Fyrrverandi forseti heimsækir Kína
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, heimsótti Kína á dögunum í tengslum við störf sín í þágu umhverfisverndar og málefna norðurslóða. Ólafur sótti þann 2. desember opnunarathöfn jarðhitaskóla sem starfræktur er í Peking með aðkomu Orkustofnunar, Íslenskra Orkurannsókna, Arctic Green Energy og Sinopec og heimsótti jarðhitaveitur sem íslensk fyrirtæki hafa byggt upp í Xiongan borg suður af Peking. Ólafur nýtti einnig tækifærið og kynnti hina árlegu ráðstefnu Arctic Circle sem fram fer í Reykjavík í október ár hvert og skipulagði sendiherra meðal annars hádegisverðarfund honum til heiðurs með Gao Feng, sérstökum erindreka Kína gagnvart norðurslóðum.