Hoppa yfir valmynd
11. október 2019

Íslensk sjávarútvegstækni í stöðugri sókn í Rússlandi

Nú er nýyfirstaðin vikulöng ferð íslenskrar viðskiptasendinefndar til Fjarausturhéraða Rússlands. Ferðin þótti vel heppnuð og vonir um að hún skili enn fleiri viðskiptasamningum fyrir íslensku fyrirtækin við rússneska aðila.

Sendiráð Íslands í Moskvu og Íslandsstofa skipulögðu för viðskiptasendinefndar níu íslenskra fyrirtækja til austustu héraða Rússlands, eða Fjaraustursins eins og þau eru kölluð í Rússlandi. Þar eru gjöful fiskimið og mikil útgerð. Þangað er u.þ.b. 2/3 hlutum rússneska fiskveiðikvótans úthlutað, auk þess sem gert er út á alþjóðleg svæði í Kyrrahafi.

Fyrst sótti viðskiptasendinefndin sjávarútvegssýninguna International Fishery Congress í borginni Vladivostok, þar sem Íslendingar voru langfjölmennasta erlenda þátttökuþjóðin. Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra, flutti ræðu við opnunarathöfnina. Sendiráðið og Íslandsstofa voru síðan aðalskipuleggjendur málstofu um hátæknibúnað í sjávarútvegi, þar sem fulltrúar allra fyrirtækjanna höfðu tækifæri til að kynna sínar vörur og þjónustu. Þá tóku Íslendingar einnig þátt í málstofu um fiskeldi. Utan ráðstefnunnar heimsótti sendinefndin tæknifyrirtæki og átti fund með varahéraðsstjóra Primorsky Krai, en Vladivostok er höfuðborg héraðsins.

Frá Vladivostok fór sendinefndin síðan í þriggja daga ferð til Kamtjatka-héraðs. Þar voru fimm stór sjávarútvegsfyrirtæki heimsótt og haldin málstofa og kaupstefna þar sem fyrirtækin kynntu sig. Þangað mættu fulltrúar frá öllum helstu sjávarútvegsfyrirtækjunum á staðnum. Auk þess átti sendiherra og sendinefndin fundi með héraðsstjóra og sjávarútvegsráðherra héraðsstjórnarinnar.

Íslensku fyrirtækin sem áttu fulltrúa í viðskiptasendinefndinni voru Hampiðjan, Kapp, Knarr, Marel, Naust Marine, Nautic, Skaginn3X, Sæplast og Valka. Flest þessara fyrirtækja eru þegar í viðskiptum og selja þjónustu sína til rússneskra sjávarútvegsfyrirtækja.

Mikil tækifæri eru fyrir íslensk fyrirtæki á sviði sjávarútvegstækni að selja lausnir og þjónustu til Rússlands þar sem mikil endurnýjun bæði fiskiskipa og fiskvinnslu á sér nú stað. Flestum þátttakendum þótti ferðin til Fjaraustursins vel heppnuð. Hún vakti líka athygli rússneskra fjölmiðla á staðnum og í sjávarútvegsiðnaðinum, enda hefur sá mikli árangur sem íslensk tæknifyrirtæki hafa náð síðustu misseri í Rússlandi vakið verðskuldaða athygli. Mikil vinna hefur farið í kynningu þeirra undanfarið, t.a.m. var þessi ferð fjórða ferð viðskiptasendinefndar til Rússlands sem sendiráðið og Íslandsstofa skipuleggja á rúmum tólf mánuðum.
 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta