Trúnaðarbréfsafhending í San Marínó
Kristján Andri Stefánsson afhenti í dag þjóðhöfðingjum San Marínó trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands með aðsetur í Brussel. Afhendingin fór fram við hátíðlega athöfn í Palazzo Pubblica þar sem þjóðhöfðingjarnir (ít. Capitani reggenti) og þing San Marínó hafa aðsetur.
Við athöfnina flutti utanríkisráðherrann, Luca Beccari, og sendiherra ávörp þar sem minnst var farsælla samskipta ríkjanna og reifaðir möguleikar á auknu samstarfi, bæði tvíhliða og á alþjóðlegum vettvangi. Í því samhengi kynnti sendiherra m.a. starfsemi Smáríkjaseturs Háskóla Íslands, minntist leiðandi hlutverks San Marínó í smáþjóðaleikunum og hvatti til aukinna samskipta á sviði lista og menningar.
Að athöfninni lokinni átti sendiherrann stutt samtal við þjóðhöfðingjana tvo, Gian Carlo Venturini og Marco Nicolini, en þeir eru kosnir úr hópi þingmanna og gegna embætti í sex mánuði í senn.
Viðmælendur voru einhuga um að nýta tækifæri til frekari samvinnu m.a. á sviði ferðaþjónustu, en einnig á vettvangi Evrópusamstarfs og í Evrópuráðinu þar sem San Marínó á sæti.
Sendiherra átti einnig fund með utanríkisráðherra San Marínó í gær þar sem samskipti ríkjanna og sameiginlegar áherslur, ferðaþjónusta og Evrópusamvinna voru efst á baugi, en einnig staða heimsfaraldursins í hvoru ríki um sig.
Auk þess átti sendiherra fundi með sendiherra San Marínó gagnvart Íslandi, öðrum embættismönnum í utanríkisráðuneyti San Marínó og fulltrúum viðskiptaráðs.
San Marínó er elsta lýðveldi veraldar, stofnað árið 301. Landsvæði þess er 61 ferkílómetri að flatarmáli, í Appenínafjöllum. Íbúar eru um 33 þúsund og opinbert tungumál ítalska en San Marínó hefur náin stjórnmálaleg, félagsleg og efnahagsleg tengsl við Ítalíu. Viðskipti Íslands og San Marínó hafa hingað til verið hófleg en Ísland hefur þó selt fiskafurðir þangað. Landið hefur verið framarlega á sviði fjármálaþjónustu og hefur verið lögð rík áhersla á að laða að erlenda fjárfestingu.