Öflug málafylgja á mannréttindasviðinu
Mannréttindi eru einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu og þess vegna tölum við í utanríkisþjónustunni hvarvetna fyrir mannréttindum, bæði á vettvangi alþjóðastofnana og í tvíhliða samskiptum við önnur ríki.
Í þessum efnum er mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna mikilvægasti vettvangurinn. Fjögur ár eru síðan ég ávarpaði ráðið fyrstur íslenskra utanríkisráðherra og í síðustu viku flutti ég þar ræðu í fimmta sinn. Reynslan sýnir að með skeleggri framgöngu getum við vel látið gott af okkur leiða þannig að eftir sé tekið.
Mikilvægasta verkefnið
Ísland átti sæti í mannréttindaráðinu á árunum 2018-2019 en um er að ræða eitt mikilvægasta verkefni sem íslenskri utanríkisþjónustu hefur verið falið. Þótt kjör Íslands hafi borið brátt að náðum við öllum þeim meginmarkmiðum sem lagt var upp með. Þar bar hæst þegar Ísland leiddi hóp 36 ríkja í gagnrýni á stjórnvöld í Sádi-Arabíu og skoraði á þau að bæta mannréttindi í landinu, ekki síst réttindi kvenna. Þetta var í fyrsta sinn sem staða mannréttinda í Sádi-Arabíu var tekin fyrir með þessum hætti í mannréttindaráðinu og vakti fyrir vikið heimsathygli. Mannréttindaráðið samþykkti einnig að okkar frumkvæði ályktun sem fól í sér að tekin yrði saman skýrsla um gróf mannréttindabrot á Filippseyjum.
Þótt erfitt sé að meta beinan árangur af málafylgju af þessum toga er það staðreynd að í kjölfar þessarar gagnrýni fundu stjórnvöld á hvorum stað sig knúin til að bregðast við. Hvað Filippseyjar varðar þá áttum við í kjölfar þess að umrædd skýrsla kom út samstarf við stjórnvöld þar um nýja ályktun sem fól í sér að þau eigi samstarf við skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um úrbætur. Að því er varðar Sádi-Arabíu bárust þau gleðitíðindi fyrir skemmstu að stjórnvöld leystu úr haldi kunna baráttukonu fyrir mannréttindum, Loujain al-Hathloul. Hennar helsti glæpur var sá helst að tala fyrir því að konur fengju að aka bifreiðum.
Jafnréttis- og hinseginmál í forgrunni
Á vettvangi mannréttindaráðsins lögðum við líka áherslu á að leiða í jákvæðan farveg umræður um brotthvarf hins sérstaka dagskrárliðar mannréttindaráðsins um málefni Ísraels og Palestínu en ekkert annað ríki en Ísrael þarf að sæta því að heyra undir sérstakan dagskrárlið, hvorki Venesúela né Mjanmar, svo dæmi séu tekin. Þetta ójafnvægi í umfjöllun ráðsins hafa gagnrýnendur þess einmitt oft hent á lofti til að rökstyðja hvers vegna ekki eigi að virða það viðlits.
Í núverandi fundarlotu ráðsins leiðum við nú í fyrsta sinn hóp ríkja sem leggur fram ályktun um stöðu mannréttinda í Íran en með henni er tryggt að sérstakur skýrslugjafi ráðsins um þau mál hefur áfram umboð til starfa. Þá hefur þegar farið fram sérstök umræða um stöðu mála í Mjanmar og tók Ísland þar drjúgan þátt.
Jafnréttismál eru ætíð ofarlega á dagskrá í málflutningi okkar, í mannréttindaráðinu sem annars staðar, og við tölum líka skýrt og skorinort um réttindi hinsegin fólks. Við tökum þátt í starfi sérstaks kjarnahópi ríkja um LGBTI-málefni í mannréttindanefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, sem er auðveldara um að tala en í að komast, og við gerðumst líka aðilar að Equal Rights Coalition, bandalagi ríkja sem beitir sér fyrir réttindum hinsegin fólks. Þá höfum við gerst aðilar að fjölmiðlafrelsisbandalagi sem Bretland og Kanada höfðu frumkvæði að því að stofna sumarið 2019 (Media Freedom Coalition) og erum við þar virkir þátttakendur síðan.
Leiðarljós þróunarsamvinnu
Mannréttindi eru enn fremur höfð að leiðarljósi framvegis í allri þróunarsamvinnu Íslands og aukin áhersla lögð á málsvarastarf í samstarfsríkjum okkar, m.a. með tilliti til réttindastöðu hinsegin fólks. Í þessu sambandi má nefna að við höfum beint fjármunum til verkefnis í þágu hinsegin fólks, Free & Equal, sem skrifstofa mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna stendur fyrir. Við höfum einnig styrkt Global Equality Fund en á vettvangi hans taka líkt þenkjandi ríki höndum saman og styðja við málsvara mannréttinda og grundvallarréttinda hinsegin fólks í þróunarlöndum.
Þegar ég lít yfir farinn veg get ég ekki annað sagt en að ég sé stoltur af frammistöðu starfsfólks utanríkisþjónustunnar og þeim árangri sem náðst hefur. Ég er einnig stoltur af því hversu góðan málstað Ísland hefur að verja og beinskeyttan boðskap að flytja, boðskap sem byggist á trúnni á algild mannréttindi sem allir eiga að njóta, óháð uppruna, trú eða húðlit. Ég er sannfærður um að í náinni framtíð eigum við eftir að ná að stíga enn fleiri skref saman í rétta átt.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. mars 2021.