Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna tillagna um sameiningu sveitarfélaga
Sendiráðið vekur athygli á að utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna tillagna um sameiningu sveitarfélaganna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar annars vegar og Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar hins vegar hófst 10. apríl sl.
Í ljósi aðstæðna tengdum Covid-19 faraldrinum, eru kjósendur vinsamlegast beðnir um að panta tíma áður en þeir koma á kjörstað, með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected] eða í síma 08 442 8300. Að jafnaði verður hægt að kjósa í sendiráði Íslands í Stokkhólmi, Kommendörsgatan 35, 114 58 Stockholm, alla virka daga frá 10:00-15:00.
Einnig er unnt að kjósa utan kjörfundar samkvæmt samkomulagi hjá kjörræðismönnum. Hafa ber í huga að aðstæður sem hafa skapast vegna kórónaveirufaraldurs geta haft áhrif á hvort að hægt verði að kjósa hjá kjörræðismönnum.
Kjósendur eru beðnir um að framvísa íslenskum persónuskilríkjum með mynd, þ.e. vegabréfi eða ökuskírteini.
Kosningarrétt eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag, 5. júní 2021, og sem skráðir eru með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi á Íslandi, þremur vikum fyrir kjördag, þ.e. 15. maí 2021.
Einnig eiga kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili á Íslandi í fimm ár samfellt fyrir kjördag, enda fullnægi þeir að öðru leyti framangreindum skilyrðum.
Atkvæðagreiðslan fer þannig fram að kjósandi stimplar eða ritar á kjörseðil orðið „já“ ef hann er hlynntur tillögu um sameiningu sveitarfélaganna eða „nei“ ef hann er mótfallinn tillögunni.
Athygli kjósenda er vakin á því, að þeim ber sjálfum að póstleggja atkvæði sín eða koma þeim á annan hátt í tæka tíð til viðkomandi kjörstjórnar á Íslandi. Kjósendur eru því hvattir til að vera tímanlega á kjörstað í ár, þar sem póstsendingar gætu tekið lengri tíma en vant er.