Viðskiptaráð Norðurlandanna í New York hvetja til aðgerða í þágu heimsmarkmiðanna í kjölfar Covid-19
Rætt var um aðgerðir sem hrinda þarf í framkvæmd í kjölfar Covid-19 á næstu tíu árum til þess að uppfylla megi heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna á fundi sem viðskiptaráð Norðurlanda í New York efndu til á miðvikudag.
Áratugurinn 2020-2030 hefur verið nefndur „Áratugur aðgerða“ (e. Decade of Action) en um er að ræða átak sem Sameinuðu þjóðirnar hleyptu af stokkunum í byrjun árs til þess að herða á framkvæmd heimsmarkmiðanna þegar áratugur er til stefnu þar til þau eiga að vera komin í höfn.
Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, tók þátt í pallborðsumræðum ásamt öðrum norrænum fastafulltrúum. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, tók einnig þátt í umræðunum ásamt fulltrúum frá norrænu fyrirtækjunum DNV-GL, Novozymes, Vaisala og Volvo.
„Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru nú sem endranær leiðarljós okkar út úr þessari krísu og varða leið okkar að sjálfbærni og efnahagsbata“, sagði Jörundur Valtýsson í pallborðsumræðunum sem var m.a. stjórnað af Hrund Gunnsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð á Íslandi.
Hlynur Guðjónsson, aðalræðismaður og viðskiptafulltrúi Íslands í New York, sagði Norðurlöndin hvetja til fjölþjóðlegrar samvinnu sem væri tækið til þess að takast á við hnattrænar áskoranir og að standa þyrfti vörð um mannréttindi, sem ættu undir högg að sækja, lýðræði og réttarríkið.
Upptöku af fundinum má sjá hér að neðan.