Ræðismannaráðstefna í Helsinki
Kjörræðismenn Íslands í Finnlandi, Eistlandi, Lettlandi og Úkraínu komu saman til fundar í sendiráðinu í Helsinki á föstudaginn 15. október sl. Á fundinum var fjallað um nýafstaðnar Alþingiskosningar og rætt um helstu verkefni sendiráðsins á sviði stjórnmála, viðskipta og menningar, bæði í Finnlandi og í umdæmisríkjunum. Lára Kristín Pálsdóttir deildarstjóri Borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins hélt erindi um þann málaflokk en kjörræðismenn eru iðulega í lykilhlutverki við að aðstoða íslenska ríkisborgara erlendis þegar þörf krefur. Karl Guðmundsson og Sigríður Dögg Guðmundsdóttir frá Íslandsstofu voru með á fundinum í gegnum fjarfundabúnað og fjölluðu um utanríkisviðskipti og ferðamál. Kjörræðismenn koma margir hverjir úr viðskiptalífinu og hafa reynst ráðagóðir í viðskiptaþjónustu við íslensk fyrirtæki. Loks stýrði Sigrún Bessadóttir starfsmaður sendiráðsins umræðum um það hvernig kjörræðismenn og sendiráðið geti nýtt sér í auknum mæli nýja samskiptatækni.
Kjörræðismenn Íslands eru ríflega 200 talsins í tæplega 100 löndum vítt og breitt um heiminn. Þar af eru níu í umdæmi sendiráðsins í Helsinki. Fimm í Finnlandi og á Álandseyjum og einn í hverju umdæmisríkjanna Eistlandi, Lettlandi, Litáen og Úkraínu. Upplýsingar um kjörræðismenn Íslands má finna á vef utanríkisráðuneytisins flokkað eftir löndum.