Ráðstefna fyrir ræðismenn Íslands í Bandaríkjunum
Sendiráð Íslands í Washington efndi til ræðismannaráðstefnu fyrir ræðismenn Íslands í Bandaríkjunum fimmtudaginn 3. júní. Ráðstefnan var með óhefðbundnu sniði að þessu sinni og fór fram í gegnum fjarfundabúnað. Yfir tuttugu ræðismenn frá öllu landinu ásamt starfsfólki sendiráðsins, borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins og Aðalræðisskrifstofunnar í New York tóku þátt í ráðstefnunni.
Megintilgangur ræðismannaráðstefna er að veita upplýsingar um afgreiðslu borgaraþjónustumála, kosningar, áherslumál og dagleg störf sendiráðsins, auk þess að upplýsa um stöðu og horfur á Íslandi. Að þessu sinni var áhersla á afleiðingar COVID-19 heimsfaraldursins og fjallað um viðbrögð við kórónaveirufaraldrinum á Íslandi og um opnun landamæra. Rætt var um stöðuna vegna kórónaveirunnar og sóttvarnaraðgerðir í mismunandi fylkjum og yfirstandandi mótmæli vegna ofbeldis lögreglu gegn svörtu fólki í Bandaríkjunum sem m.a. hefur leitt til útgöngubanns í mörgum stærri borgum Bandaríkjanna.
Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Washington, þakkaði ræðismönnunum fyrir vel unnin störf sérstaklega í tengslum við þær fordæmalausu aðstæður sem hafa skapast vegna COVID-19 heimsfaraldursins.
“Kjörræðismenn, sem ekki þiggja laun fyrir vinnuframlag sitt, eru mikilvægir útverðir utanríkisþjónustunnar og framlag þeirra er ómetanlegt, ekki síst á sviði borgaraþjónustu og viðskiptaþjónustu af ýmsu tagi. Það er mikilvægt fyrir okkur hér í Bandaríkjunum að geta treyst á dyggan stuðning ræðismanna um allt land við að aðstoða Íslendinga í neyð og efla tengsl Íslands og Bandaríkjanna á sem flestum sviðum”, sagði Bergdís.