Hoppa yfir valmynd
30. mars 2021

Fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna lauk með samþykkt niðurstöðuskjals

Á föstudagskvöld lauk tveggja vikna fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (Commission on the Status of Women) sem hófst 15. mars sl. Þema fundarins í ár var hvernig full og skilvirk þátttaka kvenna í ákvörðunum og opinberu lífi, ásamt útrýmingu ofbeldis, tryggir jafnrétti kynja og valdeflingu allra kvenna og stúlkna. Einungis setning og slit fundarins fóru fram í sal allsherjarþingsins en annars var öll dagskráin með fjarfundarsniði. Forsætisráðherra fór fyrir íslensku sendinefndinni og flutti ávarp fyrir hönd Íslands í almennri umræðu fundarins. Utanríkisráðherra tók þátt í hringborðsumræðu um hvernig megi auka opinbera þátttöku kvenna.

Fjöldi hliðarviðburða voru haldnir samhliða opinberri dagskrá fundarins, þ.m.t. íslenskir og norrænir viðburðir með þátttöku forsætisráðherra og annarra frá Íslandi. UN Women kallaði eftir því að kvennanefndin yrði „færð heim“ í formi hliðarviðburða og var einn slíkur haldinn á föstudaginn sl. þar sem m.a. Ágúst Flygenring, sendiráðunautur við fastanefndina í New York, greindi frá samningum um niðurstöður fundarins sem samþykktar voru samhljóða við fundarslit eftir margra vikna samningaviðræður, sem Ísland tók virkan þátt í.

Við afgreiðslu niðurstaðnanna tók Ísland undir sameiginlega yfirlýsingu með Ástralíu, Kanada, Liechtenstein, Noregi, Sviss og Nýja Sjálandi. Þar lýstu ríkin yfir ánægju með að áréttuð væru grundvallar mannréttindi og borgaraleg réttindi kvenna, sem og ábyrgðarskylda gagnvart brotum á þeim, en lýstu jafnframt vonbrigðum yfir að ekki væri gengið nægjanlega langt hvað varðar hagsmuni minnihlutahópa og ekki nógu hart tekið á kynbundnu ofbeldi, þ.m.t. innan sambanda. Þá vantaði upp á sterkara orðalag gagnvart virðingu fyrir skoðana- og félagafrelsi.

Niðurstöðurnar verða birtar á næstu dögum og má þá nálgast þær hér https://www.unwomen.org/en/csw/outcomes.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta