Íslensk nýsköpunarfyrirtæki heimsækja Shenzhen
Sendiráðið skipulagði í samvinnu við Íslandsstofu og Icelandic Startups þátttöku íslenskra nýsköpunarfyrirtækja á tæknisýningunni China Hi-Tech Fair í Shenzhen dagana 13. – 17. nóvember sl. Sýningin var hluti af Asíureisu Íslandsstofu og fyrirtækja innan íslenska tæknigeirans þar sem Norræn nýsköpunarhús sem Ísland er aðili að í Singapúr og Hong Kong voru m.a. í brennidepli.
China Hi-Tech Fair er stærsta kaupstefna sem haldin er innan kínverska tæknigeirans ár hvert. 3.300 fyrirtæki frá fjörutíu löndum tóku þátt á sýningunni í ár og meðal þeirra voru þrjú íslensk fyrirtæki ásamt Íslandsstofu og Icelandic Startups. Íslenskum fyrirtækjum á sýningunni í ár stóð m.a. til boða þátttaka á viðskiptafundum með kínverskum fyrirtækjum og fjárfestum auk heimsókna í þekkt tæknifyrirtæki og nýsköpunarklasa á Shenzhen svæðinu. Þetta er í annað sinn sem íslensk fyrirtæki taka þátt á sýningunni sem haldin er í Shenzhen borg við ósa Perlufljótsins í Suður Kína.
Aukin áhersla hefur verið lögð á nýsköpunar- og tæknigeirann í viðskiptaþjónustu sendiráðsins undanfarin misseri samfara hraðri framþróun innan kínverskra tæknigeirans. Sífellt fleiri íslensk nýsköpunarfyrirtæki líta til Kína sem áhugaverðs markaðssvæðis og sendiráð Íslands í Peking er eftir sem áður boðið og búið til að veita áhugasömum aðilum aðstoð og upplýsingar um tækifæri sem þar kunna að leynast.