Heimsókn til Uttarakhand-fylkis
Endurnýjanlegir orkugjafar og nýting þeirra var megin umræðuefnið í heimsókn Guðna Bragasonar sendiherra til Uttarakhand-fylkis, sem liggur við rætur Himalayafjalla, 11. – 13. nóvember 2021. Sendiherra átti fund með Pushkar Sing Dhami forsætisráðherra Uttarakhand-fylkis 12. nóvember í höfuðborginni Dehradun. Viðstaddir voru einnig menntamála- og ferðamálaráðherra fylkisins, en af hálfu sendiráðsins Sigþór Hilmisson staðgengill sendiherra og Rahul Chongtham viðskiptafulltrúi. Töluverðir möguleikar eru fyrir nýtingu jarðvarma í fylkinu og hefur hann hingað til aðallega verið nýttur í sambandi við böð á helgistöðum Hindúa. Jafnframt var haldinn fundur með dr. Harak Singh Rawat ráðherra orku- og loftslagsmála. Sendiherra átti einnig fund með frú Inda Bala, sem er ein helsta baráttukona fyrir jafnrétti og samvinnustarfsemi kvenna í fylkinu.
Sendiherra flutti ávarp á kvöldverðar- og kynningarfundi IIBA um ýmis áherslumál í stjórnmálum og viðskiptum og Rahul Chongtham viðskiptafulltrúi kynnti starf Íslands að orkunýtingu og ferðamennsku. Þá heimsótti sendiherra og samstarfsmenn Wadia-stofnunina (Wadia Institute of Himalayan Geology), sem er helsta vísindastofnun í jarðfræði Himalajafjalla og jafnframt Doon-skólann, sem er þekktasti menntaskóli Indlands.