, Mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna (OHCHR).