Norðurslóðir á dagskrá í Washington DC
Eins og kunnugt er tók Ísland við formennsku í Norðurskautsráðinu af Finnlandi í maí á þessu ári. Formennskunni fylgir því meðal annars að starfsfólk sendiráðsins í Washington tekur virkan þátt í umræðu um málefni norðurslóða í Bandaríkjunum.
Málefni norðurslóða hafa verið á dagskrá sendiráðsins síðustu daga en í vikunni tóku Bergdís Ellertsdóttir sendiherra og Hreinn Pálsson sendifulltrúi þátt í norðurslóðarviðburðum í borginni.
Bergdís Ellertsdóttir flutti erindi á ráðstefnu fræðimanna um málefni norðurslóða sem kostað er af Fulbright stofnuninni auk þess að bjóða stjórn Fulbright og þátttakendum í ráðstefnunni til móttöku í sendiherrabústaðnum. Í ræðu sinni lagði sendiherra áherslu á mikilvægi vísindasamstarfs og rannsókna til að tryggja sjálfbæra þróun á norðurslóðum.
Fyrr í vikunni tók Hreinn Pálsson þátt í ráðstefnu um öryggismál á norðurslóðum og flutti þar erindi og tók þátt í pallborðsumræðum með fulltrúum allra Norðurlandanna. Í erindi sínu fjallaði Hreinn um mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu á norðurslóðum og stefnu Íslands á svæðinu.