Hoppa yfir valmynd
25. október 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samkomulag Íslands og Noregs við ESB á sviði loftslagsmála

  - myndBergþóra Njála

Gengið var frá samkomulagi Íslands og Noregs við Evrópusambandið á sviði loftslagsmála í dag, með ákvörðun á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar. Með samkomulaginu eykst samvinna Íslands og Noregs með ríkjum ESB á sviði loftslagsmála og ríkin búa við sambærilegar reglur og skuldbindingar.

Samkvæmt samkomulaginu eru teknar upp tvær lykilgerðir inn í EES-samninginn, sem fjalla annars vegar um losun utan viðskiptakerfis ESB (ETS), en hins vegar um losun og kolefnisbindingu sem tengist landnotkun. Með þessu fyrirkomulagi verður Ísland með samþætt markmið innan EES-samningsins og Parísarsamningsins, en ekki með tvíþættar skuldbindingar og losunarbókhald. Samkomulagið er með fyrirvara um samþykki þjóð-þinga, en af Íslands hálfu verður þingsályktun um upptöku loftslagsgerða í EES-samninginn lögð fyrir Alþingi nú í nóvember.

Útfærsla á markmiðum Parísarsamningsins til 2030
Ísland og Noregur hafa nú þegar tekið upp hluta af regluverki ESB í loftslagsmálum í gegnum EES-samninginn. Löndin gengu inn í ETS árið 2008, en um 40% losunar Íslands fellur þar undir, einkum frá fyrirtækjum í stóriðju. Ísland tók svo þátt í sameiginlegu markmiði með ESB-ríkjum á seinna skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar, 2013-2020, samkvæmt tvíhliða samkomulagi.

Þegar Parísarsamningurinn var samþykktur árið 2016 sendi Ísland eins og önnur aðildar-ríki samningsins inn svokallað landsmarkmið um samdrátt í losun til 2030. Ísland sagðist myndu taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um 40% samdrátt í losun til 2030, með fyrirvara um að samkomulag næðist við ESB um þátttöku í því. Norðmenn sendu inn sambærilegt landsmarkmið. Með þessu fyrirkomulagi ákvarða innri reglur ríkjanna 30 hlutdeild og skyldur hvers ríkis, en gagnvart Parísarsamningnum leggja ríkin fram eitt sameiginlegt framlag.

Viðræður hafa staðið yfir milli Íslands og Noregs annars vegar og ESB hins vegar í um tvö ár um hvernig löndin tvö gætu verið hluti af sameiginlegu markmiði 30 Evrópuríkja um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030, miðað við 1990. Efnislegt samkomulag náðist að mestu í lok árs 2018, en síðan hefur farið fram skoðun á lagalegum þáttum og frágangur á texta.

Tvær nýjar reglugerðir teknar upp
Meginefni hins nýja samkomulags er þó tvær fyrrnefndar reglugerðir, varðandi losun utan ETS og um losun og kolefnisbindingu sem tengist landnotkun.

Samkvæmt reglugerð um „sameiginlega ábyrgð“ á hvert ríki að setja bindandi markmið um samdrátt í losun í geirum sem eru fyrir utan ETS. Þar er m.a. um að ræða losun frá samgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi og meðferð úrgangs. Markmið fyrir hvert ríki er reiknað út frá sameiginlegum forsendum, þar sem m.a. er litið til landsframleiðslu á mann og möguleika ríkja á að draga úr losun. Samkvæmt samkomulaginu er lágmarksframlag Íslands 29% samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030 í geirum utan ETS, miðað við 2005. Íslensk stjórnvöld hafa þó lýst því yfir að markmið þeirra sé eftir sem áður að ná 40% samdrætti í losun, líkt og kveðið er á um í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum. Þannig vilja íslensk stjórnvöld gera betur í loftslagsmálum en þær kröfur sem gerðar eru til landsins samkvæmt Parísarsamningnum og framangreindri útfærslu hans hjá Evrópuríkjum. Ríki eiga síðan að uppfæra framlög sín gagnvart Parísarsamkomulaginu á næsta ári og mun Ísland taka þátt í því.

Samkvæmt reglugerð um losun og kolefnisbindingu sem tengist landnotkun (LULUCF) eiga ríki að tryggja að aðgerðir á því sviði verði til þess að draga úr nettólosun, en auka hana ekki. Undir þessar reglur falla m.a. aðgerðir á sviði skógræktar, landgræðslu og endurheimtar votlendis. Tryggja þarf skv. þessu að t.d. nýframræsla sé ekki meiri en endurheimt votlendis, ávinningur af skógrækt meiri en losun vegna skógareyðingar o.s.frv. Markmið og bókhald um losun í þessum geirum er aðskilið frá öðrum, m.a. vegna þess að erfiðara er að meta losun og bindingu og einnig að greina á milli náttúrulegra ferla og aðgerða mannsins. LULUCF-reglugerðin krefst þess að losunarbókhald tengt landnotkun uppfylli strangar kröfur um áreiðanleika og gæði og mun Ísland fá aðstoð sérfræðinga við það.

Í áðurnefndu samkomulagi er kveðið á um að Ísland og Noregur taki upp uppfærðar reglur um viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS) fyrir tímabilið 2021-2030, en ETS er nú þegar hluti af EES-samningnum. Innan ETS-kerfisins er um að ræða sameiginlegt markmið um að draga úr þeirri losun sem fellur undir kerfið um 43% til ársins 2030.

Samkvæmt samkomulaginu taka ríkin einnig upp reglur sem lúta m.a. að skýrslugjöf og bókhaldi um losun og kolefnisbindingu.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta