Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2019 Utanríkisráðuneytið

Afvopnunarmál og ástandið í Sýrlandi efst á baugi utanríkisráðherrafundar

Guðlaugur Þór Þórðarson ræðir við þá Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands - myndAtlantshafsbandalagið

Ástandið í Sýrlandi, afvopnunarmál og framlög til varnar- og öryggismála voru meðal umræðuefna á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í höfuðstöðvunum í Brussel í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd. Þar ræddu ráðherrarnir meðal annars þann árangur sem náðst hefur á undanförnum misserum við að tryggja fælingar- og varnarmátt bandalagsins, efla viðnám gegn fjölþátta ógnum og netárásum, sem og baráttuna gegn hryðjuverkum.

Ráðherrarnir ræddu stöðu afvopnunarmála í fyrsta sinn frá því að uppsögn INF-samningsins um meðaldrægar kjarnaeldflaugar tók gildi. „Á fundinum komu fram áhyggjur þar sem blikur eru á lofti í alþjóðasamstarfi á sviði afvopnunarmála og vopnatakmarkana, sagði Guðlaugur Þór að fundi loknum.

Á fundinum var einnig rætt um Rússland og mikilvægi þess að sýna festu í samskiptum við þarlend stjórnvöld og halda samskiptaleiðum opnum. Þá var rætt um framlög bandalagsríkjanna til öryggis- og varnarmála sem hafa aukist jafnt og þétt síðustu fimm ár. Guðlaugur Þór fagnaði því að bandalagið hefur nú samþykkt nýja stefnu í baráttunni gegn kynferðisofbeldi en hún tekur til borgaralegra starfsmanna og liðsafla í aðgerðum og verkefnum bandalagsins.

Guðlaugur Þór áréttaði á fundinum áhyggjur Íslands af stöðu mannúðarmála í Sýrlandi og kallaði eftir því að leitað verði friðsamlegra lausna á átökunum þar í landi undir leiðsögn Sameinuðu þjóðanna. Hernaðaraðgerðir Tyrklands í norðurhluta Sýrlands hafa verið ræddar á vettvangi bandalagsins á undanförnum vikum, þar sem gagnrýni hefur komið fram og skýr fordæming af hálfu margra ríkja, þar á meðal Íslands.

Á fundinum í dag tóku ráðherrarnir ákvörðun um að skilgreina geiminn sem aðgerðasvið, eins og þegar hefur verið gert um loft, land, haf og netið. „Friðsamleg notkun geimsins er öllum til hagsbóta. Tilgangurinn með þessari formlegu skilgreiningu er fyrst og fremst að tryggja að bandalagið hafi aðgang að vissri þjónustu, tækni og getu einstakra bandalagsríkja sem styður við varnir þess,“ sagði Guðlaugur Þór. „Það liggur hins vegar alveg skýrt fyrir að bandalagið hefur engin áform um að vopnavæðast í geimnum.“

Hátíðarfundur leiðtoga bandalagsins fer fram í London 3.-4. desember í tilefni af því að sjötíu ár eru liðin frá stofnun Atlantshafsbandalagsins. Guðlaugur Þór segir það ánægjulegt að sjá þann einhug sem ríkir um samstöðu bandalagsríkjanna í aðdraganda þess fundar. „Bandalagið hefur verið traust kjölfesta varna bandalagsríkjanna síðustu sjötíu ár og er vel í stakk búið til að gegna því hlutverki til framtíðar.“

Utanríkisráðherra átti einnig fund með Nikos Dendias, utanríkisráðherra Grikklands. Ráðherrarnir ræddu tvíhliða samstarf, meðal annars á sviði jarðhita- og ferðamála.

  • Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsríkjanna á fundinum í Brussel - mynd
  • Nikos Dendias, utanríkisráðherra Grikklands, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta