Sendiráðið sækir viðskiptaráðstefnu í Harbin
Staðgengill sendiherra Íslands í Peking, Sveinn K. Einarsson, sótti dagana 5.-6. janúar árlegt viðskiptaþing Harbin borgar í norður Kína, sem haldið er samhliða alþjóðlegri vetrarhátíð sem fram fer í borginni ár hvert. Íslenskum fyrirtækjum stóð til boða að sækja ráðstefnuna og tengda viðburði og var Marel á meðal þátttakenda.
Heimsóknin var nýtt til fundarhalda með fulltrúum borgarstjórnar og utanríkismálaskrifstofu Harbin borgar auk þess sem fyrirtækjum stóð til boða að kynna sér viðskipta- og fjárfestingatækifæri á svæðinu og funda með atvinnulífi borgarinnar. Marel þjónustar nú þegar matvælaframleiðendur í nágrenni Harbin borgar en mikill vöxtur hefur verið innan matvælageirans á svæðinu líkt og annars staðar í Kína undanfarin ár.
Harbin er efnahags- og stjórnsýslumiðstöð Heilongjiang héraðs í norður Kína og telur rúmlega tíu milljónir íbúa.