Sendiherra heimsækir Wuhan
Sendiherra ávarpaði á dögunum ferðamálakaupstefnu í Wuhan borg í Hubei héraði þar sem Íslandi var boðið að vera með sérstakan kynningarbás. Sýningin var vel sótt og vakti Íslandsskálinn verðskuldaða athygli. Sendiherra nýtti ferðina einnig til fundarhalda með borgaryfirvöldum á svæðinu og landkynningarfunda með fjölmiðlum. Ellefu milljón manns búa í Wuhan sem staðsett er í Mið-Kína en borgin hefur átt í áralöngu vinabæjarsambandi við Kópavogsbæ. Ísland opnaði fyrr á þessu ári umsóknarmiðstöð fyrir vegabréfsáritanir í Wuhan borg og í skoðun er fýsileiki á beinu flugi milli Wuhan og Keflavíkur með viðkomu í Helsinki.