Hoppa yfir valmynd
1. október 2019

Bókamessan í Gautaborg 2019

Íslenski básinn á Bókamessunni í Gautaborg 2019 - myndBryndís Loftsdóttir / Félag íslenskra bókaútgefanda

Hin árlega Bókamessa í Gautaborg fór fram 26. – 29. september. Bókamessan í Gautaborg er einn af stærstu viðburðum ársins þegar kemur að kynningu íslenskra bókmennta og þýðingum þeirra í Svíþjóð og Skandinavíu.

Miðstöð íslenskra bókmennta, Félag íslenskra bókaútgefanda og Íslandsstofa sjá í sameiningu um bás á messunni sem tileinkaður er Íslandi og íslenskum bókmenntum.  Íslenski básinn býður upp á fjölbreytt úrval bóka á íslensku sem komið hafa út nýlega, skáldsögur, ljóð og barnabækur. Á íslenska básnum eru einnig til sölu sænskar þýðingar á íslenskum bókum. Salan jókst um 60% frá því í fyrra, svo það er ekki annað hægt að segja en að gestir bókamessunnar hafi kunnað að meta íslensku rithöfundana. Þó má nefna að í ár bættust við glæpasögur Arnalds Indriðasonar, Yrsu Sigurðardóttur og Ragnar Jónassonar – sem hefur óneitanlega haft áhrif á söluna. Auður Ava Ólafsdóttir var þó vinsælasti íslenski höfundurinn í ár, en hún hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í fyrra fyrir skáldsögu sína Ör.

Sendiráð Íslands í Stokkhólmi hefur undanfarin ár í menningarstarfi sínu lagt mikla áherslu á að efla kynningu á íslenskum bókmenntum og þýðingum þeirra, og starfar í því sambandi með ýmsum öðrum aðilum. Fjórir íslenskir rithöfundar heimsóttu Gautaborg í ár; Auður Ava Ólafsdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Sigrún Eldjárn og Ragnar Jónasson. Sendiherra Íslands, Estrid Brekkan, sótti einnig messuna og viðburði sem fram fóru í Gautaborg henni tengdri. Líkt og fyrri ár stóð sendiherrann fyrir móttöku í íslenska básnum.

Íslenska menningarnefndin í Gautaborg stóð að viðburði fyrir íslensk börn og fjölskyldur þeirra, þar sem rithöfundurinn Sigrún Eldjárn sagði frá verkum sínum, sem hún bæði skrifar og myndskreytir. Um 70 manns hlustuðu á Sigrúnu segja frá, þar af mörg börn. Viðburðurinn, sem þótti afar vel heppnaður, var skipulagður í samvinnu við kjörræðismann Íslands í Gautaborg, Miðstöð íslenskra bókmennta, Tungumálamiðstöð Gautaborgar og sendiráð Íslands.

  • Konurnar sem stóðu að kynningu Íslands á Bókamessunni í Gautaborg 2019 - mynd
  • Sigrún Eldjárn segir íslenskum börnum í Gautaborg frá verkum sínum - mynd
  • Íslenskar bókmenntir í sænskri þýðingu til sölu - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta