Fjölbreytt málefnasamstarf Norðurlanda í Japan
Sendiherrar Norðurlanda í Japan hittust á dögunum í sendiráði Íslands í Tókýó á reglulegum samráðsfundi. Samráð sendiherranna er mikilvægur hluti af fjölbreyttu málefnasamstarfi Norðurlandanna í Japan.
Að þessu sinni var sérstakur gestur fundarins Keisuke Suzuki, aðstoðarutanríkisráðherra og meðlimur sérstakrar samstarfsnefndar Íslands á japanska þjóðþinginu. Suzuki er einn yngsti ráðherrann í ríkisstjórn Abe forsætisráðherra (og þykir upprennandi). Áður hefur Suzuki verið aðstoðarsamgöngu- og fjármálaráðherra auk þess sem hann gegndi starfi skrifstofustjóra alþjóðaskrifstofu ríkisstjórnarflokksins LDP.
Á fundinum voru ítrekuð sterk tengsl Norðurlandanna við Japan og þau fjölmörgu samstarfsverkefni sem framundan eru í samstarfi landanna. Japan hefur um áratugaskeið verið helsti útflutningsmarkaður Norðurlanda í Asíu, og mikilvægur bandamaður á alþjóðavettvangi. Sýndi Suzuki norðurslóðamálefnum sérstakan áhuga á fundinum.