Kynntu sér viðskipta- og fjárfestingartækifæri í Harbin
William Freyr Huntingdon-Williams,, staðgengill sendiherra, og Pétur Yang, viðskiptafulltrúi sendiráðsins, sóttu fyrr í dag rafræna ráðstefnu um viðskipta- og fjárfestingatækifæri á svæði Harbin-borgar í norður Kína (2020 Harbin Online Investment Promotion to Europe).
Á ráðstefnunni var m.a. farið yfir þau tækifæri sem bjóðast í Harbin og reynslu evrópskra viðskiptaaðila á svæðinu. Þá voru áætlanir yfirvalda á svæðinu varðandi uppbyggingu atvinnulífs næstu árin kynnt. Ráðstefnan var haldin á vegum borgarstjóra Harbin og utanríkismálaskrifstofu borgarinnar.
Íslensk fyrirtæki stunda nú þegar viðskipti í nágrenni Harbin sem er efnahags- og stjórnsýslumiðstöð Heilongjiang héraðs í norður Kína og telur rúmlega tíu milljónir íbúa. Í janúar á þessu ári funduðu fulltrúar sendiráðsins með fulltrúum borgarstjórnar og utanríkismálaskrifstofu Harbin á árlegu viðskiptaþingi, auk þess sem íslenskum fyrirtækjum bauðst að kynna sér viðskipta- og fjárfestingatækifæri á svæðinu og funda með atvinnulífi borgarinnar.