Hoppa yfir valmynd
26. september 2020 Utanríkisráðuneytið

Ályktun um mannréttindi á Filippseyjum lögð fram í mannréttindaráðinu

Mannréttindaráð SÞ í Genf - myndUN Photo/Violaine Martin

Ísland hefur lagt fram ályktun í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um samstarf stjórnvalda á Filippseyjum við skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um úrbætur í mannréttindamálum þar í landi. Ályktunin er lögð fram í samvinnu við filippseysk stjórnvöld sem skuldbinda sig til að vinna með mannréttindafulltrúanum að umbótum. Ályktunin verður tekin til atkvæða í mannréttindaráðinu í næsta mánuði en þess má vænta að hún verði samþykkt samhljóða.

Ísland beitti sér í júlí 2019 fyrir samþykkt ályktunar um mannréttindaástandið á Filippseyjum. Með henni lýsti mannréttindaráðið formlega yfir áhyggjum af ástandinu í landinu, hvatti stjórnvöld til að stöðva aftökur á fólki án dóms og laga í nafni herferðar gegn fíkniefnum og draga þá til ábyrgðar sem stæðu fyrir slíku. Enn fremur var  mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) falið að gera skýrslu um stöðu mannréttindamála á Filippseyjum. 

Umrædd skýrsla var lögð fram í mannréttindaráðinu í sumar og staðfesti hún að fullt tilefni var til að taka málefni Filippseyja á dagskrá. Enda þótt stjórnvöld á Filippseyjum hafi brugðist hart við samþykkt ályktunarinnar sumarið 2019 og hafnað niðurstöðum skýrslunnar í sumar, komst á samtal milli fastanefnda Íslands og Filippseyja í Genf. Niðurstaða þess er sameiginleg ályktun þessara ríkja í ráðinu sem lögð var fram í gær.  

„Við höfum gagnrýnt framgöngu stjórnvalda á Filippseyjum í mannréttindamálum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. „Á hinn bóginn skiptir máli að eiga samráð og samtöl við þau ríki sem til skoðunar eru hverju sinni hjá mannréttindaráðinu, ekki síst ef þau virðast tilbúin til slíks samtals og eru reiðubúin til að vinna að úrbótum í samvinnu við stofnanir Sameinuðu þjóðanna.“

Þótt ályktunin hafi verið unnin með Filippseyjum tekur hún tillit til athugasemda annarra ríkja í óformlegum samningaviðræðum um textann sem undanfarið hafa farið fram í Genf. „Þetta sýnir okkur hverju hægt er að áorka í alþjóðlegu samstarfi. Útkoman er mikilvægur áfangi því okkur hefur tekist að fá Filippseyjar til að gangast sjálf við ábyrgð á vandanum sem við blasir og úrlausnum hans. Jafnframt tryggjum við aukið hlutverk fyrir stofnanir Sameinuðu þjóðanna, þ.m.t. skrifstofu mannréttindafulltrúans.“

Í nýju ályktuninni er vísað til ályktunar Íslands í mannréttindaráðinu sumarið 2019 sem og í skýrsluna sem gerð var af OHCHR fyrir mannréttindaráðið. Stjórnvöld á Filippseyjum eru hvött til að taka á þeim málum sem þar er fjallað um. Ályktunin kveður á um samstarf Filippseyja við OHCHR og aðrar stofnanir SÞ á Filippseyjum um úrbætur í mannréttindamálum. Er m.a. kveðið á um styrkingu landaskrifstofu OHCHR á Filippseyjum til að sinna því verkefni og er sérstaklega áréttað á hvaða sviðum mannréttinda umbætur verði að eiga sér stað: a) stefna stjórnvalda í fíkniefnamálum; b) lögregluofbeldi; c) hvernig best verði staðið að því að draga þá til ábyrgðar sem brjóta mannréttindi; d) aðferðir sem beitt er í baráttu gegn hryðjuverkahópum; e) samstarf stjórnvalda við frjáls félagasamtök. 

Ályktunin leggur upp tveggja ára verkefni sem verður fylgt eftir með frekari skýrslugjöf til mannréttindaráðsins um framkvæmd og árangur samstarfs OHCHR og Filippseyja, sem og um framkvæmd ályktunarinnar. 

Skýrsla mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um Filippseyjar
Ræða Íslands í sérstakri umræðu um Filippseyjar í 44. fundarlotu mannréttindaráðsins 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta