Sweden International Horse Show
Þann 28. nóvember til 1. desember fór Sweden International Horse Show fram í Stokkhólmi. Helgin var full af frábærum sýningum og spennandi keppnum. Það voru færustu knapar í heimi sem kepptu og auk þess voru um 350 hestar á svæðinu, af öllum stærðum og gerðum. Íslenski hesturinn skipaði þó sérstakt sæti á viðburðinum í ár.
Föstudaginn 29. nóvember fór heimsmeistaramótið í tölti fram og lokakeppnin fór fram í beinni útsendingu í sænska ríkissjónvarpinu. Það voru átta knapar sem kepptu: Jóhann R. Skúlason (IS), Katie Brumpton Sundin (FI), Gabrielle Severinsen (NO), Eyjólfur Þorsteinsson (SE), Lisa Drath (DE), Bernt Severinsen (NO), Vignir Jónasson (SE) og Anne Baslev (DK). Það var hinn íslenski Jóhann R. Skúlason sem stóð uppi sem sigurvegari á hestinum Finnboga frá Minni-Reykjum. Keppnin var ein af fáum atriðum á sýningunni sem var sýnt í beinni og íslenski hesturinn var einnig kynntur með öðrum sýningaratriðum, sýnikennslu og fyrirlestrum.
Sendiherra Íslands, Estrid Brekkan, var á staðnum og fékk heiðurinn að ávarpa keppendur og áhorfendur, þar sem hún þakkaði sérstaklega öllum þeim sem starfa í kringum íslenska hestinn um heim allan. Íslandsstofa var einnig á staðnum í gegnum verkefnið Horses of Iceland í samstarfi við SIF - Svenska Islandshästförbundet en þau voru með veglegan bás á sýningunni.