Unnur Orradóttir Ramette nýr fastafulltrúi Íslands gagnvart UNESCO
Unnur Orradóttir Ramette sendiherra, afhenti í dag Audrey Azoulay, aðalframkvæmdastjóra UNESCO, trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands gagnvart UNESCO.
Á fundi þeirra var m.a. rætt um vaxandi þátttöku Íslands í starfi UNESCO og Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu (GRÓ), sem starfar undir formerkjum UNESCO. Þá var fjallað um mikilvægi starfs UNESCO á vettvangi kynjajafnréttis, loftslagsmála og líffræðilegs fjölbreytileika. Mannréttindamálin voru jafnframt ofarlega á baugi, þ.á m. mikilvægi tjáningar- og fjölmiðlafrelsis. Að lokum áttu þær gott samtal um viðbrögð UNESCO við kórónukrísunni, en UNESCO brást skjótt og vel við krísunni á sviði mennta-, menningar- og vísindamála auk þess að vinna ötult gegn upplýsingaóreiðu og fölskum fréttum.