Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2020 Forsætisráðuneytið, Matvælaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Rannsóknasetur um hafið, loftslag og samfélag í samvinnu Carlsbergsjóðsins, íslenskra stjórnvalda og Rannsóknasjóðs í tilefni af 80 og 90 ára afmæli Margrétar Danadrottningar og Vigdísar Finnbogadóttur

Í tilefni af 80 ára afmæli Margrétar Danadrottningar hinn 16. apríl og 90 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, hinn 15. apríl í ár setur Carlsbergsjóðurinn á fót dansk-íslenskt rannsóknasetur í samvinnu við íslensk stjórnvöld. Rannsóknasetrinu er ætlað að auka skilning á samspili loftslags og vistkerfa og á áhrifum loftslagstengdra breytinga í hafinu á íslenska menningu og samfélag. Carlsbergsjóðurinn leggur röskar 500 milljónir króna (25 milljónir danskra króna) til verkefnisins, íslenska ríkið 140 milljónir króna, og Rannsóknasjóður í umsýslu Rannís, 100 milljónir króna.

Rannsóknasetrið er þvervísindalegt og mun á ensku heita ”Queen Margrethe’s and Vigdís Finnbogadóttir’s Interdisciplinary Research Centre on Ocean, Climate and Society”, en á íslensku „Þvervísindalegt rannsóknasetur Margrétar drottningar og Vigdísar Finnbogadóttur um hafið, loftslag og samfélag“. Rannsóknasetrið er sameiginleg afmælisgjöf til Margrétar drottningar og Vigdísar Finnbogadóttur, fv. forseta Íslands.

Rannsóknasetrið mun hafa aðsetur bæði við Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands, og verður stýrt af Katherine Richardson, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, í samvinnu við nokkra danska og íslenska vísindamenn. Framlagi Carlsbergsjóðsins verður fyrst og fremst varið til að ráða unga, hæfileikaríka vísindamenn að verkefninu, einkum nýdoktora, en þeir munu stunda rannsóknir bæði við Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands. Þeir munu gegna lykilhlutverki við að efla samvinnu þeirra dönsku og íslensku vísindamanna sem tengjast rannsóknasetrinu.

Afmælisgjöf til Margrétar Danadrottningar og Vigdísar Finnbogadóttur

Formaður stjórnar Carlsbergssjóðsins, prófessor Flemming Besenbacher, segir af þessu tilefni:

„Danmörk og Ísland eru tengd traustum vináttuböndum og löndin búa að langri og merkri hefð fyrir vísindasamvinnu, samvinnu sem Carlsbergsjóðurinn studdi á margvíslegan hátt á fyrri tíð. Það er mér því mikið fagnaðarefni að við getum nú sett á fót rannsóknasetur sem gjöf til Margrétar drottningar og Vigdísar Finnbogadóttur. Þær hafa báðar látið sig varða þróun umhverfis og samfélaga við Norður-Atlantshaf, auk þess sem þær hafa lagt áherslu á mikilvægi menningar og vísinda fyrir samfélagsþróunina.“

Efling vísindasamvinnu Dana og Íslendinga

Íslensk stjórnvöld vilja heiðra langa og árangursríka vísindasamvinnu Dana og Íslendinga og styrkja hana til framtíðar, m.a. í tilefni þess að á síðasta ári voru 75 ár liðin frá því að Ísland varð lýðveldi. Það sýna þau nú í verki með myndarlegu framlagi til þessa samstarfsverkefnis.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lýsir stuðningi sínum við verkefnið:

„Í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins á síðasta ári ákváðu íslensk stjórnvöld að heiðra langa og árangursríka vísindasamvinnu Dana og Íslendinga og leggja sitt af mörkum til að styrkja hana til framtíðar. Frá fyrstu tíð hefur Carlbergsjóðurinn lagt vísindastarfi á Íslandi ómetanlegt lið, m.a. með framlögum til rannsókna á náttúru landsins, tungu okkar, sögu og menningu. Það er því sérstakt ánægju- og þakkarefni að sjóðurinn geri það nú kleift að hefja umfangsmikla þvervísindalega rannsókn, í samvinnu Dana og Íslendinga, á hafinu við Ísland  með sérstöku tilliti til loftslagsbreytinga. Rausnarlegt framlag sjóðsins mun gefa ungum dönskum og íslenskum vísindamönnum tækifæri til að rannsaka eitt af mest knýjandi úrlausnarefnum samtímans í samvinnu við vísindamenn í fremstu röð. Það er viðeigandi að þetta metnaðarfulla verkefni verði tileinkað Margréti Danadrottningu og Vigdísi Finnbogadóttur í tilefni stórafmæla þeirra en þær hafa öðrum fremur stuðlað að vináttu Dana og Íslendinga og verið okkur sterkar fyrirmyndir í þeim efnum.“

Rannsóknir á bæði fortíð og nútíð

Rannsóknir við setrið munu varpa ljósi á samspilið milli loftslags, vistkerfis og samfélags, þar með talið menningar, þar sem tekið verður mið af breytingum í Norður-Atlantshafi og á Íslandi – bæði á sögulegum tíma og tímabilum sem ná lengra aftur í jarðsögunni. Tekið verður mið af núverandi ástandi hafsins til að öðlast skilning á íslensku samfélagi í dag – ekki síst í ljósi loftslagsbreytinga.

Þungamiðja rannsóknanna verður hafið umhverfis Ísland, en margar af niðurstöðunum munu einnig nýtast til skilnings á þróuninni í Norður Atlantshafi í heild sinni. Í rannsókninni verða nýjungar í greiningum á DNA í umhverfinu hagnýttar. Þær geta, ásamt upplýsingum um þá vistfræðilegu ferla sem nú eiga sér stað, veitt nýja innsýn í samspil loftslags, lifandi vera og samfélags. Þetta samspil hefur ekki aðeins verið grundvöllur lifnaðarhátta fólks, heldur einnig mótað sýn þeirra á heiminn.

Katherine Richardson, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, sem mun fara fyrir rannsóknasetrinu, segir:

„Við vitum, að loftslagið í formi veðra og vinda hefur bein áhrif á fólk. Engu að síður vitum við ótrúlega lítið um þau óbeinu áhrif, sem loftslag hefur á fólk og samfélag manna. Margra þessara áhrifaþátta má sjá stað í breytingum í náttúrunni. Íslenskt samfélag hefur alltaf verið afar háð auðlindum hafsins, en hraðar breytingar eiga sér nú stað í hafinu vegna loftslagsbreytinga. Þess vegna er Ísland einstaklega vel fallið til þess að vera vettvangur rannsókna sem varpað geta ljósi á samspil mannlífs og loftslags, bæði í fortíð og nútíð.”

Um Carlsbergsjóðinn

Carlsbergsjóðurinn er einn af elstu atvinnulífssjóðum heims, og hefur að leiðarljósi að leggja grunn að nauðsynlegri þekkingu fyrir framtíðina. Sjóðurinn hefur tvö meginmarkmið, annars vegar að tryggja verðmætasköpun í verksmiðju Carlsberg A/S í gegnum eignarhlut sinn í fyrirtækinu og hins vegar að ráðstafa arði af eignarhlutnum til grunnrannsókna á sviði náttúruvísinda, félagsvísinda og hugvísinda.

Árið 2019 úthlutaði Carlsbergsjóðurinn jafnvirði nær 10 milljarða íslenskra króna (467 milljónum danskra króna) til grunnrannsókna. Carlsbergsjóðurinn er móðursjóður Carlsbergfjölskyldunnar, en til hennar heyra Nýi Carlsbergsjóðurinn, Tuborgsjóðurinn, listasafnið Ny Carlsberg Glyptotek og Det Nationalhistoriske Museum í Friðriksborgarhöll ásamt rannsóknarstofu Carlsberg og bruggverksmiðju Carlsberg A/S.

Um Rannsóknasjóð og Rannís – Rannsóknamiðstöð Íslands

Hlutverk Rannsóknasjóðs er að styrkja vísindarannsóknir og rannsóknartengt framhaldsnám á Íslandi. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn nemendur í rannsóknartengdu framhaldsnámi og skilgreind rannsóknarverkefni einstaklinga, rannsóknarhópa, háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja. Hlutverk Rannís er að örva rannsóknir og nýsköpun og veita stuðning við menntun og menningu. Rannís stuðlar að þróun þekkingarsamfélagsins með rekstri samkeppnissjóða, og veitir aðstoð og kynningu á alþjóðlegum sóknarfærum og samstarfsmöguleikum. Rannís heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Rannís er náinn samstarfsaðili Vísinda- og tækniráðs, sem markar stefnu íslenskra stjórnvalda í málaflokknum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
14. Líf í vatni
17. Samvinna um markmiðin
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta