Stafrænar víddir mansals í brennidepli á vettvangi ÖSE: Samstaða 12 ríkja undir forystu Íslands
30. júlí er alþjóðlegur dagur gegn mansali. Fastanefnd Ísland í Vín átti frumkvæði að og stýrði gerð á sameiginlegri yfirlýsingu fyrir hönd 12 ríkja í tilefni dagsins. Yfirlýsingin var flutt á fundi fastaráðs Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í dag, fyrir hönd Albaníu, Kanada, Georgíu, Líktenstein, Moldóvu, Svartfjallalands, Norður Makedóníu, Noregs, Sviss, Úkraínu og Bretlands, og fyrir hönd Íslands.
Þema alþjóðadags gegn mansali í ár er „notkun og misnotkun á tækni“ og varpar sérstöku ljósi á að tækni hefur ýtt undir og aukið hættu á mansali og nauðungarvinnu, þ.m.t. kynlífs- og vinnuþrælkun. Tækni gegnir nú lykilhlutverki í viðskiptamódeli skipulagðra glæpahringja og notkun stafrænnar tækni og samfélagsmiðla einkennir öll stig brotastarfsemi mansala, allt frá lokkun, flutningi, vistun, valdbeitingu, kúgun, þvingun, stjórnun og til misnotkunar.
Milljónir um heim allan þjást af völdum þess alvarlega glæps sem mansal er, en það eru jaðarsettir hópar sem verða fyrir mestu áhrifunum þar sem mansalar og skipulagðir glæpahópar nýta sér markvisst ánauð þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu.
Innrás og stríðsrekstur Rússa í Úkraínu hefur valdið stærsta flóttamannaflóði innan Evrópu frá tímum seinni heimsstyrjaldar. Mikill meirihluti þeirra sem flýja Úkraínu eru konur og börn, sem einnig eru meirihluti fórnarlamba mansals. Mikil hætta er á að mannúðarkrísan sem stríð Rússlands hefur valdið muni að auki leiða til mansalskrísu.
Ógnvekjandi aukning í vefleit og eftirspurn eftir úkraínskum konum og stúlkum hefur átt sér stað í kjölfar mannúðar- og flóttamannakrísunnar vegna stríðsreksturs Rússlands í Úkraínu. Leitarumferð á netinu fyrir „úkraínskar fylgdarkonur“ jókst á milli 200% til 300% frá febrúar til mars. Í sumum milli- og áfangalöndum mansals jókst leit á netinu eftir úkraínsku klámi um 600%. Í Evrópu jókst leit eftir hugtökum eins og „úkraínsk nauðgun“ um 300%, en fyrir 24. febrúar var það nánast ógreint af leitarvélum. Þessi gögn, sem var aflað af skrifstofu mansalsmála ÖSE í samstarfi við tæknifyrirtækið Thomson Reuters Special Services, sýna alvarleika stöðunnar og hve brýnt það er að bregðast við stafræntmiðuðu (e. tech-facilitated) mansali og misnotkun. Jafnframt sýni gögnin fram á þá staðreynd að mansalar og glæpamenn miði markvisst að því að nýta þau sem eru í viðkvæmum og varasömum aðstæðum.
Mikil nauðsyn er á að efla aðgerðir og samvinnu til að koma í veg fyrir mansal í öllum birtingarmyndum, á netinu og í raunheimum, að vernda viðkvæma hópa, styðja fórnarlömb og þolendur, binda enda á refsileysi og tryggja réttlæti.
Þessi vandi þekkir engin landamæri og bitnar helst á borgurum hinnar stríðshrjáðu Úkraínu.
Yfirlýsinguna í heild sinni má lesa hér.