Íslensk menningarstarfsemi blómstrar í Kína
Óvenju mikil Íslandstengd menningarstarfsemi átti sér stað í Kína í nóvembermánuði. Íslenski dansflokkurinn tók þátt á alþjóðlegri listahátíð í Hong Kong og þar kom Gyða Valtýsdóttir einnig fram. Hallveig Rúnarsdóttir og Hrönn Þráinsadóttir héldu tónleika á listahátíð í Shanghai fyrir tilstilli sendiráðsins og héldu áfram í tónleikaferð um Kína með viðkomu í borgunum Hefei, Peking, Tianjin og Chongqing. Grínistarnir Helgi Steinar Gunnlaugsson, Bjarni töframaður og Þórhallur Þórhallsson ferðuðust um Kína með uppistand í fjórum borgum og hljómsveitin Múm lauk vel sóttri tónleikaferð sinni um Kína í Peking sunnudag 24. nóvember en hafði þá komið fram í borgunum Shenzhen, Hangzhou og Shanghai.
Þá flutti sendiherra þann 18. nóvember ávarp við hátíðlega setningarathöfn nýrrar þýðingarmiðstöðvar erlendra mála við Háskóla erlendra fræða í Peking (Beijing Foreign Studies University) en þar er einmitt boðið uppá íslenskunám til háskólaprófs. Mikilvirkir þýðendur íslenskra nútímabókmennta, Íslendingasagna og höfunda á borð við Andra Snæ voru viðstaddir athöfnina.
Síðast en ekki síst ber svo að geta frábærrar frammistöðu liðs íslenska sendiráðsins í kinversk-norræna fótboltamótinu sem haldið var í fimmta skipti og skipulagt er af kínverskum yfirvöldum. Ísland lenti í öðru sæti á eftir Íþróttaháskóla Beijing borgar en vann frækna sigra á liðum sendiráða Danmerkur og Svíþjóðar ásamt vel skipuðu liði utannríkisráðuneytis Kína.