Ísland styður réttindabaráttu LGBTI-fólks í Tsjetsjeníu-lýðveldinu í Rússlandi.
Ísland var í hópi nokkurra aðildarríkja Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), sem minntust þess á fastaráðsfundi stofnunarinnar í dag (17. desember), að tvö ár eru liðin síðan ríkin settu af stað rannsókn á alvarlegum mannréttindabrotum gagnvart LGBTI-fólki og formælendum þess í Tsjetsjeníu-lýðveldinu í Rússneska sambandsríkinu innan ramma Moskvu-aðferðarinnar svokölluðu hjá ÖSE.
Sameiginleg yfirlýsing, 17. desember 2020
Í skýrslunni var m. a. komist að þeirri niðurstöðu, að LGBTI-fólk þyrfti m. a. að þola ofsóknir, ólöglegar handtökur, pyntingar og aftökur án dóms og laga. Yfirvöld í Tsjetsjeníu-lýðveldinu og Rússlandi neituðu samvinnu um rannsóknina á sínum tíma. Enn berast fregnir af ofsóknum af hálfu yfirvalda gagnvart LGBTI-fólki og öðrum, sem láta sig mannréttindi í landinu varða.
Að framtakinu árið 2018 stóðu Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin, Holland, Belgía, Kanada, Frakkland, Þýskaland, Bretland og Bandaríkin. Fastafulltrúi Íslands flutti þá ávarp fyrir hönd ríkjanna.