Íslenskir þingmenn á ÖSE-fundi í Vínarborg.
Á myndinni eru þátttakendur á vetrafundinum ásamt Guðna Bragasyni, fastafulltrúa í Vín.
Fjölmörg málefni voru til umræðu á 19. vetrarfundi þingmannasamtaka Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Vínarborg 20. - 21. febrúar. Þingmennirnir fjölluðu um viðfangsefni í hinum þremur víddum stofnunarinnar; öryggisnefnd, efnahags- og umhverfisnefnd og mannréttindanefnd. Umræða um umburðarlyndi og mismunun bar hátt á fundinum. Af Íslands hálfu sóttu fundinn þingmennirnir Gunnar Bragi Sveinsson, formaður ÖSE-nefndarinnar á Alþingi, Guðmundur Andri Thorsson og Bryndís Haraldsdóttir, auk Bylgju Árnadóttur ritara nefndarinnar. Gunnar Bragi stjórnaði sérstökum fundi um morðið á rússneska stjórnarandstæðingnum Boris Nemtsov.