Sendiherra heimsækir Wadia jöklarannsóknarstofnunina
Guðni Bragason sendiherra heimsótti Wadia-stofnunina (Wadia Institute of Himalayan Geology) í Dehradun 12. nóvember síðastliðinn. Um er að ræða helstu vísindastofnun í jarðfræði Himalajafjalla og landsins í kring. Á móti honum tók forstöðumaðurinn dr. Kalachand Sain og fór fram samtal við vísindamenn stofnunarinnar. Til umræðu voru loftslagsbreytingar og áhrif þeirra Himalajasvæðið og hinir fjölmörgu möguleikar á nýtingu jarðvarma á nærsvæðum fjallanna. Stofnunin hefur unnið könnun á jarðvarmasvæðum við rætur Himalajafjalla og hefur forstöðumaðurinn sett af stað verkefni um nýtingu jarðvarma til framleiðslu á rafmagni. Stofnunin er mikilvægasta vísindastofnun Indlands í umræðunni um þróun jökla á Hindu Kush og Himalajasvæðinu og hvað varðar þátttöku Indverja í málefnum norðurslóða. Þess má geta að dr. Ólafur Ragnar Grímsson þáverandi forseti Íslands heimsótti stofnunina fyrir nokkrum árum og opnaði þá fjórðu ráðstefnuna um umhverfismál Himalajasvæðisins, hins svokallaða þriðja póls.