Hoppa yfir valmynd
30. júní 2020

Brottför sendiherra

Kristján Andri Stefánsson sendiherra kvaddi í morgun ásamt eiginmanni sínum, Davíð Samúelssyni, sendiráðið í París eftir fjörurra ára þjónustu. Hann tekur á morgun við stöðu sendiherra Íslands gagnvart Evrópusambandinu í Brussel.

Við brottför kvaddi hann starfsfólk sendiráðsins og færði því alúðarþakkir fyrir vel unnin störf. „Framlag ykkar og fagmennska, oft undir miklu álagi og með takmörkuðum fjármunum, er lykillinn að þeim árangri sem við höfum náð hér.”

Kristján Andri minntist þeirrar miklu athygli sem að Íslandi beindist þegar hann kom til Parísar í kjölfar frammistöðu strákanna okkar á Evrópumeistaramótinu í fótbolta sumarið 2016.„Á móti okkur tók bylgja jákvæðrar athygli og áhuga sem fleytti okkur langt og örugglega víðar en annars hefði verið.

Gott og náið stjórnmálasamband milli Íslands og Frakklands stendur traustum fótum og bæði forsetinn og forsætisráðherra hafa sótt Frakkland heim oftar en einu sinni á þessum tíma. Sama á við um utanríkisráðherra og fleiri ráðherra, sem einnig rækta tengsl við þær alþjóðastofnanir sem hér eru, OECD og UNESCO.

Við höfum kappkostað að hlúa að menningar- og viðskiptatengslum eins og kostur hefur verið og þegar best lætur styður það hvort við annað. Meðal minnisstæðra viðburða eru íslenska þorpið á jólamarkaðnum í Strasbourg 2017, Ísland í öndvegi á listahátíðinni Les Boréales í Normandie, tónleikar Amiinu í Hôtel de Béhague og þýðendaþingið í sendiherrabústaðnum þar sem við höfum líka haft til sýnis og kynnt úrval íslenskrar samtímalistar í samvinnu við gallerí i8 og Hrafnkel Sigurðsson myndlistarmann.”

Við brottför lét Kristján Andri í ljósi þakklæti fyrir góða viðkynningu við Parísarbúa og Íslendinga sem hér eru búsettir: „Það hefur verið einstaklega skemmtilegt og nærandi að kynnast mörgum þeirra sem hér hafa skotið rótum og upplifa Frakkland með þeirra augum. Frá þeim góðu kynnum eigum við margar góðar minningar sem ylja og gleðja. Við hlökkum til að halda í þessi bönd og treysta þau eftir föngum, enda verður varla nema bæjarleið á milli okkar.”

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta